13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

1. mál, fjárlög 1984

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið bæði í ræðum hv. frsm. bæði meiri og minni hl. fjvn. svo og eins og sjá má á þskj. hefur fjvn. ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. að þessu sinni sem í sjálfu sér er ekkert nýtt. Sá er nú gangurinn yfirleitt og sjálfsagt ekkert við því að segja.

Ég vil í upphafi taka undir þær þakkir sem frsm. minni hl. flutti hér bæði til meðnefndarmanna, starfsmanns og allra þeirra aðila sem hafa aðstoðað í vinnunni í fjvn. sem er mikils virði. Allir þessir aðilar eiga vissulega þakkir skildar.

Við 1. umr. fjárlagafrv. fyrir 1984 gerði ég nokkuð að umræðuefni að ég efaðist mjög um að aðalforsendur þess frv. eins og það var lagt fram mundu koma til með að standast. En þar er í fyrsta lagi um að ræða að gengið verði svo til óbreytt, stöðugt eins og menn kalla nú, að launin muni á næsta ári ekki hækka nema um 4–6% og í þriðja lagi að verðlag í landinu muni ekki á næsta ári hækka nema um sem nemur 4%.

Allar þessar þrjár forsendur fannst mér — og finnst raunar enn, í því hefur mitt mat ekki breyst — hæpnar þó að ekki væri gengið út frá öðrum sjónarmiðum en voru þegar frv. var unnið og það lagt fram, en vissulega hljóta þær forsendur að hafa breyst síðan. Enda mun það ljóst og þarf ég ekki að rifja það upp í löngu máli. Ég vísa til framsögu hv. þm. Geirs Gunnarssonar áðan sem hafði framsögu fyrir minni hluta fjvn. þar sem hann kom inn á í altítarlegu máli að ljóst er — a.m.k. verður ekki annað séð nú við 2. umr. — að fjárlög fyrir árið 1984 verði afgreidd með halla. Og nú eru alltaf betur og betur að koma í ljós þau áhrif sem hin gífurlega kjaraskerðing sem orðið hefur á yfirstandandi ári hefur í raun og veru á stöðu ríkissjóðs og ríkisfjármála, og þá þar inni í að sjálfsögðu neysluskattar. Hallarekstur sá sem nú er augsýnilegur og verður á ríkissjóði á næsta ári er ekki síður vegna verulega minnkandi kaupgetu almennings í landinu sem er afleiðing af þeirri gífurlegu kjaraskerðingu sem átt hefur sér stað.

Það er því augljóst að ekki verður staðið við það ákvæði stjórnarsáttmála að fjárlög fyrir árið 1984 miðist við að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Því mun fara víðs fjarri eftir því sem mál nú standa.

Ég held að rétt sé að koma inn á það strax í upphafi að það er nýtt í sögunni a.m.k. til nokkuð margra ára að við 2. umr. fjárlaga liggi ekki fyrir endurskoðuð tekjuáætlun og endurskoðaðar forsendur fyrir fjárlögum ársins 1984 eða þess árs sem verið er að afgreiða fjárlög fyrir. Og það er athyglisvert að þessi nýja tekjuáætlun, hinar nýju og líklega — þó ekki sé nú meira sagt — breyttu forsendur fyrir fjárlögum ársins 1984 hefur ekki fengist fram þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan minni hl. fjvn. um að slíkt yrði gert. Ég spái þannig í þá afstöðu að menn séu ekki alveg reiðubúnir, eigi í erfiðleikum með að koma heim og saman því sem þeir í raun og veru vildu gera þó að raunveruleikinn væri þar ekki með í spilinu.

Þá er það augljóst við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984 að um gífurlega mikinn niðurskurð er að ræða á ýmsum tilteknum málaflokkum. Þar er bæði um að ræða framkvæmdamálaflokka á hinum ýmsu sviðum og einnig hrikalegan niðurskurð á ýmsum þáttum hinnar samfélagslegu hliðar sem mörgum a.m.k. hefur þótt rétt að hafa inni í myndinni þegar ákvarðaðar hafa verið fjárveitingar til hinna ýmsu málaflokka á fjárlögum. Það er nægilegt að nefna í þessu sambandi niðurskurð til framkvæmda eins og hafnarmála, til sjúkrahúsa, til skóla, til dagvistunar, húsnæðismála, vegamála og svo mætti lengi telja. Í öllum þessum málaflokkum er greinilega um hrikalegan niðurskurð að ræða frá því sem ætla hefði mátt miðað við að áfram hefði verið haldið uppbyggingarstefnu í landinu.

