20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

3. mál, sala ríkisbanka

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það mál sem hér liggur fyrir, till. til þál. um að afla lagaheimilda til þess að selja ríkisbanka á almennum markaði, er hið athyglisverðasta mál og mikið meira en einnar messu virði. En ég hef nú samt ekki hugsað mér að gerast neitt sérstaklega langorður um það á þessu stigi málsins, aðeins koma á framfæri nokkrum aths. að gefnu tilefni.

Ég vil strax lýsa því yfir að ég ekki einasta skil mætavel heldur er algerlega samþykkur þeim markmiðum sem flm. hafa sett. Þau eru að gera rækilegan greinarmun á pólitískum störfum, almennum löggjafarstörfum, og hins vegar útdeilingu á takmörkuðum fjármunum. Ég er fyllilega sammála því sem hér segir í grg.: „Kjarni málsins er einmitt sá að virkni í stjórnmálasamtökum, að ekki sé talað um þingmennsku, samrýmist ekki eðli þess starfs sem ætlast er til að helstu menn bankanna inni af hendi.“

Þetta er nú svo gamall sannleikur að hann hefur verið orðaður áður á þann veg í heilagri ritningu: „Eigi leið þú oss í freistni.“ Og það er eðli stjórnmálastarfa að stjórnmálamenn, sem leita eftir fylgi og reka mál, liggja undir stöðugum þrýstingi frá mjög öflugum hagsmunasamtökum í þjóðfélaginu, í kjördæmum sínum, frá einstaklingum, frá fyrirtækjum; og ef þeir starfa í kerfi þar sem þeirra helsta keppikefli er ekki endilega að taka þátt í löggjafarstarfi, setja almennar reglur, sem gilda almennt; þar sem menn eru allir jafnir fyrir þeim reglum um starfsskilyrði atvinnuvega. heldur fyrst og fremst að sitja í stofnunum, sem eru raunverulega pólitískar skömmtunarstofnanir á takmörkuðu fjármagni, þá erum við komnir á bólakaf í spillingu. Og við höfum hrikalega reynslu af því til hvers þetta kerfi leiðir. Þessi reynsla hefur verið tíunduð hér í almennum pólitískum umr., m.a. í umr. um stefnuræðu hæstv. forsrh., þar sem menn spurðu sig enn einu sinni þeirrar einföldu spurningar: Hver er helsta undirrót verðbólgu á Íslandi? Og mjög margir, þeirra á meðal sá sem hér stendur, lýstu þeirri skoðun sinni að ein helsta undirrót óðaverðbólgunnar á Íslandi sé röng fjárfestingarstefna, hrikaleg fjárfestingarmistök, sem rekja má beint eða óbeint til pólitískra ákvarðana, til ákvarðana stjórnmálamanna sem voru að úthluta fé og höfðu engar forsendur til þess að gera það með skynsamlegum hætti. Afleiðingarnar hafa verið hrikalegar.

Þetta nægir til þess að lýsa því yfir að ég er fyllilega sammála og hef lengi verið þeim markmiðum sem hér eru sett. Efasemdirnar eru kannske fremur um leiðirnar. Og það er á allan máta eðlilegt, vegna þess að þetta mál er nýstárlegt. Og það er hægt að hugsa sér ýmsar aðrar leiðir. Ég hjó eftir því að frsm. komst að orði eitthvað á þá leið að hann yrði að hryggja fjmrh. með því að sú leið sem þeir leggja til að farin verði byggist ekki á oftrú á einkaframtaki. Engu að síður eru þeir að leggja til að þessir ríkisbankar verði seldir og þeim breytt í almenningshlutafélög. Með hliðsjón af þeirri leið sem þeir hafa valið hefði verið eðlilegt að þeir hefðu leitað til hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, sem hátt á annan áratug hefur verið helsti boðberi þeirrar stefnu í íslenskri efnahagsmálaumræðu, að í stað ríkisforsjár, sem við höfum af vonda reynslu, reynum við að feta okkur áfram eftir þeirri leið að taka frekar upp í staðinn „pópulisma kapítalsins“, þ.e. í stað ríkisforsjár komi í stærri stíl almenningshlutafélög, nýtt félagaform, sem hefði það markmið að örva almenning til þátttöku, beinnar virkrar þátttöku í atvinnulífinu, án milligöngu stjórnmálanna. Og ég hygg að það sé rétt — og það er kjarni þessa máls. Þessi till. er m.a. sprottin af dapurlegri reynslu okkar Íslendinga af misheppnaðri ríkisforsjá. Þeir menn sem hafa tamið sér að setja samasemmerki milli sósíalisma, áætlunarbúskapar og almannahagsmuna þurfa hér á landi út frá reynslunni að hugsa margt upp á nýtt, ekki síst út frá þeirri dapurlegu reynslu sem við hötum s.l. áratug af gagnsleysi og — raunverulega—böli misheppnaðrar ríkisforsjár á mjög mörgum sviðum.

