12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan spyrjast fyrir um það hvort hæstv. sjútvrh. sé horfinn úr salnum. (Forseti: Hann hefur verið í salnum allt til þessa og er áreiðanlega ekki langt í burtu, en ég skal gera gangskör að því að fá hann hingað.)

Herra forseti. Ég hefði nefnilega viljað leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðh. í lok minnar ræðu. Ég held að það sé best að ég bíði þangað til hann kemur í salinn aftur.

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. kynnti hér frv. til l. um breytingu á lögum nr. 81 frá 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 38 28. maí 1981. Hann sagði m.a. í ræðu sinni. þegar hann kynnti frv., að með því væri verið að umbylta núverandi fyrirkomulagi. Ég vil taka undir það sem fram kom í ræðum annarra þm. hér áðan og segja fyrir mitt leyti, að það er rétt að efnislega er hér um umbyltingu að ræða, ef menn lesa í það hvað felst á bak við frv., en því miður finnst mér mjög skorta á hjá ráðh. að nægjanlega skýrt kæmi fram í hverju þessi umbylting er fólgin í framkvæmd. Mun ég víkja að því síðar í minni ræðu.

Ráðh. sagði einnig að hann óskaði eftir því að mál þetta væri hafið yfir flokkadeilur. Ég tek undir þessi orð ráðh. Ég telst til annars stjórnarflokksins og er kannske ekki fullkomlega sammála öllu, sem fram hefur komið hjá ráðh., en ég tala út frá því sjónarmiði að þetta mál sé hafið yfir flokkadeildur og að það beri að ræða með þeim hætti.

Það voru nokkur önnur atriði í ræðu ráðh. sem ég vildi víkja að áður en ég kem að því meginmáti sem ég vil láta koma hér fram sem mína skoðun. Hann sagði m.a. í ræðu sinni að hér væri um aukin afskipti að ræða. Það liggur í augum uppi ef menn lesa frv. og þekkja eitthvað til þessara mála. Hann sagði einnig að nú yrði að grípa í taumana áður en skaðinn skeði og síðan undirstrikaði hann það í sinni ræðu að hann hefði meðmæli helstu hagsmunasamtaka fyrir þeirri meginstefnu sem felst í frv., sem er aflakvótinn.

Ég verð að segja eins og er að það er seint í rassinn gripið að ætla núna forða skaða í sambandi við fiskveiðar Íslendinga. Það hefði verið nær að gera það fyrr, t.d. þegar verið var að kaupa og byggja nýja skuttogara á síðustu árum, Það er mat flestra, sem til þekkja, að sú fjölgun skuttogaranna sem varð á árunum 1978–1983 hafi verið mjög óæskileg og óþörf og raunverulega sé þar um að ræða þann umframfjölda togara sem málið kemur til með að snúast meira og minna um, sérstaklega í framkvæmd.

Því var skotið að mér hér áðan að menn yrðu að treysta ráðherrum og öðrum í sambandi við þetta mál. En ég segi fyrir mitt leyti að þeir voru því miður ekki traustsins verðir sumir hverjir þegar þeir voru að kaupa inn skuttogara á svokölluðum félagslegum grundvelli. Það á eftir að verða mörgum byggðarlögum mjög erfiður baggi að hafa tekið við nýjum og stórum, dýrum skuttogurum inn í byggðarlög, sem hafa engar eða mjög takmarkaðar forsendur til að taka á móti slíkum skipum og reka þau og ekki mannafla til að þjóna þessum skipum bæði á sjó og landi.

