13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

1. mál, fjárlög 1984

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. við fjárlagafrv. ársins 1984 á þskj. 200. Þessar till. eru fram bornar af Kristínu S. Kvaran, Stefáni Benediktssyni, Guðmundi Einarssyni og Kristófer Má Kristinssyni.

Undirstaða efnahagslífs okkar, þar með talið afkomu okkar í veraldlegum jafnt sem andlegum efnum, er atvinnulíf og framleiðsla. Framtíð okkar stendur eða fellur með ásetningi okkar í atvinnumálum. Ljóst er að eina atvinnugreinin sem tekið getur við starfskröftum á næstu árum er iðnaður. Það hefur verið sagt mjög oft og það segja það nánast allir. Menn verða því að horfast í augu við þessa staðreynd og framkvæma þá hluti sem hæst ber í tyllidagaumræðum.

Auðvitað birtast fjárlög í tölum. En á bak við tölurnar er lifandi fólk. Og því er það lífsnauðsyn að við gerð fjárlaga ráði markvisst frumkvæði. Eitt dæmi og það reyndar mjög táknrænt fyrir andleysið sem ræður gerð þessara fjárlaga er sú yfirlýsing að ekki verði ráðið í neinar nýjar stöður sem losna hjá því opinbera. Í fyrsta lagi er þetta vitlaus yfirlýsing í ljósi þeirra gífurlegu fjárfestinga sem lagðar hafa verið í þjónustu hins opinbera. Á ekki að nýta þá fjárfestingu? Hverjar eru skyldur þeirra sem lagt hafa í þessar fjárfestingar gagnvart þegnunum? Einnig er þetta vitlaust vegna þess að samsetning starfsliðs hjá því opinbera, bæði hvað menntun og starfsaldur snertir, gerir það oft að verkum að ekki þarf nema einn aðili, við skulum segja yfirlæknir á deild, að falla frá til þess að þjónusta viðkomandi stofnunar lamist. Á hún þá að leggjast niður með öllu? Eða haldið þið t.d. að ekki verði ráðinn bílstjóri á ráðherrabíl ef einhverjum bílstjóranna dettur í hug að fá sér aðra atvinnu? Ef draga á úr kostnaði í þjónustu má það ekki ráðast af duttlungum heldur verður það að gerast með endurskipulagningu þar sem markmiðið er að gera meira úr minna.

Fjárlög eru náttúrlega meira en bara rekstraráætlun. Þau stefna sífellt til framtíðar, það er ekkert endanlegt markmið að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Það er miklu fremur endanlegt markmið að ná misvægi í þjóðarbúskap, meiri tekjum en útgjöldum. Í hættuástandi eins og menn tala um að sé í dag er ekki ráðið að standa í sömu sporum heldur verður að leita að útgönguleiðum, það verður að reyna að breyta vígstöðunni. Í þessum leik er enginn hálfleikur og heldur engin leikslok og undanhaldsleiðir eru engar. Eina vörnin er sókn.

BJ hefur lýst þeirri skoðun sinni að það telji kerfisbreytingar nauðsynlega forsendu efnahagslegra úrbóta, þ.e. að aflvakinn væri og ætti að vera frelsi og ábyrgð einstaklinga. Þessar kerfisbreytingar hafa ekki orðið eins og allir vita og þeirra er ekki að vænta á næstunni.

Þess vegna göngum við hér í tillögugerð okkar út frá gefnum forsendum núverandi stjórnsýsluskiptingar. Meginmarkmið þessara till. er að stefnt verði til sóknar í iðnaði með því að auka hlut og aðstöðu iðnaðar. Rannsóknir, ráðgjöf og þjónusta í iðnaði verði aukin á kostnað yfirstjórnar ráðuneyta og að hluta til á kostnað landbúnaðar og sjávarútvegs. Ég veit að menn eiga eftir að gera mér upp andúð á þessum atvinnugreinum og vil því vísa því frá mér strax. Hugsun okkar er þessi:

