13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

1. mál, fjárlög 1984

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlan mín að ræða forsendur fjárlaga eða fara mörgum orðum um fjárlagafrv. almennt séð. Það hefur þegar verið gert skilmerkilega af talsmönnum minni hl. fjvn. og raunar hefur meiri hl. gert grein fyrir sinni afstöðu með ræðu sem nýbúið er að þakka og ég get tekið undir það. Það er gott að fá skýringar, svo langt sem þær ná. En það eru ýmis atriði sem ég vildi þó víkja hér að og óska nánari upplýsinga um, auk þess sem ég ætla að mæla hér fyrir nokkrum brtt.

Áður en ég kem að þessum þáttum vil ég þó aðeins nefna það vegna þess að hér er rætt um að endurskoða þurfi forsendur fjárlaga, þ. á m. launaliði, að mjög margt virðist vera í endurskoðun hjá hæstv. ríkisstj. um þessar mundir. Mönnum finnst það skiljanlegt ef þeir taka trúanleg ýmis gögn sem fram eru reidd af rannsóknarstofnunum og sérfræðistofnunum og ekki ætla ég mér út af fyrir sig að vita betur en þær um efni sem þeim er ætlað að sinna. En ég vil þó slá ákveðna varnagla í þeim efnum og alveg sérstaklega vara menn við þeim síbyljuáróðri, þeim stöðuga áróðri sem glymur þessa dagana, að nú sé allt að fara norður og niður umfram það sem verið hafi í þessu þjóðfélagi, eins og við höfum mátt hlusta á allt frá því að hæstv. ríkisstj. settist á stóla.

Ég held að það sé engin tilviljun að þessum þáttum er haldið svo mjög á loft af hæstv. ríkisstj. og sumt af þeim spám sem fram hafa komið og ekki eru bjartar hafi þótt nokkur hvalreki á þessum skammdegisdögum í tengslum við ýmis áform sem stefna hafði verið mörkuð um af hæstv. ríkisstj. áður en að því kom að endurskoða þyrfti forsendur fjárlaga. Ég er þó ekki að ætla neinum út af fyrir sig að hann óski þess ekki að úr rætist í þeim efnum og að úr hugmyndum um, að við þurfum að búa við 200 þús. tonna þorskafla á komandi ári, geti ræst og horft til betri vegar í þessum efnum. Ég þykist vita að allir hæstv. alþm. vænti þess að þar rætist úr. En ég held að við þurfum á þessum skammdegisdögum að leita leiða sameiginlega til að auka með öllum ráðum aflafé þjóðarinnar til þess að bæta úr þeim dökku horfum sem í ýmsum greinum eru fram undan. Ég held að það sé hægt með mörgu móti ef menn leggjast saman á árar að bæta þar um og auka verðmæti þeirrar þjóðarframleiðslu sem þarf að vera til skipta með sanngjörnum hætti. Um skiptin á því sem aflað er í ríkissjóðinn er fjallað í fjárlagafrv. og ég ætla þá að víkja nánar að því.

Það er mikill svipur almenns niðurskurðar og aðhalds í þessu fjárlagafrv. Það kemur engum á óvart út af fyrir sig og þetta kemur víða niður. Þetta kemur niður á verklegum framkvæmdum, þ. á m. skólabyggingum, þetta kemur niður á framlögum til menningarmála og niður á flestum liðum fjárlaga í raun sem ekki eru þeim mun betur verndaðir af lögum. En ég minni á að þegar litið er á þessar tölur hljótum við að hafa í huga að hæstv. ríkisstj. — og hæstv. fjmrh. alveg sérstaklega — taldi mögulegt og nauðsynlegt á þessu ári að rýra tekjur ríkissjóðs með því að létta af tollum og sköttum, t.d. skatti á ferðamannagjaldeyri og tollum á ýmsum varningi en mönnum sýndist nú vera misjafnlega brýnt að létta af tollum og minnka þannig tekjur ríkissjóðs. Ég held að m.a. hafi það verið gráfíkjur, ef ég man rétt sem voru á skránni hjá hæstv. fjmrh. og hann lækkaði tollana á. Þetta er rétt að menn hafi í huga þegar litið er á lágu tölurnar í þessu fjárlagafrv. Hvaða nauðsyn bar til að minnka í sameiginlegum sjóði með þessum hætti á yfirstandandi ári og því næsta?

Hæstv. ríkisstj. hefur látið að því liggja í stjórnarsáttmála og einstakir ráðh. í sínu máli oft að hér þurfi að reyna að treysta undirstöður atvinnulífs í landinu, hér þurfi að reyna að hefja sókn. Auðvitað gleðst maður yfir slíku tali ef eitthvað fylgir síðan á eftir í þeim efnum. Í því samhengi vil ég koma að því að mér finnst að ekki sé alltaf samkvæmni á milli slíkra orða og þess sem við sjáum svo till. um, m.a. í þessu fjárlagafrv.

Ég vil þar koma að fáeinum dæmum, tek þar Iðnrekstrarsjóð fyrstan. Það er aðalþróunarsjóður iðnaðarins sem um hefur verið fjallað á hv. Alþingi með endurskoðun laga síðast á árinu 1980 þegar sjóðnum voru sett ný og endurskoðuð lög. Þessum sjóði er ætlað skv. þessum lögum m.a. að stuðla að auknum útflutningi iðnvarnings, að auka samkeppnishæfni íslensks iðnaðar á innlendum og erlendum markaði að örva nýsköpun í átt til aukinnar og bættrar framleiðslu í iðnaði og að auka framleiðni í iðnaði. Og til þess að sjóðnum sé kleift að rækja hlutverk sitt gera lögin ráð fyrir að hann fái fjárveitingar, framlög úr ríkissjóði, til að geta veitt styrki og hagstæð lán undir verðtryggingarkröfum.

