12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

43. mál, lagmetisiðnaður

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég stóð að meirihlutaáliti um þetta mál og gerði það hreinlega út frá þeirri skoðun að ég tel að við eigum að halda áfram þeim verslunarmáta sem þessi lög gera ráð fyrir við Austur-Evrópuríkin, sovétríkin, fyrst og fremst vegna þess sem fram kemur hér í athugasemdum við frv., að þar erum við að semja við ríkiseinokun og við höfum ekki aðstöðu til að ná góðum samningum við þessa aðila nema vera með einn aðila til að semja á móti. Þetta hefur reyndar sýnt sig víðar en þar austur frá. Við höfum ansi vond dæmi af því í sambandi við skreiðarsölu til Nígeríu, þar sem að sumu leyti má segja að sé allt að því ríkiseinokun, vegna þess að þar er mikil stjórnun í gegnum ráðuneytisleyfisveitingar. Reynsla okkar af því að þar séu margir aðilar að selja hefur komið fram í því m.a., að kaupendur okkar í Nígeríu hafa talið að við værum með mun meiri vörur á boðstólum en við höfum verið með, vegna þess að það hafa kannske verið 3–4 aðilar að bjóða sömu vöruna. Okkar viðskipti hafa þar af leiðandi orðið óhagstæðari en ella.

En ég ætla að vekja athygli á því, sem hér hefur reyndar verið bent á, þ.e. hinu svokallaða sólarlagsákvæði, sem er í þessum lögum. Þetta er annað frv. sem við fjöllum um hér í dag sem hefur að geyma slíkt ákvæði. Hér er reyndar verið að ræða um tvö ár en eitt ár í þeim frv. sem við ræddum hér fyrr. Ég held að við ættum að gera okkur grein fyrir því, að þetta er að verða árviss þáttur hér rétt fyrir áramótin að framlengja lög sem eru með slíku ákvæði, og átta sig á því hvað þetta er tilgangslítið. Ég held að þetta sé hvað tilgangsminnst í þessum lögum vegna þess að við stöndum frammi fyrir því að sá viðskiptamáti sem hér er lagður til að verði viðhafður næstu tvö árin er sá viðskiptamáti sem eðlilegt er að við höldum áfram. Og að vera með sólarlagsákvæði í slíkum lögum, það er að mínu mati rangt, nema það sé fyrir fram ákveðið af stjórnvöldum að breyta til. En eins og reynslan hefur verið vitum við raunverulega að við megum búast við því, að að tveim árum liðnum standi hv. þm. hér í sömu sporum og framlengi þetta ákvæði á ósköp svipaðan máta og við framlengjum ár frá ári ákvæði um verðjöfnunargjald af raforku. Ég vil sérstaklega undirstrika það, af því að við vitum að við förum að fjalla hér um allveigamikið frv. sem verður með sólarlagsákvæði að slíkum samþykktum og yfirlýsingum skulum við öllum taka með nokkurri varúð.

Aðeins að lokum í sambandi við það sem minni hl. tekur fram í grg. sinni:

„Undirritaðir nefndarmenn telja eðlilegt að sölusamtök í lagmetisiðnaði starfi á sama grundvelli og önnur útflutningssamtök.“

Ég tel að önnur útflutningssamtök í viðskiptum við Austur-Evrópu starfi á mjög svipuðum grunni og Sölustofnun lagmetis. Sölumiðstöðin og Sambandið hafa, ja ég vil segja allt að því einokunaraðstöðu á sölu á frystum sjávarafurðum til Sovétríkjanna. Og Síldarútvegsnefnd hefur fullkomna einokun. Þetta eru þeir viðskiptahættir sem okkur hafa gefist vel til þessara landa og ég held að það sé alrangt að hverfa frá þeim.