12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til þess að ítreka að ég hygg að ekki vaki fyrir neinum hv. þm. að reyna á nokkurn hátt að bregða fæti fyrir þetta mál sem slíkt. Ég tek undir það með hæstv. forseta að tímaþröng er orðin, en sú tímaþröng hlýtur að hafa verið fyrirsjáanleg og því óráðlegt að leggja málið ekki fram fyrr en raun ber vitni. Enn einu sinni er komið að því í hversu miklum ólestri starfshættir þingsins eru á vissum tímum árs og fullkomin ástæða til að fara að íhuga af fullri alvöru að hér sitji menn ekki uppi viku til 10 dögum fyrir jólaleyfi t.d., og aðra álíka árstíma mætti taka, með svo og svo mikið af stórmálum óafgreiddum sem eðlilega hefðu getað fengið mikið ákjósanlegri umfjöllun hefði verið skipulega að starfsháttum þingsins unnið. Og það er einmitt þetta sem allt of oft kemur í veg fyrir að hin mikilvægustu mál fái eðlilega og sjálfsagða umfjöllun í þinginu.

Ég vil hins vegar þakka hæstv. forseta og raunar hæstv. ráðh. fyrir hversu samvinnuþýðir þeir eru. Ég efast ekki um að allur þingheimur verður samvinnuþýður um að þoka þessu máli svo fljótt fram sem kostur er. En vissulega er málið svo stórt að nokkurn tíma þarf til að menn geti áttað sig og fengið þær upplýsingar sem til þarf til að menn viti í raun og veru hvað þeir eru um að tala og hvað verið er að gera.