12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að byrja á því að biðjast velvirðingar á raddstyrk mínum, en ég vænti þess að aðrir geti bætt það upp síðar í kvöld svo það komi ekki mjög að sök.

Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, en núgildandi lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi okkar eru nr. 81 frá 31. maí 1976 og hafa á þeim verið gerðar þrjár minni háttar breytingar frá setningu laganna, með lögum nr. 42/ 1977, lögum nr. 67/1979 og lögum nr. 38/1981, og eru allar þessar breytingar tiltölulega smáar í sniðum.

Frv. til l. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands var lagt fram á Alþingi í febrúarmánuði 1976 eftir að hafa fengið ítarlega umfjöllun allt frá árslokum 1974 í nefnd sem skipuð var bæði fulltrúum hagsmunaaðila og alþm.

Má segja að samþykkt frv. á Alþingi í maímánuði 1976 hafi verið veigamesti þátturinn í þeirri endurskoðun laga og reglugerðar um fiskveiðar sem gerð var um það leyti sem Íslendingar fengu full yfirráð yfir 200 sjómílna fiskveiðilandhelginni.

Enda þótt vel hafi verið að lögum frá 1976 staðið og í þeim fjölmörg nýmæli á þeim tíma hefur þróunin í fiskveiðum og stjórnun þeirra orðið að mörgu leyti önnur en menn hugðu þegar þessi lög voru samþykkt. Ástand fiskstofna, aukinn fiskveiðifloti og ný tækni hafa valdið því hér á landi eins og annars staðar að gripið er til nýrra og virkari stjórnunaraðgerða í veiðum og vinnslu í því skyni að nýta nytjastofna okkar á sem skynsamlegastan hátt.

Nú er svo komið að beitt er ýmsum aðgerðum við stjórnun veiða sem engum kom í hug fyrir nokkrum árum. Má sem dæmi nefna þær sóknartakmarkanir sem verið hafa á þorskveiðum undanfarin ár og skiptingu aflakvóta milli veiðafæra og báta. Þar sem lögin frá 1976 hafa að ýmsu leyti reynst ófullnægjandi sem lagastoð fyrir ýmsum ákvörðunum varðandi skipulag veiða hefur verið leitað halds í lögum nr. 44 frá 5. apríl 1948, en í þeim er víðtæk heimild til setningar reglna til verndar fiskimiðum í fiskveiðilandhelginni. Hins vegar hefur þetta skapað ýmis vandamál, þar sem viðurlög við brotum á lögum frá 1948 og lögum frá 1976 eru mjög mismunandi. Enn fremur heimila lögin frá 1948 aðeins útgáfu reglna til verndunar fiskimiðum og hefur það skapað nokkra óvissu um lagagildi sumra reglna varðandi stjórnun fiskveiða sem nauðsynlegar hafa þótt og fyrirsjáanlegt er að þurfi að beita í framtíðinni. Þá má og nefna að gildissvið laganna frá 1948 og 1976 eru í mörgum tilvikum bundið við fisk og fiskveiðar, en nú eru stundaðar veiðar á ýmsum tegundum sjávardýra sem ekki teljast til þeirra tegunda, og er full ástæða til þess að setja heildarlög sem taki einnig til nýtingar þessara stofna.

Þann 4. maí 1982 skipaði þáv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson nefnd til að endurskoða lög nr. 81 31. maí 1976 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Fulltrúar hagsmunaaðila áttu sæti í nefndinni. Í janúarlok 1983 skilaði nefndin frv. til l. um veiðar í landhelginni til ráðh. Ekki tel ég ástæðu til að tíunda hér þær breytingar sem nefndin lagði til að gerðar yrðu á gildandi lögum, en vísa þess í stað til grg. með frv. Ýmissa orsaka vegna var frv. þetta ekki lagt fram á síðasta þingi. Þurfa ýmsir þættir þess frekari athugunar við. Nauðsynlegt er að halda þeirri vinnu áfram. M.a. er mjög mikilvægt að breyta reglum varðandi stærð skipa og ákvæðum um landhelgislínu. Hins vegar ber brýna nauðsyn til að þær breytingar sem hér eru lagðar fram nái fram að ganga, og er frv. þetta því lagt fram í þessari mynd. Hér skal tekið fram, að ákvæði þau sem hér eru lögð fram eru í meginatriðum efnislega samhljóða till. nefndarinnar.