Nú skal tekið fram að það gefur auga leið og ekkert við því að segja þegar samdráttur á sér stað eins og allt bendir til á árinu 1984 í þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum að dregið sé úr á ýmsum sviðum að því er þetta varðar ef að á annað borð er látið fylgja með það sem snýr að ríkisgeiranum sjálfum, þ.e. ríkiskerfinu. En mér sýnist að það fari ekki saman því að eins og hér hefur komið fram er beinlínis gert ráð fyrir auknu raungildi í útþenslunni á ríkiskerfinu á árinu 1984 þrátt fyrir þann niðurskurð sem snýr að framkvæmdaframlögunum og framkvæmdaþáttunum í frv.

Hér var minnst áðan á dagvistunarmálin. Þau eru einn þeirra málaflokka sem verður hart fyrir barðinu á niðurskurðarstefnu ríkisstj. þrátt fyrir að þar sé í raun og veru um að ræða samning við launþegahreyfinguna frá fyrri tíð. Þar er um að ræða að mínu viti nokkuð bindandi ákvæði við verkalýðshreyfinguna sem lét eftir af kauphækkunum til að þjóna þessum framkvæmdaflokki. Og til þess að framkvæma það samkomulag mun vanta a.m.k. 30 millj, til að standa við þá samningsgerð sem gerð var á sínum tíma á árinu 1980, a.m.k. 30 millj. Hér er því augljóslega með þeirri framkvæmd sem nú er viðhöfð á þessum þætti af hálfu ríkisvaldsins gengið á gefin fyrirheit í samningsgerð að því er varðar þennan þátt mála. Ekki er við því að búast þegar slík framkvæmd er viðhöfð að ríkisvaldinu sé yfirleitt treystandi í samningsgerð til eins eða neins þegar efndirnar eru með þeim hætti sem blasir nú við.

Þetta á vissulega við um fleiri þætti en dagvistarmálin þó að það skuli ekki rakið hér sérstaklega. Það er t.d. augljóst að hinir ýmsu staðir, bæði hér á þéttbýlissvæðinu og ekki síður víðs vegar út um land, verða harkalega fyrir barðinu á niðurskurðinum í sambandi við grunnskólamálin. Ég hygg að þingmenn almennt hafi orðið fyrir þrýstingi og sé um það kunnugt hvernig það mál blasir við víðs vegar um landið þegar segja má að svo til engin ný verkefni verði sett í framkvæmd í grunnskólaþættinum á árinu 1984. Það er nýtt, a.m.k. miðað við það sem gerst hefur nokkur mörg undanfarin ár, að því er varðar fjárlagaafgreiðslu. Og svona mætti raunar segja um ýmsa aðra málaflokka sem ég skal ekki gera frekar að umræðuefni nema tilefni gefist sérstaklega til.

Þá standa menn frammi fyrir þeirri staðreynd við 2. umr. fjárlaga að hæstv. ríkisstj. og meiri hl. á Alþingi virðist ætla að standa þannig að fjárlagaafgreiðslunni að láta vanta 30 millj. upp á framlag ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs sem ríkinu samkv. lögum ber að greiða. Þetta er trúlega gert í ljósi þeirra viðburða sem nú eiga sér stað víðs vegar um landið þar sem atvinnuleysið blasir við og í sumum tilfellum skollið á. Á þeim tímum ætlar ríkisvaldið að draga í land með framlög til þessa sjóðs um 30 millj. þrátt fyrir beina lagaskyldu þar um. Þetta er ekki glæsilegt fyrir þá einstaklinga sem þarna koma til með að eiga hlut að máli ofan á atvinnuleysið sem þegar er skollið á og víða blasir við, fjöldauppsagnir víða í sjávarplássum á landinu.