Varðandi það atriði sem margir tala um, samráð við hagsmunasamtökin, er ég auðvitað sammála því út af fyrir sig að hv. Alþingi og ráðherrar hafi samráð við hagsmunasamtök. En ég verð að taka undir þau orð, sem hér hafa komið fram hjá öðrum ræðumönnum, að þetta mál er náttúrlega hafið yfir það að einhver takmörkuð eða fá hagsmunasamtök, þó að í sjávarútvegi og fiskiðnaði séu, eigi að ráða alfarið hvaða stefna verði tekin í þessum málum. Hér er um að ræða að mínu mati eitt örlagaríkasta skrefið sem hefur verið tekið í atvinnusögu Íslendinga í áratugi, ef þetta frv. verður að lögum með hugsanlega þeirri útfærslu sem það gerir ráð fyrir og þær stærðir sem þar um ræðir þannig að þetta mál snýr að þjóðinni allri, hverju einasta mannsbarni. Ég er alfarið á móti því að afgreiða jafn veigamikið og stórt mál með þeim hætti að örfáir fulltrúar, þó þeir séu fulltrúar helstu hagsmunasamtaka á þessu sviði, eigi að ráða þar einir eða réttara sagt mæla einir um það við ráðh. hvernig þessum mátum skuli hagað. Hér er um svo víðtækar verkanir að ræða, ef frv. verður að lögum, með þeim aðgerðum sem gera verður, að raunverulega hefði þetta mál þurft að fá miklu meiri og víðtækari umræðu en bara hér á þingi í örfáum dögum eða nokkrum klukkutímum, og í samráði við örfáa menn frá — ég segi ekki þröngum samtökum, en samt takmörkuðum, miðað við umfang þessa máls. En við skulum treysta því að þeir menn sem komið hafa við sögu við undirbúning málsins af hálfu hagsmunasamtaka og ríkisstj. hafi unnið það af bestu samvisku. Og þá svara þeir auðvitað fyrir sig í sambandi við framkvæmd þess eða a.m.k. í sambandi við þær spurningar sem ég held að menn verði að bera fram þegar þeir eru að fjalla um jafn veigamikið mál og hér um ræðir.

Það er ekki alveg rétt metið hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni að við séum raunverulega að framkvæma það sama og gert hefur verið á grundvelli fyrri laga. Hér er í fyrsta skipti verið að leggja til að allar fiskveiðar landsmanna verði settar undir ákveðið og ég vil segja þröngt skömmtunarkerfi, þar sem einn maður, ég undirstrika það, einn maður — þetta er einsdæmi í sögu þjóðarinnar í sambandi við löggjöf — þar sem einn maður, sjútvrh. getur haft — ég segi: Getur haft algert alræðisvald um framkvæmd laganna. Í 3. gr. frv. segir orðrétt:

„Getur ráðh. bundið leyfin og úthlutun þeirra þeim skilyrðum er þurfa þykir.“ Um þetta atriði er ekki eitt einasta orð í grg. eða skýringum, a.m.k. ekki um það sem ég leita eftir, hvernig á að framkvæma þessi mál.

Ég vil taka það skýrt fram að það sem ég segi hér um vald ráðh. snýr ekki að hæstv. núv. sjútvrh. Ég ber hið fyllsta traust til hans sem manns og heiðarlegs og góðs drengs. Ég ræði þetta út frá því sjónarmiði hvaða vald er verið að leggja í hendur eins manns, eins ráðh.

Tilefni þessa framkomna frv. er náttúrlega fyrst og fremst það, að fiskifræðingar segja að þorskstofninn við landið sé í mikilli hættu. Margt bendir til að þetta mat þeirra sé raunhæft og rannsóknir séu réttar, þ.e. að þorskurinn sé ofveiddur. Þá er það staðreynd að loðnan hefur verið ofveidd, en hún er eins og við vitum ein aðalfæðutegund þorsksins. Einnig er það skoðun fiskifræðinga að hitastig og önnur sjávarskilyrði hafi breyst á síðustu árum þorskinum í óhag svo að hann hefur færst frá landinu og jafnvel sunnar í Atlantshafið. Það eru mörg atriði í mati fiskifræðinga um stöðu þorskstofnsins og í sambandi við spár þeirra sem mér finnst vera mjög óljós. En hvað sem því líður er óhjákvæmileg skylda bæði ríkisstj. og Alþingis, hagsmunasamtaka og allra landsmanna að hlusta vel á skoðanir fiskifræðinga og mat aðila eins og t.d. Fiskifélags Íslands í þessum efnum. Enn fremur þýðir ekki að berja höfðinu við steininn og neita þeirri staðreynd að þorskaflinn hefur gengið verulega saman á síðustu misserum. Fiskurinn í aflanum er smærri og það er lítið úr eldri árgöngum. Þetta eru alkunnar staðreyndir. Í stuttu máli sagt: Það er verið að veiða of mikið af ungum fiski og ganga of nærri stofninum. Með því að haga okkar málum áfram með þessum hætti erum við að eyðileggja framtíðarafkomu þjóðarinnar. Fram hjá þessum staðreyndum verður ekki gengið.