Það er rétt að ræða þetta mál í samhengi við fleira en ríkisbankana. Það er líka rétt að víkja talinu nokkuð að Seðlabanka Íslands. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé ástæða til að endurskoða hlutverk Seðlabankans í íslenskri fjármálastjórn. Ég er hins vegar ekki sammála hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur um það, að það vald sem Seðlabankinn fer með ætti í auknum mæli að færast yfir til ríkisstj. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisvaldið ráði raunverulega óeðlilega miklu um peningamálastjórnina og fil álita kæmi að Seðlabankinn hefði að vísu takmarkaðra hlutverk, en hann hefði hins vegar sjálfstæðara vald í peningamálastjórn. Hvað á ég við með þessu? Ég á við það að ég tel óeðlilegt að Seðlabanki, sem á að vera banki viðskiptabankanna, sé um leið banki ríkisstj. Við höfum af því dapurlega reynslu að ríkisstjórnir misnota þetta vald sitt til þess að dylja hallabúskap ríkisrekstrarins með seðlaprentun í Seðlabanka og hafa til þess alveg óskorað vald. Þetta er ein helsta undirrót mikillar verðbólgu og vondrar fjármálastjórnar á liðnum áratug.

Annað dæmi. Sú regla viðgengst hér á landi að Seðlabankinn annast afurðalán til útflutningsgreina og reyndar fleiri greina en útflutningsgreina samkv. sjálfvirkum reglum. Til þess er notað það fé sem kallað er bundið fé, en á að þjóna allt öðrum tilgangi. Annars vegar er því lýst yfir að það sé verkefni Seðlabanka að annast peningamálastjórn, að hafa einhverja stjórn á því peningamagni, sem er í umferð, sem er mikilvægur þáttur í fjármálastjórninni. Stundum þarf að grípa til þess að setja hömlur á seðlaprentun og minnka peningamagnið í umferð m.a. með því að binda fé viðskiptabanka og sparisjóða. Þegar þessu fé hins vegar er varið jafnóðum til útlána á niðurgreiddum vöxtum samkv. sjálfvirkum reglum til atvinnuveganna, þá er augljóst að fyrra markmiðið er alveg út í bláinn. Þetta tvennt fer alls ekki saman. Seðlabanki, ef hann á að geta þjónað sínu hlutverki, þarf að beita bindiskylduákvæðum, en hann á alls ekki undir neinum kringumstæðum að vera viðskiptabanki atvinnuveganna og allra síst með þessum hætti. Þarna rekst hvað á annars horn. Bindiskyldan þjónar ekki sínum tilgangi, sem er að hafa stjórn á peningamagninu í umferð, og afurðalánasjálfvirknin er á allan máta óeðlileg.

Hvaða hlutverk á þá Seðlabanki að hafa gagnvart bankakerfi og fjármálastjórn? Ég tel eðlilegt að hann sé sjálfstæður og mestu ráðandi um vaxtaákvarðanir. Það eru ekki til nema tvær leiðir í því að mínu mati. Annars vegar er að Seðlabankinn hafi sjálfstæði til að ákvarða vaxtastig eða að vextir verði ekki lögbundnir; þeim ekki stýrt af slíkum miðstjórnarstofnunum, heldur fari það eftir framboði og eftirspurn á almennum markaði. Í reynd er það auðvitað ríkisvaldið á Íslandi, sem ræður lykilákvörðunum eins og gengi og vöxtum, og það hefur engin seðlabankastjórn gengið á móti stefnu ríkisstj. í þeim efnum.

Þá kem ég nú að kjarna þess sem ég vildi sagt hafa í þessari umr. um bankamálin. Ég held að það sé staðreynd að á s.l. áratug hefur verið framið stærsta bankarán Íslandssögunnar. Það bankarán var ekki framið af grímuklæddum mönnum sem réðust inn í banka til þess að ræna þar fé. Þetta stærsta bankarán Íslandssögunnar var framið af íslenskum stjórnmálamönnum, íslenskum ríkisstjórnum og valdhöfum íslenskrar fjármálastefnu. Ungur íslenskur fræðimaður hefur komist að þeirri niðurstöðu að þetta bankarán nemi um 20 milljörðum kr. á síðasta áratug, þ.e. talsvert hærri upphæð heldur en nemur samanlögðum ríkisbúskapnum sem við erum að ræða hér á næstunni, þ.e. fjárlögum ríkisins. Forsendur fyrir þessum útreikningi eru þær, að ef sama sparnaðarhlutfalli hefði verið haldið á s.l. áratug eins og áratugnum þar á undan, þá værum við 20 milljörðum ríkari. Og hverjir eru þessir við? Það eru viðskiptavinir bankanna. Það eru sparifjáreigendur í landinu sem hafa verið rændir 20 milljörðum kr. á þessum áratug. Sparifjáreigendur eru ekki stórkapítalistar. Sparifjáreigendur eru fólkið í landinu, sumir segja að þeir séu einkum og sér í lagi gamla fólkið í landinu og unga fólkið. Allavega er það svo að við þurfum ekki að tala um sparifjáreigendur sem stórfyrirtæki eða auðmagnseigendur, fjarri því.