Þá er líka athyglisvert, ekki síst núna þessa dagana eftir umr. eða nýframlagt stjfrv. um húsnæðismál og umr. þar um, að ekki er stafkrókur við 2. umr. fjárlaga um það með hvaða hætti á að sjá fyrir þeim 240 millj. sem ríkinu er ætlað samkv. frv. til viðbótar við það sem nú þegar er í sambandi við húsnæðismálakerfið. Gert er ráð fyrir viðbótarframlagi af hálfu ríkisins um 240 millj. og ekki stafkrókur um það með hvaða hætti þeirra peninga verði aflað. Ástæða er til þess í ljósi þessa að auglýsa nú eftir hugarfari hæstv. núv. félmrh. til þessa málaflokks svo mjög sem hann hefur á undangengnum árum talað um skort á vilja af hálfu einstaklinga í ráðherrastól til að leysa þetta mál. Það er ekki að sjá að það hugarfar fylgi nú hjá hæstv. félmrh. að því er þetta mál snertir.

Auðvitað er ekki hægt að rifja upp og kannske ekki ástæða til í löngu máli öll þau atriði sem hugsanlega væri vert um að fjalla í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. En vissulega er ástæða til að taka á stærstu málaflokkunum, stærstu þáttunum sem hana snerta. T.d. er athyglisvert við 2. umr. að ekki er króna ætluð til greiðslu á yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann við næstu áramót. Þar er um að ræða í kringum 1200 millj. kr. skuld sem ekki er stafkrókur um með hvaða hætti eigi að standa skil á eða hvort ekki þurfi að standa skil á því. Hæstv. fjmrh. upplýsir sjálfsagt á eftir með hvaða hætti fara eigi með þennan þátt afgreiðslunnar. Ég tek því undir þegar menn segja: Það er ljóst að nú á að hefja á ný skuldasöfnun við seðlabankann og að tekin verður upp lausn í ríkisfjármálum með aukinni seðlaprentun úr Seðlabankanum. Það eru þær einu lausnir sem sjáanlegar eru við þá afgreiðslu eða þá umr. sem núna fer fram sem er 2. umr. fjárlaga.

Þá verður ekki hjá því komist og ekki nógu oft nógsamlega á það bent hversu hrikalega á að fara með þá einstaklinga í þessu þjóðfélagi sem síst skyldi, verst eru settir og við mest óöryggið búa. Það virðist vera að því stefnt að ráðast nú að afkomuöryggi þeirra þjóðfélagsþegna sem fyrir hvað mestum áföllum kunna að verða í þjóðfélaginu. Þetta á að gerast til viðbótar þeirri gífurlegu kjaraskerðingu sem átt hefur sér stað og í kjölfar hennar á nú að ráðast til atlögu gegn rétti sjúklinga til ókeypis sjúkrahúsvistar upp á 350 millj. kr. 350 millj. kr. ætlar nú ríkissjóður skv. því sem allt lítur nú út fyrir að velta af sér yfir á bök þessara þjóðfélagsþegna. Eins og fram kemur í nál. minni hl. fjvn. er þetta hvorki meira né minna en sem nemur 7 600 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu ofan á allt það sem gerst hefur undan á þessu ári álögur og kjaraskerðingu á launafólk. Ég veit ekki hvernig hæstv. forsrh. útskýrir þessa stefnu. Ég sé ekki betur en hér sé í fullu gildi leiftursókn gegn lífskjörum og afkomuöryggi fólks í landinu, síst minna eða skemmra gengið en gert var ráð fyrir á sínum tíma í till. Sjálfstfl. á árinu 1979. Og enn skal það rifjað hér upp að nú er það hlutverk hæstv. forsrh. að framkvæma þessa leiftursókn íhaldsins í landinu gegn launakjörum og afkomuöryggi hinna verst settu.