Meginrök fyrir breytinum á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelginni í þá átt að veita sjútvrh. auknar heimildir frá því sem nú er til stjórnunar og takmörkunar á fiskveiðum í fiskveiðilandhelginni eru þessi:

1. Vegna þess að ástand fiskstofna, einkum þorsks, hér við land er óvenjulega slæmt er brýn þörf á vísindalegri stjórnun á fiskveiðum landsmanna í enn ríkari mæli en nú á sér stað.

2. Helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi og Fiskiþing hafa eindregið óskað eftir að stjórnvöld auki

verulega á stjórnun fiskveiða.

3. Eigi að auka stjórn fiskveiðanna frá því sem nú er verður að umbylta núverandi fyrirkomulagi. Slíkt krefst rýmri heimilda til handa sjútvrn. til stjórnunar en nú eru í gildi.

4. Svo skammt er liðið síðan Hafrannsóknastofnun setti fram skýrslu um alvarlegt ástand helstu fiskstofna okkar að skjótt verður að bregðast við svo að koma megi við aukinni stjórnun og takmörkunum á fiskveiðum á næsta ári.

Vil ég þá víkja að einstökum greinum frv., en í 1. gr. frv. er fyrst kveðið á um að ráðh. fái heimild til að ákveða hámark þess afla sem veiða má úr einstökum fiskstofnum og af sjávardýrum á ákveðnu tímabili, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar. Hér er gengið lengra en í lögum nr. 81/1976, þar sem slík heimild er bundin við að fiskstofn sé hættulega ofveiddur og viðkoma hans því í hættu. Nauðsyn þess að auka vald ráðh. í þessu tilliti byggist fyrst og fremst á því að líta verður á alla fiskstofna og veiðar úr þeim í heild sinni, en ekki hvern og einn út af fyrir sig. Ef takmarka þarf verulega sókn í einn fiskstofn vegna þess að hann er í yfirvofandi hættu eykst sóknin óhjákvæmilega í aðra stofna með þeim afleiðingum að ofveiði getur átt sér stað á einstaka tegundum sem áður voru í jafnvægi. Af þessu höfum við bitra reynslu, en eitt dæmi um það er þegar loðnuskipaflotinn sneri sér að þorskveiðum eftir að loðnuveiðar voru bannaðar. Sóknin í þorskstofninn jókst og hefur það átt sinn þátt í því hvernig nú er komið fyrir þessum stofni, þótt það sé engan veginn viðhlítandi skýring.

Einnig má nefna það að takmörkun á þorskveiðum hefur leitt til mjög aukinnar sóknar í karfastofninn, en það er ljóst að sú sókn getur ekki haldið áfram til margra ára í viðbót. Vegna þessa samspils er ekki nægjanlegt að setja aflahámörk einungis á þá fiskstofna sem eru hættulega ofveiddir, heldur verður að setja aflahámark jafnframt á aðra helstu nytjastofna til að forða þeim frá ofveiði. Í fiskverndarmálum ber brýna nauðsyn til að grípa til aðgerða í tæka tíð áður en skaðinn er skeður. Því er nauðsynlegt að ráðh. hafi vald til grípa inn í gang mála þegar m.a. vísindaleg rök mæla með að svo sé gert. Því ber brýna nauðsyn til að ákveða aflahámark nú á næstu dögum svo að mótun fiskveiðistefnu næsta árs geti haldið áfram.