Fiskifræðingar telja að á næsta ári sé óhætt að veiða 200 þús. tonn af þorski. Það er um helmingi minni afli en veiddist árlega fyrir nokkrum árum og um 80–90 þús. tonnum minna en í ár. Ef farið verður að tillögum fiskifræðinga þýðir þetta ef að líkum lætur um 230–240 þús. tonna heildarþorskveiði á næsta ári. Þetta er náttúrlega grundvallarástæðan fyrir fram lögðu frv. Með tilliti til þessara staðreynda, annars vegar 230–240 þús. tonna hámarksþorskveiði og þess hins vegar að gersamlega er útilokað að hleypa rúmlega 100 skuttogurum og hundruðum minni fiskibáta á þessa takmörkuðu veiði, þá er óhjákvæmilegt að gripið sé til aðgerðar sem tryggir hagkvæmustu nýtingu þessara takmörkuðu möguleika ásamt veiðum á öðrum mikilvægum nytjafiskum.

En rétt er að menn geri sér jafnframt ljóst að þótt takmarkanir hafi á undangengnum árum verið settar á loðnu- og síldveiðar og að nokkru leyti á þorskveiðar er það skref sem verið er að stíga með þessu frv. í grundvallaratriðum allt annars eðlis eins og ég sagði í upphafi minnar ræðu því að þetta frv. felur í sér 100% skipulag á veiðum og jafnframt á síðari stigum vinnslu. Það tekur til svo til allra fiskveiða Íslendinga á næsta ári. Sá rammi eða það svigrúm sem ráð er fyrir gert í væntanlegum veiðum er svo takmarkaður að mér er ekki ljóst hvernig unnt verður að framkvæma þá stefnu án þess að hrikta muni í núverandi eignakerfi og ég vil segja rekstrarskipulagi sjávarútvegs og fiskiðnaðar á Íslandi. Þetta er og verður kjarni málsins. Um það snýst frelsi manna m.a., að taka afstöðu til þess hvernig eignaskipulag skuli vera hér í framtíðinni og ekki hvað síst á þessu sviði. Ég vil því fara nokkrum orðum um þetta atriði.

Ríkjandi skipulag í sjávarútvegi á að baki sér áratuga þróun og er algert einsdæmi hvað viðvíkur frábærum árangri á liðnum áratugum. Um það erum við allir sammála. Afköst íslenskra sjómanna, miklir veiðihæfileikar skipstjórnarmanna, sem er bakgrunnur hins mikla árangurs í veiðunum, hefur byggst á því fram til síðustu ára að þeir hefðu frjálsan aðgang að fiskimiðunum. Þá er það staðreynd — hvað sem líður offjárfestingu síðustu ára í skuttogurum, en sú umframfjölgun stafaði af annarlegum sjónarmiðum sem ég ætla ekki að rekja núna — að íslenskir útgerðarmenn og skipstjórnarmenn hafa haft frumkvæði og forustu um uppbyggingu fiskiflota, fiskiskipa sem eru talin vera meðal hinna bestu sem völ er á. Öll hefur þessi uppbygging, hinar miklu framfarir og góður þjóðhagslegur ávinningur byggst á frelsi manna til athafna á því erfiða starfssviði sem útgerð og sjómennska er. Hvatinn hefur verið að takast á við erfið og ég við segja heillandi verkefni sem fólu m.a. í sér mikla arð- og aflavon. Á grundvelli þessa hafa Íslendingar byggt upp nútíma þjóðfélag almennrar velmegunar og hagsældar. Það má því orða það þannig að frelsi tiltölulega fárra til að nýta auðæfi hafsins hafi orðið fjöldanum til mikillar blessunar. Það er grundvallarstaðreynd að aðalaflgjafinn á bak við þennan árangur er að hinn dugmikli hæfileikamaður, íslenski sjómaðurinn, hefur haft frelsi til athafna. Við erum í raun líka að tala um hvernig íslenski sjómaðurinn hefur þróast upp í íslenskum sjávarútvegi og haft forustu í íslenskum sjávarútvegi í áratugi. Hann dró björg í bú, hann lét smíða góð fiskiskip og hann byggði í meginatriðum fiskiverin en ekki kerfismenn hér suður í Reykjavík eða hámenntamenn úr Háskóla Íslands eða annars staðar frá. Það er þessi stofn, það er þetta fólk sem á eftir að finna mest fyrir því sem gert verður með þessu frv. Þetta hefur langsamlega mest áhrif á þetta fólk sem er íslensku þjóðinni verðmætast. Þess vegna þarf að fara með varúð og aðgætni að þessu máli og ígrunda það vel áður en miklar ákvarðanir eru teknar sem geta haft ófyrirsjáanlegar og hættulegar afleiðingar fyrir framtíðarþróun þessara mála.

