12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Forseti (Ingvar Gíslason):

Forseti vill vegna þessarar ræðu hv. 3. þm. Reykv. taka fram að hann deilir áreiðanlega áhyggjum með hv. þm. um að halda þurfi vel á spöðunum hér ef okkur á að takast að ljúka þingi með sóma fyrir jólin. Undir það tek ég fyllilega.

Hins vegar kemur mér dálítið á óvart ef hv. þm. hefur ekki fengið að vita neitt, ekki haft hugboð um að ég hafði í hyggju að halda fundi áfram klukkan hálf níu í kvöld. Bæði er að við höfum undanfarna daga rætt um þennan vanda sem er augljós, að ljúka þessum fundum með sóma fyrir jól. Þá hefur komið nokkuð skýrt fram að þess væri mikil þörf að forsetar hefðu vald eða möguleika á því í góðu samstarfi við þingdeildir að halda kvöldfundi. Í morgun — ekki man ég nákvæmlega á hvaða tíma — gerði ég nokkrar tilraunir til að ná sambandi við hv. 3. þm. Reykv., en tókst það ekki á þeim tíma sem ég hafði þá til ráðstöfunar. Hins vegar hafði ég samband við Helga Seljan, 2. þm. Austurl., sagði honum að ég hefði í hyggju og teldi mjög mikla þörf á að halda fund í kvöld klukkan hálf níu, en aftur ekki milli kl. 6 og 7. Þannig féllu orð milti okkar að hann kæmi þessum boðum til hv. 3. þm. Reykv. Þykir mér leitt ef þessi orð mín hafa á einhvern hátt verið misskilin eða ekki komist þá leið sem ég taldi að mundi verða.

Ég vil vegna þessara orða taka fram að ég mun nú sem áður reyna að hafa sem allra best samstarf við stjórnarandstöðu og þingdeild yfirleitt um framgang þingmála.