Í 1. gr. er einnig gert ráð fyrir því að ráðh. fái heimild til að skipta hámarksafla í hverjum fiskstofni milli einstakra veiðarfæra, fiskiskipagerðar og einstakra skipa. Gert er ráð fyrir því að ráðh. geti ákveðið skiptingu hámarksaflans milli skipa, m.a. með hliðsjón af fyrri veiðum skipanna, stærð eða gerð þeirra svo og heimilað flutning á úthlutuðum aflakvóta milli skipa. Heimild til þessa, sem hér hefur verið rakið, er nauðsynleg þegar hámarksafli úr einstökum fisktegundum er verulega takmarkaður eins og nú verður að gera með helstu fiskstofna okkar. Heimildin um að ráðh. megi skipta þeim afla sem til skiptanna er hverju sinni gerir honum kleift að tryggja öllum sem nytjað hafa fiskimiðin rétt til að gera það áfram og jafna tímabundnum aflasamdrætti réttlátlega niður á öll skip í landinu. Slík niðurjöfnun er nauðsynleg þegar áföll eins og þau sem við nú stöndum frammi fyrir ber svo skyndilega að garði. Stjórnvöld geta með engu móti dæmt skip fyrir fram úr leik. Tíminn einn verður að leiða í ljós hvort skip stöðvast eða ekki. Á þessari stundu er því miður ekki mikið hægt að segja til um hvernig staðið verður að þessari skiptingu, þ.e. hvort aflakvótinn verður settur á öll fiskiskip eða gengið eitthvað skemur í þá átt. Þá liggur ekki ljóst fyrir hvernig megi skipta aflanum réttlátlega milli skipa, t.d. hvort eigi að miða við veiði þeirra undangengin þrjú ár eða hvort skuli tekið tillit til annarra þátta að einhverju leyti, svo sem stærðar þeirra, svo að eitthvað sé nefnt.

Þessar aðferðir, sem hér voru nefndar, og margar aðrar, sem til greina koma, hafa allar bæði kosti og galla sem vega þarf og meta. Að því starfi er nú unnið af eins mikilli kostgæfni og frekast er unnt, m.a. af rn., hagsmunasamtökum, Fiskifélagi Íslands, Hafrannsóknastofnun og Raunvísindastofnun háskólans. Við þetta bætist að stjórnvöld hafa nú betri möguleika en áður að vega og meta hinar ýmsu stjórnunarleiðir, sem til greina koma við þessar takmarkanir, þar sem hægt er að prófa þær í þar til gerðu sjávarútvegslíkani sem spáir um framvinduna sé þessi eða hin leiðin valin. Gerð þessa reiknilíkans til að vega og meta áhrif breytinga á fiskveiðistefnu, á afla og afkomu hefur staðið yfir í fjögur ár. Verkið hefur verið unnið í samstarfi nokkurra stofnana, einkum Raunvísindastofnunar háskólans og Hafrannsóknastofnunarinnar, að frumkvæði sjútvrn. Markmið starfsins var að gera reikningslegt líkan af sjávarútveginum byggt á reynslu margra undangenginna ára sem gæti spáð nokkur ár fram í tímann um m.a. þorskafla og afkomu veiðanna að gefnum einhverjum forsendum eins og um stærð, gerð og samsetningu fiskiskipaflotans, fiskveiðistefnu og ástand fiskstofna. Þetta reiknilíkan er þegar komið í notkun til að meta hinar ýmsu stjórnunarleiðir samhliða því að sami starfshópur og vann við gerð líkansins vinnur að endurbótum og útvíkkun á reikningsaðferðum við stofnstærðarmat og mælingu sóknar í fiskstofna.

Með öðrum heimildum í þessari grein, eins og þeirri að ráðh. geti sett reglur um leyfilega sókn tiltekinna gerða fiskiskipa með tilteknum veiðarfærum í ákveðna nytjastofna, er m.a. verið að veita afdráttarlausari heimild til sóknartakmarkana þeirra sem notaðar hafa verið við takmörkun á þorskveiðum undanfarin ár, þ.e. skrapdagakerfið svokallaða og þær takmarkanir sem bátar hafa sætt, svo sem stytting vetrarvertíðar, takmörkun netafjölda o.s.frv.

Í 2. gr. frv. eru auknar heimildir til dragnótaveiða, en eins og flestum er kunnugt hefur orðið mjög alvarlegur samdráttur í sölu á saltfiski og skreið. Vegna þessarar óvissu á mörkuðum er vert að íhuga hvort við getum á einhvern hátt breytt veiðiaðferðum okkar þannig að fiskurinn sé gjaldgengur í fleiri og sem flestar vinnslurásir og aukið þannig veiðar í þau veiðarfæri sem betri fisk veiða á kostnað þeirra sem lakari fiskinn veiða. Það er skoðun flestra að við verðum með einhverjum hætti að reyna að auka veiðar sem skila betri gæðum og dragnót kemur þar mjög til greina. Dragnótin getur í mörgum tilvikum leyst netin af hólmi og skapað okkur miklu betra hráefni. Dragnótin hefur þá kosti að það er einfalt að stjórna kjörhæfni veiðarfærisins, sem tryggir að í hana veiðist ekki smáfiskur. Veiðarfærið er ódýrt, útgerðarkostnaðurinn sáralítill miðað við flestar gerðir veiðarfæra.

