12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil biðja afsökunar á röddinni enn einu sinni. Ég hef í sjálfu sér engan áhuga á því að verið sé að ræða þetta mikilvæga mál að næturlagi á Alþingi og hef ekki óskað eftir því. Ég er alveg sammála því að mjög mikilvægt hefði verið að þetta mál hefði komist á dagskrá strax í dag. Ég hef verið boðaður á fundi sjútvn. Alþingis kl. 8.30 í fyrramálið til að svara ýmsum spurningum og ræða við þá. Ég hef reynt að hafa sem best samstarf við þá aðila um þetta mál og boðaði þá tvívegis til fundar áður en mál þetta var lagt fram til að hlusta þar á sjónarmið þingflokka.

Ég veit að öllum er ljóst að það er mikill ábyrgðarhluti að mál þetta nái ekki fram að ganga fyrir jólaleyfi þm. og ég vil að menn geri sér það alveg ljóst. Það er út af fyrir sig ekkert persónulegt áhugamál mitt en ég vil taka skýrt fram að verið er að vinna að mótun fiskveiðistefnu fyrir næsta ár sem miðast við að heimildir sem hér koma fram nái fram að ganga. Ef þessar heimildir verða ekki veittar, m.a. vegna tímaleysis hér á Alþingi, er að mínu mati komin upp mjög alvarleg staða. En hitt er svo annað mál að ég vil ekki gerast kröfumaður um að menn haldi fram þessu máli fram eftir nóttu. Ég tel hins vegar mikilvægt að hægt sé að ná um það samkomulagi með hvaða hætti mál þetta nái fram að ganga og ég treysti því að svo verði. Því að ekki er aðeins mikilvægt að ræða mál hér í þingsal, heldur einnig að taka þau fyrir í nefnd. Ég veit að þingflokkar treysta vel þeim mönnum sem þar eru í fyrirsvari til að setja sig sem best inn í þetta mál og túlka það í þingflokkunum.

Ég læt það algerlega í vald forseta sem hefur átt viðræður við formenn þingflokkanna og forseta þingsins í dag um afgreiðslu mála. Það verður að vera á valdi forsetanna að stýra því hvernig vinnu er hagað þessa síðustu daga eins og alltaf hefur verið. En ég vil að það komi mjög skýrt fram af minni hálfu að ég tel í raun og veru nauðsynlegt að þetta mál nái fram að ganga fyrir jólaleyfi og ég veit að fullur skilningur er fyrir því á Alþingi.