20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

3. mál, sala ríkisbanka

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins ábending til hæstv. fjmrh. sem veit ekki aðra atvinnustétt, sem ekki má sitja á þingi, en bankastjóra. Það eru t.d. hæstaréttardómarar.

Svo ég víki aðeins að þeim málflutningi sem þegar er hér kominn fram, þá staldra ég kannske fyrst við orð Guðrúnar Helgadóttur sem trúir því ekki að sala ríkisbanka leysi vandamál pólitískrar spillingar. Það verður líklega að taka það fram enn þá einu sinni, sem reyndar hefur nokkrum sinnum verið sagt, að Bandalag jafnaðarmanna ætlar sér ekki þann stóra hlut að uppræta spillingu yfir höfuð. Ekki vegna þess að við viljum það ekki, heldur einfaldlega vegna þess að við getum það ekki og verðum víst að viðurkenna það. Reyndar höfum við mjög mikið brotið heilann um hlutverk Seðlabanka Íslands og nýskipan hans mála. En það er eins og einhvers staðar segir, kraftaverk taka aðeins lengri tíma en önnur verk, þannig að við höfum einfaldlega ekki komið neinum till. enn þá á blað um það málefni. Varðandi starf og hlutverk seðlabankastjóra Íslands erum við líka með í gangi ákveðna málavinnslu á því sviði sem kallast árekstur hagsmuna hjá opinberum aðilum, og þar gildir náttúrlega í raun eitt og hið sama, hvort sem maður er seðlabankastjóri eða þingmaður, að í opinberu hlutverki verður einfaldlega að horfa til þess hvaða hlutverk menn geta tekið að sér önnur en þau sem þeir eru ráðnir eða kjörnir til.

Ég er í þeim atriðum sem hv. þm. Jón Baldvin nefndi um Seðlabanka Íslands samþykkur hvað hlutverk hans snertir, að það verði í raun og veru að takmarka það, þó að hann hljóti að halda að einhverju leyti sínu sjálfstæða hlutverki. Það hlýtur hverju mannsbarni að vera ljóst að það getur alls ekki flokkast undir stjórnun peningamála að taka fé inn um framdyrnar, í þeim yfirlýsta tilgangi að binda það til þess að stýra peningamagni í umferð, og rétta það svo aftur út um bakdyrnar og eyðileggja áhrif þeirra aðgerða sem í raun og veru eiga að vera þar í gangi. Ég er honum líka sammála í því að það verði framvegis sem hingað til hlutverk ríkisstj. að ráða málum gengis og vaxta. Og þá horfi ég náttúrlega ekki hvað síst til þeirrar sjálfsögðu kröfu að ríkisstjórn Íslands hlutist til um það að framfylgt verði lögum um raunvexti frá 1979, sem enn þá hefur ekki verið gert. Enn þá á fjöldi fólks hér fé á reikningum í bönkum sem ekki er tryggt með raunvöxtum. Því heldur áfram það bankarán sem hv. þm. Jón Baldvin minntist á. Ég vísa enn og aftur til þeirra greina sem ég vitnaði í í ræðu minni við umr. um stefnuræðu forsrh., tvær greinar prófessors Ólafs Björnssonar í Morgunblaðinu frá því í lok ágúst s.l. og byrjun september, þar sem hann lýsir því hvernig hagstjórn Íslands fer forgörðum við það að atvinnurekendur gera baktjaldasamninga við ríkisvaldið, lofa því að þeir skuli greiða fyrir samningum með þeim skilyrðum að þeim verði veitt í gegn um bankana aðstaða til að standa undir hinum gerðu samningum einfaldlega með lántöku.

Það mætti náttúrlega hafa mörg fleiri orð um þetta hvað það snertir að talað sé um spillingu. Ég skil vel að hæstv. fjmrh. skuti móðgast þegar talað er um slíkt. Það er eðlilegt. En þetta er — og þar tala ég af hjartans sannfæringu — ekki meint persónulega til eins eða neins, heldur erum við einfaldlega að tala um þá stóru freistingu sem þarna er á ferðinni og þá möguleika sem alltaf eru fyrir hendi, hvort sem það er fólgið í lögum eða starfsreglum bankanna. Við þekkjum lög bankanna mjög vel og gerum okkur grein fyrir því að þau gera ekki ráð fyrir íhlutun bankaráðs í útlánastarfsemi. En við vitum hitt, að persónuleg tengsl manna í millum geta oft á tíðum gert miklu, miklu meira en það sem lög nokkurn tíma geta kveðið á um.