Tveir atvinnuvegir eiga að baki 1100 ára hefð og aðlögunartíma í íslensku atvinnulífi. Ráðgjöf og þjónusta til þessara atvinnuvega er að mestu leyti gefins á meðan sams konar þjónustu til iðnaðar er gert að standa nær því undir sér. Ef horft er til annarra fríðinda atvinnufyrirtækja í gömlu atvinnugreinunum, þessum með þúsund ára aðlögunartímann, og síðan til þess árangurs sem öll sú fyrirgreiðsla hefur skilað, t.d. sífelldar aðgerðir til aðstoðar í rekstri fiskvinnslufyrirtækja, sífelld offramleiðsla í landbúnaði með fækkandi starfskröftum, þá verður ekki séð að framlög ríkisins til fyrirtækja eins og t.d. Búnaðarfélags Íslands og Fiskifélags Íslands hafi skilað tilætluðum árangri og því allt í lagi a.m.k. um skeið að gera ráð fyrir að þær selji sína þjónustu hærra verði og lækka megi ríkisframlög til þeirra á móti.

Ungi, nýi atvinnuvegurinn, þ.e. iðnaðurinn, hefur aldrei fengið að slíta barnsskónum. Honum er gert að bera stærri bagga en uppkomnum bræðrum hans, sjávarútvegi og landbúnaði. Þar má nefna t.d. aðstöðugjöld til sveitarfélaga, sem eru hærri á iðnaði en á framleiðslugreinum sjávarútvegs og landbúnaðar, launaskatt sömuleiðis, söluskatt, óniðurgreidda ráðgjöf sem ég hef nefnt áður og þjónustu auk innlends vörugjalds. Auk þess átaks í iðnaði sem brtt. BJ stefna að beinast þær einnig að því að lagfæra nokkra vankanta á núverandi fjárlögum eins og efni leyfa miðað við það sem við treystum okkur í. Sum þessara atriða eru tengd séráhugamálum BJ eins og nánar verður komið að í umfjöllun um brtt.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fara stuttlega yfir till.

1. liður. Þar er um að ræða lítils háttar lækkun á innflutningsgjaldi af bensíni. Þetta er nánast kannske frekar yfirlýsingaratriði til að gefa til kynna ákveðinn vilja því að ef við skoðum þetta við hliðina á lið nr. 2, sem er niðurfelling gúmmígjalds, þá er hér um að ræða gagnrýni á ákveðna skattpíningarstefnu á vegum ríkisins, sem kemur mjög hart niður á fólki sem miðað við byggð í landinu og almenna bílaeign er afskaplega háð sínum farartækjum.

3. liður. Hagnaður af sölu varnarliðseigna. Liðurinn fatli niður. Hér með er lagt til að Sala varnarliðseigna verði lögð niður fyrir fullt og allt og að Ameríkanar flytji sitt rusl sjálfir, hvert sem þeir vilja eða fá heimildir til.

4. Sérstakt vörugjald af innlendri framleiðslu. Liðurinn falli niður. Ég geri mér alveg grein fyrir því, að hér er um að ræða ákveðna samningsbundna framkvæmd milli okkar og nágrannatanda okkar. En ég geri mér líka grein fyrir því, að nágrannalönd okkar hafa brotið samninga á okkur í þessum málum, eins og mjög mörgum öðrum, þannig að ég tel okkur ekkert vanbúna að nota þá möguleika sem við höfðum til að styðja við þessa starfsgrein, sem svo nauðsynlegt er að efla í dag.

Gjald af eyðublöðum heillaskeyta er einn af dæmigerðum sporslusköttum sem ríkið stendur í að innheimta og er langt fyrir neðan þess virðingu.

Flugvallagjald. Þetta er gjald sem sett var á við ákveðnar aðstæður fyrir nokkuð löngu síðan og var eitt af því sem átti að fella niður bráðlega. Það er tími til kominn að fella það niður. Það er ekki stór upphæð.

Einkaleyfisgjald frá Happdrætti Háskóla Íslands. Það er illskiljanlegt annars vegar að skattleggja háskólahappdrættið og síðan þurfi ríkið að leggja framlög til Háskólans á móti. Hvers vegna ekki einfaldlega að fella þennan skatt niður og leyfa happdrættinu, sem er byggingarsjóður Háskóla Íslands, að nýta þessa fjármuni til að byggja yfir sig? Má þar nefna sem hliðstæðu að gjarnan er fellt niður innflutningsgjald af vinnuvélum við sérstakar aðstæður.

