12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég skal ekki eyða miklum tíma í þessar umr., þó að e.t.v. væri ástæða til að setja hér á langa ræðu vegna þeirra umr. sem hér hafa orðið. Ég þakka fyrir þessar umr. Þær hafa verið að mörgu leyti ágætar og sýnt ljóslega hvaða áhuga hv. alþm. hafa á þessum málum, sem eðlilegt er.

Ég vil aðeins koma inn á nokkur atriði, sem skipta e.t.v. talsvert miklu máli í sambandi við þessar umr., og þá vil ég fyrst koma að ræðu hv. 2. landsk. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem setti fram nokkuð ákveðnar spurningar í sambandi við þessi mál.

Í fyrsta lagi kom fram í ræðu hv. þm. að hún telur að sú fjáröflun sem getið er í fjárlögum og lánsfjáráætlun, sem hér hefur verið lögð fram, sé ekki í takt við það frv. sem hér er til umr. Ég vil fyrst segja það, sem á náttúrlega ekki að þurfa að taka fram, að við erum hér að fjalla um lagasetningu til langs tíma, til framtíðar. Að sjálfsögðu var ekki hægt að setja í lánsfjárlög og fjárlög nákvæma útfærslu á þessu frv., þó að það sé gert í aðalatriðum.

Í fyrsta lagi telur hv. þm. að í Byggingarsjóði verkamanna hafi verið í ágúst s.l. 530 óafgreiddar umsóknir og það hljóti því að vera ljóst að enginn möguleiki sé að fjármagna loforð hans með þeirri áætlun sem fyrir liggur. Ég fékk áðan minnisblað frá Húsnæðisstofnun, sem er dags. í dag 12. des., og þar stendur að vegna ársins 1984, þ.e. næsta árs, hafi borist umsóknir frá 44 sveitarfélögum um heimild til að byggja 330 íbúðir. Vegna samþykktra umsókna ársins í ár er tekið sérstaklega fram að það sé mjög lítið farið af stað með slíkar byggingar í Reykjavík t.d. og algerlega sé eftir að ganga frá endurskoðunum og samningum um slík áform, sem þó hafi verið tekin fyrir hjá Húsnæðisstofnun. Ég tel ástæðu til að koma inn á þetta þó að ég sé ekki þar með að segja að það sé ekki vandamál að of lítið fjármagn er til þessara hluta almennt. En þar komum við inn á annað, sem ég hélt að nægjanlega hefði verið útskýrt áður. Við búum við sérstakar aðstæður í þjóðfétaginu, þar sem við verðum að gera ráð fyrir að verulegur samdráttur verði í þessum efnum sem öðrum á næsta ári miðað við efnahagsástandið.

Hv. þm. spurði einnig um fjármögnun þeirra nýju samtaka sem hér hafa verið títtnefnd, þ.e. húsnæðissamvinnufélög sem hafa verið stofnuð síðustu vikur, og er ekki nema gott um það að segja. Ég lýsi yfir því, að ég tel að sá áhugi sem þarna hefur komið fram sé af hinu góða, og hefði betur fyrr verið stofnað til samtaka á þessu sviði og reyndar nýjar leiðir til að leysa húsnæðisvandann. Ég benti sérstaklega á að í þeirri endurskoðunarnefnd sem ég starfaði í á s.l. ári lögðum við fulltrúar Framsfl. mikla áherslu á að gera mögulegt í endurskoðun frv. að opna fyrir nýjum möguleikum í félagslegum byggingum. Þar með var það sett í frv., sem hér var til meðferðar á Alþingi, að gefa möguleika á nýjum formum, þ.e. eignarhlutdeild í leiguíbúðum, og margt fleira sem gerir lífeyrisþegum mögulegt að kaupa sér búseturétt. Fyrst og fremst hefur verið vitnað hér til þess af fleiri en einum hv. þm. að félmrh. hafi gefið einhver ákveðin loforð um að þetta nýja form ætti að fara af stað á næsta ári með miklum fyrirgangi. Það er algerlega rangt. Dagblaðið hefur aldrei talað við mig. Ívitnuð ummæli eru höfð eftir stjórnarmanni í umræddum samtökum. Stofnendur Búseta komu til mín litlu eftir að samtökin voru stofnuð. Ég óskaði þeim til hamingju með framtakið. Ég sagði þeim frá því að í nýja frv. væru opnaðir möguleikar til þess að húsnæðissamvinnufélög gætu fengið þar lánamöguleika og þar væri, eins og kemur fram í frv., reiknað með að slíkar byggingar gætu fengið 80% lán til 31 árs eins og frv. segir til um. Hins vegar hef ég aldrei gefið nein fyrirheit um að fjármagn væri til í þennan húsnæðismálaflokk. Það yrði að sjálfsögðu að skoða vandlega og athuga hvernig við gætum útfært þessar fétagslegu byggingar. Ég varaði þetta fólk einmitt við því að gefa of ákveðnar yfirlýsingar um að það gæti hafið framkvæmdir, t.d. alls ekki á næsta ári nema mjög óverulega. Ég leiðrétti missögn blaðsins í sjónvarpsviðtali og hef raunar gert það í útvarpinu einnig, til þess að það mundi ekki valda misskilningi. Ég vona að hv. alþm. hafi orðið varir við það og ekki sé ástæða til að ræða sérstaklega þá staðreynd hér.

Í þriðja lagi spurði hv. þm. um hvað væri hægt að sinna mörgum nýjum umsóknum úr Byggingarsjóði ríkisins á næsta ári miðað við fjárlög og lánsfjáráætlun og nefndi þar ýmsar tölur. Ég vil vitna í að samkvæmt þjóðhagsáætlun, sem allir hv. þm. hafa undir höndum, og samkvæmt lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir jafnmörgum íbúðum á næsta ári og 1983, kaupum á 1700–1800 eldri íbúðum og um 1000 nýbyggingum íbúða. Þetta áform er óbreytt og er gengið út frá því að svo geti orðið miðað við þá áætlun sem hér liggur fyrir.

4. spurning var um 9. gr. frv. Þar er lagt til að ríkisframlag verði um 40% af áætluninni sem um er fjallað. Ég ætla ekki að rekja það hér, en endurtek að félagsmálanefndir þingsins munu fá allar upplýsingar frá þeim sérfræðingum sem hafa unnið að útreikningum í sambandi við þetta frv. Þar kemur fram að þeir miða við lánsfjárætlun eins og hún liggur fyrir, þ.e. 1167 millj. fyrir utan eigin fjármögnun. 40% af því eru 467 millj. kr. á næsta ári. Það eru að vísu ekki nema 200 millj. í fjárlagafrv. sjálfu, en gert er ráð fyrir sérstakri fjármögnun í frv. sem var rætt hér fyrr í dag, 200 millj. í sambandi við skuldabréfakaup, og einnig eru í gangi skipulagðar viðræður við bankakerfið, við Seðlabankann og viðskiptabankana, um sérstaka fjármögnun til framkvæmdaaðila í byggingariðnaði. Er þar reiknað með fé á bilinu 120–140 millj. kr. og er á þessu stigi nokkuð jákvæður tónn í viðræðunum.

Hv. fyrirspyrjandi spurði einnig í sambandi við lífeyrissjóðina, hvort sú áætlun standist sem um er rætt að þeir kaupi samkv. á næsta ári. Ég get ekki annað sagt en að miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir eftir samningaviðræður við lífeyrissjóðina, sem nýafstaðnar eru milli fjmrn. og félmrn., höfum við fengið fullvissu fyrir því að lífeyrissjóðirnir munu standa við sitt framlag án þess að til þurfi að koma lagaþvingun, þ.e. kaupa fyrir 40% af sína ráðstöfunarfé. Var vandlega gengið frá því á fundi með fulltrúum lífeyrissjóðanna að það verði hægt að ganga út frá því sem staðreynd. Auðvitað treystir maður á sjóðina þegar samningar fara fram í þessa veru.

