12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1648 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þetta mál er nú allt orðið í skötulíki af hálfu hæstv. ríkisstj.

Það var flutt fyrst í Ed. til þess að bjarga fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins. Þar lagði stjórnarandstaðan til að tekið yrði inn í frv. nýtt ákvæði um að það fé sem fengist með sölu skuldabréfa samkv. frv., ef að lögum yrði, yrði skilyrðislaust endurlánað húsbyggjendum sem viðbótarlán úr Byggingarsjóði ríkisins. Seðlabanki Íslands átti síðan að lána Byggingarsjóði ríkisins þessa upphæð, 200 millj. kr., til bráðabirgða. Takist ekki að selja skuldabréf samkv. frv. þessu, sagði minni hlutinn í hv. Ed., eins og ráðgert er, skal bráðabirgðalán Seðlabankans gert upp með innlendri fjáröflun ríkissjóðs á árinu 1984. Meiri hl., þ.e. stjórnarliðið, kaus að fella þessa brtt. í Ed.

Þegar málið kom til meðferðar hér í hv. Nd. var hæstv. fjmrh. spurður hvað hann hygðist gera í þessu efni ef ekki tækist að selja nægilega mörg spariskírteini til tekjuauka fyrir Byggingarsjóð ríkisins samkv. þessu frv. Í Ed. hafði hæstv. ráðh. svarað því til að ef ekki tækist að selja nægilega mikið af spariskírteinum yrðu húsbyggjendur einfaldlega að fresta byggingarframkvæmdum. Sá ljóður var þó á þessu svari að hér var um að ræða lán sem veita átti vegna byggingarframkvæmda sem höfðu verið unnar á árunum 1980, 1981, og 1982 og var ekki kostur á því að fresta þeim þar sem húsin voru fullbúin.

Þegar málið kom til meðferðar hér í hv. Nd. lýsti hæstv. fjmrh. því yfir vegna spurninga frá mér og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að hann mundi tryggja að Byggingarsjóður ríkisins fengi aukafjárveitingu til að standa undir þessum útgjöldum. Þegar spurt var um málið og það kom til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar óskuðum við eftir það að fjmrh. yrði skrifað bréf og hann beðinn um að standa við orð sín bréflega gagnvart n. eða gera grein fyrir því hvernig hann ætlaði að standa við orð sín. Fjh.- og viðskn. þessarar deildar skrifaði hæstv. fjmrh. bréf, dags. 30. nóv. 1983, og þar sagði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi fjh.- og viðskn. Nd. var 59. mál þingsins, frv. til l. um innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs, til umræðu. Einstakir nm. óskuðu eftir því að fjmrh. staðfesti ummæli þau sem hann viðhafði við 1. umr. málsins í Nd., en þau voru í því fótgin að aukafjárveiting yrði veitt þegar öflun lánsfjár nægði ekki til að tryggja fjármagn til 50% hækkunar lána úr Byggingarsjóði ríkisins til þeirra sem hafa fengið lán á árinu 1981 eða síðar.“

Fjmrh. svaraði þessu með bréfi sem var tekið fyrir á fundi n. 6. des. Í því bréfi sagði hæstv. fjmrh.:

„Rn. vísar til erindis n., dags. 30. nóv. s.l., þar sem óskað er eftir því að fjmrh. staðfesti ummæli sín við 1. umr. um 59. mál þingsins, frv. til l. um innlenda lánsfjáröflun, sem voru á þá leið að aukafjárveiting yrði veitt þegar öflun lánsfjár nægði ekki til að tryggja fjármagn til 50% hækkunar lána úr Byggingarsjóði ríkisins til þeirra sem fengið hafa lán á árinu 1981 eða síðar.