Prófgjald iðnnema. Það snertir umræddan áhuga okkar á iðnaði að fella það niður. Það er lítil upphæð en engin ástæða til að vera að þurrtutla þessa námsmenn á meðan þeir eru að koma undir sig fótunum.

Síðan koma liðir þar sem er um nokkuð taktvissar endurtekningar að ræða. Hér er um að ræða að lækka laun og önnur rekstrargjöld hjá ráðuneytum um 10% yfir alla línuna, þ.e. í öllum ráðuneytum. Ég hirði ekki um að lesa það. Það er hér upp talið. Það er fyrst forsrn., síðan kemur liður 10, það er húsameistari ríkisins, liðurinn falli niður. Hér er ég að leggja til að embætti húsameistara ríkisins verði einfaldlega lagt niður. Það er óþurftargemlingur á ríkisframfæri.

11. liður, menntmrn. Þar er aftur yfirstjórnarlækkun.

12. liður Fiskvinnsluskólinn. Þar verði gjaldfærður stofnkostnaður hækkaður.

13. liður. Stofnkostnaður dagvistarheimila verði hækkaður.

14. liður. Lækkaður verði yfirstjórnarkostnaður í utanrrn. Sama gildir um 15. lið um yfirstjórnarkostnað við landbrn.

Þá komum við að 16. lið sem er Búnaðarfélag Íslands. Hér er verið að leggja það til í lið a, b og c að sértekjur Búnaðarfélags Íslands verði hækkaðar, þ.e. því verði einfaldlega gert að selja sína þjónustu hærra verði heldur en gert hefur verið hingað til og lækka þar með framlög ríkissjóðs til Búnaðarfélagsins.

17. liður. Veiðistjóri. Það er liður sem hiklaust má falla út. Þetta er ákveðið verkefni sem á að vera á höndum sveitarfélaga. Það er þeirra hagsmunamál hvort vargur er innan þeirra vébanda eða ekki og engin ástæða til að ríkið sé að gera út á slíkt.

18. liður. Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. Það kemur fram í málefnagrundvelli BJ að við viljum leggja útflutningsuppbætur niður í þrepum. Hér er um 25% lækkun að ræða.

19. liður. Sjútvrn. Lækkun yfirstjórnar. Þar næst kemur Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Þar er um að ræða að sértekjur hækki, þ.e. að framlag ríkisins til Framleiðslueftirlitsins lækki á móti. Sama gildir um 21. lið, Fiskifélag Íslands. Þá erum við komin að 22. lið, dóms- og kirkjumrn. Yfirstjórnarkostnaður lækkar um 10%. Síðan kemur félmrn., aðalskrifstofa. Yfirstjórnarkostnaður lækkar.

24. liður. Framkvæmdasjóður fatlaðra. Sá liður hækki um 25%, úr 40 millj. í 50 millj.

25. liður. Hagdeildir Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna og BSRB. Þar hafa verið greiddar einhverjar nokkrar krónur á ári hverju. Sú upphæð hefur reyndar farið hækkandi og mér hefur skilist að jafnvel standi til að aðilum að þessari þjónustu fari fjölgandi líka. Ég sé enga ástæðu til þess að ríkið sé að kosta hagdeildarvinnu þessara fyrirtækja. Ríkið kostar sína Þjóðhagsstofnun. Hún gefur út þau gögn sem hún er beðin um að láta í té og ástæðulaust að vera að reka sams konar þjónustu hjá öðrum aðilum.

26. liður. Heilbr.- og trmrn. Það er yfirstjórnarkostnaður.

27. liður. Þessi liður er samhljóða þeim sem kemur fram í þáltill. fluttri af hv. 2. landsk. þm., Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég reikna með að draga þetta til baka við atkvgr.

28. liður. Fjmrn. Það er yfirstjórnarkostnaður.