Í núgildandi lögum eru heimildir til dragnótaveiða bundnar við báta sem eru minni en 20 metrar og er veiðitímabilið 15. júní til 30. nóv. ár hvert. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að heimild sé fyrir ráðh. að veita leyfi til dragnótaveiða líkt og til annarra veiða sem háðar eru leyfum. Í þessu sambandi má geta þess að Norðmenn hafa aukið heimildir til dragnótaveiða í stað netaveiða og á s.l. vetrarvertíð stunduðu 150 norsk skip dragnótaveiðar í stað netaveiða með góðum árangri.

Það er rétt að það komi fram að æðimargir eru haldnir nokkrum fordómum í garð þessa veiðarfæris og telja það hinn mesta bölvald. Þetta eru áreiðanlega eftirstöðvar af því að fjöldi dragnótabáta stundaði afleitar veiðar hér áður fyrr með smáriðnum vörpum sem engu slepptu. Í þessum efnum verður að sjálfsögðu að gæta hófs eins og í öðru. Við þurfum að þróa veiðarfærið í okkar þágu. Við megum t.d. ekki nota það eins og hverja aðra þorskanót. Þess vegna þarf eins og með aðrar leyfisbundnar veiðar að móta reglur um gerð og notkun veiðarfærisins.

3. gr. frv. fjallar um leyfisbindingar, en binding leyfa hefur viðgengist hér á landi um langt skeið og munu rækjuveiðar vera fyrsti veiðiskapurinn sem stjórnað var með leyfafyrirkomulagi. Með auknum takmörkunum á veiðum hafa jafnframt aukist afskipti stjórnvalda af þeim og er nú svo komið að togveiðar, línuveiðar og handfæraveiðar eru nær einu veiðiaðferðirnar sem eru óháðar leyfum stjórnvalda. Eins og kunnugt er eru heimildir til að gera ákveðnar veiðar leyfisbundnar ákveðnar í lögum eða reglugerðum eða settar samkvæmt þeim. I höfuðatriðum er tilgangur með leyfakerfi tvíþættur:

Í fyrsta lagi gerir það stjórnvöldum kleift að hafa áhrif á hverjir og hve margir geti stundað tilteknar veiðar á tilteknum svæðum. Í sumum tilfellum fá aðeins þeir leyfi sem búsettir eru við veiðisvæðin eða hafa stundað veiðarnar áður. Hins vegar er oft nauðsynlegt að binda útgáfu veiðileyfa við ákveðna stærð skipa. Reynast þessar takmarkanir oft nauðsynlegar; ef margir aðilar sækja um leyfi til sömu veiða.

Í öðru lagi eru skipstjórum skipa settar ákveðnar reglur í leyfisbréfum, sem þeim ber að fara eftir við veiðarnar, t.d. hámarksaflamagn, veiðisvæði, veiðarfæri, reglur um meðferð afla o.s.frv.

4. gr. frv. fjallar um viðurlög og sé ég ekki ástæðu til að fjalla um hana, en í 5. gr. er fjallað um auknar heimildir til togveiða á afmörkuðum svæðum. Þegar svo er komið að við verðum að takmarka veiðar okkar á helstu nytjastofnum, eins og raun ber vitni; verðum við að beina sókn hluta flota okkar í þær tegundir sem vannýttar eru, ef þær eru þá einhverjar. Þarna gæti helst verið um að ræða ýmsar kolategundir og steinbít. Samkv. núgildandi lögum eru togveiðar bannaðar á mörgum góðum kola- og steinbítssvæðum. Til þess að nýta megi þessa stofna er nauðsynlegt að hafa í lögum heimild fyrir rn. til að geta leyft takmarkaðar togveiðar á þessum svæðum. Með því móti er mögulegt að beina hluta flotans frá þorskveiðum í kola- og steinbítsveiðar á ýmsum árstímum. Einsýnt er að þessari heimild verður að beita með fullri varúð. Þegar þessi svæði eru ákveðin er nauðsynlegt að undirbúa það vei. Sömuleiðis þarf að fylgjast vel með veiðunum, aflasamsetningu, stærð fisks o.fl.

