12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

43. mál, lagmetisiðnaður

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram er komið þegar stend ég að minnihlutaáliti sem hafnar framlengingu þessara laga. Ég vil þó sérstaklega út af ræðu hæstv. fjmrh., sem er nú ekki lengur hér, enn hnykkja á því að mér finnst framlenging þessara laga svo hróplega í andstöðu í raun og veru við allt sem sagt er hér um frelsi einstaklinga og samtaka einstaklinga, að ég get ekki látið það fram hjá mér fara. Og sú rétttæting sem fram er komin í þessu máli, á því hvers vegna við eigum að samþykkja framlengingu þessara laga, er náttúrlega alveg út í hött. Það sást best á hæstv. fjmrh. þegar hann reyndi að verja þessa aðgerð, sem nánast kostaði það að hann þurfti að fara a.m.k. tvo hringi í kringum sjálfan sig, því þetta var svo gersamlega í andstöðu við allt það sem hann venjulegast segir og hugsar, allar hans skoðanir yfir höfuð, að það gat engum dulist.

Það hefur oft, ekki hvað síst af okkar hálfu, verið talað um kerfisflokka. Hafi maður nokkurn tíma fengið sönnun fyrir því að menn séu orðnir læstir í sínu kerfi þá sést það í þessum lögum. Því að það að réttlæta setningu og framlengingu þessara laga með því að viðskiptaaðili sem við skiptum við, hafi sams konar fyrirkomutag á sínum viðskiptum við önnur lönd, tekur í raun og veru alls ekki tali. Við þekkjum það að fyrirtæki hafa skipt við þessi lönd án þess að til þurfi að koma einhvers konar ríkisrekins búskapar af okkar hálfu. Fyrirtæki hafa átt í viðskiptum við Rússland án þess að ríkið hafi þurft að skipta sér þar af. Sum þeirra eru reyndar ekki lengur til, en það er einfaldlega vegna þess að eignaraðilar þeirra eru ekki lengur ofar moldu. Það hafa oft og tíðum átt sér stað mjög umfangsmikil viðskipti og þau hafa einkaaðilar getað rekið með dugnaði og útsjónarsemi. Ég fæ ekki betur séð en að t.d. Bifreiðar og landbúnaðarvélar þrífist ágætlega og þurfa þó að semja meira og minna um alla sína verslun sjálfir. Ég get því ekki keypt þessa skýringu á setningu laganna. Það liggur eitthvað allt annað hér að baki. Og ég held því miður að það sé það sem ég gat um í 1. umr. um þessi lög. Hér er einfaldlega verið að skapa ákveðnum aðilum aðstöðu til að framleiða með tiltölulega litlum tilkostnaði vörur, sem gerðar eru tiltölulega litlar kröfur til, miklu minni kröfur en gerðar eru til niðursuðuvarnings á öðrum mörkuðum. Þar af leiðandi hlýtur þess háttar verslun að vera okkur þjóðhagslega óhagkvæm, þegar til lengdar lætur, vegna þess að við fáum í raun og veru ekki nægilega hátt verð fyrir þær afurðir sem þarna er um að ræða.