29. liður. Tollamál, nýr liður. Aðgerðir vegna smygls og dreifingar á fíkniefnum, 5 millj. Það hefur komið í ljós að eitt af því sem stendur raunverulegri baráttu gegn fíkniefnum fyrir þrifum er mjög léleg aðstaða tollyfirvalda til rannsókna og nákvæmra kannana á möguleikum smygls. Því er full þörf á því að veita fé til þessa því að afleiðingar þess ef við gerum það ekki verða okkur ansi dýrkeyptar.

30. liður. Fasteignamat ríkisins. Við leggjum til að Fasteignamat ríkisins verði einfaldlega lagt niður. Sú vinna sem þar fer fram er að mestu leyti unnin af byggingaryfirvöldum viðkomandi sveitarfélaga. Fasteignamatið í sjálfu sér er ekkert annað en skattfótur og er hægt að nota hvaða skattfót sem er. Við leggjum til að í því tilfelli að þetta yrði samþykkt væri um það að ræða að nota brunabótamat sem alls staðar er fyrir hendi í öllum sveitarfélögum. Þær upplýsingar sem Fasteignamat ríkisins hefur safnað og dreift geta þess vegna farið rakleitt frá byggingarfulltrúum til byggða- og áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar í dag, sem er að verða einhver auðugasti upplýsingabanki sem við eigum.

31. liður. Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins leggjum við líka til að verði lögð niður. Þetta er fyrirtæki sem hefur þvælst fyrir í flestöllum innlendum framkvæmdum og haft þau áhrif oft á tíðum að framkvæmdir hafa orðið úr hófi dýrar og dregist á langinn gjörsamlega að óþörfu. Án þess að ég hafi hér svigrúm til að rekja þá sorgarsögu get ég bara minnt á eitt byggingarverkefni, sem er Geðdeild Landspítala Íslands, en samskipti verkkaupa þar og verksala við Innkaupastofnun var hreint með ósköpum.

32. liður. Samgrn., aðalskrifstofa. Yfirstjórnarkostnaður lækki.

33. liður. Strandferðir. Framlög til skipaútgerðar ríkisins lækki a.m.k. um helming. Þetta fyrirtæki ætti náttúrlega í sjálfu sér ekki að vera til og alls ekki nauðsynlegt að ríkið standi í útgerð með þessum hætti, sem verður sífellt meiri baggi á ríkissjóði.

34. liður. Iðnrn. Yfirstjórnarkostnaður lækki.

35. liður. Iðntæknistofnun. Sértekjur verði engar, þ.e. að þjónusta Iðntæknistofnunar verði nánast gefin. B-liður. Iðntækniþjónusta í lið 102 verði hækkuð um 20 millj. Liður 103, nýiðnaðarrannsóknir verði líka hækkaður um 20 millj.

36. liður. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Aftan við linn bætist liður 101 Almennur styrkur, 22 millj. 779 þús. kr. og liður 102 Rannsóknir og kynning á orkusparnaði 10 millj.

37. liður. Iðja og iðnaður, framlög. Þetta eru framlög aðallega til sveitarfélaga og landsbyggðarinnar.

Liður 104 Iðnþróun og tækninýjungar. Fyrir 2 millj. komi 4 millj. Liður 126 Iðnþróunarverkefni. Fyrir 2.5 millj. komi 5 millj. Liður 127 Iðnráðgjafar. Fyrir 2 millj. 595 þús. komi 7 millj. Þá er verið að reikna með að í hverjum fjórðungi verði a.m.k. tveir fullstarfandi iðnráðgjafar.

38. liður. Ýmis orkumál, orkusparnaður. Þar verði liðurinn hækkaður úr 2.5 millj. í 15 millj. Það er gífurlega áríðandi fyrir okkur að ná niður orkusóun eða orkueyðslu okkar sem allra fyrst. Þar er einhver stærsti virkjanamöguleiki á Íslandi fyrir hendi í dag, sem hægt er að virkja með mjög skjótum hætti.

39. liður. Viðskrn. Yfirstjórnarkostnaður lækki.

40. liður. Niðurgreiðslur á vöruverði verði lækkaðar um 25%.