Á síðasta ári var fjárveitingin til þessa sjóðs á fjárlögum 16.6 millj. kr. Í ár bregður hins vegar svo við að í fjárlagafrv. er gerð till. um 5 millj. kr. fjárveitingu sem er auðvitað enn minna að raungildi, kannske eitthvað í kringum 3 millj. samanborið við 16. millj. á fjárlögum yfirstandandi árs.

Stjórn Iðnrekstrarsjóðs lýsti áhyggjum sínum — í erindi til fjvn. Alþingis og þar kemur m.a. fram í upphafi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nýlega hefur komið fram í máli iðnrh. að hugmyndir séu um að leggja Iðnrekstrarsjóð niður en fela verkefni hans öðrum aðilum, m.a. Iðnlánasjóði að því er stuðning við vöruþróun og hagræðingu varðar. Jafnframt hefur komið fram í máli ráðherrans að ekki sé ætlunin að skerða fé það sem runnið hefur til þessara mála“, ég endurtek: „að ekki sé ætlunin að skerða fé það sem runnið hefur til þessara mála.“

Síðan er rakið það framlag sem kemur til sjóðsins og í skýru máli þörfin á því að auka fjárveitingar til hans umfram það sem verið hefur. Rökstutt er hversu fjárveitingar til sjóðsins hafa komið í góðar þarfir til að renna stoðum undir nýja vaxtarsprota í iðnaði. Í þessu erindi segir að fjárveitingar til sjóðsins auk þess fjár sem hann hefur af vaxtatekjum þyrftu á komandi ári að vera 36 millj. kr. Og í lok erindisins segir stjórnarformaður Iðnrekstrarsjóðs:

„Hvernig svo sem skipulagsmálum sjóðsins verður varið væntir stjórn Iðnrekstrarsjóðs þess að fyrir þessu fjármagni verði séð til að ekki verði brugðið fæti fyrir þá þróun sem sjóðurinn hefur stuðlað að á síðustu árum. Hefur sjaldan verið meiri nauðsyn en einmitt nú að vöruþróun og útflutningsviðleitni sé stunduð af kappi í iðnaði landsmanna.“

Ég vil af þessu tilefni, vegna þessa máls spyrja hæstv. iðnrh. og hann má gjarnan koma með hæstv. fjmrh. sér við hönd til að skýra fyrir okkur með hvaða hætti og á hvaða forsendum fjármagn til þessa sjóðs sé skorið niður og sé það ætlun hæstv. ráðh. og ríkisstj. að bæta þar um með öðrum hætti að sýna okkur þá fram á með hvaða hætti það sé gert í þessu fjárlagafrv. Ef eitthvað óvænt á eftir að koma í ljós fyrir afgreiðslu þess væri æskilegt að hæstv. ráðh. upplýsti um það.

Ekki er að finna fjárveitingar úr ríkissjóði til Iðnlánasjóðs sem nefndur hefur verið til að taka við einhverjum hlutverkum Iðnrekstrarsjóðs. Ekki er að finna auknar fjárveitingar til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins. Fjárveiting til hennar stendur í stað í krónutölu samkvæmt þessu frv. þannig að það hefur lækkað að raungildi milli ára. Ekki er því líklegt að sú stofnun, Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, taki á sig mikið af verkefnum Iðnrekstrarsjóðs. Hér er sannarlega komið í óefni ef þetta á að ganga fram með Iðnrekstrarsjóð og ég hef ekki viljað trúa því að hæstv. iðnrh. vildi standa að því að rista með þeim hætti sem hér eru till. um niður fjármagn til þessarar starfsemi. Ég vænti þess að hann varpi ljósi á þetta mál hér í umr.

En það er víðar en í fjárlagaliðum undir iðnrn. sem við sjáum lækkaðar tölur með nokkuð óvæntum hætti. Ég tek hér dæmi af stofnun sem Iðnfræðsluráð heitir þar sem fram kemur á þskj. 191 sem fram var lagt í gær og prentað upp, að ég hygg, í dag og dreift í hv. Sþ. að fjárveitingar til Iðnfræðsluráðs eru lækkaðar verulega frá því sem fyrirhugað var í fjárlagafrv., launaliðurinn lækkaður úr 4.2 millj. niður í um 2.8 millj. og önnur rekstrargjöld lækkuð meira en um helming. Það fylgdi síðan með í ræðu hv. formanns fjvn. að til stæði að leggja þessa starfsemi Iðnfræðsluráðs niður, athuga í því sambandi hvort þyrfti að ráðstafa einhverjum af verkefnum þess annað, en á því byggði þessi till. fjvn. sem ég var hér að koma að. Það kemur nokkuð á óvart fyrir þm. — ég geri ráð fyrir fleiri en mig — að heyra þetta því um þetta hef ég ekkert heyrt í fjölmiðlum sem hafa þó rætt ýmislegt um endurskoðun á málefnum einstakra stofnana í landinu. Það bætist síðan við og ég hef af því spurnir að starfsmenn Iðnfræðsluráðs hafi komið algerlega af fjöllum að frétta af því fyrst í gærkveldi eða í morgun að til stæði að leggja þessa stofnun, Iðnfræðsluráð, niður. Þar vinna nú í föstu starfi að ég hygg átta manns sem sendar eru þessar kveðjur í gegnum þetta þskj. og fá síðan af því spurnir frá Alþingi eftir krókaleiðum að þau verkefni sem þar séu unnin séu kannske óþörf, alla vega hafi verið ákveðið að leggja Iðnfræðsluráð niður frá miðju næsta ári eða svo.