Af þessu tilefni skal tekið fram“, segir hæstv. fjmrh. í bréfi sínu — „að ummæli þau, sem vitnað er til, voru á þá lund að staðið yrði við þau fyrirheit sem húsbyggjendum eða lánveitendum hefðu verið gefin vegna viðbótalána Byggingarsjóðs ríkisins með aukafjárveitingum meðan beðið er eftir að peningar komi inn fyrir þau bréf og víxla sem gefin hafa verið út. Það skal endurtekið hér að við fyrirheit þessi verður reynt að standa.“

Nú er það svo að orðið „aukafjárveiting“ þýðir á því máli sem venjulega er notað í fjmrn. beint framlag úr ríkissjóði. Það þýðir sem sagt ekki lánveiting úr ríkissjóði, heldur beint framlag úr ríkissjóði til Byggingarsjóðs ríkisins í þessu tilviki. Og ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því, hvort hann skilur þetta bréf fjmrn. ekki eins og ég, á þá lund að hér sé um að ræða beint óendurkræft framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins. Ég get ekki litið svo á að hér sé um að ræða lánveitingu, því að lánveiting mundi þá vera í þessu tilviki færð Byggingarsjóði ríkisins til skuldar hjá Seðlabankanum. Ef um er að ræða lánveitingu vil ég spyrja hæstv. félmrh. að því, hvort hann kannast við að skuld Byggingarsjóðs ríkisins verði hækkuð sem þessu nemur hjá Seðlabankanum, sem þýðir þá að staða Byggingarsjóðs ríkisins hjá Seðlabankanum núna um áramótin yrði neikvæð upp á mörg hundruð millj. kr. Það er alveg nauðsynlegt að hæstv. félmrh. sem yfirmaður Byggingarsjóðs ríkisins geri grein fyrir því hvernig hann skilur þetta. ég skil það svo að hann hafi hér í hendi framlag úr ríkissjóði eftir margítrekaðar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. í þeim efnum.

Með þessum yfirlýsingum hafa meiri hl. hér á Alþingi og ríkisstj. í rauninni fallist á að koma til móts við þá till. sem stjórnarandstaðan flutti í Ed. og þess vegna er óþarfi fyrir stjórnarandstöðuna að endurflytja þá till. hér.

Í lok nál. okkar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórnarandstaðan mun ekki bregða fæti fyrir frv. þetta, en bendir á sérkennilegan málatilbúnað ríkisstj. Aðalatriðið er þó að stjórnarandstöðunni hefur tekist að knýja fram aukafjárveitingar úr ríkissjóði svo staðið verði við lánsloforð til húsbyggjenda — sem ella voru í stórfelldri hættu.“

Auk þeirra nm. sem skrifa undir þetta álit, sem eru hv. þm. Guðmundur Einarsson, Kjartan Jóhannsson og Svavar Gestsson, þá stendur Guðrún Agnarsdóttir, fulltrúi Samtaka um kvennalista, að því áliti sem hér er gerð grein fyrir og kemur fyrir á þskj. 183.

En ekki er nú nóg með að hér sé nokkuð sérkennilega á hlutunum haldið að þessu leyti og óvíst hver skuldar hverjum hvað, Byggingarsjóður Seðlabankanum eða ríkissjóður Seðlabankanum eða hvernig það er, heldur gildir þetta frv. aðeins fyrir árið 1983. Ef það yrði samþykkt t.d. sem lög á morgun yrði aðeins hægt að selja skírteini samkv. frv. í viku, þ.e. fram á gamlársdag. Við í minni hl. bentum stjórnarliðinu á þetta í meðferð málsins í fjh.- og viðskn. Nd. og ég benti einnig á það hér við 1. umr. Menn töldu enga ástæðu til að hlusta á þær ábendingar. Það var ekki fyrr en ég ræddi það mál við hæstv. fjmrh. að hann sá að svona gat þetta auðvitað ekki gengið, það varð að lagfæra þetta. Þess vegna er nú komin brtt. frá hæstv. ríkisstj., sem meiri hl. n. flytur, og í henni er tekið af skarið um að þetta er ekki bara frv. um lánsfjáröflun á árinu 1983 sem hér er verið að fjalla um, ég bið hv. þm. að taka vel eftir því, heldur er hér um að ræða almenna heimild sem ríkisstj. getur notað hvenær sem er á árunum 1983, 1984, 1985 og 1986, eftir því sem þörf krefur. Hér er sem sagt ekki lengur um að ræða innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs á árinu 1983, heldur almennt frv. um lánsfjáröflun ríkissjóðs sem getur út af fyrir sig haft lagagildi um ókomin ár svo lengi sem ríkissjóður er ekki búinn að selja gengisbundin bréf upp á 200 millj. kr.

