12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Enn þá einu sinni stöndum við hér í stól og segjum: Eitthvað verður að gera. Og enn þá einu sinni erum við á skipulegu undanhaldi undan vandamálunum. Það væri nú gaman ef við gætum einhvern tíma snúið þessu við.

Fyrst vil ég gera aðdraganda þessa máls að umtalsefni.

Það hefur komið fram hérna áður að svo virðist sem umræða hafi farið fram um þetta mál á undanförnum misserum kannske víðast annars staðar en á þingi. Við munum eftir dæmum t.d. eins og með svörtu skýrsluna sem kom fram og fréttir bárust af frá Akureyri áður en Alþingi frétti af henni. Hagsmunaaðilar hafa haft ýmis afskipti af málinu alveg frá byrjun — alveg frá því í maí 1982 þegar nefnd tók til starfa við að endurskoða lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þessi nefnd skilaði af sér í janúar 1983.

Nú eru Alþingi og Sjávarútvegsnefndir þess komin í mikla tímaþröng við að afgreiða málið. Mig langar til þess að minna í þessu sambandi á hugmyndir um aukna hlutdeild þingnefnda í tilbúningi og endurskoðun mála og laga. Þarna tel ég vera ágætt dæmi um að ef sjávarútvegsnefndir hefðu fylgst betur með þessu máli, jafnvel þó ekki hefði verið nema frá í haust þegar þing kom saman, værum við betur stödd í þessu máli núna. Mér ber skylda til að taka fram að það var raunar vísir að þessu, vegna þess að nefndum voru tilkynnt þessi drög 1. des., en þá voru tveir mánuðir frá þingsetningu og þessar nefndir hafa lítið sem ekkert haft að gera og hefðu betur notað tíma sinn svolítið betur. Þessum atriðum er ekki beint til ríkisstj. Hún er ekkert verri þessi en vant er. Hérna er bara verið að tala um starfshætti í þinginu og aukið frumkvæði nefnda og ég vil leggja á það mikla áherslu. En ég fagna þessum vísi til breyttra vinnubragða sem kannske eru komin hér og vona að það verði til einhvers meira. Þetta var almennt um vinnubrögð.

En ef við snúum okkur að frv. er hægt að setja efni þess í eina setningu. Það er hægt að segja: Ráðh. getur gert það sem honum þóknast í fiskveiðimálum innan lögsögunnar. Það er mergurinn málsins. Aðalatriði þessa frv. eru tvö: Í fyrsta lagi gerir það kleift að leyfisbinda allar veiðar og í öðru lagi heimilar það kvótaskiptingu. Og þó ekki sé annað en þessi tvö atriði, þó sakleysisleg séu, þá getur það að koma á kvóta sem miðast t.d. við afla undanfarinna ára valdið stórkostlegum breytingum í landinu. Þetta getur haft áhrif á öll önnur mál. Ég frétti frá einum stað norður í landi þar sem menn eru þegar búnir að reikna sig í land í fjóra mánuði á næsta ári með vasatölvunum sínum og þeir eru búnir að skipuleggja landleguna. Fólk er farið að hafa áhyggjur af atvinnu sinni og sveitarstjórn af atvinnuástandi á staðnum. Þetta er lítið dæmi um hver áhrif þessa frv. verða ef kvóta verður komið á samkv. heimildarákvæðum þess. Það mun hafa áhrif á landshluta, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Þessi áhrif verða á atvinnumál, félagsmál, fjölskyldumál, byggðastefnu, peningamál í rekstri fyrirtækja, bankastarfsemi og yfirleitt flest það sem máli skiptir. Ég nefni þetta einungis til þess að sýna í örfáum orðum umfang máts sem Alþingi mun nú taka 2–3 eftirmiðdagsstundir til að ræða. Þetta er hugsanlega eitthvert afdrifaríkasta mál sem hefur komið inn á borð hér jafnvel svo að árum skiptir.

Hver verða áhrif þessa á sjávarútveginn? Það má kannske orða þetta þannig, að frv. sé neyðarúrræði til að aðlaga útgerð og fiskveiðar í landinu að vitleysum sem hafa verið gerðar á undanförnum árum. Sú raunverulega uppstokkun sem hefði kannske þurft til þess að koma þessum greinum vel á fót hefði vafalaust valdið slíkum átökum milli flokka og innan flokka, milli byggðarlaga og innan og landshluta að þetta er kannske spor í rétta átt. Almennt talað virðist mér þetta ekki leysa rekstarvanda útvegsins, en þetta gefur mönnum kannske tækifæri til að aðlaga reksturinn þeim vanda sem fyrir er og skapa hugsanlega einhverja hagræðingu.