Nú vil ég taka skýrt fram að ég tel það enga goðgá að athuga mátefni einstakra stofnana og hvort þeim megi betur fyrir koma og endurskipuleggja. Það má vel vera að hægt sé að koma verkefnum Iðnfræðsluráðs fyrir með öðrum hætti en nú. Ég hef meira að segja látið mér til hugar koma löngu áður en ég sá þessar tölur í fjárlagafrv. eða till. hv. fjvn. að ekki væri óeðlilegt að verkefni Iðnfræðsluráðs flyttust inn í menntmrn., að hluta til til verk- og tæknimenntunardeildar þar og e.t.v. til skólarannsóknadeildar sem svo hefur verið kölluð en sem nú heyrast hugmyndir um að eigi raunar að leggja niður, svo það er nú kannske ekki gott að vera að vísa miklu til hennar í bili. En hvað sem um það má segja á Iðnfræðsluráð lögum samkvæmt nú að sinna skilgreindum verkefnum og það mikilvægum verkefnum fyrir iðnfræðsluna í landinu, verkefnum sem hafa verulega þýðingu fyrir þessa starfsemi og þá sem hennar njóta, iðnnemana, sem njóta þjónustu Iðnfræðsluráðs. Þarna er á meðal leiðbeiningarstarf varðandi starfsval fyrir iðnnema, þ.e. um staðfestingu námssamninga, slit á þeim og styttingar og reyndar margt fleira sem mætti að víkja.

Ég ætla ekki að hafa langa tölu um þetta atriði, en í því sem ég vildi sérstaklega nefna til viðbótar er gerð á námsskrám og námsgögnum fyrir iðngreinarnar sem hefur verið unnið að á vegum Iðnfræðsluráðs og skilað hafa verulegum árangri á undanförnum árum, að ég hygg, og þar unnið að mörgum atriðum sem ekki er fulllokið. Ég heyrði í máli hv. formanns fjvn. sem rökstuðning að iðnnámið hefði færst svo mjög inn í fjölbrautaskólana að það gerði endurskipulagningu og niðurfellingu eða niðurlagningu þessarar stofnunar eðlilega. En ég hygg að nálægt 60% iðnnema séu á samningum, þrátt fyrir að í mjög auknum mæli sé farið að stunda iðnfræðsluna innan framhaldsskólakerfisins og ekki nema gott um að segja.

Ég vil vegna þessa sérkennilega máls spyrja hæstv. menntmrh. sem hér er viðstaddur hverju þetta sæti. Ég vil leita eftir skýringum hæstv. menntmrh. á því hvort hæstv. ráðh. hefur tekið ákvörðun um þetta eða hvort það er hv. formaður fjvn. í hans umboði eða hvernig þessi ákvörðun sé til komin. Ákvörðun sem gerð er með slíkri leynd að hvorki formaður Iðnfræðsluráðs, Sigurður Kristinsson, eða framkvæmdastjóri ráðsins höfðu hugmynd um að eitthvað af þessu tagi stæði til.

Þetta minnir nokkuð á vinnubrögð sem voru blaðaefni fyrir skemmstu varðandi Rafmagnsveitur ríkisins þar sem hæstv. iðnrh. gaf til kynna á hádegisverðarfundi hjá óskyldum aðilum að nú ætti aldeilis að taka til hendi gagnvart þeirri stofnun. síðan hafði flokksmálgagnið Morgunblaðið það eftir ráðh. að það væri hátt í 100 manns sem mættu missa sig hjá Rafmagnsveitunum og á annað hundrað bifreiðar, en nánari fregna af þeim tíðindum öllum væri að vænta í byrjun næsta árs, í janúar. Það endurtók ráðh. þannig að þar eru ekki öll kurl komin til grafar. Ég ætla ekki að ræða það mál hér frekar en það sem hér kemur fram varðandi Iðnfræðsluráð, sem eru undir öðru rn., minnir á þessi tíðindi og hvernig þeim er komið til skila af hálfu hæstv. iðnrh. varðandi Rafmagnsveiturnar.

En það er annað atriði varðandi Rafmagnsveitur ríkisins sem ég vil koma hér að sem varðar fjárhag þess fyrirtækis. Það eru framlög ríkisins sem eignaraðila til Rafmagnsveitna ríkisins. Allt frá árinu 1979 hefur eigandinn lagt til Rafmagnsveitnanna framlög sem hefur munað verulega um í rekstri fyrirtækisins og auðveldað að ná fram þeim markmiðum til jöfnunar á gjaldskrám sem náðst hafa t.d. á almennum heimilistaxta á þessu tímabili. Þannig var t.d. árið 1981 veitt á fjárlögum 14 millj. og 250 þús. kr. til Rafmagnsveitnanna á verðlagi þess árs. Á árinu 1982 var veitt til Rafmagnsveitnanna 17 millj. 750 þús., þar af voru 10 millj. sem komu eftir afgreiðslu fjárlaga og síðan til viðbótar bráðabirgðalán sem var breytt í eignarframtag upp á 12 millj. kr. þannig að á árinu 1982 var veitt um 30 millj. kr. framlag til Rafmagnsveitna ríkisins. Skv. fjárlögum yfirstandandi árs, 1983, er veitt 12 millj. 170 þús. kr. til Rafmagnsveitnanna sem framlag eiganda. En síðan ber svo við að í þessu fjárlagafrv. er ekki að finna krónu sem framlag til Rafmagnsveitnanna, engin fjárveiting er sýnileg til þeirra. Þetta mun ekki létta róður fyrirtækisins sem þjónar eins og við vitum öðru fremur dreifbýlinu. Ekki auðveldar þetta að halda niðri gjaldskrám og tryggja þar hallalausan rekstur.

