12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

43. mál, lagmetisiðnaður

Frsm. minni hl. (Karl Steinar Guðnason):

Virðulegi forseti. Sams konar frv. og hér liggur fyrir hefur komið fyrir Ed. ár eftir ár hvar óskað er eftir að einokunarsölu til Austur-Evrópu verði haldið áfram og þá hefir verið óskað eftir að söluframlenging vari eitt ár í senn.

Við meðnm., hv. 8. þm. Reykv. og ég, erum ekki sammála afgreiðslu meiri hl. á þessu máli. Nál. okkar er þannig:

„Undirritaðir nefndarmenn telja eðlilegt að sölusamtök í lagmetisiðnaði starfi á sama grundvelli og önnur útflutningssamtök. Ljóst virðist vera að viðleitni löggjafans til að efla samtök og samvinnu með niðurlagningarverksmiðjum hefur ekki borið þann árangur sem til var ætlast. Því teljum við eðlilegt að umrædd lög falli úr gildi um næstu áramót og leggjum til að frv. verði fellt.“

Við teljum reyndar að athuga hefði mátt þetta mál betur, en ekki gafst tími til þess. Oft er deilt um hvernig með sölumál fiskiðnaðarins eigi að fara. Sumir telja að þar eigi að ríkja atger einokun. Aðrir telja að þar eigi að vera nokkurt frelsi. Það er gagnrýnt að t.d. varðandi frysta fiskinn skuli það aðeins vera tveir sterkustu aðilarnir sem ráði alveg á markaðnum, þ.e. Sambandið og SH.

Hér er meiningin að lögbinda að aðeins einn aðili verði um hituna varðandi sölu lagmetis til Austur-Evrópu og er þá gengið lengra en nokkru sinni fyrr í svokallaðri einokun. Af þessu tilefni langar mig að spyrja hæstv. fjmrh. hvort í stjórnarsáttmálanum séu einhver ákvæði um að efla skuli einokun enn frekar en verið hefur.

Í þeim frumvörpum sem undanfarin ár hafa komið fyrir deildina um þetta sama mál var gert ráð fyrir framlengingu í eitt ár í senn, en nú er gert ráð fyrir að þessi einokun haldi áfram í tvö ár í senn þannig að kveðið er fastar að þessu en nokkru sinni fyrr. Verður að ætla að ríkisstj. sé sammála um að auka eða festa þessa einokun miklu frekar en verið hefur. Þetta vekur undrun mína því að oft hafa þeir sjálfstæðismenn t.d. verið sammála okkur Alþfl.-mönnum um að menn eigi ekki að stunda einokunarstarfsemi. Bið ég hæstv. ráðh. að svara því hvort þetta sé einróma álit ríkisstj. Væntanlega hefur þetta verið borið undir ríkisstj., þetta er stjfrv. Er meiningin að feta brautina áfram í einokunarátt í öðrum málum?