12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Nú eru fjórir dagar eftir af venjulegum dögum fyrir deildafundi fram að jólum. Það eru miðvikudagur og föstudagur í þessari viku og mánudagur og miðvikudagur í næstu viku. síðan er gert ráð fyrir að atkvgr. eftir 2. umr. fjárlaga fari fram á miðvikudag, þannig að þá skerðist nokkuð fundartími deilda. Þess vegna er eðlilegt við slíkar aðstæður að forsetar reyni að ná sem mestum tíma út úr deildafundadögunum. Vil ég bera fram þá ósk að frá og með deginum í dag verði fundahald skipulagt þá daga sem eftir eru fram að jólum þannig að þar komi ákvarðanir ekki á óvart. Ég fékk upplýsingar um að deildarfundur ætti að vera í kvöld núna áðan þegar þingvörður boðaði mig á fund klukkan hálf níu í kvöld. Ég hafði ekki hugmynd um áður að til stæði að halda fund í hv. Nd. í kvöld og að á þeim fundi ætti að taka fyrir mótun fiskveiðistefnu og þær till. sem sjútvrh. er með í þeim efnum.

Ef hæstv. ríkisstj. og forustumönnum þingliðs hennar er eitthvert kappsmál að koma málum fram sem menn eru að bauka hér með þessa dagana og bæta við einum lista á dag svo að segja yfir forgangsmál er auðvitað alveg lágmark að reynt sé að semja um þessa hluti við stjórnarandstöðuna. Ég þykist vita að stjórnarandstaðan sé reiðubúin til að semja um þessi mál ef óskað er eftir að það verði gert. Stjórnarandstaðan hefur á þeim fundum sem haldnir hafa verið með forsetum þingsins og formönnum þingflokkanna aftur og aftur boðist til að semja sig út úr þessum málum. En ekki hefur verið sest niður í því skyni. Síðan gerist það að ég, sem er starfandi formaður þingflokks Alþb., frétti það nú þegar ég er boðaður á fundinn í kvöld að það eigi að vera kvöldfundur. Ég ætla ekki að setja á sérstök mótmæli út af þessum fundi, ég ætla að sætta mig við hann að þessu sinni, en ég tel að þetta séu ekki vinnubrögð sem kunna góðri lukku að stýra. Ég skora á stjórnarliðið að halda betur á málum framvegis en hér hefur verið gert.

Ég vil einnig minna á, herra forseti, að þegar ríkisstj. ætlar sér að reyna að koma fram sínum málum verður auðvitað að taka tillit til þess að stjórnarandstaðan getur átt ákveðnar óskir bæði um vinnubrögð og mál. Það verður að fara fram á að tekið sé tillit til þeirra óska einnig þegar verið er að skipuleggja þá fáu sólarhringa sem lifa eftir af þinghaldinu fram að jólum. Því segi ég þetta að á fundi utanrmn. í morgun ræddum við fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hvort ekki væru tök á að afgreiða ákveðin mál fyrir jól. Við fengum engar endanlegar undirtektir undir það, en fórum síðan fram á að málin yrðu rædd í þingflokkunum í dag. Sú ósk er hér með ítrekuð úr þessum ræðustól, að þau mál sem þar voru til meðferðar í utanrmn. verði rædd í þingflokkum stjórnarliðsins í dag.

Jafnframt vil ég greina frá því að ég hef beðið forseta Sþ. um að kalla saman fund forseta þingsins og formanna þingflokkanna kl. 6 í dag til að fara yfir það sem eftir er af þinghaldinu. Ég stend hér upp, herra forseti, til að mótmæla þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið höfð uppi og ég skora á hæstv. ríkisstj. og forráðamenn stjórnarliðsins að skipuleggja þessi verk betur. Ég vil jafnframt lýsa því yfir af minni hálfu og þingflokks Alþb. að við erum reiðubúin að gera það sem í okkar valdi stendur til að greiða fyrir eðlilegri meðferð þingmála.