Ég minni á að stefnumótun ríkisstj. fráfarandi var að slík framlög skyldu veitt og tekið mið af félagslegum þætti framkvæmda á vegum Rafmagnsveitnanna. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh.: Gerði hann ekki till. við mótun fjárlagafrv. af hálfu síns rn. um að fá slíkt framlag til Rafmagnsveitnanna? Hafi það verið gert, hvernig stendur þá á því að málið hefur ekki fengið framgang með till. skv. fjárlagafrv.? Fékk málið ekki stuðning í hæstv. ríkisstj.? Hverjir voru það sem brugðu þar fæti fyrir málið, ef það gerðist? Var það kannske hæstv. fjmrh. eða ráðh. Framsfl. sem þó studdu þetta mál í síðustu ríkisstj., að Rafmagnsveiturnar fengju slíkt framlag? Ég vil inna hæstv. iðnrh. eftir þessu.

Þá kem ég að húshitunarkostnaðinum og því sem varðar lækkun hitunarkostnaðar húsnæðis í landinu. Það eru ekki nema fáir dagar síðan fram fór umr. um það mál utan dagskrár í hv. Nd. og ég ætla að vísa til hennar að hluta til að stytta mál mitt. Í þeirri umræðu vakti ég athygli á verulegri hækkun húshitunarkostnaðar hjá viðskiptavinum rafveitna og hitaveitna á þessu ári eftir að núv. ríkisstj. var mynduð. Ég benti þar á það, sem ég vil rifja hér upp, að húshitunartaxtinn hefur að meðaltali hækkað um 17.4% frá því að ríkisstj. tók við völdum, þrátt fyrir auknar niðurgreiðslur, þrátt fyrir að varið hafi verið um 150 millj. kr. í auknar niðurgreiðslur á raforku til húshitunar vegna þess að það sem þannig hefur komið hefur verið tekið með öðrum hætti, með hækkun gjaldskráa, með miklum hækkunum á gjaldskrám sem hafa meira en tekið til baka það sem húseigendur eða leigjendur væntu að kæmi þeim til góða.

Annar orkukostnaður hefur hins vegar hækkað enn meira eða um 38.5%, hinn almenni taxti heimilanna, þannig að það er orðið um mánaðarlaun lágtekjumanns sem núverandi ríkisstj. hefur tekið í kostnaðarauka á ári af meðalfjölskyldu með hækkun orkukostnaðar. Ég hlýt að minna á stóru orð núverandi stjórnarherra á síðasta þingi þegar þeir voru í ríkisstj. og utan ríkisstj. því að í þeim kór sungu saman með hv. þm. Sjálfstfl. þm. Framsfl., að vísu mismunandi hátt, en þeir gerðu það bæði hér á Alþingi og utan þingsala og í málgögnum sínum með mjög eftirminnilegum hætti. Þeir tóku þar undir söng hæstv. núv. iðnrh. um orkujöfnunargjaldið sem stolið hefði verið og það skyldi fara á aðra leið ef þeir mættu koma áhrifum sínum við. Hæstv. núv. iðnrh. upplýsti í umr. á föstudaginn var að tekjur af þessu margumtalaða orkujöfnunargjaldi, 1.5 söluskattsstigi frá árinu 1980 mundi nema um 470 millj. kr. á næsta ári.

Skv. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 230 millj. kr. framlagi í niðurgreiðslu vegna rafhitunar og um 60 millj. kr. vegna olíustyrkja. Ég vil benda á að þessar 290 millj. kr., þó að saman væru lagðar, nægja ekki einu sinni til að standa undir núverandi niðurgreiðslustigi á næsta ári. Þar er því ekkert að hafa til að mæta hugsanlegum hækkunum á gjaldskrám, verðlagningu sem hæstv. ríkisstj. boðaði að verði gefin frjáls frá 1. febr. n.k., og kæmi nokkuð spánskt fyrir sjónir ef fyrirtækin bættu ekki eitthvað við sínar gjaldskrár. Ef til þess kemur er ekkert að hafa skv. fjárlögum ef ekki verður breyting á til að halda núverandi niðurgreiðslustigi og kostnaði í skefjum. Og ekkert til að lækka eða jafna húshitunarkostnaðinn með þeim hætti frá því sem nú er.

Ég kem þá að brtt. sem ég flyt á þskj. 205 varðandi þetta mál, sem er fyrsta lagi tekjuöflunartillaga til að afla ríkissjóði 190 millj. kr. tekna til að standa undir lækkun húshitunarkostnaðar sem því nemur — ég segi lækkun húshitunarkostnaðar, ekki bara vegna rafhitunar heldur einnig hjá dýrari hitaveitum, þannig að upphæðin samkv. umræddum fjárlagalið, 11 399, Ýmis orkumál, undirliður 105, breytist úr 230 millj. kr. í 420 millj. Það er upphæð sem hefur samsvörun í till. á þskj. 125 um lækkun og jöfnun húshitunarkostnaðar og átak í orkusparnaði, þáltill. sem ég flyt með sex öðrum hv. þm. Alþb. um þetta efni, þar sem gert er ráð fyrir að til að lækka húshitunarkostnað íbúðarhúsnæðis á komandi ári að því marki að lágtekjufólk þurfi ekki að vinna nema sem svarar 8 vikur á ári, tvo mánuði á ári til að standa straum af húshitunarkostnaðinum, þá verði það gert kleift, með 421 millj. raunar samkv. útreikningi, til að standa undir þeirri lækkun sem þetta markmið fæli í sér. Þá vantar á vegna atvinnuhúsnæðis, ef standa ætti við markmið þáltill. að þessu leyti varðandi þennan áfanga í lækkun húshitunarkostnaðar.

