12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í ræðu minni hér á föstudag hafði ég í stórum dráttum lýst því neyðarástandi sem skapaðist í húsnæðismálum í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég leiddi að því rök að meginástæðan fyrir því neyðarástandi, fyrir utan almenna óstjórn efnahagsmála og stjórnlausa verðbólgu, hafi verið sú stefnubreyting, sem þá kom til framkvæmda, að svipta húsnæðislánakerfið föstum tekjustofnum sínum, að vísa Byggingarsjóði ríkisins sérstaklega í vaxandi mæli á lánamarkaðinn sem reynslan sýnir að reyndist honum óviss. Í þriðja lagi að fyrir utan óvissa lánastofna var hér um að ræða mjög verulegan vaxtamun sem stefndi í það að síminnkandi framlög ríkisins til byggingarlánasjóðsins dygðu varla til að brúa þetta vaxtabil.

Afleiðingarnar af þessu öllu saman eru svo gamalkunnar. Þær lýsa sér í því að lánshlutfallið sem hlutfall af byggingarkostnaði fór hríðlækkandi, greiðslubyrði lántakenda var orðin óbærileg, þannig að það er ekki ofmætt að hér hafi verið fullkomið neyðarástand þegar núv. ríkisstj. tók við. Í framhaldi af því er náttúrlega meginspurningin í sambandi við þetta frv.: Er nú horfið frá þeirri stefnu fyrrv. ríkisstj. sem var smám saman búin að kippa fótunum undan fjárhagsgrundvelli húsnæðislánakerfisins? Er hér horfið frá þeirri stefnu sem svo illa reyndist og tekin upp önnur ný í staðinn?

Ég hef þegar tíundað það að þeir voru í upphafi sumars býsna loforðaglaðir, ráðherrar ríkisstjórnarinnar, og því er ekki að neita að það vekur strax athygli að við þau loforð og fyrirheit sem gefin voru á liðnu sumri hefur ekki verið staðið. Nægir þar að nefna loforðið um að lánshlutfatlið skyldi hækka upp í 50% byggingarkostnaðar, sem ekki hefur verið staðið við. Í annan stað má nefna að sá hópur sem harðast varð úti, sá sem sótti um og fékk lán á árabilinu 1981 fram undir árið 1983, hefur að því leyti orðið fyrir verulegum vonbrigðum að hin afturvirku viðbótarlán eru lægri en t.d. talsmenn Sigtúnshópsins töldu sig hafa skilið að gefin væru fyrirheit um. Þannig segir einn úr þeirra hópi t.d. með leyfi forseta, Pétur J. Eiríksson, einn af talsmönnum áhugamanna um húsnæðismál, eins og þeir kölluðu sig, í blaðaviðtali:

„Við hefðum hins vegar kosið að þessi afturvirkni hefði náð lengra. Við teljum að hún sé ekki fullnægjandi. Það er kaldhæðnislegt að þeir sem harðast lentu í óðaverðbólgu, skertum framlögum til húsnæðislána og ítrekuðum kjaraskerðingum, þ.e. þeir sem fóru út í húsbyggingar eða kaup á árinu 1981, bera minnst úr býtum. 50% viðbótarlán við þá krónutölu sem húsnæðisstjórnarlánið var þá er ekki mikill peningur. Þar er réttlætinu ekki fullnægt.“

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég tel að réttlætinu hafi ekki verið fullnægt að því er þennan hóp varðar. Hæstv. ráðh. nefndi í framsöguræðu sinni hver væri að meðaltali upphæð þessara viðbótarlána. Það staðfestir að þetta var vissuleg ekki mikil upphæð, þ.e. 50% við lánin eins og þau voru veitt á sínum tíma en ekki eins og þau væru uppfærð að núvirði. Ég er hræddur um að margur maðurinn, sem hvað verst lenti í því algjöra vonleysi sem þessum árgöngum var búið, sé ekki miklu bættari þrátt fyrir þetta.