Hvað hefur ráðið þessu bankaráni? Það er sú pólitíska ákvörðun stjórnmálamanna, sem hafa lagt undir sig allt fjármálalíf íslensku þjóðarinnar í sjóðakerfi, í bankakerfi, að útvega atvinnulífinu á Íslandi niðurgreitt lánsfé, sem er þá raunverulega orðið að styrkjum. Þetta er sú lágvaxtapóltík sem rekin hefur verið hér lengst af lýðveldissögunnar. Það er mínum flokki, flokki íslenskra jafnaðarmanna, til mikils hróss að hann fyrstur stjórnmálaflokka lagði til atlögu við þetta kerfi. Það er rauði þráðurinn í allri baráttu Alþfl. á s.l. áratug, baráttu sem snýst raunverulega um nýja atvinnustefnu í landbúnaði, nýja atvinnustefnu í sjávarútvegi undir merkjum auðlindanýtingar í stað rányrkjustefnu. Einn meginþáttur þessarar baráttu hefur verið á að berjast fyrir verðtryggingu sparifjár og raunvöxtum með mjög einföldum rökum. Í fyrsta lagi af því að það er siðferðilega rétt að þeir menn sem taka fé að láni greiði það til baka að raunverðmæti. Í öðru lagi vegna þess að þetta er grundvallarforsenda skynsamlegrar og arðbærrar fjármálastjórnar. Það er enginn mælikvarði til á arðsemi fjármagns, ef vextir eru niðurgreiddir, ef fé er útdeilt í formi lána, sem eru raunverulega styrkir. Eftirspurn eftir fjármagni er mikil og hefur verið mikil og ef verðið á fjármagninu er niðurgreitt af almenningi í landinu, skattgreiðendum, sparifjáreigendum, þá er eftirspurn mikil og það er ekki spurt út í það: Til hvers fer þetta fé? Og allra síst er spurt um arðsemi þegar þeir menn sem taka stærstu ákvarðanirnar um það í hvaða hluti þessu fé er varið eru stjórnmálamenn, sem fyrst og fremst hugsa til skamms tíma út frá pólitískum hagsmunum, en ekki út frá hlutlægum hagsmunum um það hvernig þetta fé muni skila bestum arði.

Þetta er kannske meginröksemdin fyrir því að við þurfum að endurskoða yfirstjórn banka og fjármálalífs í heild sinni og líta á þetta mál allt saman í heild. Ekki bara viðskiptabankana sjálfa heldur líka hlutverk Seðlabankans og það skipulag sem við nú búum við að því er varðar stjórn fjárfestingarlánasjóða og útdeilingu fjárfestingarlána.

Í framhaldi af þessu vil ég aðeins boða það, að þingflokkur Alþfl. er með í undirbúningi og á lokastigi frumvörp um tvo þætti þessa máls: Annars vegar um afnám Framkvæmdastofnunar ríkisins og um afnám þeirra tveggja sjóða sem hún fyrst og fremst hefur í sinni forvörslu, sem eru Framkvæmdasjóður ríkisins og Byggðasjóður. Og í öðru lagi frv. til l. um uppstokkun á sjóðakerfinu í heild sinni. Þar er meginhugsunin sú að við eigum að víkja af þeirri leið að reka fjárfestingarlánasjóði með sérstökum lögum og sérstökum reglum fyrir hvern einstakan atvinnuveg, sem síðan lánar með hefðbundnum hætti, líkt ár frá ári aðeins til hagsmunaaðila í þessum viðkomandi atvinnuvegi. Þetta kerfi er að öllu leyti ósveigjanlegt, hefur reynst afar illa, það er óskynsamlegt. Okkar hugmynd er sú að það eigi að sameina sjóðakerfið í heild sinni; og fremur en að byggja upp nýjan fjárfestingarbanka í eigu ríkisins væri kannske eðlilegast að þessum sjóðum verði komið fyrir til stjórnunar innan bankakerfisins, sem ætti þá að vera trygging fyrir því að þeir væru reknir út frá grundvallarlögmálum venjulegs viðskiptalegs mats eða arðsemi frekar en pólitísks geðþótta. En þá komum við að því: Hvernig er best að þetta bankakerfi sé? Við höfum gengið út frá því, og það mun vera óhætt að gera það áfram, að bankakerfið verði með svipuðum hætti og nú er í eigu ríkisins. En jafnvel þó að svo verði áfram, þá ber að taka til greina þær ábendingar sem hér koma fram um það, að jafnvel þótt bankakerfið yrði áfram með einhverjum hætti ríkisrekið, þá verður að skera á tengsl milli stjórnmálamanna, þm. og stjórnenda bankanna, sem ráða og móta þar stefnuna og ráða daglegri stýringu fjármagns. Þess vegna endurtek ég það, þetta er þarft mál, það verðskuldar ítarlega umr. Markmiðin, sem sett eru fram, eru æskileg og efasemdir mínar um þær leiðir sem hér eru markaðar þurfa fyrst og fremst nánari umr. við.