12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir heitir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 81 frá 3i. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 38 28. maí 1981. Ég ætla bara að gera þá aths. fyrst að að því er fjórar fyrstu greinarnar varðar er tekið fram við hvaða greinar þær breytingar eigi, en 5. gr. er ekki talin breyting við neina grein í gildandi lögum né heldur er tekið fram að hún skuli vera nein ný grein í þeim lögum. Ég kannast ekki við það form sem hér er valið og veit ekki hvar 5. gr. lendir í lagasafninu ef þetta form á að haldast og held að hér þurfi að gera eilitla bragarbót á. Ég vildi koma þessu að fyrst.

Ég er þeirrar skoðunar að hér sé verið að fjalla um viðamesta mál þingsins og ég tek undir það sem fram hefur komið að æðiknappur tími sé til þessa ætlaður núna. Ég efast um að önnur mál muni koma fram á þessu þingi sem séu veigameiri en þetta. Mér er reyndar til efs að það hafi verið á undangengnum þingum heldur. Þess vegna hefði verið fyllsta ástæða til að geta fjallað um þetta mjög ítarlega og tekið til þess langan tíma, en ráðh. hefur bent okkur réttilega á að til þess að geta markað stefnu fyrir næsta ár með nýjum stjórntækjum þurfi skjóta afgreiðslu á þessu máli.

Í máli ráðh. kom fram að breyta yrði um stjórnunaraðferðir í sjávarútvegsmálum. Hann benti á að óheft sókn gæti leitt til mikils ófarnaðar og kannske mætti segja að hún hafi þegar leitt til verulegs ófarnaðar. Á síðasta þingi fluttum við þm. Alþfl. till. um athugun á fyrirkomulagi veiðileyfastjórnar á fiskveiðunum. Hvernig svo sem fer um þetta frv. vil ég ítreka að haldið verði áfram að skoða þau stjórntæki sem koma til álita, þau mismunandi form á veiðileyfastjórn sem menn telja að geti verið nothæf og hverjir séu kostir þeirra og gallar, en láti ekki hér staðar numið jafnvel þó að þetta frv. yrði samþykkt í núverandi mynd eða hverri mynd sem það er, heldur leggi áherslu á að fram fari mjög gaumgæfileg skoðun á þessum atriðum áfram. Það er fyllilega ljóst að óheft sókn hefur einmitt þau áhrif sem ráðh. lýsti, nefnilega þau að menn hyggja eðlilega fyrst og fremst að eigin hag og það verður þá á kostnað heildarinnar þegar við erum með auðlind af því tagi sem hér um ræðir. Og enn stöndum við í þeim sporum, eins og líka kom fram í máli ráðh., að við verðum að hafa stjórntæki sem gera baði kleift að hafa hér sterka fiskistofna og að jafna aflabrögð eftir föngum.

Ég tel að rétt stefna sé í þessu frv. að leyfisbinda allar veiðar eins og hér er gert ráð fyrir. Mér virðist að ekki verði fram hjá því komist við núverandi aðstæður að taka upp kvótafyrirkomulag að meira eða minna leyti. En það verður að segja. eins og er að það er mikill ljóður á þessu frv. að menn eru algerlega í myrkrinu um hvernig þetta verði framkvæmt. Hér er verið að setja mjög mikið vald í hendur ráðh. Þetta er mikið valdaafsal í hendur ráðh. Eins og málið liggur nú fyrir er gert ráð fyrir að það gerist án nokkurrar frekari stefnumörkunar eða vísbendingar um hvernig því valdi skuli beitt. Ég hefði talið að ýmsu leyti eðlilegt að Alþingi bæri mjög mikla ábyrgð í þessum efnum, að formið hefði t.d. við eðlilegar aðstæður getað verið það að innan ramma laganna afgreiddi Alþingi með þál. stefnumörkun varðandi aflamagn og þau stjórntæki sem beitt yrði, hvers konar stjórnun menn ætluðu að hafa uppi.

Hin aðferðin er sú að láta koma fram í lagagreininni sjálfri hvernig meiningin sé að beita þessum stjórntækjum. Menn geta hugsað það hvort heldur sem er þannig að það sé rammi sem þingið setji eða vísbending til ráðh. um það með hvaða hætti hann geti beitt þessu valdi, það sé takmörkun á valdi ráðh. eða vísbending. Ég hefði talið þetta eðlilegra og þingræðislegra en það form sem hér er valið og að mörgu leyti heppilegra vegna þess að þingið væri þá allt þátttakandi í þeirri stefnumörkun í efnahagsmálum sem væri verið að fást við.