Enn er einn þáttur sem vert er að gera hér að umræðuefni. Ekki verður annað séð, a.m.k. enn sem komið er, en að ríkisstj. æli að höggva í sama knérunn áfram og þá á ég við Framkvæmdasjóð fatlaðra. Skv. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að hann fái um 40 millj. kr. í framlag frá ríkissjóði en það ætti skv. samþykktum lögum á síðasta þingi að nema 91 millj. að viðbættu því sem hann á samkv. lögum að fá úr Erfðasjóði sem ættu að vera skv. frv. 40 millj. Samtals ætti því skv. gildandi lögum að renna til Framkvæmdasjóðs fatlaðra á árinu 1984 131 millj. en eiga samkv. fjárlagafrv. að vera í kringum 60 millj. Hér ætlar því ríkisstj. og meiri hl. Alþingis að taka drjúgan skerf frá þessum þjóðfélagsþegnum af því sem þeim ber samkv. lögum ef fram fer sem horfir nú við 2. umr. fjárlaga. Hér ætla menn því að taka ófrjálsri hendi frá hinum verst settu í þjóðfélaginu 71 millj. frá því sem búið er að samþykkja í löggjöf og á að greiða til þess að hægt verði að halda áfram að leysa þá þætti sem enn eru óleystir og verða margir hverjir áfram fyrir þessa þjóðfélagsþegna.

Og enn er spurt: Hvar er nú hugarfar hæstv. félmrh. til þessara mála við þessa afgreiðslu? (Grípið fram í: Heima.) Líklega er það rétt hjá hæstv. fjmrh. að hugarfarið er heima. Ég heyri að honum er kunnugt um hugarfarið sem nánum samstarfsmanni hæstv. ráðh. og skilur það vel. En þetta á auðvitað ekkert síður við hæstv. fjmrh. fyrst hann er farinn að blanda sér í umr. Þetta sýnir hugarfar hæstv. ríkisstj. allrar og þess meiri hluta sem að baki hennar stendur hér á Alþingi til þessa þáttar, að hrifsa í ríkissjó3 ólöglega 71 millj. úr þessum eina þætti, þ.e. Framkvæmdasjóði fatlaðra á árinu 1984. Ég hefði haldið að Það ætti að vera stolt hvers og eins sem á Alþingi situr að geta greitt myndarlega fyrir því að framkvæmdum í þessum málaflokki þokaði áfram og það væri lágmark að þar væri stuðst við gildandi lög í landinu en ekki skorið af frá því sem þau segja til um. En það er nú eitthvað annað.

Ég sagði áðan og ítreka það að á sama tíma og skorin eru verulega niður framkvæmdafjárlög til ýmissa brýnna verkefna í uppbyggingarstarfi víðs vegar um landið er lagt til við afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir 1984 að auka að raungildi útþenslu ýmissa ríkisstofnana á sama ári. Það er lágmarkskrafa að ætlast til þess af stjórnvöldum, hver sem þau eru, að þau sýni það í verki að ætla sjálfum sér að búa við svipað ástand og þau skammta öðrum. Það var ekki vel liðið og væri ekki vel liðið, ríkti sá siður enn að húsbóndi og hjú sætu ekki við sama borð. Hér er um það að ræða að ríkisvaldið með ráðherrana í broddi fylkingar hrifsar til sín verulega meira til útþenslu ríkiskerfisins en hefur verið á árinu 1983 á sama tíma og það sker niður framlög til annarra sem síður en svo eru neitt minna virði en það sem ríkissjóður sjálfur er með á sinni könnu.

Þá er ljóst og skal enn ítrekað að samkv. fjárlagafrv. eykst skattbyrði einstaklinga á árinu 1984 því að á sama tíma og gert er ráð fyrir aukinni innheimtu og auknum tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti á því ári um 28% er ekki samkv. frv. gert ráð fyrir nema 14–15 % hækkun launa milli ára þannig að hér er greinilega um íþyngingu á skattaálögum að ræða frá því sem er á árinu 1983 hvað sem hver segir.

Við stjórnarandstæðingar erum ekki einir um þessa skoðun eða túlkun mála. Ég sé í Dagblaðinu í dag að þar er einn af framámönnum í þingliði Sjálfstfl. tekinn tali og hann fullyrðir að hið nýja skattafrv. hæstv. ríkisstj., hæstv. fjmrh. auki skattbyrðina og óhjákvæmilegt sé að gera á því breytingar vegna þess. Hér er einn af máttarstólpum í þingliði Sjálfstfl., annars stjórnarflokkanna, sem er á sama máli og við stjórnarandstæðingar um íþyngingu skatta frá því sem verið hefur þannig að nú þarf ekki lengur að tala um áróðursstríð eða áróðursherferð stjórnarandstæðinga hér. Hér hefur stjórnarliði sjálfur talað sama máli og við. (Gripið fram í.) Ég efast ekki um það og það kunna að vera ýmsir fleiri innan þingliðs Sjálfstfl. en hv. þm. Gunnar G. Schram sem eru ósammála ýmsu í stjórnarstefnunni og þar með hv. þm. Egill Jónsson. Það kynni að vera að í ýmsum mikilvægum málum væri einnig þessi hv. þm. Egill Jónsson, ósammála þeirri stefnu sem nú er framfylgt af hans eigin flokki.

Í áframhaldi af þessu í sambandi við tekjuskatt einstaklinga, skatta á launafólk, er rétt að vekja sérstaka athygli á því að á sama tíma — og þá kemur kannske að því atriði sem hv. þm. Egill Jónsson er ósammála í stjórnarstefnunni — og verðbætur á laun almennings í landinu eru bannaðar með lögum ætlar hæstv. ríkisstj. að nýta sér verðbætur til hækkunar á bensíni á árinu 1984 upp á hvorki meira né minna en yfir 40% frá því sem er í ár. Á sama tíma og verðbætur á laun eru bannaðar. Bensínverð á á næsta ári að fylgja hækkun byggingarvísitölu og þýðir a.m.k. yfir 40% hækkun bensínverðs á árinu 1984 frá því sem er í ár. Þetta gerist undir forsæti fjmrh. Sjálfstfl., þess flokks sem hvað harðast hefur talað máli þess að allir skattar af bensíni og öðru í umferðinni rynnu til umferðarmála. En þegar völdin eru fengin þá er hagað sér með þessum hætti. (Fjmrh.: Það kemur smátt og smátt.) Það kemur smátt og smátt já. Ég heyri að hæstv. fjmrh. er hættur við að segja af sér ef frv. hækkar í meðförum því að hann ætlar greinilega að sitja lengi. Því að eigi það að koma smátt og smátt undir hans forsæti dugar ekki yfirstandandi kjörtímabil til að það gerist. Þannig að hann ætlar sér að sitja lengur en það þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að fara frá verði einhver breyting eða hækkun í meðförum Alþingis á frv. Og í þessu má segja: Svo bregðast krosstré sem önnur tré, hæstv. fjmrh.

Það er ekki lítill peningur sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér að taka með þessum hætti í sambandi við bensínverðið og byggingarvísitöluna. Hún ætlar sér að taka 295 millj. á næsta ári með þessum hætti umfram það sem ríkissjóður fékk á árinu 1983. Ég trúi því ekki að þá klígi ekki marga íhaldsmennina í þingliði Sjálfstfl. og fleiri við að keyra á bensíni sem fengið er með þessum hætti. Það á kannske eftir að sýna sig á næsta ári. Ég hef ekki trú á að Framsóknarliðið klígi neitt við því, hvað sem hv. þm. Ólafur Þórðarson segir. (ÓÞÞ: Ég er nú að hlusta á þig, Karvel minn, ætli ég hafi meira að gera þessa stundina?) Og veitir ekki af. (ÓÞÞ: Og mikið á sig lagt.) Það er aldrei of mikið á þennan hv. þm. lagt til að reyna að beina honum á réttar brautir. En kannske má segja eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan að það komi smátt og smátt. (ÓÞÞ: Verst ef þú ruglast í textanum, Karvel minn.) Nei, ég þarf yfirleitt ekki texta. Það er annað en þarf að segja um hv. þm. Ólaf Þórðarson.

Það er eftirtektarvert að þetta skuli gerast undir forsæti fjmrh. Sjálfstfl. en það er enn þá eftirtektarverðara að þetta skuli gerast undir forsæti samgrh. Sjálfstfl. eins og sá hv. þm., núv. hæstv. ráðh., hefur talað í þeim málum á undangengnum árum. (Gripið fram í: Láttu nú kalla hann í salinn.) Ég tala nú ekki um núv. hv. þm. Lárus Jónsson, formann fjvn., sem talsmann Sjálfstfl. í fyrrv. stjórnarandstöðu og þann málflutning sem þá var uppi hafður um bensínverðið og tekjur af því til umferðarinnar. Og nú heyri ég að hv. þm. Egill Jónsson kallar ekki fram í.