Ég veit að hv. alþm. eru býsna vel kunnugir þessum málum vegna ítrekaðrar umr. um þau hér á hv. Alþingi svo sem vert er. Ég ætla því ekki með mörgum orðum að rökstyðja þessa till. En ég hlýt að víkja að þeirri tekjuöflun sem hér er lögð til í formi hækkunar skatta af seldri vöru og þjónustu með nýjum lið í formi hækkunar orkuverðs til stóriðju og/eða með orkuskatti, sem gefi 190 millj. í tekjur, nýjar tekjur í ríkissjóð. Hér er fylgt þeirri stefnu sem gerð var till. um af nefnd sem skilaði áliti 28. jan. s.l. og í áttu sæti fulltrúar frá öllum þingflokkum og fjölluðu um það efni hvernig ætti að afla tekna til að standa undir lækkun húshitunarkostnaðar. Þeirra aðattillaga var hækkun orkuverðs til stóriðju og þeirra varatillaga, ef það gengi ekki fram með skjótum hætti, var álagning orkuskatts á alla notorku, að undanskilinni orku til fiskiskipa og þeirri orku sem nú þegar er lagt á verðjöfnunargjald, þannig að það bættist ekki þar við. Ég vísa til þessara tillagna varðandi þessa tekjuöflun.

Ég hlýt jafnframt að vísa til þess að hæstv. ríkisstj. og hæstv. iðnrh. alveg sérstaklega er að vinna að endurskoðun raforkusölusamninga til stóriðjufyrirtækja, gerði bráðabirgðasamkomulag 23. sept., s.l., sem hann nú nýlega upplýsti okkur um að hann teldi allsendis ófullnægjandi, og gladdi mig að heyra það, þrátt fyrir það að talið væri ótrúlegt afrek á haustdögum, og fyrir 1. apríl n. k. er ætlunin að ganga frá samkomulagi um endurskoðun samninga við Íslenska álfélagið, sem nú greiðir 9.5 mill fyrir kwst., sem er hækkun um 3 mill frá gildandi samningi. Hins vegar vantar þrisvar sinnum 3 mill upp á það að fyrirtækið greiði enn framleiðslukostnaðarverð fyrir raforkuna og ég get ekki trúað því, og ég hugsa að flestir hv. alþm. taki undir það, ég get ekki trúað því að menn ætli að greiða áfram með raforkusölu til þessa fyrirtækis. Sú till. sem hér er gerð varðandi tekjuöflun af þessum pósti er ekki ofílögð, ef litið er á þetta efni. Hækkun um 3 mill gefur á ári samkv. upplýsingum hæstv. ráðh. 137 millj. kr. og þreföld sú hækkun losar 400 millj. kr. Þriðjungur ársins er liðinn 1. apríl og við skulum taka tillit til þess. Þá gæfi framleiðslukostnaðarverð af raforkunni í tekjuauka um 300 millj. kr. og hér er þó aðeins gert ráð fyrir að tæpum 200 verði skilað í ríkissjóð til þess að standa undir lækkun húshitunarkostnaðar sem þessu nemur. Til vara síðan orkuskattur, sem er lagður m.a. á raforkusölu til stóriðju hjá nágrönnum okkar Norðmönnum og hefur verið svo lengi.

Ég kem þá að brtt. sem ég ætla að mæla hér fyrir á þskj. 204 sem ég flyt ásamt fjórum öðrum þm. Alþb. varðandi Námsgagnastofnun. Það er brtt. við lið 2 422 og gerir ráð fyrir 3 millj. kr. framlagi til viðbótar til Námsgagnastofnunar umfram það sem gert er ráð fyrir í till. fjvn., umfram það sem hún hefur lagt til á þskj. 191. Till. okkar gerir ráð fyrir því að 1 millj. kr. af þessum 3 verði varið til undirbúnings og útgáfu sérkennslugagna á vegum Námsgagnastofnunar. Hér er um mjög brýnt verkefni að ræða fyrir þá sem höllustum fæti standa, eins og m.a. kemur fram í bréfi sem formaður landssamtakanna Þroskahjálpar, Eggert Jóhannesson, ritaði m.a. þingflokki Alþb. 5. des. s.l. um þetta efni. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, m.a.:

„Hlutverk Námsgagnastofnunar er að sjá grunnskólunum fyrir sem bestum og fullkomnustum náms- og kennslugögnum. Þessum ákvæðum hefur ekki verið nærri fullnægt hvað varðar nemendur með sérþarfir, enda ekki verið um að ræða skipulega útgáfu á sérkennslugögnum á vegum hins opinbera. Stjórn landssamtakanna Þroskahjálpar leggur áherslu á að útgáfa á námsgögnum fyrir nemendur með sérþarfir verði fastur liður í verkefnum Námsgagnastofnunar og að hafist verði handa um skipulega útgáfu á sérkennsluefni strax á næsta ári. Með þessu bréfi vill stjórn landssamtakanna hvetja fjvn. Alþingis til að tryggja það að Námsgagnastofnun verði gert kleift að sinna því hlutverki sem henni er ætlað þannig að réttur umræddra nemenda verði ekki enn einu sinni fyrir borð borinn.“

