12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Forseti (Ingvar Gíslason):

Út af þeim ræðum sem fluttar hafa verið vil ég endurtaka það að virkileg tímaþröng er í þinginu eins og sakir standa. Í dag fóru fram ítarlegar umr. um þetta meðal forseta þingsins og varaforseta reyndar líka og þingflokksformanna. Sú varð niðurstaðan á þessum fundi að samþykkt var að umr. um þetta mikilvæga mál, sem ég viðurkenni að er, yrðu hafnar hér í kvöld. Mér virtist á þeim fundi að þar væri virkilegur vilji til að reyna að stuðla að því að þessari umr. gæti lokið og forseti hefur lifað í þeirri trú hér á þessum fundi að svo mætti verða.

En ég vil líka taka fram að það er ekkert metnaðarmál hjá forseta að halda hér næturfundi eða ræða mikilvæg mál í næturfundum. Það er eingöngu vegna þess að við erum í tímaþröng að svo er komið sem nú er. Ætlun mín var reyndar sú og trú að við gætum lokið þessum fundi fyrir kl. hálf eitt. En ég vil heyra hvað hæstv. ráðh. hefur um þetta að segja. Hann hefur sannfært mig um mikilvægi þess að ljúka þessari umr. Ég vil gjarnan fá að heyra, einmitt að gefnu tilefni frá öðrum hv. þm., hvað hann vill segja um meðferð þessa máls.