Því miður, verð ég að segja, er allt of oft sem menn virðast skipta gersamlega um skoðun frá því að vera í stjórnaraðstöðu til þess að vera í stjórnarandstöðu eða öfugt. Hér er enn eitt glöggt og með gleggri dæmum um það hvernig menn leyfa sér þrátt fyrir fyrri afstöðu til málaflokka að gersamlega söðla um og breyta þvert á það sem þeir hafa áður lagt til, boðað og gefið fyrirheit um. Þetta er íhugunarefni fyrir nýkjörinn foringja þeirra sjálfstæðismanna að beina liðinu á réttari og farsælli brautir í þessum efnum. Það er ástæða til. (Gripið fram í.) Nei, enda var ég ekki kosinn til þess ef hv. þm. hefur ruglast í því. Það var annar sem var kosinn til að vera leiðarljós í þeim efnum en ég og ég vænti að ljóst sé fyrir hv. þm. Þorsteini Pálssyni hver það var.

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessa umr. mikið. Ég vil þó áður en ég hverf frá þessu vekja athygli á að ljóst er að ég held við þessa umr. að breytingar verða gerðar á skattamálum hér á Alþingi. Það verður óhjákvæmilega að breyta skattstigum í þá veru að létta byrðar þeirra sem nú sligast undan áþján skattpíningarstefnu núv. ríkisstj. Ég hygg að það sé nokkuð ljóst og áreiðanlegt að það verður gert. Ég minni á að Alþfl. hefur um langan tíma varað við því að ganga áfram á þeirri braut sem gert hefur verið að því er varðar t.d. tekjuskatt á launafólk. Hann hefur margoft flutt um það till. á Alþingi að afnema beri þennan óréttláta skatt, tekjuskattinn, í áföngum vegna þess að sá skattur er orðinn svo til einvörðungu launamannaskattur. Alþfl. flytur ekki við 2. umr. tillögur þar að lútandi né aðrar brtt. við fjárlagafrv. vegna þess að hann telur ekki raunhæft meðan ekki liggur fyrir endurskoðuð tekjuáætlun og endurskoðaðar forsendur fyrir fjárlagagerðinni að flytja brtt. að því er það varðar. En hann áskilur sér allan rétt við 3. umr. til að flytja brtt. í þeim þætti, svo og öðrum, þannig að ljóst sé að þó að venjan sé sú að slíkt sé flutt við 2. umr. er það ekki gert núna vegna þessa að forsendur hafa ekki fengist um hverf mat ríkisstj. eða stjórnarflokkanna er á því hvað kann að gerast í ríkisfjármálum á næsta ári. Þetta taldi ég rétt að kæmi fram.

Að síðustu vil ég víkja hér örfáum orðum að máli sem ég hef líklega manna oftast talað um hér á Alþingi. Það er hið margumtalaða orkujöfnunargjald. Ég tel ekki eftir mér að fara örfáum orðum um það einnig nú, ekki síst í ljósi þess að hæstv. iðnrh. óskaði í raun og veru eftir í utandagskrárumræðum á föstudaginn var að það mál yrði fyrst og fremst rætt hér og nú. Orkujöfnunargjaldið var á sínum tíma lagt á 1980 með því að 1,5 söluskattsstig rann til þessa tekjustofns. Það átti að vera til að lækka hitunarkostnað, draga úr þeim gífurlega bagga sem var á ýmsum í landinu sem þurftu að búa við nánast orkuokur. Því miður hefur þessu ekki verið skilað. Árið 1983 var gert ráð fyrir að þetta gjald gæfi í fjárlögum 315 millj. Aðeins broti af þessari upphæð var skilað að ákvörðun fyrrv. meiri hl. hér á Alþingi til réttra aðila. Samkvæmt því sem best er vitað er gert ráð fyrir að á árinu 1984 komi þetta gjald til með að skila um 470 millj. kr. í ríkissjóð. Af því er skv. fjárlagafrv. einvörðungu gert ráð fyrir að skila til réttra aðila 291,5 millj. kr., muni ég rétt. Annað virðist eiga að taka til annarra hluta og þarfa í ríkishítinni margnefndu.