Það er mat starfsmanna Námsgagnastofnunar að með 1 millj. kr. framlagi megi koma verulegu skriði á þessi mál í framhaldi af því starfi sem hafið er á vegum stofnunarinnar með ráðningu sérstaks fulltrúa á síðasta ári sem vinnur að þessum málum. Ég treysti því að hv. alþm. sýni þessari till. skilning með stuðningi við hana. Þá leggjum við til varðandi Námsgagnstofnun að framlag til bókaútgáfu á hennar vegum hækki um 2 millj., eða 4 millj. samtals frá tölu fjárlagafrv., í 27 millj. 399 þús. kr. Til rökstuðnings þessari till. vísa ég til þeirrar umr. sem fór hér fram í Sþ. þann 6. des. s.l. þegar hæstv. menntmrh. svaraði fsp. minni um fjárhag og skyldur Námsgagnastofnunar. Það er ljóst að stofnunin er þrátt fyrir óverulega leiðréttingu samkv. till. fjvn. miðað við áætlun stofnunarinnar og þarfir í algerri hnappheldu og afleiðingar þess á skólastarf eru óforsvaranlegar.

Ég minni á að eftir sem áður eru framlög til Námsgagnastofnunar aðeins — og þá er það deildin sem til hennar rennur — aðeins sem svarar um 1000 kr. á hvern nemanda í grunnskólum landsins en þeir eru um 37 þús. talsins. Hér er því engin ofrausn á ferðinni heldur verið að taka sárasta broddinn úr þeim aðstæðum, þeim bágu aðstæðum sem Námsgagnastofnun eru búnar með þeim tillögum sem fram eru komnar frá ríkisstj. og fjvn.

Það kom fram í máli hv. formanns fjvn. að athugun stæði yfir á málefnum stofnunarinnar og boðuð væri hagræðing mála, m.a. fjárveiting í því skyni. Ég verð nú að segja að sumt af því sem þar kom fram gladdi mig ekki sérstaklega, þar sem í máli hv. þm. Lárusar Jónssonar, formanns fjvn., var um það getið að með hagræðingu væri m.a. til sérstakrar athugunar að fara í útboð varðandi undirbúning og útgáfu námsefnis á vegum stofnunarinnar. Ég vil hvetja til þess að menn fari varlega í þeim efnum og hlýði af gaumgæfni á varnaðarorð áður en út á þá braut verður farið. Það má vera að menn sjái möguleika á einhverri lækkun útgjalda með slíkum hætti í byrjun en ég er ansi hræddur um að það geti virkað verulega neikvætt á námsefni og starfsemi stofnunarinnar, sem á marga lund er til fyrirmyndar, eins og þeir munu sannfærast um sem kynna sér starfsemi hennar.

Þá mæli ég hér að lokum, herra forseti, fyrir brtt. varðandi liðinn Landgræðslu- og landverndaráætlun þar sem lagt er til að tekinn verði inn nýr liður, Fyrirhleðslur vegna hamfarahættu á Skeiðarársandi, að upphæð 8.7 millj. kr. Í sambandi við þessa till. og til að skýra hana fyrir þeim sem ekki hafa átt sæti í hv. fjvn. vil ég vitna til erindis sem henni var sent, dags. 22. nóv. s.l., frá almannavarnanefnd Austur-Skaftafellssýslu, undirritað af Friðjóni Guðröðarsyni sýslumanni, formanni nefndarinnar, en þar segir m.a. með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og alkunna er hafa Skeiðarárhlaup unnið tjón, að vísu ekki stórvægilegt enn sem komið er, á varnargörðum á Skeiðarársandi svo og gróðurtorfunni neðan undir Skaftafellsbæjum. Þessara flóða er að vænta nær hvenær sem er og um styrkleika þeirra er ekki unnt að spá. Því er bráðaðkallandi að nú þegar og í allra síðasta lagi með vordögum verði hafist handa um garðagerð og styrkingu auk lagfæringa á þeim varnargörðum sem fyrir eru á Skeiðarársandi og tengjast brúarmannvirkjunum þar. Því er óskað eftir sérstakri fjárveitingu í þessu skyni, sbr. kostnaðaráætlun Vegagerðar ríkisins,“ — sem fylgdi þessu erindi til fjvn., það er innskot mitt. „Upphæðin sem farið er fram á nemur 8.7 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir mótframlagi Viðlagatryggingar Íslands, sbr. bókun þar á fundi snemma árs 1982.“

Ég vek sérstaka athygli á fyrirheiti Viðlagatryggingar Íslands um allt að 50% mótframtag til viðbótar framlagi ríkisins vegna þessara aðgerða. Skeiðarárhlaup sem nú stendur yfir hefur raunar undirstrikað þetta erindi nefndarinnar og staðfest það, að Skeiðarárhlaupa getur verið að vænta á öðrum tímum en menn hafa gert ráð fyrir. Hér er mikið í húfi að komið verði upp nauðsynlegum vörnum, sem líkur eru á að geti komið í veg fyrir mikið tjón, bæði á verðmætri aðstöðu sem komið hefur verið upp svo og landi sem gróið hefur upp í skjóli þeirra mannvirkja sem risin eru, þeirra varnargarða og annarra mannvirkja sem risin eru á Skeiðarársandi. Ég bendi á að fordæmi fyrir slíkum fjárveitingum til viðbótar fjárveitingum frá Viðlagatryggingu eru frá liðnum árum t.d. vegna fyrirhleðslna við Vík í Mýrdal vegna hamfarahættu af Kötlugosi og hlaupum sem því eru samfara.