Í brtt. hæstv. ríkisstj. er 1. gr. frv. eins og hún var í upphafi algjörlega felld úr, aðalgrein frv., en þar sagði: „Á árinu 1983 er fjmrh. heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að afla innlends lánsfjár að fjárhæð allt að 200 millj. kr. Kemur heimild þessi til viðbótar fyrri heimildum til öflunar innlends lánsfjár á árinu 1983.

Í þessu skyni er heimilt að gefa út til sölu innanlands skuldarviðurkenningar ríkissjóðs í formi ríkisskuldabréfa, spariskírteina og ríkisvíxla.“

Í brtt. ríkisstj., sem hér er til umr. á þskj. 190, er talan felld út, þ.e. ekki miðað lengur við 200 millj. kr., og líka er fellt út ártalið, en í staðinn segir:

„Til þess að afla innlends lánsfjár í samræmi við heimildir fjárlaga eða lánsfjárlaga hverju sinni er fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að gefa út til sölu skuldarviðurkenningar ríkissjóðs í formi ríkisskuldabréfa, spariskírteina og ríkisvíxla.“

M.ö.o.: hér er ekki lengur um að ræða lánsfjáröflunarfrv. fyrir árið 1983, heldur er um að ræða frv. sem í rauninni er ekkert annað en fylgifrv. með lánsfjárlögunum, að það megi afla lánsfjár með þeim hætti sem hér greinir. Hér er um að ræða almennt frv. um hvernig á að afla innlends lánsfjár í ríkissjóð. Þar af leiðandi er þetta frv. auðvitað orðið allt annað en ætlast var til í upphafi. Ég held að ekki sé of mikið sagt þegar þannig er tekið til orða að öll málsmeðferð ríkisstj. í þessu efni sé mjög í skötulíki.

Það varð niðurstaðan í minni hl. fjh.- og viðskn. að bregða ekki fæti fyrir þetta frv., þ.e. greiða ekki atkvæði gegn því, heldur láta það fara fram hjá með hjásetu. Ég vil hins vegar segja það sem mína persónulegu skoðun, að ég tel það orka mjög tvímælis að fara út í gengisbindingu á sparnaðarformum af þessu tagi. Ég tel að með því sé verið að kasta rýrð á þau sparnaðaráform sem fyrir eru. Og ég tel að ríkisstj. ætti að gjalda varhug við slíku einmitt um þessar mundir, sérstaklega vegna þeirrar stefnu sem hún hefur tekið upp í gengismálum, þar sem hún vill viðhalda stöðugu gengi, en aðlaga síðan gengið kostnaðartilefnum með sérstökum ákvörðunum hverju sinni. Það getur þýtt að hér yrði um að ræða braskmarkað með verðbréf meiri en nokkru sinni hefur verið hér á Íslandi. Ég vil því í fullri alvöru vara ríkisstj. við því að knýja þetta mál yfir höfuð í gegn. Enn eru tvær umr. eftir um málið, það er ein umr. hér, 3. umr., og síðan verður málið að fara aftur til Ed. Það eru sömu n., fjh.- og viðskn. Ed. og Nd., sem fá þetta mál til meðferðar og þær n. sem fjalla um lánsfjárlögin þegar þar að kemur. Ég tel því að þetta mál eigi enn að skoða betur og þá með hliðsjón af frv. til lánsfjárlaga.

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn.