20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

5. mál, réttur heimavinnandi til lífeyris

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á þskj. 5 hef ég leyft mér ásamt öðrum þm. Alþfl. að flytja till. til þál. um rétt heimavinnandi til lífeyris, gagnkvæman makalífeyri og upplýsingaskyldu lífeyrissjóða. Tillgr. orðast svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjmrh. að beita sér fyrir því í samráði við lífeyrissjóðina, að nú þegar verði komið á samræmdum ákvæðum allra lífeyrissjóða er kveði á um eftirfarandi þætti í starfsemi þeirra:

1. Makalífeyrir verði gagnkvæmur hjá lífeyrissjóðunum, þannig að bæði kynin njóti sambærilegra réttinda til makalífeyris eftir því sem reglur lífeyrissjóðanna kveða á um.

2. Áunnin stig hjóna eða sambúðarfólks verði lögð saman og skipt til helminga á sérreikningum þeirra fyrir þann tíma sem sambúð varir. sérhver aðill fái þannig greiddan lífeyri í samræmi við áunnin stig. Þeir sem eru heimavinnandi og fráskildir fari ekki varhluta af áunnum lífeyri.

3. Upplýsingaskyldu lífeyrissjóða gagnvart sjóðsfélögum á þann hátt að sérhver sjóðfélagi fái árlega sent yfirlit yfir áunnin réttindi hjá lífeyrissjóðunum.“ Um þessa þrjá þætti lífeyrisréttindakerfisins telja flm. þessarar þáltill. brýnt að þegar í stað verði sett skýr og samræmd ákvæði allra lífeyrissjóða. Tveim þessara ákvæða, þ.e. um gagnkvæman makalífeyri og ekki síst ákvæðið sem snýr að rétti heimavinnandi fólks til lífeyris, að réttur þess verði tryggður er stefnt gegn svo augljósum göllum á lífeyrisréttindakerfinu, eins og því er nú fyrir komið, að nauðsynlegt er að án tafar verði fundin viðeigandi lausn á því máli.

Fyrir réttum þremur árum fluttu þm. Alþfl. þáltill. um hvernig framtíðarskipan lífeyrisréttindamála skyldi háttað. Var sú till. útfærð í tíu töluliðum. Einn liður þeirrar þáltill. var að efni til sá hinn sami sem er í þeirri till. sem hér er til umfjöllunar, þ.e. um rétt heimavinnandi fólks til lífeyris og hvernig með þau réttindi skyldi farið. Þess er nú freistað að taka þann þáttinn er að því lýtur sérstaklega út úr þeirri till. sem flutt var á Alþingi fyrir þremur árum síðan, ásamt ákvæðum um gagnkvæman makalífeyri og upplýsingaskyldu lífeyrissjóða. Flm. till. telja að um þau ætti að vera hægt að ná samstöðu hér á Alþingi jafnvel þótt deildar meiningar séu að öðru leyti um hvernig framtíðarskipan lífeyrismála skuli háttað.

Ég tel mig ekki, herra forseti, þurfa að hafa langa framsögu um þetta mál, þar sem nokkuð ítarleg grg. og rökstuðningur fylgir með þáltill. um nauðsyn þeirra breytinga sem hér eru lagðar til. Ég vil þó fara nokkrum orðum um hvern þessara þátta fyrir sig sérstaklega, en vísa að öðru leyti til þeirrar grg. sem með þál. fylgir.

Ég vil þá fyrst taka makalífeyrinn. Ég tel að það sé atgert grundvallaratriði og sjálfsögð jafnréttiskrafa að karlmenn njóti sömu réttinda til makalífeyris og konur. Á það skal bent að þessi grundvallarregla er í heiðri höfð hjá allmörgum lífeyrissjóðum, eftir því sem ég kemst næst. Þó munu allir SAL-sjóðirnir að undanskildum lífeyrissjóði Sóknar mismuna körlum og konum að því er makalífeyrinn varðar. Þar eru ákvæðin um makalífeyri þannig að ef sjóðfélagi, sem naut elli- og örorkulífeyris eða hafði greitt í sjóðinn a.m.k. í 6 mánuði undanfarna 12 mánuði, lætur eftir sig ekkju á hún rétt á lífeyri úr sjóðnum, enda hafi hún verið orðin 35 ára að aldri við fráfall sjóðfélagans, hjónabandið hafi staðið a.m.k. í 5 ár og verið stofnað áður en sjóðfélagi varð 60 ára að aldri. Ef um er að ræða að sjóðfélagi láti eftir sig barn innan 18 ára aldurs hefur lengd hjúskapartímans ekki áhrif.

Þegar um er að ræða rétt karlmanna til makalífeyris hjá SAL-sjóðunum þá er um aðrar reglur að ræða og langt frá því að ekklarnir njóti sömu réttinda og ekkja undir sömu kringumstæðum. Við fráfall eiginkonu, hversu lengi sem hún hefur verið á vinnumarkaðnum og greitt sitt iðgjald, fær maki aðeins greiddan makalífeyri í tvö ár samkv. reglugerðarákvæðum SAL-sjóðanna. Heimilt er þó að greiða ekkli lífeyri um lengri tíma hafi hann skerta starfsorku eða hinn látni sjóðfélagi taldist aðalfyrirvinna heimilisins.

Það má vera að nokkur rök hafi legið að baki þessu fyrirkomulagi þegar konur voru að mestu inni á sínum heimilum og lítið útivinnandi. En þegar þróunin er orðin sú að báðir foreldrar þurfa að vera úti á vinnumarkaðnum til þess að standa undir framfærslu heimilanna, þá er ljóst að við fráfall annars makans leggst framfærsla heimilisins með tvöföldum þunga á eftirlifandi maka, hvort sem það er karl eða kona.

Ákvæði almannatryggingalaga um ekkju- og ekklalífeyri er auðvitað af sama toga. Þar er um að ræða ekkju og ekklabætur í 6 mánuði eftir lát makans, en þegar þær bætur falla niður á hver sú kona sem orðin er 50 ára við lát mannsins rétt á ekkjulífeyri til 67 ára aldurs, en ekkillinn á eingöngu rétt á þessum 6 mánaða ekklabótum. Hér er auðvitað um ákvæði að ræða í almannatryggingalögunum sem huga þarf að breytingu á.

Á síðasta Alþýðusambandsþingi árið 1980 var samþykkt ályktun um að skora á alla lífeyrissjóði að breyta reglugerðum sínum á þann veg að réttur til makalífeyris væri gagnkvæmur og afnema það misrétti sem felst í núverandi löggjöf. Þetta hefur alls ekki náð fram að ganga í öllum lífeyrissjóðunum, eins og ég hef hér lýst, og tilgangur með flutningi þessa ákvæðis í þáltill. er að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að knýja á um að reglugerðarákvæðum allra þeirra lífeyrissjóða sem enn búa við kyngreindan makalífeyri verði breytt.

Það ákvæði tel ég þó mikilvægast í þessari þáltill. og legg mesta áherslu á, sem kveður á um rétt heimavinnandi fólks til lífeyris og að réttur þess í því efni sé tryggður. Hægt er að gefa af því nokkra mynd hvað margar konur það eru, sem standa utan við lífeyrisréttindakerfið, ef skoðuð er nafnaskrá fjmrn. sem gefin var út í ágúst 1982. Þar gefur að líta skrá yfir alla stærstu lífeyrissjóðina og má gera ráð fyrir að það sé skrá yfir um 90 til 95% þeirra sem einhverra réttinda njóta í lífeyrissjóðum. Samkv. þeirri skrá voru utan lífeyrissjóða rúmlega 38 þús. manns, sem þá voru 16 ára og eldri, eða fæddir 1965 eða fyrr. Þar af voru 24 432 konur, eða 65% þeirra sem voru utan lífeyrissjóða, en 13 721 karl eða 35% þeirra sem utan lífeyrissjóðs stóðu. Hægt er einnig að gefa mynd af því hvernig dæmið lítur út ef teknar eru konur sem voru á þjóðskrá 1981 og voru fæddar 1965 eða fyrr. Þar kemur fram að af 92 140 konum, sem voru á þjóðskrá og fæddar voru á tímabilinu 1882-1965, voru 24 432 utan lífeyrissjóða, eða um 27%, meðan rúmlega 14% karla, sem á þjóðskrá voru, voru utan lífeyrissjóða. Í þessari nafnaskrá kemur fram að utan lífeyrissjóða voru 7 057 ógiftar konur og 11 224 giftar konur. Af ekkjum voru 4 368 utan lífeyrissjóða og 802 fráskildar konur voru utan lífeyrissjóða.

Ég tel að þessi mynd, sem ég hef hér dregið upp úr nafnaskrá fjmrn., gefi okkur nokkuð glögga mynd af því hve brýnt er að leysa þetta mál svo að þeim sem eru heimavinnandi verði tryggð lífeyrisréttindi. Það er fráleitt að lífeyrisréttindi þeirra sem eru heimavinnandi, sem einkum eru konur og hafa kannske lítið sem ekkert verið á vinnumarkaðinum, skuli vera svo ótrygg sem raun ber vitni. Staðan er í raun þannig t.d. í skilnaðarmálum, að sá aðili sem ekki hefur verið á vinnumarkaðinum er í raun réttindalaus. Fráskilin kona hefur t.a.m. engan rétt og engar kröfur til lífeyris frá lífeyrissjóðunum við fráfall mannsins. Kona, sem þannig er ástatt um, á aðeins rétt á lífeyri almannatrygginga. Í þessu efni sem og mörgum öðrum þáttum er að lífeyrissjóðsmálum lúta er réttarstaðan tryggari hjá hinu opinbera. Réttarstaða þeirra þar er nokkuð tryggari, t.d. að því er makalífeyrinn varðar, því að ef sjóðfélagi deyr, sem verið hefur tvígiftur, þá skiptist makalífeyririnn milli beggja kvennanna í beinu hlutfalli við þann tíma sem hvor þeirra fyrir sig hefur verið gift hinum látna þegar hann ávann sér lífeyrisréttindi. Í þessu efni liggur einnig fyrir ályktun ASÍ-þings, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þess verði gætt að jöfnuður sé á milli lífeyrisréttinda hjóna eða sambúðarfólks án tillits til þess hvort aflar réttindanna.“

Hér er auðvitað um mjög eðlilega kröfu að ræða og svo sjálfsagða að löggjafarvaldið getur ekki komist hjá því að leggja sitt af mörkum og beita sér fyrir því eins og hægt er að umsvifalaust verði ráðin bót á þessu máli. Það er grundvallaratriði í lífeyrismálum hjóna og sambúðarfólks sem og öðrum réttindamálum í þjóðfélaginu, jafnt á vinnustað sem annars staðar, að þar njóti bæði kynin að öðru jöfnu sambærilegs réttar.

Þriðja ákvæði þessarar þáltill. kveður á um upplýsingaskyldu lífeyrissjóða gagnvart sjóðfélögum á þann hátt að sérhver sjóðfélagi fái árlega sent yfirlit yfir þegar áunnin réttindi hjá lífeyrissjóðunum. Ástæðan fyrir þessu ákvæði er að með núverandi fyrirkomulagi í lífeyrissjóðunum, þegar starfandi eru nær 100 lífeyrissjóðir í landinu og fólk getur átt réttindi í mörgum sjóðum, er það erfitt og nánast útilokað að átta sig á réttindum sínum þegar um er að ræða réttindi hjá fleiri en einum sjóði. Ekki síst er þetta erfitt þar sem réttindagreiðslur eru mjög misjafnar hjá sjóðunum. Í nafnaskrá um lífeyrisréttindi, sem gefin var út af fjmrn. í ágúst 1982, kemur fram að sami sjóðfélagi getur átt réttindi í allt að 13 lífeyrissjóðum í einu. Sem dæmi má taka að í tveim sjóðum áttu 42 þús. manns lífeyrisréttindi, í þremur sjóðum rúmlega 23 þús. manns, í fjórum sjóðum rúmlega 11 þús. manns, í fimm sjóðum rúmlega 5 þús. manns og í sex sjóðum rúmlega 2 þús. manns. Þetta gefur nokkra vísbendingu um hve brýnt er að koma þeirri reglu á í starfsemi lífeyrissjóðanna að þeir séu skyldaðir til þess að senda árlega yfirlit til hvers sjóðfélaga til þess að hann geti betur áttað sig á sinni stöðu.

Herra forseti. Ég tel ekki nauðsynlegt að gera þessari þáltill. frekari skil, nema tilefni gefist til, því eins og ég sagði í mínum upphafsorðum þá fylgir með henni ítarleg grg. að því er þetta varðar. Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja til að þáltill. verði vísað til hv. allshn.