Í ljósi þessa hef ég ásamt hv. þm. Eiði Guðnasyni leyft mér að flytja brtt. við 2. umr. um að öllu andvirði þessa gjaldstofns verði skilað til þeirra aðila sem það átti að fara til skv. lögum. Till. er því um að breyting verði gerð á 4. gr., það er liðurinn 12 202 Olíunotkun til húshitunar. Ég bið menn að misskilja ekki, hér er ekki verið að tala um að hækka olíustyrki því till. er um það að liðurinn orðist svo: „Til jöfnunar orkuverðs samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis.“ Hér er því lagt til að öllu andvirði orkujöfnunargjaldsins verði skilað til þess verkefnis að lækka húshitunarkostnað hjá almenningi í landinu þar sem hann er hæstur og svo hár að meira en helmingur dagvinnutekna launafólks fer í þennan eina þátt heimilishaldsins. Ég bið menn að íhuga til hvers það kann að leiða ef svo heldur fram í því máli sem nú virðist eiga að gera. Ég minnist þess að hæstv. iðnrh. og orkuráðh. viðhafði þau orð réttilega í utandagskrárumræðum s.l. föstudag að hann sæi hér eina mestu hættu sem hann hefði séð á búferlaflutningum og byggðaröskun í landinu vegna þessa, og ég bið hv. þm. að taka eftir því: Ég bið hv. þm. sem ekki við það búa að íhuga hvað þeir segðu kæmi eftir hver mánaðamót reikningur upp á um helming af þeirra launatekjum yfirstandandi mánaðar sem þeir þyrftu að borga í þennan þátt einan. Ég bið menn að íhuga til hvers er ætlast af þeim þjóðfélagsþegnum í landinu sem við þetta búa ef það á að halda áfram.

Þetta er svo alvarlegt mál að ég undrast hreinlega að ráðandi menn, hvar í flokki sem þeir eru á annað borð, skuli ekki sýna a.m.k. það lágmark í viðleitni til þessa fólks að skila því til baka skatti sem búið er að leggja á það til að gera þessa jöfnun. Ég trúi ekki fyrr en ég tek á því við endanlega afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984 að ekki verði betur viti komið fyrir núv. stjórnarlið í ljósi tillöguflutnings hér á Alþingi fyrir um ári síðan einmitt í þessum dúr, nákvæmlega eins af hv. þm. Sjálfstfl. Ég trúi ekki að ekki verði viti komið fyrir þessa aðila hér innan veggja til að þetta nái fram að ganga og raunar þyrfti miklu meira að gera ef ekki á stór skaði að ske í sambandi við búferlaflutninga og byggðaröskun. Ég vek athygli á að þegar gífurleg kjaraskerðing blasir við launafólki nánast þriðjungur tekna fólks er tekinn af því með stjórnvaldsaðgerðum, þurfi það að standa undir slíkum byrðum sem þessi skattur einn leggur á herðar þeirra sem við það búa og nemur helmingi tekna miðað við dagvinnu á mánuði.

Ég hvet þm. til að íhuga gaumgæfilega þennan þátt mála í ljósi staðreynda sem ég hygg að þeim eigi a.m.k. öllum að vera kunnar. Ég minni á að a.m.k. einhverjir þm. úr öllum flokkum sem fulltrúa eiga í fjvn. munu hafa fengið erindi frá stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga varðandi þetta mál þar sem ítrekað er að lágmarkskrafan sé sú að öllu andvirði orkujöfnunargjaldsins verði skilað til að jafna og lækka hitunarkostnað hjá þeim sem verst eru settir og við mesta okrið í þessum efnum búa. Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð hér um, en ég ítreka og vara alvarlega við því ef ekki á að verða við þessum sanngjörnu óskum um ráðstöfun á þessu fjármagni sem lög beinlínis gera ráð fyrir að verði gert með þessum hætti.