Þá vil ég geta þess að það eru ekki réttar tölur sem hv. þm. gaf upp um stöðu lífeyrissjóðanna í ár. Byggingarsjóður ríkisins er búinn að fá tæplega 80% af því fjármagni sem gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun fyrir þetta ár, sem er 321 millj., og upplýsingar eru um að það standi fyrir dyrum frekari skil næstu daga. Hins vegar er aðeins lægra hlutfall hjá Byggingarsjóði verkamanna, en einnig er von til þess að úr því rætist einmitt í þessari viku. Við höfum ekki ástæðu til, þrátt fyrir erfiðleika í þjóðfélaginu, að ætla annað en lífeyrissjóðirnir standi við sitt samkomulag, sem þeir gerðu einnig á því ári sem nú er að líða. Það er vissulega ánægjuefni að það skyldi nást gott samkomutag við lífeyrissjóðina, eins og þeir eru mikilvægir í uppbyggingu þessara mála.

Í sambandi við skyldusparnaðinn get ég tekið undir að það er ákaflega stórt spurningarmerki við það sparnaðarform, hvort það geri meira en að standa undir þeim mikla kostnaði sem í kringum það er, en þrátt fyrir allt tel ég enga ástæðu til annars en þessi áætlun standist. Það eru gerðar nokkrar breytingar á því formi í frv. Þær gefa möguleika á því að skyldusparnaðurinn standi lengur við í húsnæ3iskerfinu en hefur verið til þessa.

Að öðru leyti vil ég segja um ýmsar þessar spurningar, og það tel ég ástæðu til að endurtaka, að ég mun að sjálfsögðu gefa ákveðin fyrirmæli um að allir þeir aðilar sem voru nefndir í framsögu og hafa unnið fyrir nefndina að ýmsum upplýsingum og útreikningum séu til taks við nefndarstörfin og gefi allar þær upplýsingar sem óskað er eftir.

Næst vil ég geta ræðu hv. 3. þm. Reykv. Tel ég ekki sérstaka ástæðu til að svara miklu sem fram kom hjá honum á þessu stigi máls. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum af þeim miklu fullyrðingum sem komu fram hjá hv. 3. þm. Reykv. í sambandi við þessi mál. Ég hélt satt að segja að hann sem fyrrv. ráðh. húsnæðismála mundi fagna slíku frv. og öllum atriðum sem til framfara horfa eftir að hafa kynnt sér sjálfur vandamálin. Hins vegar get ég vel skilið að það veldur ergelsi hjá honum að verða allt í einu vitni að því að það sem honum hefur mistekist sem húsnæðisráðherra á undanförnum árum væri hægt að laga verulega á tiltölulega skömmum tíma. Þess vegna ætla ég ekki að fara að munnhöggvast við hv. 3. þm. Reykv. á þessu stigi máls þrátt fyrir stóryrði í minn garð.