Ef við lítum aðeins nánar á þetta má t.d. segja að í þeim tilfellum að útgerð og vinnsla sé á sömu hendi mun hagræðing, betra skipulag á veiði og vinnslu vafalaust leiða til einhverrar aukningar verðmæta. Þar koma náttúrlega til aukin gæði aflans og kannske lækkaður rekstrarkostnaður við sókn. Þannig mun þetta skila einhverjum bata. En ég er hræddur um að þessi verðmætaaukning muni í raun ekki ráða úrslitum um afkomu þessarar greinar vegna þess að vandi hennar virðist manni vera miklu meiri en sem þessu næmi. Og ef við tökum annað dæmi, þá mun þessu kvótakerfi fylgja gífurleg eignatilfærsla. Nýleg, góð, traust og vel búin skip, sem hafa kannske haft fiskifælur við skipstjórn að undanförnu, geta lækkað í verði vegna þess að þau bera með sér lélegan kvóta. Hins vegar geta manndrápsfleytur á síðasta snúningi orðið verðmætar á einni nóttu vegna þess að þeim fylgir góður kvóti. Þetta er lítið dæmi um hvað þetta hefur í för með sér. Það er kannske vert að minnast í þessu sambandi að á undanförnu ári eða tveimur hefur verið verulega mikið um tilfærslu skipa, um skipasölur á landinu. Og síðan spyr maður: Hver gefur og hver tekur þessi verðmæti? Það er ráðh. Og þá kemur grundvallarspurningin: Hefur hann þá umráðarétt yfir þeim auðlindum, yfir þeim peningum, yfir þeim millj. sem verið er að dreifa með þessu lagi?

Ef við lítum aðeins á aðra búgrein þar sem kvótakerfi var komið á, sem er landbúnaðurinn, þá virðist mér ljóst að kvótakerfi í landbúnaði leysti þar engan sérstakan vanda nema hluta af offramleiðsluvandanum. Það virðist ekki hafa leitt til lækkaðs framleiðslukostnaðar eða bættrar stöðu bændastéttarinnar. Það hefur ekki haft í för með sér þá hagræðingu.

Eitt atriði, sem vert er að minnast á líka í þessu sambandi, er að greinin öll, sjávarútvegurinn, hneppist á vissan hátt í fjötra, eins og hæstv. ráðh. minntist á áðan. Það gefast ekki tækifæri, segjum fyrir frískt og kappsamt fólk, til þess að rífa upp rekstur eða breyta til batnaðar þar sem þess er þörf.

Þessi dæmi vildi ég nú taka. Ef ég tek þetta saman sýnist mér að kvótakerfið gæti aukið hagræðingu, nýtingu og gæði afla að einhverju marki, a.m.k. þar sem veiðar og vinnsla eru á sömu hendi. Þessu mun hins vegar fylgja gífurleg eignatilfærsla í landinu og olnbogarými til átaka og breytinga í rekstri verður mjög takmarkað.

Þetta er meira almennt um kvótakerfi. Mér sýnist að það sé tvennt sem skiptir höfuðmáli í sambandi við nánari útfærslu á kvótanum. Fyrra atriðið er reiknireglur eins og eðlilegt er, en hið seinna eru reglur um framsal kvóta sem menn hafa kannske helst minnst á í aukasetningum. Þarna er spurning um reglur um framsal, t.d. hvort megi skiptast á kvótum milli tegunda fiska eða skipa eða má skiptast á kvótum milli byggðarlaga eða má skiptast á kvótum milti landshluta. Það kemur til greina bein sala kvóta, hvort sem hún er ofan jarðar eða neðan jarðar, og þá erum við um leið komin að ýmsum grundvallarspurningum í sambandi við atriði eins og auðlindir og annað og þá er hlutverk Alþingis augljóst í þessu sambandi.

Ef við lítum fyrst á reiknireglur, þá skipta þær miklu um áhrif kvótakerfis. Í þessari umr. og á þeim fundum sem við höfum átt með hagsmunaaðilum og hæstv. ráðh. hefur svo til eingöngu verið talað um viðmiðun við meðalafla þriggja síðustu ára með lagfæringum kannske vegna langrar landlegu vegna bilana og þess háttar. Ef menn eru að hugsa um sveigjanlegt og sanngjarnt kerfi, sem að einhverju leyti gæti hvatt til aukinnar verðmætasköpunar og aukinnar arðsemi, kemur mjög sterklega til greina að taka tillit til verðmætasköpunar sömu skipa á ákveðnu tímabili eða jafnvel rekstrarkostnaðar viðkomandi útgerðar, þannig að þær útgerðir sem hafa sýnt mesta framleiðni séu verðlaunaðar með bættum kvóta. Stærð skipa og gerð gæti komið inn í þetta til þess að hafa þó sveigjanleika, til þess að fá hvatningu í kerfið. Þetta á að vera dæmi um kvótareiknireglur sem mundu hvetja til aukinnar arðsemi og framleiðni.

