12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 3. þm. Reykv. er rétt er að rifja upp að ríkisstj. ákvað á s.l. hausti að koma til móts við húsbyggjendur sem hafa átt í mestum erfiðleikum á mesta verðbólgutímabilinu 1981–1983 með því að veita 50% viðbótarlán ofan á afgreidd lán á árunum 1982–1983. Það var ákveðið í samþykkt ríkisstj. að leita leiða til að afla þessa fjár, m.a. með útgáfu á sérstökum skuldabréfum, en hins vegar reiknað með því að meðan það væri að koma í ljós hver árangur yrði af slíkri fjáröflun yrði féð greitt úr ríkissjóði sem aukafjárveiting. Ég vil geta þess að í dag er veðdeildin búin að afgreiða um 1400 lán af 3050, sem þegar er búið að senda til hennar frá húsnæðismálastjórn og búið er að greiða út um 100 millj. kr. í þessu skyni.

Hins vegar er rétt að taka fram að það hafa farið fram viðræður milli félmrh. og fjmrn. um að bíða með endanlegan frágang á þessu máli þar til fyrir liggur hve upphæðin verður há. Ég reikna með að það ætti að geta legið fyrir jafnvel n.k. miðvikudag, að Húsnæðisstofnun verði þá búin að ganga endanlega frá öllum þeim umsóknum sem gildar verða metnar. Miðað er þá við umsóknir sem borist hafa, en umsóknarfrestur rann út 1. des. s.l.

Hins vegar tel ég eðlilega málsmeðferð, eins og hér hefur komið fram frá meiri hl. hv. fjh.- og viðskn., að orða þetta eins og er gert í nýjustu brtt. Auðvitað var gert ráð fyrir því, eins og kemur fram í lánsfjáráætlun, að reikna með að ný fjáröflun færi fram á árinu 1984 að upphæð 200 millj. kr.