Ég vil nefna það, að ég tel að sú útfærsla á félagslegu íbúðakerfi sem lögð er til í þessu frv., 33. gr. þess, byggist á nefndarstörfum sem ég var þátttakandi í og byggist, eins og ég sagði hér fyrr, á mjög ákveðnum óskum um að nauðsynlegt væri að taka upp nýja stefnu við útfærslu á félagslegum aðgerðum í húsnæðismálum. Það var brýn þörf á því. Við megum ekki rígbinda okkur við eitt einstakt kerfi á þessu sviði eins og verkamannabústaði. Ég vil segja það í sambandi við verkamannabústaðina, af því að það hefur verið mikið deilt á að frv. gerir ráð fyrir aðalreglunni 80% láni, að það gleymist í þessum málflutningi að ákveðið er gert ráð fyrir að allir þeir sem eiga við erfiðar fjárhagsaðstæður að stríða og eru með lægri tekjur eigi kost á 90% láni eftir sem áður. Mikilvægt er að það gleymist ekki og rétt sé frá greint. En það er annað sem ég vildi sérstaklega taka fram, sem ég held að hafi verið of lítið rætt á undanförnum árum. Það er það fasta viðmiðunarkerfi sem hefur verið byggt á síðan 1980 í Byggingarsjóði verkamanna, þessi íbúðastaðall sem var innleiddur með reglugerð eftir lagasetninguna 1980. Flestallar verkamannabústaðabyggingar í landinu eru þar með 30–40% dýrari en þær eiga að vera. Þetta er búið að fastsetja. Það kemur m.a. fram í því, að hv. 3. þm. Reykv. slær því föstu og raunar fleiri að íbúðaverð í verkamannabústað fyrir 5–6 manna fjölskyldu sé 2.4 millj. kr. og í staðinn fyrir 240 þús. kr. þurfi kaupandinn samkv. frv. að greiða 480 þús. kr. eða 20%. Þetta er einn megingalli á þessu kerfi, að það hefur verið búið til þarna staðlað form sem gerir að verkum að íbúð í verkamannabústað skal kosta fyrir 2–4 manna fjölskyldu 2.1 millj., fyrir 5–6 manna fjölskyldu 2.4–2.5 millj. og fyrir 7 manna fjölskyldu og stærri 2.8–2.9 millj. Það er staðreynd að allir möguleikar til að bjóða út slíkar byggingar hafa farið mjög úr skorðum. Það er miðað við útreikninga frá tæknideild Húsnæðisstofnunar. Íbúðin skal kosta þetta og ef það er boðið út er útboðið miðað við þessa fjárhæð í viðkomandi byggingu. Það hefur ekki tekist að ná því markmiði að byggðar yrðu ódýrar íbúðir fyrir verkafólk í landinu. Þetta eru dýrustu íbúðir sem til eru á íbúðarmarkaði og endursala gengur víða mjög erfiðlega á þessum íbúðum vegna þeirrar einföldu ástæðu að mat samkv. núgildandi lögum verður of hátt miðað við sambærilegt húsnæði annars staðar. Ég bið menn að taka eftir þessu vegna þess að ég mun fljótlega eftir áramót láta afnema þessa reglugerð og semja aðra nýja. Sveitarfélög sem eru með verkamannabústaði geta þá miðað mat og endursölu á þessum íbúðum við markaðsverðið. Það er að vísu gert ráð fyrir að það sé hægt með því að Byggingarsjóður verkamanna endurgreiði slíkan mismun. Þetta er óeðlilegt og þarf að skapa nýtt viðhorf til þessara mála.

Við höfum staðreyndirnar fyrir framan okkur. Það er hægt að fá íbúð í blokkarbyggingu í Reykjavík sem kostar frá 1300–1800 þúsundir fyrir fjölskyldu af þessari stærð, en það er ekki hægt í verkamannabústöðum vegna þess sem ég áður gat um. Þetta tel ég vera mjög slæmt og hefur bakað mörgu, ekki síst lágtekjufólkinu í landinu, mikla erfiðleika. — Ég veit ný dæmi frá Akranesi. Bæjarstjórnin þar er í vandræðum með að koma út nýjum íbúðum í verkamannabústöðum vegna þess að þær eru 30% dýrari en íbúðir í sambærilegum fjölbýlishúsum á Akranesi. Þetta er alvarlegt mál þegar við erum að ræða um að koma til móts við lágtekjufólkið í landinu með ódýrum íbúðum. Ég vona að það takist að snúa þessari þróun við, en þarna höfum við því miður fastbundið okkur við kerfi sem átti að vera löngu búið að lagfæra.