Þróunin í eignarhaldi og rekstrarskipulagi sjávarútvegs og fiskiðnaðar á Íslandi hefur byggst á þessum einföldu staðreyndum. Þrátt fyrir mjög mikinn pólitískan ágreining um eignafyrirkomulag á Íslandi er það söguleg staðreynd að allir flokkar og jafnvel þeir flokkar sem eru lengst til vinstri hafa viðurkennt þetta. Það hefur aldrei verið gengið svo langt með aðgerðum hér á Alþingi að eyðileggja sjálfstæðan eignargrundvöll í sjávarútvegi og fiskiðnaði, ekki einu sinni til að styrkja og efla félagslegan rekstur, og er ég þá sérstaklega með í huga samvinnurekstur sem sósíalistum hefði verið í lófa lagt að styðja og styrkja til að yfirtaka þær eignir sem hér um ræðir.

Þetta eru stór orð. Vonandi kemur ekki til þess að á þessu verði breyting. En hið svokallaða stórkapítal á Íslandi varð til í þessu blandaða skipulagi, varð til í þessu skipulagi þar sem sjómaðurinn hafði rétt á grundvelli þeirra miklu aflabragða, þeirrar miklu aflavonar og arðgjafar sem hann skapaði til þess að vera þátttakandi sem eignaraðili í útgerð og fiskiðnaði.

Flestir leiðandi menn í sjávarútvegi og fiskiðnaði — þá er ég ekki endilega að tala um eigendur, heldur einnig framkvæmdastjóra, verkstjóra o.s.frv. — hófu starfsferil sinn á þessu sviði til sjós. Hæfileikar og dugnaður þeirra, reynsla og þekking hafa ráðið úrslitum um hina góðu þróun. Sem sagt, hin mikla þróun byggðist á frelsi. Það var hin eina og örugga leið, hinn eini og öruggi hvati dugnaðarmannsins á þessu sviði sem dugði íslensku þjóðinni.

Nú stöndum við frammi fyrir því að vegna óviðráðanlegra aðstæðna verður væntanlega að grípa til mjög umdeildra aðgerða sem geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar og áhrif á alla þessa forsögu og framtíðarmótun þessara mála. Við skulum bara nota rétt orð yfir rétta hluti. Frv. gerir raunverulega ráð fyrir að við séum að fara inn í hafta- og skömmtunarkerfi á þessu grundvallarsviði í atvinnulífi Íslendinga. Það er í algerri andstöðu við það frjálsa fyrirkomulag sem ríkt hefur á Íslandi í fiskveiðum frá því að Íslendingar tóku þessi mál í eigin hendur. Þetta er kjarni málsins. Hér er raunverulega um að ræða alger tímamót.

Ég tek undir það sem einn hv. þm. sagði hér áðan: Ég undrast að máli eins og þessu skuli vera skotið inn á kvöldfund á Alþingi Íslendinga og það eigi að afgreiðast á nokkrum dögum eða nokkrum klukkutímum. Ég þakka bara, forsjóninni fyrir að ég skuli hafa haft tækifæri til að koma hér inn á hv. Alþingi Íslendinga sem varamaður til að fá tækifæri til að láta mína.skoðun í ljósi í þessu afdrifaríka máli. Það er auðvitað hægt að gera það annars staðar líka. En hér er það, ágætu alþm., sem grundvallarákvarðanir eru teknar hvað sem líður hagsmunasamtökum og hvað sem líður ríkisstjórnum.