Ég vænti þess að þetta mál fái jákvæðar undirtektir og ég er vissulega reiðubúinn til þess að á það verði litið milli umr., ef tilmæli koma um þar að lútandi, og ef von er þess að þetta erindi fái jákvæðar undirtektir. Ég tek fram að hugsanlegt getur verið að lægri upphæð geti komið að notum og skynsamlegu gagni og á það er sjálfsagt að líta ef stuðnings er að vænta við þetta málefni.

Herra forseti. Ég hef hér mætt fyrir brtt. sem ég stend að og tveimur brtt. sem ég stend að með öðrum hv. þm. Alþb. Ég minni á það, að við höfðum gert tillögur um tekjuöflun á móti þessum brtt. svo að ekki yrði um að ræða röskun á niðurstöðutölum fjárlaga ef á tekjuöflunartillögurnar er fallist.

Ég hefði vissulega ástæðu til að nefna hér margt fleira en skal nú draga í land, skal hér stytta mál mitt, enda senn komið að miðnætti á þessum fundi. Ég vil þó minna á að á sama tíma og flestum er naumt skorinn stakkur samkv. fyrirliggjandi fjárlagafrv., bæði framkvæmdum og opinberri þjónustu og ekki síst margháttaðri menningarstarfsemi í landinu, þá eru þeir aðilar til, opinberir aðilar sem m.a. virðast hafa sæmileg efni og telja sig ekki þurfa að spyrja hv. Alþingi og jafnvel ekki þingkjörnar stjórnir varðandi fjárfestingar og önnur umsvif. Þar er glöggt dæmi bygging Seðlabankahúss sem ekki fer fram hjá neinum, síst hæstv. ráðherrum sem í Arnarhvoli sitja, ef þar er brugðið á sprengingar eins og þær sem þeir sem í stólum þeirra sátu fyrr, máttu búa við á þeim slóðum. Þar er haldið áfram framkvæmdum á sama tíma og m.a. er stöðvuð bygging þjóðarbókhlöðu. Ég tel það nú ekki vel við hæfi að bregðast þannig við á þrengingartímum, sem kallaðir eru, að stöðva byggingu yfir bækur og handrit í þessu landi og láta framkvæmdir við hallir jafnvel þó að því sé haldið fram af forstöðumönnum þeirra að þar verði til peningar svona nokkurn veginn af sjálfu sér, láta framkvæmdir við slíkar hallir ganga áfram eins og ekkert hafi í skorist.

En ég vil nefna hér annað dæmi sem er ekki með öllu óskylt þó að það sé annars eðlis. Stofnanir margar, sem við lesum um hér í fjárlagafrv., telja sig hafa fengið heldur neikvæðar undirtektir varðandi ýmislegt, sem þær hafa farið fram á, en ég skil það að möguleikar á að verða við beiðnum þeirra eru takmarkaðir. Þó er það svo að menn hljóta að líta þar á málin út frá efni, hversu brýnar umsóknir er um að ræða og hverju fjárveitingar geta skilað. Ég vil í þessu sambandi minna á að Hafrannsóknastofnun, sem við eigum nú mikið undir, m.a. þeir sem eru að spá í fjárlög komandi árs, óskaði eftir því að fá fjárveitingu til tölvukaupa, til að geta komið sér upp tötvu við hæfi að mati starfsmanna stofnunarinnar. Talið var að tölvan með nauðsynlegasta búnaði kostaði eitthvað nálægt 7 millj. kr. Fjvn. mun hafa tekið á þessu erindi og þó að ekki hafi verið orðið við neinu af óskum stofnunarinnar varðandi gjaldfærðan stofnkostnað einstakra deilda, þá var þó heimiluð fjárveiting eitthvað nálægt 1.5 millj. kr. til tölvukaupa fyrir Hafrannsóknastofnun. Tölvuna sem stofnunin vildi kaupa átti að nota til stofnstærðarútreikninga á fiskistofnum, sem þjóðhagsáætlun og einnig forsendur fjárlagafrv. eru reistar á, og nú boðað að endurskoða þurfi vegna þess að nýjar tölur og nýir spádómar hafa komið út úr gömlu tölvunni hjá þeim hjá Hafrannsókn. En það var einmitt kvartað undan því að það hefði þurft að bíða eftir úrvinnslu á gögnum hjá stofnuninni vegna þess að menn komust ekki að í tölvunni og það reyndist tafsamt að reikna út úr gögnunum, upplýsingunum, sem safnað hafði verið.

En fyrir hverju skyldi nú upphæðin, 1.5 millj. kr., hrökkva, sem fjvn. ætlar Hafrannsóknastofnun? Jú, hún á að nægja fyrir tölvu. En hvaða tölva ætli það sé? Jú, það er tölva ofan úr Framkvæmdastofnun ríkisins. Það er tölva sem Framkvæmdastofnun ríkisins tetur óbrúklega fyrir sig og sína starfsemi og hefur ráðist í það að endurnýja tölvuna hjá sér og hugbúnaðinn sem henni á að tengjast. Ég fékk þær upplýsingar í dag, þegar ég talaði við einn forstjórann, einn framkvæmdastjórann mun hann heita, því að það eru aðeins þeir á toppnum sem bera forstjóranafnbótina, að þetta væri 5 ára gamall öldungur sem þeir hefðu orðið að losa sig við þar hjá Framkvæmdastofnun. En það er sem sagt Hafrannsóknastofnunin, sem á að kaupa þennan 5 ára gamla öldung fyrir 1.5 millj. kr. og koma upp hjá sér til þess að reyna að bæta eitthvað úr gagnaúrvinnslunni varðandi fiskistofnana, stofnstærðarrannsóknirnar og spádómana, sem við bíðum eftir spenntir og í ofvæni hér á Alþingi, ekki síst eftir að veruleg röskun hefur nú orðið á síðustu árum í sambandi við upplýsingar og spádóma þessarar annars ágætu og virtu vísindastofnunar.