En þrátt fyrir þessa neikvæðu þætti, eins og t.d. að ekki hefur verið staðið við gefin loforð; að réttlætinu var ekki fullnægt þegar kom að þeim hópum sem harðast höfðu orðið úti, þá er ekki því að neita að auðvitað eru mjög jákvæðir þættir í þessu frv. Þar er fyrst og fremst einn sem sker sig úr að mínu mati, þ.e. lenging lánstímans. Ég tel alveg tvímælalaust að lenging lánstímans sé sú aðgerð sem komi að mestum notum við að létta greiðslubyrði lántakenda. Auk þess má nefna afborganaleysi lána í tvö ár og í þriðja lagi að greiðslutímabil útlána eru tvö í stað fleiri áður. Þar vaknar hins vegar ein spurning: Á sínum tíma, þegar samkomulag varð í ríkisstj. 1978–1979 um nýja heildarlöggjöf húsnæðislána, var ráð fyrir því gert að húsnæðislán skyldu verðtryggð, þ.e. frá þeim tíma sem lánin voru veitt þangað til þau voru komin í hendur húsbyggjenda, og við það voru miðaðar allar áætlunartölur um hlutfall úflána miðað við byggingarkostnað.

Nú má segja að ef menn gætu slegið því föstu að framhald yrði á þeirri þróun, þeirri ánægjulegu þróun að verðbólga færi minnkandi á Íslandi, þá er þetta ekki eins mikilvægt ákvæði, en menn eru óneitanlega í verulegri óvissu um allar verðbólguhorfur. Þess vegna er ástæða til að spyrja: Hefur það atriði gleymst, hefur verið um það hugsað eða um það fjallað að lánin verði verðtryggð, þ.e. frá því að þau eru veitt og þangað til þau eru greidd í tveimur áföngum til húsbyggjenda. Þetta getur skipt verulegu máli vegna þess að allar tölur sem fram eru bornar um lánshlutfall standast ekki nema ef um það er að ræða, og sérstaklega verður þetta auðvitað alvarlegt mál ef verðbólgan fer á ný vaxandi.

Loks er þess að geta að það er jákvætt fyrir húsbyggjendur að lánshlutfallið hækkar þó að því fari fjarri að staðið hafi verið við gefin loforð. Við skulum spyrja sjálf okkur nokkurra spurninga um meginstefnu þessa frv. Ég hef áður rakið það hvað ég taldi vera verstu veilurnar í þeirri fjármögnunarpóltík húsnæðislánakerfisins sem rekin var í tíð fyrrv. ríkisstj. Nú er ástæða til að spyrja: Felur sú stefna sem þetta frv. boðar í sér gerbreytingu að því er varðar fjármálapólitík húsnæðismála á Íslandi? Er hægt að gera sér vonir um það, miðað við þær fjármögnunaráætlanir sem hér eru lagðar til grundvallar, að fjárhagur Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna verði tryggður þannig, að menn geti gert sér vonir um að hér sé verið að byggja á traustum grunni til einhverrar frambúðar?

Það er ástæða til að spyrja: Eru framlög ríkisins aukin í nægilega miklum mæli til þess að við getum raunverulega horft til framtíðarinnar þannig, að hér sé um að ræða áætlun lengra fram í tímann, til 10–15 ára, þar sem hægt er að treysta því að við þau markmið, sem sett eru um hækkandi lánshlutföll í áföngum, verði staðið á grundvelli trausts fjárhags sjóðanna? Er samkv. þessu frv. horfið frá þeirri röngu stefnu að vísa byggingarsjóðunum áframhaldandi á óvissan lánamarkað? Er raunverulega dregið nægilega úr hlutfalli lána af tekjuþörf, útlánaþörf sjóðanna? Er samkv. þessari stefnu búið að leysa það vandamál, sem vissulega hefur leikið byggingarsjóðina grátt, þar sem er hinn mikli vaxtamunur milli tekinna lána og útlána?