Einu sinni sagði hér mætur maður sem ég ber mikla virðingu fyrir: Ríkisstjórnir koma og fara og falla eins og strá fyrir vindi. Ég endurtek þessi orð, ekki af því að ég sé endilega að óska eftir því að núv. ríkisstj. fari frá. En það að misstíga sig í þessum efnum getur leitt til þess að ýmislegt fari að gerast. Ég vil undirstrika það að umr. um þetta mál séu hafnar yfir alla flokka og ég er alveg sannfærður um að flestallir þm. geta tekið undir þau orð sem ég sagði áðan að þetta frjálsa fyrirkomulag með að vísu ákveðnum takmörkunum á stundum hefur reynst þjóðinni mjög vel og allir flokkar hafa tekið þátt í að reyna að vernda þetta fyrirkomulag.

Ég og ýmsir aðrir óttumst neikvæð áhrif kerfis þeirrar gerðar sem frv. felur í sér. Margt er hér óljóst en einu skulu menn ekki gleyma. Ofstýring sem þetta frv. getur haft í för með sér í sjávarútvegi mun fyrirsjáanlega leiða til hnignunar og það munu Íslendingar ekki þola eða líða til lengdar. Það frv. sem hér liggur fyrir felur, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan, í sér umbyltingu frá frjálsum athöfnum manna, sem eru virkir í starfi hvar sem þeir eru staddir í þátttöku sinni í sjávarútvegi, yfir í miðstýrt kerfi sem samkv. frv. gefur ráðh. raunverulega alræðisvald um útfærslu á grundvallaratvinnuvegi Íslendinga, sjávarútvegi og jafnframt fiskiðnaði. Ég er á móti slíku valdi við jafntvísýnar og hættulegar aðgerðir eins og hér um ræðir og gildir þá einu hver sjútvrh. er. Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi minnar ræðu að ég ber fyllsta traust til hæstv. núv. sjútvrh. sem manns og sem ráðh. út af fyrir sig. En ég treysti engum einum ráðh. til að fara með þetta vald. Það stenst ekki.

Eins og frv. er hér lagt fram er raunverulega verið að skrifa upp á óútfyllta ávísun í margþættri merkingu þess orðs. Það eru svo óteljandi mörg atriði sem ber að athuga betur. Ég vil m.a. varpa fram eftirfarandi:

1. Hvernig á að skipta þorskaflanum milli skuttogara

annars vegar og minni fiskiskipa hins vegar?

2. Hvers vegna er miðað við afla þriggja síðustu ára en ekki t.d. 4 eða 5 síðustu ára?

3. Hefur það verið rannsakað sem skyldi hjá útgerðarfélögum víðs vegar um landið hvers vegna sumir togarar neyddust t.d. til að stunda fyrst og fremst karfaveiðar á síðustu árum og höfðu ekki möguleika til að stunda aðrar veiðar eins og þorskveiðar?

4. Hver er rekstrargrundvöllurinn? Hver er rekstrargrundvöllur fyrir í fyrsta lagi togara og í öðru lagi minni fiskiskip með tilliti til útfærslu þessarar stefnu? (Gripið fram í.) Ég held, hv. þm., að bæði þú og ég vildum nú gjarnan vita hvað við erum að samþykkja eða hafna hér á þingi. Það er vitað að togarar eru nú reknir með miklu tapi. Þetta er staðreynd, liggur fyrir í skjölum. Ég vil þá spyrja í framhaldi af því með tilhti til hins mikla taps á togurum sem nú þegar er þekkt: Hvernig verður þá afkoma þessara skipa miðað við breyttar kringumstæður þar sem á að skammta aflann með þeim hætti sem hér um ræðir? T.d. er hægt að spyrja: Hafa verið gerðir afkomuútreikningar? Þetta snýst meira og minna um togarana. Þetta er sú fjárfesting sem við stöndum frammi fyrir, þessir 100 togarar sem eru aðalvandamálið í sambandi við fiskveiðarnar. Hafa verið gerðir afkomuútreikningar t.d. fyrir þá togara sem hafa háan þorskkvóta skv. þeim ráðagerðum sem ég geri ráð fyrir að þetta frv. feli í sér? Hafa verið gerðir afkomuútreikningar á togurum sem eru með háan karfakvóta en lítinn þorskkvóta? Hefur verið lagt fram og skoðað hverju þarf raunverulega að breyta til að togaraflotinn sé rekinn með þeim hætti að hann skili arði? Eða er kannske hugsunin að togaraflotinn skuli vera rekinn á félagslegum grundvelli? Og hvernig á þá að greiða þann reikning?