En eins og þetta frv. liggur hér fyrir skortir allar vísbendingar um það með hvaða hætti sé hugmyndin að beita þessum stjórntækjum. Um það hefur verið rætt að kannske ætti að miða við meðalafla seinustu þriggja ára. Ég hef ekki hugmynd um hvort það er sanngjarnt eða ekki. Talað hefur verið um að kannske yrði miðað við stærð skipa. Fram kom í máli hæstv. ráðh. að álitamál væri hversu víðtækt þetta ætti að vera.

Langeðlilegast í þessum efnum væri að þingið sjálft setti reglur um þetta efni, annaðhvort með afgreiðslu á lagagreininni sjálfri þó hér sé einungis um eitt ár að ræða, ellegar með þáltill. þar sem lagagreininni væri breytt með tilliti til þess að gert væri ráð fyrir slíku. Hættan er sú að þegar þetta er sett fram eins og hér er gert veki það tortryggni, ótal spurningar og margs konar ótta. Ég vil ekki gera of mikið úr því, en mig uggir að svo sé og verði. Við þurfum vitaskuld að hyggja mjög vel að þessu máli. Við verðum að leita eftir skynsamlegri niðurstöðu vegna þess að mjög mikilvægt er að vel takist til. Það væri slys ef hér færi illa, menn hefðu ætlað sér að gera hér góðan hlut, en ekki næðist nægileg samstaða um aðferðina og formið, þetta færi út um þúfur og ýmsir þeir gallar sem við vitum að eru á þessu kerfi kæmu ofurmagnaðir fram. Af þessum ástæðum og með tilvísun til þess að hæstv. ráðh. benti á nauðsyn þess að grípa til aðgerða áður en skaði er skeður tel ég mjög nauðsynlegt að fram fari ítarleg umræða í nefndum þingsins og hér á þinginu um þær stjórnunaraðferðir sem helst koma til greina svo að ráðh. viti að hann hafi þá stuðning við þær aðferðir sem hann muni beita, þannig að alveg liggi ljóst fyrir hvernig því opna valdi sem hér er gefið, því mikla valdaafsali sem hér er gert ráð fyrir til ráðh. verði beitt. Það er lágmarkskrafa.

Þetta má hugsanlega gera að einhverju leyti í samvinnu við sjávarútvegsnefndir þingsins, fela þeim sérstakt vald og eftirlit í þessum efnum. En ég held að það ætti þá einungis að vera að því er stefnumörkunina varðar, þ.e. stefnumörkunina um veiðimagn og stjórnunaraðferðir sem menn ætla að beita. En þær eru ótal margar eins og kunnugt er, en ekki gera ráð fyrir að þær varði hvert einstakt skip. Það er einmitt í þeim punkti sem þetta frv. er frábrugðið því sem gildandi hefur verið hingað til. Ástæða er til að gera þá aths. í framhaldi af ræðu hv. þm. Garðars Sigurðssonar að í gildandi lögum hefur fyrst og fremst verið um almennar reglur að ræða, sem aðeins er lagt til að giltu með sama hætti gagnvart öllum skipum með sams konar búnað eða veiðarfæri. Það sem er áreiðanlega viðkvæmast og erfiðast í þessu og verður að skoða sérstaklega vel er spurningin um að ákveða aflahámark á einstök skip og með hvaða hætti það skuli gert.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta. Ég get ekki rætt hér mismunandi aðferðir sem kæmu til álita við stjórnunina. Menn hafa lítið til að fara eftir í þeim efnum. En ég tel alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðh. geri grein fyrir hugmyndum sínum í þeim efnum og ég hefði talið langæskilegast að þessu frv. væri breytt þannig að valdsvið þingsins kæmi skýrt fram, stefnumörkunin væri á hendi þingsins, annaðhvort í lagagreininni sjálfri eða með þáltill. En ef menn geta ekki fallist á það verða menn a.m.k. að fá gleggri upplýsingar um hvernig hugmyndin sé að beita þessu og tryggingar fyrir því hvernig því verði beitt á næsta ári eða því ári sem þessi lög eiga að gilda og jafnframt að gera sjútvn. þingsins virkari í framkvæmd laganna.