Seinna atriðið sem ég nefndi tel ég vera afgerandi og það er um framsal eða sölukvóta. Við getum hugsað okkur í fræðisetningunni að frjálsar reglur um framsal og skipti eða jafnvel sölu kvóta gætu á vissan hátt losað greinina úr þeirri hnappheldu sem kvótinn setur hana í. Þannig mætti hugsa sér að hagkvæmar útgerðir eða drífandi útgerðir með kappsömu fólki gætu orðið sér úti um aukakvóta eða veiðiheimildir. Þannig gætu safnast kvótar á þær hendur þar sem reksturinn gengur best og um leið grisjast úr útgerðarbransanum það sem kannske miður má sín. En þarna erum við komin, eins og ég sagði áðan, að fjölmörgum spurningum, t.d. um áhrif flutnings veiðiheimilda milli skipa, fyrirtækja, byggðarlaga eða landshluta. Og þetta vekur spurningar um eignarhald á auðlindum. Þetta vekur einnig spurningar um sölu veiðileyfa, um auðlindaskatta o.fl. Þetta eru lykilatriði, sem menn mega ekki koma sér undan að ræða um.

Annað sem hefur verið talað um er hvort það sé nauðsynlegt að setja kvóta á allan flotann, togara og báta samtímis. Menn hafa sagt sem svo, að bátaútgerðin sé ekki aðalvandamálið. Það eru togararnir sem eru kannske meira vandamál. Sumir hafa sagt að verstu annmarkar bátaútgerðarinnar næðust kannske af með því að seinka netavertíðinni, eins og hugmyndir hafa verið um. Þá mundu gæði netafisksins aukast verulega mikið og það væri kannske nóg þetta árið að setja kvóta á togarana, en notfæra sér þá vitneskju og þá reynslu sem menn fá af því og setja þá kvóta á bátana á þar næsta ári. En til þess að koma í veg fyrir eitthvert æðibunufiskirí þetta árið hjá bátum til þess að bæta sér kvóta mætti áfram miða bátakvótana við árin 1981, 1982 og 1983. Þetta er hugmynd.

Svo vil ég að síðustu minnast á frv. sjálft og það vald sem það gefur ráðh. Mér sýnist að þetta frv. sé eðlislega ekki svo veruleg breyting. Það hafa verið svipaðar aðgerðir framkvæmdar við ýmsa nytjastofna án þess að menn stæðu svo sem á öndinni. Það hafa verið stofnar sem voru miklu minni auðlindir. Það sem gerist nú er að nú er till. um að taka stórkostlega auðlind undir svona kerfi. Þá fara menn að spyrja sig ágengari spurninga.

Ég tel það orka mikið tvímælis, svo að ég komist ekki sterkar að orði, að Alþingi geti í raun og veru skotið sér undan því að taka afstöðu til nýtingar þessarar auðlindar. Ég tel að í framkvæmdinni séu ákveðin meginatriði sem Alþingi beri að hlutast til um og þar á ég við áherslur reiknireglunnar, þ.e. á hvern hátt sú reikniregla sem tekin verður upp hefur áhrif á útgerðina, hvort þarna er einungis um frosna fjötra að ræða eða hvort það verður svigrúm til breytinga til batnaðar. Annað meginatriði sem ég tel að Alþingi beri að hlutast til um er meðferð kvótanna, þ.e. reglur um framsal þeirra og hugsanlegt framsal þeirra með eða án endurgjalds vegna þess að í þessu efni er svo stutt í grundvallarspurningar að Alþingi getur ekki afsalað sér umsögn og kannske rétti og skyldu til að setja lög um þessi efni. Þess vegna tel ég ómögulegt fyrir þingið að afgreiða þetta mál án þess að fá nánari upplýsingar um reglur, um útreikninga á kvótum og síðan meðferð og skipti kvóta.

Ef ég dreg helstu atriði þessa máls saman, þá átel ég þann stutta frest sem menn fá til að velta fyrir sér þessu stórpólitíska máli. Ég tel að Alþingi verði að ráða um meginstefnuna í málinu. Ég hef engan áhuga á að hérna inn á Alþingi komi til úrskurðar einstök atriði um kvóta til einstakra skipa. Ég legg áherslu á að Alþingi ráði um meginstefnu og ég hafna alls ekki kvótakerfi, en ég legg áherslu á að kvóti er ekki sama og kvóti. Það skiptir máli hvað fyrirkomulag kerfisins er. Ég tel að þingið verði að fá um það nánari upplýsingar.