Við skulum bara muna að stærsti hlutinn af togaraflota Íslendinga er í mikilli skuld sem m.a. tengist vísitölu á erlendum gjaldmiðlum og einhver verður að borga. Hjá því verður ekki komist. Það dæmi kemur þá væntanlega inn á Alþingi Íslendinga næsta haust þegar gengið verður frá fjárlögunum ef ekki er búið að ganga frá því nú þegar. Sem sagt, það er eins gott að gera það upp við sig strax út í hvað verið er að fara, gera sér grein fyrir því.

Þá er líka mikilvægt atriði sem kom fram í ræðu eins hv. þm. áðan: Hvernig verður afkoma einstakra byggðarlaga, fólksins í fiskvinnslunni, sjómannsins? Hvaða horfur eru í sambandi við atvinnu? Svo er annað mjög viðkvæmt og veigamikið mál sem hefur valdið miklum deilum vegna þess að menn misskildu orð hæstv. ráðh. og töldu að hann væri að leggja til í ræðu á Fiskiþingi að togurum hér í Reykjavík eða á Reykjavíkursvæðinu væri lagt. Ég lít svo á að það hafi verið mistúlkað og það hafi alls ekki verið hugsunin hjá ráðh. enda hefur hann borið það af sér.

Við vitum það sem erum í þessari atvinnugrein að t.d. togarar Bæjarútgerðar Reykjavíkur, svo að ég nefni eitt fyrirtæki, hafa stundað karfaveiðar úti fyrir Suðvesturlandi og eru það sem kallað er karfaskip. Við vitum það sem komum oft í frystihús hér á þessu svæði að karfinn hjá karfatogurunum hefur farið smækkandi, hann er orðinn miklu smærri en hann var. Það bendir til þess að verið sé að þurrausa miðin, endurnýjun á sér ekki nógu hratt stað.

Ef alfarið ætti að ákveða kvótana út frá þessum þrem árum á grundvelli fisktegunda eins og togararnir hafa komið með fiskinn á land undanfarin þrjú ár gæti það t.d. þýtt að togararnir á Reykjavíkursvæðinu væru stopp á miðju næsta ári. En þá spyr ég: Hver er áfrýjunarréttur þolenda hér á þessu svæði um að þeir fái að reka sín fyrirtæki seinni hluta ársins 1984 og hvað með árið 1985? Það er nefnilega mesti misskilningur að halda að menn séu hér að taka ákvörðun fyrir eitt ár. Hér ættu raunverulega að liggja fyrir áætlanir um hvernig ætti að taka á þessum málum næstu 3–4 árin. Það eru mjög margar hliðar á þessu máli sem mér finnst að hefðu átt að liggja fyrir þegar þetta kom til umr.

Ég ber fyllsta traust til ýmissa hagsmunasamtaka, enda flokkast ég víst undir það að vera öðrum þræði starfsmaður í hagsmunasamtökum. En sem betur fer held ég að breidd þessara hagsmunasamtaka og víðátta sé með þeim hætti, eignaraðild o.s.frv. að þau samtök verða að líta nokkuð vítt yfir sviðið og ekki með tilliti til þröngra hagsmuna. Og út frá því sjónarmiði get ég sem öðrum þræði maður í starfi hjá hagsmunasamtökum sagt að í þessum efnum eru svo mörg atriði sem er ósvarað að ég tel óráðlegt að fara út í þessa framkvæmd með þessum hætti án þess að þeim sé svarað.