41. liður. Skráning hlutafélaga. Liðurinn falli niður. Það er engin ástæða til annars en að hlutafélög borgi þann litla kostnað sem hlýst af því að skrá þau.

Herra forseti. Ég hef hér rakið í mjög stuttu máli þær till. sem birtast á þskj. 200. Ég held að ekki sé nauðsynlegt að skýra þær neitt ítarlegar nema þá að til komi einhverjar spurningar. Þó er reyndar smárúsína hérna í endann.

Í 3. gr. fjárlaga, lið 884, þ.e. tekjuhlið fjárlaga, er gert ráð fyrir tekjum af verðjöfnunargjaldi upp á 240 millj. Síðan undir iðnrn., sem er liður 11 371, viðfangsefni 101, er þessu verðjöfnunargjaldi aftur veitt til niðurgreiðslu á raforkuverði. Og í umr. um Orkusjóð er talað um að verðjöfnunargjald af raforku hækki um 120 þús. frá síðustu fjárlögum verði 240 þús. kr. Nú hef ég hér fyrir framan mig upplýsingar frá Sambandi ísl. rafveitna dagsettar 7. des. Þær eru allforvitnilegar og reyndar kannske dálítið áhyggjuefni fyrir mig a.m.k., sitjandi í Ed. og hafa ekki fengið þær í hendur fyrr. Þar er sagt að innheimta verðjöfnunargjalds raforku stefni á þessu ári í 266 millj., ekki 120 eins og gert var ráð fyrir á seinustu fjárl. Þ.e. áætlun upp á 240 millj. í ár er röng. Samkvæmt upplýsingum Sambands ísi. rafveitna og Rafmagnsveitna ríkisins stefnir þetta gjald í það að verða á næsta ári 376 millj., þ.e. 140 millj. hærra. Þetta er smájólagjöf til ríkisstj.

Það er ráðgert auk þess að niðurgreiðslur á raforku til húshitunar nemi 230 millj. Þannig nema verðjöfnunargjöldin, sem reyndar eru óskyld í sjálfu sér, um 470 millj. kr. Samband ísi. rafveitna minnir á að á sínum tíma var 1.5% orkugjaldi bætt inn í söluskatt: Ef þetta orkugjald, sem á sínum tíma féll einhvern veginn inn í söluskattinn, væri notað aftur nú þá næmi það u.þ.b. 470 millj. kr., eða sömu upphæð og verðjöfnunargjald og niðurgreiðslur.

Ef verðjöfnunargjaldið á að vera 240 millj. eins og gert er ráð fyrir í fjárl. verður skattprósentan að lækka úr 19 í 12, annars verða verðjöfnunargjöldin á næsta ári samanlagt a.m.k. 606 millj. kr. Það er oft talað um að það séu peningar til í þessu landi. En það er ekki alltaf vitað hvar þeir eru. Og tilfellið er að maður á oft á tíðum mjög erfitt með að greina hvar þeir geta verið. En svona er það nú, að mörg er matarholan. Nú gætum við hugsað okkur það annars vegar að lækka verðjöfnunargjaldið úr 19 í 12 til að halda okkur við þessa tölu, 240 millj. Það er náttúrlega sjálfsögð og eðlileg krafa þeirra sem þessi gjöld greiða. Hins vegar gætum við líka hugsað okkur að láta þá greiða þennan skatt. Það er í sjálfu sér mismunun þegna landsins, en við það eignuðust menn 140 millj. í ríkiskassanum, sem hægt væri að gera heil ósköp með, ef menn vildu. Má þar minna á smáræði eins og 11.7 millj. til K-deildar og þar fram eftir götunum. Ég gæti nú talið hér ansi lengi áfram upp ýmis mál, sem æskilegt væri að sinna, en eftir sem áður verða menn að gera það upp við sig hvorum megin réttlætið á að liggja. Á að mismuna þegnum áfram með þess konar skattheimtu sem hér um ræðir eða á að láta sem nokkurn veginn jafnt yfir alla gangi með því að lækka verðjöfnunargjaldið, þannig að krónutalan stemmi á endanum.