Það mætti segja margt fleira um þessi mál. Hv. 5. þm. Reykv. flutti hér langa ræðu í tvennu lagi. Væri að sjálfsögðu margt hægt að segja í sambandi við ýmsar þær fullyrðingar sem komu fram. Ég vil segja hv. þm. það, að ég var einn af þeim sem vænti mikils af frv. Magnúsar H. Magnússonar, eins og þeir gjarnan vilja kalla það, sem var stjfrv. á sínum tíma. En ég ætla að benda hv. þm. á að meginstefnan í þessu frv. var aldeilis ekki í takt við það sem Alþfl. leggur aðaláherslu á núna. Eitt af því sem hv. þm. taldi aðalplús við þetta nýja frv. var lenging lánstíma í 31 ár, en hvað var aðalefnið í frv. því sem kennt var við Magnús H. Magnússon 1978–79? Stytting lánstíma í 21 ár úr 26 árum, sem þá var í gildi. Það var nú öll nýbreytnin í því frv. Sem betur fer er þessi stefna löngu úr móð og Alþfl. reynir ekki einu sinni að nefna þetta atriði lengur. Ég vona að það verði aldrei nefnt aftur að fara inn á þá braut að stytta lánstímann því að það gefur algerlega ranga mynd af því sem við viljum gera fyrir það fólk sem við þurfum að gera mögulegt að komast yfir húsnæði.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að lengja þessar umr. Ég vil endurtaka að ekki skal standa á öllum upplýsingum um þessi mál sem ég hefði getað gefið hér í langri ræðu, en ætla ekki að gefa. Einnig á ég hérna framsöguræðu hv. 3. þm. Reykv., sem hann flutti með frv. s.l. vetur, og væri vissulega ástæða til að skoða hana og bera saman við mál hans nú.

En um framtíðina vil ég segja það sem ég nefndi sérstaklega þegar ég flutti framsöguræðu mína. Það er þegar verið að undirbúa áframhaldandi verkefni varðandi húsnæðislöggjöfina.

Það á í fyrsta lagi að gera formlega könnun á íbúðaþörf hér á Íslandi a.m.k. næstu 10–15 ár. Þetta er mjög brýnt. Við kynntumst því rækilega á „Norræna byggingardeginum“ s.l. sumar, þegar þessi mál voru rædd hér af fulltrúum allra Norðurlandanna, hvað það er gífurlega mikið atriði að við Íslendingar áttum okkur á því hvert við viljum stefna. (Forseti hringir.) — Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu.

Í öðru lagi er ég þegar búinn að fela ákveðnum aðilum úttekt á fasteignamarkaðinum. Það væri hægt að gera skipulagsbreytingu á fasteignamarkaðinum eins og hann er hjá okkur hér á landi. Þarna er vissulega stórt og mikið svið. Það er ekkert leyndarmál að sá sem ég mun fela forustu fyrir þessu er fulltrúi hjá Fasteignamati ríkisins, Stefán Ingólfsson. Ég vænti mikils af því að hægt væri í samvinnu við ýmsa aðila hér, bæði Kaupþing og marga fleiri, að koma skynsamlegri lagfæringu á fasteignamarkað hér á landi, sem er mjög mikil þörf.

Þá vil ég einnig segja frá því hér, að við erum núna að skipuleggja viðræður við bankakerfið á Íslandi um að taka virkari þátt í uppbyggingu húsnæðismála. Þetta er mjög brýnt mál og sýndi sig best þegar við vorum í samningum við bankakerfið s.l. sumar og haust, en þá tókst okkur þó að fá skuldbreytingalán til átta ára.

Einnig er nauðsynlegt, og það kemur inn á það sem hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði áðan, framhald á skipulagningu á Húsnæðisstofnuninni sjálfri og þ.m.t. tæknideild hennar. Við þurfum að taka þessi mál mjög föstum tökum, því að ég er alveg sannfærður um, og ekki síst síðustu dagana, þegar á að fara að afgreiða yfir 3000 viðbótarlán frá Húsnæðisstofnun í gegnum veðdeildina, að þarna erum við með kerfi sem er allt of seinvirkt og allt of lengi að taka við sér til hagsbóta fyrir þá sem eiga að njóta þess.

Herra forseti. Ég vonast til þess, þrátt fyrir tímaskort á Alþingi að hv. félmn. Nd. og félmn. Ed. skoði vandlega hvort ekki sé hægt að afgreiða þetta mál fyrir jól. Svo oft hefur verið tíunduð hér þörfin á því að koma ýmsum umbótum fram til hagsbóta fyrir húsbyggjendur í landinu að ég vona að það takist. — [Fundarhlé.]