Hvað er að finna í þessu frv. að því er varðar fasteignamarkaðinn og það ástand sem þar ríkir? Við könnumst við þær sérstöku ráðstafanir sem beitt var að því er varðaði afturvirkni tvö ár aftur í tímann. En er eitthvað gert til þess að bæta það neyðarástand sem ríkir hér á fasteignamarkaðnum, sem lýsir sér í því að fólki sem kaupir íbúðir á almennum fasteignamarkaði er enn gert að greiða út sem svarar 70–80% af verði íbúðar, vegna þess í fyrsta lagi að eftirstöðvar slíkra lána eru ekki verðtryggðar og í annan stað vegna þess að þjónusta bankanna við húsbyggjendur á hinum almenna markaði er gersamlega ófullnægjandi. Það er alveg augljóst mál að ef þessu á að breyta þarf að lengja þau lán sem bankarnir veita húskaupendum. Þau lán eru nú almennt ekki lengri en til fjögurra ára, en þurfa að vera mun lengri ef á þessu vandamáli á að taka. Þetta er grundvallaratriði í allri húsnæðispólitík vegna þess að þetta kann að skipta sköpum um það hvernig eldra húsnæði nýtist og með hvaða hætti eigendaskipti eru auðvelduð miðað við breytilega fjölskyldustærð eftir aldurstímabilum.

Enn má spyrja: Er hér raunverulega gerð einhver tilraun til þess að leysa vandamál á leigumarkaði, leysa vandamál leigjenda?

Þetta eru nokkrar lykilspurningar og svörin við þeim segja raunverulega það sem segja þarf um þetta frv. Sannleikurinn er sá, að ef frv. er skoðað eru svörin við öllum þessum lykilspurningum harla neikvæð. Það er alveg augljóst mál að fjárhagur byggingarsjóðanna er ekki nægilega tryggður til þess að menn geti í raun og veru verið trúaðir á að við framtíðarmarkmiðin um hækkandi lánshlutfall í áföngum verði staðið. Það er alveg augljóst mál að ekki er horfið frá þeirri stefnu að vísa lánasjóðunum í vaxandi mæli á lánamarkaðinn. Framlög ríkisins eru ekki aukin nægilega. Enn er sjóðunum vísað fyrst og fremst á óvissan lánamarkað og þá ekki hvað síst á lífeyrissjóðina. Þó að nokkuð sé dregið úr hlutfalli aðfenginna lána miðað við tekjuþörf, þá er hún enn allt of há. Vaxtamunarvandamálið er enn óleyst og að því er varðar almenn atriði húsnæðismálastefnunnar, eins og ástandið á fasteignamarkaðnum, verður ekki séð að þetta frv leysi þau nema þá að litlu leyti með afturvirkum hætti.

Ég held að það hafi komið rækilega fram í umr. áður að stóra veilan í þessu frv. lýtur að fjármögnun húsnæðislánasjóðanna. Um þetta hefur verið fjallað í umr. áður og þess vegna skal ég þar fara fljótt yfir sögu, rétt aðeins drepa aftur á helstu málin.

Ef við lítum fyrst á Byggingarsjóð ríkisins þá segir í 2. tölul. 9. gr. III. kafla, þar sem fjallað er um fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins, að hann skuli fjármagna „með árlegu framlagi úr ríkissjóði samkv. fjárlögum, sem nemur eigi lægri fjárhæð en 40% af samþykktri útlánaáætlun sjóðsins viðkomandi ár.“

Ég held að hér fari ekkert milli mála. Hér er talað fullum fetum um 40% af fjárframlagi úr ríkissjóði samkv. fjárlögum. Hér er m.ö.o. ekki verið að ræða um almenna fjármagnsútvegun með öðrum hætti. Spurningin er: Er staðið við þessa grein? Er þessu ákvæði raunverulega fullnægt miðað við þær fjárhagsáætlanir sem hér liggja fyrir? Samkv. heimildum sem við höfum undir höndum áætlaði húsnæðismálastjórn fyrir hönd Byggingarsjóðs ríkisins útlánaþörfina miðað við lok septembermánaðar s.l. 1 402 millj. kr., en forsenda þessarar áætlunartölu var þá 1 050 íbúðir sem er til mikilla muna minna en það lægsta sem verið hefur á undanförnum árum. Spurningin er þess vegna sú, hvort útlánaþörf húsnæðismálastjórnar, eins og hún er áætluð á þessum tíma, hafi verið verulega skorin niður, vegna þess að augljóst er að ef þarna er miðað við gefna forsendu og síðan litið á ákvæði laganna þá fullnægir þetta 200 millj. kr. ríkisframlag samkv. fjárlögum alls ekki því ákvæði að skila 40% af áætlaðri útlánaþörf. Þar þyrfti talan að vera 560 millj. kr., eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti á fyrr í þessum umr. Hér er því um verulega fjárvöntun að ræða. Ég endurtek því þá spurningu til hæstv. félmrh.: Hefur áætluð íbúðalánaþörf Byggingarsjóðs ríkisins verið skorin verulega niður nú á haustmánuðum eða hvað veldur þessum mun?

Á það má enn fremur benda að samkv. áætlun húsnæðismálastjórnar er lögð á það áhersla að æskilegt væri að stofnunin hefði yfir að ráða gildum sjóði við áramót 1984–1985 vegna þess að þá falla á sjóðinn mjög þungar fjárhagsskuldbindingar vegna endurgreiðslu til lífeyrissjóðanna frá fyrri tíð. Þannig gerði Húsnæðisstofnun sjálf ráð fyrir því að hér væri um verulega fjárvöntun að ræða til að fullnægja þessari áætluðu útlánaþörf, fyrir utan það að ekki hefði verið sinnt þeirri fjárvöntun sem til kæmi um þar næstu áramót vegna endurgreiðslu lána. Hér virðist því vera mjög teflt á tæpasta vaðið, svo ekki sé meira sagt. Hér virðist vera um að ræða alvarlega fjárvöntun og meðan ekki er upplýst hvort áætluð íbúðaþörf hefur verið endurskoðuð og skorin niður er m.a.s. ekki annað sýnna en að hér sé ekki, miðað við þessar fjárhagsáætlanir, staðið við umrætt ótvírætt lagaákvæði.

Næst er að líta á fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna. Þar er líka miðað við ákveðna útlánaþörf. Eftir því sem við höfum heimildir um var slík útlánaþörf áætluð af húsnæðismálastjórn þann 12. okt. s.l. alls að upphæð 730 millj. kr., og er þá ekki tekið tillit til fjárþarfar vegna afborgunar vaxta, lána og reksturs stofnunarinnar, alls 770 millj. kr. En útlánaþörfin er miðuð við 730 millj. kr. Enn fremur er tekið fram að þarna sé gert ráð fyrir fjármagni vegna þegar gerðra samninga við sveitarfélög að upphæð 427 millj. kr. Hér er hins vegar um að ræða áætlun að því er varðar fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna þar sem um er að ræða annars vegar ríkisframlag, 200 millj., og því næst lánsfjárveitingar, 200 millj., fyrir utan önnur smærri framlög annarra aðila svo sem sveitarfélaga o.fl., en sjálf gerir húsnæðismálastjórn ráð fyrir því samkv. upphaflegri áætlun um 730 millj. kr. útlánaþörf að hér sé um að ræða fjárvöntun upp á 285 millj. kr. Það er nú ærin fjárvöntun ef hér væri um þetta eitt að ræða, en það kemur fleira til. Samkv. þessum lögum eru Byggingarsjóði verkamanna ætluð stórkostleg ný verkefni. Þar er um að ræða fjárframlög til fleiri aðila vegna leiguíbúða, ekki síst allt það stóra mál sem heitir byggingarsamvinnufélög.

Samkv. þessum niðurstöðum virðist alveg augljóst mál að útlánaþörf Byggingarsjóðs verkamanna vegna þeirra skuldbindinga sem hann er þegar samningsbundinn fyrir er miklum mun meiri en hér er gert ráð fyrir fjármagni til, og því næst er enn til viðbótar bætt við hann verulega fjárfrekum verkefnum. Í þessu samhengi er alveg ótvíræð: nauðsynlegt að fá skýr svör hjá hæstv. félmrh. við spurningunni um byggingarsamvinnufélögin. Jóhanna Sigurðardóttir vitnaði til ummæla Jóns Rúnars Sveinssonar, nýkjörins formanns nýstofnaðs húsnæðissamvinnufélags, Búseta, en í viðtali við Dagblaðið þann 5. des. s.l. segir formaðurinn:

„Við hittum félmrh. í síðustu viku og hann sagði frá því að gert væri ráð fyrir að okkur gefist kostur á lánum til 80% af verði staðalíbúðar, til 30 ára, í endurskoðun húsnæðislöggjafarinnar sem nú er verið að leggja fram á Alþingi.“

Jón sagði að þetta væru nánast sömu kjör og fengjust til byggingar verkamannabústaða nema þar væru lánin til 43 ára. Hann sagði að peningarnir til hins nýja húsnæðissamvinnufélags kæmu frá fjárveitingu til verkamannabústaða. Jón lagði áherslu á að húsnæðissamvinnufélagið Búseti vildi sömu kjör og verkamannabústaðir og að ákveðinn yrði tekjustofn til að fjármagna lán til félagsins.

Enn fremur komu fram í þessu viðtali þær upplýsingar að nú stefndi í 2 000 manns í þessu húsnæðissamvinnufélagi, Búseta, jafnframt því sem skýrt var frá því að undirbúningsfundur hliðstæðrar félagsstofnunar væri væntanlegur á Akureyri.

Í sambandi við þetta vil ég aðeins taka það fram að ef þessar upplýsingar eru rétt eftir hæstv. ráðh. hafðar, að þetta fjölmenna nýja félag telji sig hafa ótvíræð fyrirheit frá hæstv. ráðh. um slíka lánafyrirgreiðslu á þessum kjörum, og það kemur skýrt fram að hér sé um að ræða fjármögnun af þeim tekjustofnum sem um er að ræða hjá Byggingarsjóði verkarnanna, þá er hér um að ræða alveg hrikalegt verkefni. Þá er augljóst mál að búið er að gefa fyrirheit og loforð um úrlausn hjá mjög fjölmennum hópi manna og ekki nokkur vegur að sjá að þær fjármögnunartillögur sem hér hafa verið gerðar séu miðaðar við slíkar þarfir. Ég endurtek þess vegna spurningar til hæstv. félmrh. um þetta: Er hér rétt eftir ráðh. haft? Hafa þessi loforð verið gefin? Ef þau hafa verið gefin, með hvaða hætti hugsar hæstv. ráðh. sér að standa við svo stórtæk loforð?

Í þriðja lagi er þá spurningin um lánsfjármarkaðinn. Eins og ég sagði áðan sakna ég þess að sú stefnubreyting hefur ekki verið mörkuð í þessum lögum að tryggja byggingarsjóðunum fasta tekjustofna, sem ég tel vera forsendu fyrir útlánagetu þeirra í framtíðinni. Þeim er enn ætlað að sækja sinn hlut í stórum dráttum á almenna lánamarkaðinn. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði þessu máli ítarleg skil í sinni ræðu og ég geri ekki annað en aðeins að árétta það.

Um þá lánsfjáröflun sem gert er ráð fyrir, að upphæð 1 050 millj. kr., frá lífeyrissjóðum með skuldabréfaútgáfu eða nettóarði af skyldusparnaði með þeirri skuldabréfaútgáfu sem var hér til umr. áðan og lánið frá Atvinnuleysistryggingasjóði er það að segja í stórum dráttum að miðað við reynslu eru menn ekki trúaðir á að þessir aðilar geti staðið við þá lánsfjáröflun sem hér er um að ræða. Þar vitna ég fyrst og fremst til reynslunnar að því er varðar áætlanir um framlög lífeyrissjóða. Á undanförnum árum hafa þær áætlanir alltaf verið hafðar mun hærri en reynslan hefur síðan sýnt að lífeyrissjóðirnir hafi í reynd skilað.

Um skuldabréfaútgáfu að upphæð 200 millj. þarf ekki að bæta mörgu við það sem hér kom fram áðan. Það er nánast í algjörri óvissu. Að vísu liggur það fyrir að um er að ræða aukafjárveitingu en sala skuldabréfanna sjálfra er í fullkominni óvissu. Þar er kannske meginatriðið þetta: Hæstv. fjmrh tók af tvímæli um það í umr. í Ed. að hér væri um að ræða lán en ekki framlag til byggingarsjóðs og það liggur fyrir að vaxtabyrði af þessum lánum er mjög þung eða um 4.16%. Ég spurði hæstv. fjmrh. af öðru tilefni hvort það lægi alveg ljóst fyrir að byggingarsjóðunum væri ætlað að rísa undir þessari vaxtabyrði eða hvort ríkissjóður kæmi þar til sögu. Ég fékk ekki svör við því. Ég ítreka því þá spurningu mína: Er hér um að ræða lán en ekki framlag og er þá byggingarsjóðunum ætlað að rísa undir þeim vaxtamun sem í þessum lánveitingum felst?

Mér sýnist af því sem þegar hefur verið sagt um fjármögnun, bæði að því er varðar Byggingarsjóð ríkisins, Byggingarsjóð verkamanna og lánsfjáráætlun, að þetta frv. standi mjög á brauðfótum að því er varðar fjármögnunina, sem er aðalatriði málsins. Eins og oft hefur verið á bent þá voru ekki lagabreytingar út af fyrir sig meginatriðið, þó sumar þeirra hafi verið mjög þarfar og gagnlegar. Mörg af þessum vandamálum var hægt að leysa ef treysta mátti því að fjármagn til byggingarlána húsnæðislánakerfisins væri tryggt. Mér sýnist að það standi mjög á brauðfótum og þarf mun meiri og traustari upplýsingar um það en fram komu í framsöguræðu hæstv. ráðh.

Svo ég dragi þetta nú saman í stórum dráttum þá finnst mér veilurnar í þessu frv. vera þessar helstar að því er varðar fjármögnunina:

Í fyrsta lagi að framtíð byggingarsjóðanna að því er varðar þeirra eigin fjárhag og framlög ríkisins til tekjustofna er mjög í óvissu. Það er fram haldið þeirri stefnu að vísa þeim í allt of miklum mæli á lánsfjármarkaðinn.

Í öðru lagi: Framlög ríkisins, hvort heldur þau eru í formi markaðra tekjustofna eins og áður var eða hlutfallsbundin framlög eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., eru greinilega ónóg.

Í þriðja lagi eru helstu þættir lánsfjáröflunar samkv. lánsfjáráætlun í óvissu, bæði að því er varðar lífeyrissjóði, vissulega að því er varðar skyldusparnaðinn, sem allar líkur benda til að verði neikvæður, og eins varðandi skuldabréfasölu.

Þá er að nefna að þau nýju verkefni sem Byggingarsjóði ríkisins er ætlað að leysa eru stórtæk og að því er séð verður er ekki séð fyrir tekjustofnum til að standa undir þeim útgjöldum. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég telji það réttlæti sem felst í afturvirkninni, þ.e. þeim viðbótarlánum sem ná aftur fyrir tímann, hafa verið alls ónógt.

Loks er að benda á þau ákvæði laganna sem fjalla um vexti. Þau vekja manni vissulega nokkurn ugg. Vaxtaákvörðunin skiptir náttúrlega meginmáli í sambandi við allar áætlanir um raunverulega greiðslubyrði. Þess vegna lýsi ég andstöðu minni við það að láta vaxtaákvörðunina liggja í lausu lofti eða fela hana ákvörðun ráðh. eða annarra aðila. Það er alveg augljóst mál að ef — eins og mér sýnist allt benda til — teflt er í tvísýnu um fjárhagslegt öryggi sjóðanna þá er mjög freistandi að reyna að bæta það ástand með hækkun vaxta, enda segir svo í grg. með frv. með leyfi forseta:

„Því kann að vera nauðsynlegt að hækka vexti af lánum sjóðsins, a.m.k. um sinn, á meðan á þeirri uppbyggingu stendur.“

Þetta held ég að alþm. geti ekki látið fram hjá sér fara. Að mínu viti er það skilyrðislaus krafa að vaxtastigið liggi fyrir. Það nær engri átt að Alþingi framselji framkvæmdavaldinu fullt vald til að ákvarða vexti og það fari síðan eftir skyndiákvörðunum, vegna lélegs fjárhags sjóðanna, hver vaxtabyrðin verður. Það er bæði út frá sjónarmiði fjárhags sjóðanna og eins út frá sjónarmiði lántakenda að mínu mati algjörlega nauðsynlegt að sú stefna liggi fyrir.