Fjvn. treystir sér m.ö.o. ekki til að verða við ósk stofnunarinnar um fjármagn til þess að hún gæti keypt Digital Vex tölvuna japönsku, sem ég frétti reyndar að væri með sama merki og er á tölvubúnaðinum í Gautaborg sem menn hafa verið að hnýsast í upp á síðkastið. Það mun vera sama firmað, sami framleiðandinn, Digital Vex. En á sama tíma og þessi undirstöðustofnun í okkar sjávarútvegi fær ekki fjárveitingar frá hv. Alþingi til þess að endurnýja sinn tölvubúnað, heldur fær rétt til þess að hirða 5 ára gamlan öldung ofan frá Framkvæmdastofnun, þá kaupir Framkvæmdastofnun ríkisins tölvu, glæsilegt tæki, eðlileg endurnýjun að mati starfsmanna og framámanna þar, en gífurleg stækkun, sem er álíka stökk eins og það, þegar þeir höfðu ekki neina tölvu, frá þeim öldungi, sem þeir nú eru að losa sig við, og með margfalda möguleika, enda eiga að fylgja skjáir inn á flest borð starfsmanna hjá stofnuninni auk hugbúnaðar af ýmsu tagi, sem auðvitað þarf að koma til ef á að nýta þetta tryllitæki.

Nú vil ég taka það fram að vera má að Framkvæmdastofnun hafi skynsamlegt gagn af slíkri tölvu. Á það hef ég ekki lagt mat og er ekki að kveða upp úr um það. Það getur verið að það sé nauðsynlegt að margfalda, tífalda eða svo afkastagetu tölvanna þar inn frá og kannske þaðan af meira til þess að menn geti spáð betur í spilin þar. En ég spyr hér: Finnst hv. Alþingi vinnubrögð af þessu tagi við hæfi? Og ég hef ástæðu til að ætla að þessi opinbera stofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, hafi ekki talið sig þurfa svo mikið sem að spyrja þingkjörna stjórn stofnunarinnar að því, hvort hún mætti fjárfesta í sömu tölvunni og Hafrannsóknastofnun var synjað um fjármagn til að kaupa. En ég spyr vegna þess að hér er stjórnarformaður Framkvæmdastofnunar meðal vor, hv. þm. Stefán Guðmundsson, hv. 5. þm. Norðurl. v., nýtekinn þar við á bæ, og hér er raunar einnig hjá okkur á þinginu forstjóri sjálfrar Framkvæmdastofnunar, hv. 4. þm. Austurl., svo að þessir hv. fulltrúar Framsfl. hljóta að geta upplýst okkur um það með hvaða hætti var tekin ákvörðun um tölvukaupin inni við Rauðarárstíg og var málið lagt fyrir stjórn. Stjórnarformaðurinn getur eflaust upplýst það með hvaða hætti ákvörðun var tekin um þetta efni.

Ég tel þetta vera mál til umhugsunar fyrir hv. Alþingi. Ef þau eru mörg dæmin af þessu tagi, Seðlabankabygging, tölvukaup hjá Framkvæmdastofnun og ráðstafanir opinberra stofnana af slíku tagi, ef þeim dæmum fjölgar hér, sem ég er ansi hræddur um að yrði ef farið væri að leita eftir, þá er það nokkurt umhugsunarefni fyrir okkur, sem erum hér að skammta opinbert fé með gerð fjárlaga á hv. Alþingi, ef slíkir hlutir gerast svo bara án þess að nokkur nánast viti af hjá opinberum eða hálfopinberum aðilum, sem jafnvel eru undir þingkjörnu eftirliti og stjórnun.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mál mitt. Ég taldi nauðsynlegt að víkja hér að ýmsum þáttum. Ég hef spurt hv. formann fjvn. hér að vissum atriðum en sérstaklega hef ég beint máli mínu til hæstv. ráðh., hæstv. fjmrh., hæstv. menntmrh. vegna Iðnfræðsluráðs sérstaklega og til hæstv. iðnrh. ekki síst vegna Iðnrekstrarsjóðs, framlaga til Rafmagnsveitna ríkisins, sem ég finn ekki á fjárlögum, og vegna húshitunarkostnaðarins, fjármagns til lækkunar húshitunarkostnaðar. Og þar sem ég veit að hæstv. ráðh. átti von á nál. varðandi húshitunarkostnað hér um daginn og ég hygg að hann hafi fengið það, tillögur frá nefnd sem hann skipaði í júnímánuði hygg ég að hafi verið, til þess að undirbúa tillögur um lækkun húshitunarkostnaðar. Hafi hann nú fengið þær till. þá er hann væntanlega í stakk búinn til að segja okkur frá því á hverju við eigum von, hvað er í vændum til þess í reynd að lækka húshitunarkostnaðinn í stað þeirrar öfugþróunar sem orðið hefur á undanförnum mánuðum.

Varðandi hæstv. fjmrh. þá var það fyrst og fremst það sem tengdist þessum fsp. til annarra ráðh., með hvaða hætti hann hefði að þeim málum komið, því að eflaust er hann allra manna kunnugastur því frv. sem hér er til umr.