Eitt tel ég að sé einnig algert grundvallaratriði þegar verið er að fjalla um þetta, þ.e. að menn segi hér hátt og skýrt hvort meiningin sé að veita íslenskum togurum gálgafrest í sambandi við skuldasúpuna í eitt eða tvö ár, þ.e. að ekki eigi að fara út í þetta á grundvelli þess uppgjörs sem heitir arðgjöf heldur á grundvelli tilraunar í eitt ár sem skuli gilda jafnt fyrir alla. Eða hvort menn hafa gefið sér einhverjar aðrar forsendur sem mér eru ekki alveg ljósar á þessu stigi. En því verður mætt, hvernig sem að því verður staðið, ef allir hafa ekki sama réttinn og einnig ef þolendur sem verða fyrir þessu hafa ekki sama rétt til bóta eða aðstöðu þegar sá dómur verður upp kveðinn hver skuli vera staða þeirra innan þess kerfis sem hér á að taka upp.

Þá vil ég að lokum segja þetta. Inn í þetta hlýtur líka að koma það atriði sem rætt var um af einum ræðumanni áðan, þ.e. nýting aflans. Er hæstv. ráðh. búinn að gera það upp við sig að við höfum sama hátt á og t.d. Færeyingar að enginn fiskur færi í skreið? Reynt verði að sjá til þess að sá fiskur sem komi á land fari í það sem gefi mestan arð sem er þá frysting og söltun og svo auðvitað að selja fiskinn ferskan þegar markaðirnir eru góðir erlendis sem er mjög takmarkað eins og við vitum. Hefur það verið hugleitt nokkuð? Færeyingar herða engan fisk. Kannske má segja að það sé af landfræðilegum ástæðum. Norðmenn eru einnig, ef þeir eru ekki hættir því, að draga mjög úr því að nokkuð sé hengt upp. Það er geysistórt atriði, geysilega þýðingarmikið, hvernig á að fara í þetta. Þetta getur ráðið úrslitum hugsanlega um nýtingu dýrra og mikilvægra fiskiðjuvera og getur ráðið úrslitum um atvinnumöguleika þúsunda manna og einnig í sambandi við afkomu sjómanna miðað við minnkandi afla.

Herra forseti. Ég mun nú ljúka máli mínu. En ég vil segja þetta: Ég tel nauðsynlegt að gerð verði sú breyting á 3. gr. í meðferð í nefnd að ráðh. skuli ekki hafa það vald sem um segir svo í frv.: „Getur ráðh. bundið leyfin og úthlutun þeirra þeim skilyrðum er þurfa þykir.“ Það getur verið að þetta hafi verið í gömlu frumvörpunum, en það var miðað við allt aðrar og miklu takmarkaðri fiskveiðar. Hér er verið að tala um heildarstjórn, algjöra stjórn á öllum fiskveiðum Íslendinga, þannig að fleiri þurfa að koma hér við sögu. Ráðh. hlýtur auðvitað að hafa samráð við hagsmunaaðila eins og frv. gerir ráð fyrir. Þetta er mál allrar þjóðarinnar og því hlýtur sú krafa að vera gerð til ríkisstj. að hún standi á bak við sjútvrh. varðandi framkvæmd þessa frv., verði það að lögum. Ríkisstj. eða Alþingi skapi það aðhald að ráðh. hafi þetta vald með mjög ákveðnum takmörkum. Ég vil síðan undirstrika að það er skoðun mín og staðreynd að báðir stjórnarflokkarnir beri ábyrgð á framkvæmd þessa frv. verði það að lögum. Þar af leiðir að þeir hljóta að gera sínar ráðstafanir til að náið samráð verði af hálfu sjútvrh. við aðra í ríkisstjórn Íslands um framkvæmd laganna meðan núv. ríkisstj. situr að völdum. Ég viðurkenni að það er ekkert gamanmál fyrir einn sjútvrh. að þurfa að standa frammi fyrir þeim staðreyndum sem við blasa í sjávarútvegi. En við skulum líka gera okkur grein fyrir því að þótt staðan sé erfið í sambandi við veiðarnar megum við ekki láta villa svo um fyrir okkur að við gerum okkur ekki grein fyrr því að þrátt fyrir erfiðleika í bili er ekki meiningin að umbylta íslensku þjóðfélagi.