Nú boðaði hæstv. ráðh. að í vinnslu væri könnun á fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins, og ef ég tók rétt eftir þá sagði hann í framsöguræðu sinni að þeirri könnun væri nú lokið, en þar væri m.a. fjallað um áhrif ákveðinna tillagna um vaxtakjör og breytingar á lánakjörum á fjárhag Byggingarsjóðs. Nú vil ég ekkert segja fyrir fram um það hverjar eru niðurstöður þessarar áætlunar en það er alveg nauðsynlegt að Alþingi fái þessa áætlun í hendur í umfjöllun í n. sjálfur er ég þeirrar skoðunar að vaxtaákvörðunina eigi að setja í lög eins og verið hefur, vegna þess að það eru tvær leiðir til þess að tryggja fjárhag sjóðanna. Annars vegar er að hækka framlög ríkisins, eða skenkja byggingarlánasjóðunum — eins og áður var og umsamið var við verkalýðshreyfinguna á sínum tíma — fasta tekjustofna. Eða hitt: að vísa þeim á lánamarkaðinn en reyna þá að brúa hið mikla vaxtabil, sem hefur verið að myndast, með hækkun vaxta. Það er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram: Er það stefna ríkisstj. að fara seinni leiðina? Það er augljóst að það er ekki. Byggingarlánasjóðunum eru ekki tryggðir nægir tekjustofnar. Á þá að tryggja fjárhag sjóðanna með því að stefna að verulegri hækkun vaxta? Ef svo er þá ber að leggja þær tölur á borðið.

Herra forseti. Það er eðlilegt að spurt sé: Ef fjármögnun húsnæðislánakerfisins er þrátt fyrir þetta frv. eftir sem áður á brauðfótum, er þá hægt að gera betur? Ég leyfi mér að rifja upp að í því mikla lagafrv. um húsnæðismál sem lagt var fram hér á Alþingi í lok stjórnartíðar ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar 1979 var farin talsvert önnur leið en hér er boðuð. Sú leið var að tryggja húsnæðislánasjóðunum báðum fasta tekjustofna, þ.e. fyrst og fremst af launaskatti en einnig af öðrum tekjustofnum. Þá er sýnt fram á það í grg. með því frv. að með þessu móti yrði fjárhagur byggingarsjóðanna byggður upp með traustum hætti á næstu árum þannig að hann gæti raunverulega staðið undir því að hækka lánin sem hlutfall af byggingarkostnaði ár frá ári. Þannig var ráð fyrir því gert samkv. því frv. að á árinu 1984 yrði lánshlutfallið 50% af byggingarkostnaði staðalíbúðar, eins og hæstv. ráðh. gáfu loforð um á s.l. sumri. M.ö.o., hér er ekki einu sinni náð því fyrirheiti sem flokkur hæstv. félmrh. samþykkti að gefa fyrirheit um strax á árinu 1979.

Þá er spurningin: Er hægt að gera betur úr því sem komið var? Það skal viðurkennt að mikið átak þarf til þess að ná aftur upp traustari afkomu þessara sjóða eftir að sýnt er hversu grátt þeir voru leiknir á liðnum þremur árum. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um atmennt ástand efnahagsmála hér á landi. Spurningin er einungis um það hver skuli vera forgangsverkefni ríkisstj. Mér sýnist að það verði enn að meta það: Er ástæða til að binda það enn í lög að tryggja byggingarlánasjóðunum fasta markaða tekjustofna eins og áður var gert með launaskatti, eða ber að tryggja þeim aukið fjármagn með framlögum úr ríkissjóði, og hvaðan átti þá að taka það fé?

Ég vek athygli á því að í umræðum um kjaramál og um kjör hinna verst settu í þjóðfélaginu hafa margir aðilar, og það er reyndar ekki nýtt, bent á að þeim hrikalegu fjármunum sem á fjárlögum er varið til niðurgreiðslna á hefðbundnar landbúnaðarafurðir, sem í fjárlagafrv. er rúmi. 1 milljarður kr. og verður vafalaust í reynd talsvert hærri upphæð, þessari upphæð mætti verja á mun árangursríkari hátt til tekjujafnandi aðgerða. Þá gæti t.d. komið til álita hvort ekki mætti skipta þessu fé með tvennum hætti, annars vegar með beinum útgreiðslum til hinna tekjulægstu í formi neikvæðs tekjuskatts eða hins vegar að hluta til með því að verja hluta af þessu fé til beinna framlaga til byggingarsjóðanna. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef sú leið væri farin skiluðu þessir fjármunir sér mun betur en þeir nú gera til þess að ná því markmiði að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég sakna þess að í þessu frv., sem lengi hefur verið beðið eftir og þúsundir manna hafa mænt til vonaraugum langan tíma, er tiltölulega lítið um ýmis önnur stefnumarkandi atriði að því er varðar húsnæðismálin. Þar á ég við úttekt á því gjörsamlega óviðunandi ástandi, sem nú er almennt á fasteignamarkaði. Þar á ég við könnun á íbúðarþörf, hver eigi raunverulega að vera forgangsverkefnin í þeirri félagslegu aðstoð í húsnæðismálum sem ríkið vill beita sér fyrir. Við getum tekið nokkur dæmi um þetta.