Þá er rétt að taka það sérstaklega fram, að verði frv. þetta, sem ég mæli hér fyrir, að lögum verður óhjákvæmilegt, eins og ég hef áður vikið að, að endurskoða hinar almennu togveiðiheimildir samkv. 3: gr. laganna. Slík athugun og endurskoðun verður að halda áfram í framhaldi af máli þessu og væntanlega væri hægt að leggja fram frv. um það efni síðar í vetur. Eins og ég hef áður vikið að þarf endurskoðun þessi að taka til réttinda einstakra skipa, en því miður ríkir mikið misræmi í þeim efnum og óeðlitegur vafi ríkir þar um oft og tíðum.

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að hafa um mál þetta miklu lengra mál í upphafi. Það ríkja á margan hátt óvenjulegar aðstæður í okkar sjávarútvegsmálum. Við höfum þurft um langan tíma að hafa mikil opinber afskipti af fiskimiðunum umhverfis landið. Það hefur verið meginregla í íslenskum fiskveiðum. Það má alltaf um það deila hversu mikil þessi afskipti skulu vera, en hjá því verður ekki komist af mörgum ástæðum, m.a. vegna þess að sveiflur í okkar sjávarútvegi, sem er uppistaðan má segja í lífinu í landinu, eru miklar og þær verður að jafna með einhverjum hætti, ekki aðeins með því að leggja hluta af tekjunum í sjóði, heldur einnig með því að jafna aflabrögðin og vernda fiskstofnana. Það er einnig ljóst að þegar til lengdar lætur leiðir óheft sókn til ofnýtingar á fiskstofnunum og það er hætt við því að vegna þessa hugsi hver og einn meira um eigin sókn og afla og þar af leiðandi eigin afkomu í stað þess að við verðum að huga að heildarafkomu þjóðarbúsins.

Við þær óvenjulegu aðstæður sem nú eru upp komnar er nauðsynlegt að auka þessi afskipti og breyta þeim. Það verður ekki létt hlutverk, ég geri mér það ljóst, og því miður sjáum við ekki fyrir endann á því nú með hvaða hætti því verður ráðið til lykta. Því er það eðlilegt að sú löggjöf sem hér er verið að tala um gildi aðeins í skamman tíma því að þessi mál verða ekki ákveðin í eitt skipti fyrir öll. Við verðum að feta okkur áfram. Það eru allir sammála um það — eða flestir — að við verðum að breyta um: Við getum ekki haldið áfram því kerfi sem hefur verið hét við lýði á undanförnum árum. Ég nefni sérstaklega að Landssamband ísl. útvegsmanna samþykkti á stjórnarfundi 9. des. að mæla með því að á næsta ári verði leyfilegum aflakvóta helstu fisktegunda skipt á einstök skip í hlutfalli við afla þeirra undanfarin þrjú ár, en tekur einnig fram að í þessu efni verði þó nauðsynlegt að meta aflakvóta nýrra og nýtegra skipa og frátafir skipa frá veiðum sem stafa af óviðráðanlegum ástæðum. Einnig kom það mjög skýrt fram á Fiskiþingi, sem nýlega var haldið, og er samþykkt Fiskiþings birt í grg. með frv.

Mér er fullkomlega ljóst að þessar samþykktir eru ekki tilkomnar vegna þess að allir þessir aðilar æski sérstaklega eftir því að kerfi sem þetta verði tekið upp. Hér eru hins vegar komnir saman þeir aðilar sem best þekkja til í sjávarútveginum og gera sér grein fyrir því að ekki er hægt að halda áfram núgildandi kerfi og þess vegna sé rétt að reyna kvótakerfið við núverandi aðstæður og telja að með þeim hætti verði áföllunum jafnað niður með réttmætustum hætti. Það er hins vegar ekki hægt að fullyrða á þessari stundu hversu víðtækt kvótakerfið verður. Um það eru að sjálfsögðu deildar meiningar. Sumir telja að ekki þýði að taka það upp nema það nái til allra skipa, bæði togara og báta, og alveg niður í 12 rúmlestir.

