13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

1. mál, fjárlög 1984

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þykir tekinn að færast nokkur drungi yfir þennan fund þegar mér hlotnast sá heiður að hefja mál mitt hér á nýjum drottins degi, sem mun vera miðvikudagurinn 14. desember. Það vekur einnig athygli mína sem nýliði hér á hinu háa Alþingi hversu fáir hv. þm. og hæstv. ráðh. kjósa að vera viðstaddir þessa umr. til að fylgja þessu mikilvæga máli úr hlaði eða öllu heldur leggja því lið sitt á þessum áningarstað í þinginu.

Það eru tvær þekktar persónur úr bókmenntunum sem eiga það sameiginlegt m.a., þeir Hrói Höttur og Skugga-Sveinn, að þeir rændu einkum og sér í lagi frá hinum ríku. Nú er ég hér ekki að halda því fram að hæstv. ríkisstj. fari með ránum og gripdeildum, en hún á það ekki heldur sameiginlegt með þeim Skugga-Sveini og Hróa Hetti að hún leiti einkum fanga hjá hinum ríku. Nú er leitað annars staðar. Nú er farið til hinna snauðu og einkum og sér í lagi til hinna sjúku. Nú eiga menn að borga peninga fyrir að leggjast veikir. Það eru ekki aðalsmenn og ekki höfuðból sem nú eru skattlögð, nei, ó nei. Nú er hægt að létta álögum af þeim sem hafa efni á því að fara til útlanda. (Forseti: Hljóð í salnum.) (Gripið fram í: Nú má ekki kalla fram í.) Og á kostnað hverra? Á kostnað þeirra sem liggja veikir á spítölum. Þeir geta borgað gjöldin í ár fyrir þá sem eru að leika sér í útlöndum. Það er mjög athyglisvert þetta réttlæti sjálfstæðismanna. Þegar því slær saman við túngræna stefnu framsóknarmanna, við túngrænar forsendur framsóknarmanna, kemur þetta út: Létta á álögum af þeim sem eru að leika sér í útlöndum á kostnað hinna sem liggja veikir á sjúkrahúsum landsins. Þannig mun réttlæti þessarar ríkisstj. birtast mönnum á því herrans ári 1984. Það er merkilegt réttlæti.

Herra forseti. Ástæður þess að ég kem hér í ræðustól eru einkum tvær. Ég mæli fyrir brtt. sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum þm. Alþb. á þskj. 204.5. lið, og í öðru lagi vil ég taka undir brtt. sem flutt er á þskj. 199.

5. liður á þskj. 204 varðar Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Þar er í frv. til fjárlaga gert ráð fyrir óbreyttri krónutölu frá árinu 1983, þ.e. 13 millj. 641 þús. kr. Ég dreg mjög í efa að þessar fjárveitingar muni duga til að standa við samningsbundin verkefni okkar Íslendinga í þessum efnum. Hv. þm. Lárus Jónsson formaður fjvn. sundurliðaði fjárveitingar til þessa verkefnis í dag á þá

leið að til norrænna samstarfsverkefna ættu að fara 3 millj. 740 þús. kr., til Cabo Verde verkefnisins 9 millj. kr. og til skrifstofukostnaðar 900 þús. Einkum og sér í lagi er ég efins um að 9 millj. kr. muni duga til að senda nýtt skip til veiða suður við Cabo Verde eyjar og gera það þar út í heilt ár. Því mun fylgja fimm manna áhöfn og þetta skip mun væntanlega ganga fyrir olíu eða einhverju öðru eldsneyti. Ég efa stórlega að þetta skip verði mikill bjargvættur fyrir eyjaskeggja þar suður í hafi ef það á að reka sig á 9 millj. kr. á öllu næsta ári, fyrir nú utan það að það hlutfall sem við Íslendingar með þessu móti ætlum að verja til þróunarverkefna á næsta ári er til háborinnar skammar. Það er óralangt í land að við stöndum við skuldbindingar okkar, sem við bundum okkur við á sjöunda áratugnum, að stefna að að verja 1% af þjóðartekjum til þróunarverkefna. Þar af var talið eðlilegt að 0.7% kæmu af beinum framlögum frá ríkinu og 0.3% kæmu frá öðrum aðilum. Við höfum hæst komist í 0.065% í þessum efnum og nú stefnir aftur niður á við. Það má eflaust segja nú sem endranær að það séu erfiðir tímar á Íslandi, en við erum samt ein af ríkustu þjóðum heimsins og það er okkur til háborinnar skammar að þetta hlutfall fari nú aftur niður á við þegar svo óralangt er í land að við stöndum við þær skuldbindingar sem við höfum í tvo áratugi verið aðilar að í þessum efnum. Þess vegna flyt ég ásamt þm. Alþb. á þskj. 204 brtt. um að í 4. gr. lið 03 390 komi í staðinn fyrir 13 millj. 641 þús. kr. 20 millj. kr. Ég tel það lágmarksupphæð til þess að Þróunarsamvinnustofnun Íslands geti á næsta ári staðið við þau verkefni sem við erum nú þegar samningsbundin við, og þá er ég ekki að tala um nein ný verkefni í þessum efnum, sem þó væri sannarlega ástæða til að taka upp eins og nú horfir víða í heiminum í þessum efnum.

Í öðru lagi vil ég taka undir þá brtt. við fjárlög sem flutt er á þskj. 199 um að framlög ríkissjóðs til Lánasjóðs ísi. námsmanna hækki á næsta ári. Ég vil taka undir þessa till. heils hugar og þann rökstuðning hv. flm. sem kom fram hér í dag. Ég tel aðförina að Lánasjóði ísi. námsmanna bæði óréttláta og óviturlega. Með þessu er því samkomulagi sem tekist hefur eftir ærna erfiðleika í samskiptum samtaka námsmanna og ríkisvaldsins, því samkomulagi sem þó hafði náðst og orðin var góð eining um, stefnt í voða. Og það er fróðlegt fyrir þá námsmenn, sem nú eru úti í löndum eða heima á Íslandi, að kynna sér t.d. kosningaloforð Sjálfstfl. í þessum efnum og þau bréf sem Sjálfstfl. hefur sent út um heiminn og innanlands til námsmanna undanfarin ár varðandi þetta mál. Það er fróðlegt fyrir námsmenn að gera það og ég veit að þeir munu fylgjast vel með í þessum efnum. Það sýnir sig nú sem endranær að eitt eru orð og annað eru gjörðir. Hér er enn og aftur vegið að þeim sem síst skyldi, að námsmönnum og kannske miklu fremur að því grundvallaratriði, sem mörgum er þó enn mikilvægara, sem er jafnrétti allra þegna þjóðfélagsins til náms.

Herra forseti. Það er ætlan mín og það er trú mín og það er von mín að þau minnismerki sem hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hv. fjvn. hafa reist sér með sjúkraskatti, með niðurskurði á aðstoð Íslendinga við þróunarlönd og með aðför að námsmönnum muni standa lengur en samstarf núverandi ríkisstjórnarflokka.