Það hefur komið fram í nýlegri úttekt um húsnæðismál á höfuðborgarsvæðinu eftir Bjarna Reynarsson landfræðing að fjölskyldusamsetning hér á höfuðborgarsvæðinu hefur breyst svo að með ólíkindum er á tiltölulega skömmum tíma. Þarna eru nefndar tölur um að frá árinu 1964 hefur hlutfall einhleypinga meðal borgarbúa vaxið frá því að vera 15% allra heimila í Reykjavíkurborg í rúm 37% árið 1982. Þessi eina staðreynd segir mikla sögu. Hún bendir t.d. mjög eindregið til þess að raunveruleg íbúðaþörf á þessu svæði sé mjög vanmetin.

Það er alkunna að lóðaúthlutanir hjá Reykjavíkurborg hafa á undanförnum árum beinst einkum og sér í lagi að einbýlishúsum. Byggingarstarfsemin hefur miðast mjög við einbýlishús eða raðhús eða stórar íbúðir eins og fram kemur reyndar mjög rækilega af öðrum könnunum. Meðalstærð íbúða í byggingu á tímabilinu 1966–1970 var 433 m3, en fjórtán árum síðar er meðalíbúðarstærð orðin 540 m3.

Þessi þróun gerist á sama tíma og búendur í hverri íbúð í Reykjavík, sem voru árið 1960 4.11 eru árið 1981 2.64. M.ö.o., hér hefur gerst tvennt. Á sama tíma og fjölskyldurnar fara ört minnkandi hefur íbúðarstærðin farið ört vaxandi. Á sama tíma og litlar fjölskyldur, fjölskyldur einhleypinga, þ.e. þar sem um er að ræða einhleypa foreldra, ekkjur og ekkla, eru að verða æ fyrirferðarmeiri í fjölskyldumynstrinu, þá virðist mér sem húsnæðispólitíkin sjálf taki lítið mið af þessu. Allt bendir til þess að á bak við eftirspurn þessara hópa, ungs fólks, aldraðs fólks og einhleyps fólks, eftir litlum íbúðum og þjónustuíbúðum sé kannske lítil raunveruleg kaupgeta. Þess vegna er ástæða til að spyrja hvort það hljóti ekki að vera eitt af meginverkefnum, þegar verið er að móta húsnæðismálastefnu og húsnæðislánapólitík, að taka tillit til þessara gerbreyttu aðstæðna. Spurningin er m.ö.o. sú: Er ekki kominn tími til að laga húsnæðisstefnuna og þá lánapólitíkina að þessum gerbreyttu staðreyndum og gerbreyttu viðhorfum? Hvers vegna eigum við að lána í sífellt stærri og stærri íbúðir á sama tíma og þessar staðreyndir blasa við um fjölskylduþróun og fjölskyldustærð o.s.frv.?

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég endurtek að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með það að ég tel að fjárhagsgrundvöllur, fjárhagslegar forsendur þessa frv. séu ekki nægilega traustar. Enn fremur sakna ég þess að lykilatriði að því er varðar mótaða húsnæðismálapólitík, fram í tímann, lykilatriði af því tagi er ekki að finna í þessu frv. Ég tel því sérstaklega mikilvægt að Alþingi gefi sér rækilegan tíma til að fjalla um þetta mát. Ég rifja upp að loforð voru gefin um það að þetta frv. skyldi lagt fram strax í upphafi þings. Af einhverjum ástæðum hefur ekki verið unnt að standa við það. Engu að síður er mjög brýnt að þær nefndir þingsins sem um þetta fjalla gefi sér tíma til að fara mjög rækilega ofan í saumana á því hver er raunveruleg fjárþörf byggingarlánasjóðanna jafnframt með nýjum verkefnum og hvort sá fjárhagslegi grundvöllur sem hér hefur verið lagður er nægilega traustur til þess að byggja á í framtíðinni.