Mér hefur stundum fundist að menn ætli sér um of í þessum efnum og það væri mikilvægara að byrja t.d. með þeim hætti að taka upp kvótakerfið fyrir togarana og vertíðina. En hins vegar er mér ljóst að það verður einnig að taka tillit í því sambandi til ýmissa sérréttinda og sérveiða sem skipin hafa á öðrum tímum, þannig að ekki verði hjá því komist að taka nokkurt mið af veiðinni allt árið. Hins vegar er það nú svo, að margir eru hræddir við að þar með fari öll hvatning úr veiðunum og kappið hverfi, sem einkennt hefur fiskimenn okkar gegnum tíðina. Að sjálfsögðu má hugsa sér að halda ýmsu utan við kvótakerfið þó að það verði einnig erfitt. Ég segi það fyrir mig að ég er t.d. mikill áhugamaður um að línuveiði aukist hér við land, sem hefur dregið allt of mikið úr. Það mætti þess vegna vel hugsa sér að halda slíkum veiðum með einhverjum hætti utan við kvótakerfið, þannig að menn hefðu þá að einhverju að hverfa ef tími væri til. Sá afli sem fæst á línu er einkum ýsa, keila og langa. A.m.k. keilan og langan eru ekki stofnar sem nein hætta er með. Ýsustofninn hefur verið tiltölulega sterkur, en er nú kominn í nokkra lægð og hefur Hafrannsóknastofnunin lagt til að dregið verði úr þeim veiðum. Um þetta þarf að fjalla nú alveg á næstunni, sérstaklega við hagsmunaaðila í sjávarútveginum. Vegna þess að það er ekki séð fyrir endann á fiskveiðistefnunni fyrir næsta ár, þykir nauðsynlegt að hafa samráð um það við sjútvn. Alþingis og er ákvæði þess efnis í 1. gr. frv.

Það hefði að sjálfsögðu verið mun betra að allt þetta hefði legið fyrir og út af fyrir sig get ég vel skilið þá aðila sem harma að svo skuli ekki vera: Hitt er svo annað mál, að Alþingi þarf að veita þær heimildir sem hér um ræðir ef það á að vera hægt að setjast niður með hagsmunaaðilunum á næstunni til að marka þessa stefnu. Þeir hafa óskað mjög eftir því og ég vænti þess að hv. Alþingi sjái sér fært að veita þessar heimildir. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þær heimildir eru veittar í trausti þess að fullt og eðlilegt samráð verði haft við sjávarútvegsnefndir þingsins þegar eitthvað frekar liggur fyrir í þessum efnum.

Ég vonast eftir því að um þetta geti orðið sem best samstaða hér á þinginu og einnig í landinu. Hér er ekki um mál að ræða sem ætti að vera deilumál á milli flokka. Hér er um viðkvæmt mál að ræða sem varðar hagsmuni hvers einasta byggðarlags og hvers einasta mannsbarns í landinu. Það er mjög mikilvægt að allir þeir sem eiga hagsmuna að gæta setjist niður og reyni að ná sem bestu samkomulagi í þessu efni. Hitt er svo annað mál, að það verður aldrei gert svo að öllum líki í þessu sambandi. Það er því miður alltaf nokkur togstreita á milli tegunda veiðiskipa, milli tegunda veiðarfæra, milli einstakra landshluta og byggðarlaga. Sú togstreita verður sjálfsagt alltaf einhver, en það er mikilvægt að hún verði sem minnst. En það er nú svo þegar að kreppir eins og nú í íslenskum sjávarútvegi að þá sjá menn best hvað mikilvægt er að draga úr kostnaði við sóknina og auka verðmæti aflans. Ég leyfi mér að fullyrða að það verði því aðeins gert að við breytum um fiskveiðistefnu á næsta ári. Þetta frv. er forsenda þess að slíkt sé hægt að gera.

Ég vil svo að lokum leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.