13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

1. mál, fjárlög 1984

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að stytta mitt mál, enda nokkuð liðið á þennan sólarhring.

Ég vil hefja mál mitt með að þakka formanni fjvn. og fjvn.-mönnum öllum fyrir vel unnin störf. Eins og kom fram í ræðu formanns fjvn. hefur fjvn. haldið 46 fundi og tekið á móti 230 aðilum og með þeim einstaklingum sem fjvn.-menn hafa talað við skilst mér að það fari að nálgast þúsund manns sem komið hafi til viðtals við fjvn.-menn. Sjá þá allir hve gríðarlega mikið starf hefur verið unnið af nm. á skömmum tíma. Ég vil líka þakka samstarfsmönnum mínum í fjmrn. fyrir vel unnin störf og góða samvinnu og taka undir þakkir fjvn.-manna til starfsmanns fjvn.

Ég ætla ekki að rekja neitt af því sem kom fram h á formanni fjvn. í hans framsögu, enda ekki ástæða til. Ég tek undir það sem hann sagði, að eflaust verða margir óánægðir þegar upp er staðið, enda ekki óeðlilegt því ekki var mikið til skiptanna þegar þessi ríkisstj. kom að ríkisfjármálum og kassanum. Það er alveg rétt, sem komið hefur fram og ég hef sjálfur haldið fram allt frá því að ég kom til starfa í fjmrn., að ekki er nokkur leið og enginn getur ætlast til þess að ríkissjóður nái jafnvægi við þessa fjárlagagerð með slíka skuldasúpu á herðunum. Það væri óraunhæft að búast við því. Þar af leiðandi tel ég ekki ástæðu nú við þessar umr., frekar en við öll mín störf í fjmrn., að leyna því að skuldir þessa árs verða að sjálfsögðu afgreiddar á þann hátt að samið verður við Seðlabankann um að koma þeim fyrir á skuldabréfi til langs tíma og afborganir eigi sér ekki stað á komandi ári, 1984, og þar af leiðandi er ekki gert ráð fyrir því á fjárlögum. Við skulum bara kalla hvítt hvítt og svart svart, vera ekkert að leyna hvert annað einu eða öðru.

Við sem nú erum í ríkisstj. höfum setið þar síðan í maí. Lætur nokkur maður sér detta í hug, þrátt fyrir allan þann málflutning sem hér hefur átt sér stað hjá stjórnarandstöðunni, að þessi ríkisstj. hafi búið til allan þennan vanda á þeim skamma tíma? Það er alveg furðulegt að heyra málflutning foringja þess flokks sem fólkið hafnar, fólkið vill ekki, formann Alþb., tala í sínum skemmtilegu áróðursræðum eins og hann haldi — það getur verið að hann trúi því — að hann geti leitt fólk frá staðreyndunum með slagorðum. Það er langt frá því að fólk láti leiða sig þannig. Ég ætla ekki að fara út í að svara hans ræðu að einu eða neinu leyti. Þó væri full ástæða til, vegna þess að tilefni gefst, að skila (SvG: Þú getur það ekki.) kærri kveðju frá formanni ungra sjálfstæðismanna. Það væri kannske eina rétta svarið við ræðu formanns Alþb. hér, því formaður ungra sjálfstæðismanna er staddur hér og fékk kveðju úr þessum ræðustól frá formanni Alþb., en getur ekki þakkað fyrir sig á sama vettvangi.

Hvernig á ég sem fjmrh. við 2. umr. að svara virðulegum formanni stærsta stjórnarandstöðuflokksins þegar ræða hans inniheldur enga spurningu í minn garð, en hann talar um að fjmrh. skreyti sig á gatnamótum í augum smælingja, sé úlfur í sauðargæru og allt fram eftir götunum eða á þeim línum? Ég held að ég hafi sjaldan séð, þó hefur það nú komið fyrir, en það er sjaldan sem ég hef séð fyrrv. hæstv. ráðh. eins vanstilltan í ræðustól og í þetta sinn. Og það er eingöngu vegna þess að málefnalega er fátæktin alger. Með slagorðum, sem eiga að vera niðrandi um það sem um er rætt, á að hylja þessa fátækt.

En þegar hann hafði ausið úr skálum reiði sinnar kom hann að brtt. á þskj. 204 og fylgdi þeim á sinn ágæta hátt úr hlaði. En hverjar eru svo þessar till. og hver er hugsunin á bak við þær? Hver er meiningin með þeim? 1. liðurinn er um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, að fyrir 65 millj. komi 130 millj. Nú veit virðulegur þm. Svavar Gestsson, 3. þm. Reykv., að þetta er mál sem Sjálfstfl. mundi aldrei samþykkja. Það er á stefnuskrá og er stefnuatriði hjá sjálfstæðismönnum að fella þennan skatt niður, en vegna þess hve ríkissjóður er illa á sig kominn eftir stjórnartímabil Alþb. getum við ekki að þessu sinni framfylgt því stefnuatriði okkar. Virðulegur 3. þm. Reykv. veit að það er gersamlega tómt mál að tala um að fá þessa till. samþykkta. Það þýðir að allir hinir góðu liðirnir á eftir, sem munu byggjast á því að það verði samþykkt að skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði tvöfaldaður, eru óraunhæfir. Till. eru því allar hrein sýndarmennska. Ég hefði satt að segja búist við öðru frá þessum ágæta þm.

Það er líka talað um að Sjálfstfl. ætli nú, og þá sérstaklega fjmrh., og líklega felst í þeim orðum að fjmrh. ætli að nota heilbrrh., að heimta skatta af sjúklingum. Nú er það svo að Alþb.-menn eru ekki að verja þá fátæku. Það hefur komið fram í málflutningi heilbrrh. að það væri aðeins hugsað að þeir sem væru á góðum launum, hefðu góðar tekjur ...(Gripið fram í: Á batavegi.) Það getur vel verið. Ég vona að fólk sem fer á spítala verði eftir ákveðinn tíma þar á batavegi. En það er hugmyndin að þeir sem hafi efni á borgi þar matarpeninga í ákveðinn tíma meðan þeir eru á fullum launum, en þeir sem eru innan við ákveðnar tekjur, sem sagt láglaunafólk, borgi ekki. Það eru hinir ríku, sem ég vil svo nefna í þessu tilfelli, þeir sem hafa efni sem Alþb. er nú að verja, en Alþb. gefur sig út fyrir að vera stjórnmálaafl verkalýðshreyfingarinnar, þeirra fátæku, lægst launuðu. Svona eru blekkingarnar fram og til baka. Nei, kæru vinir. Þið blekkið engan. Bognu bökin í þessu þjóðfélagi eiga engan vin í Alþb., engan, og hafa aldrei átt. Þó er kannske ein undantekning. En þessi undantekning er á hrakhólum í Alþb., eins og hann kallar það sjálfur.

Ég ætla ekki að tína upp fleiri punkta til að svara. Ég ætla að geyma mér það ef fulltrúi flokksins sem fólkið vill ekki lengur og hefur líklega aldrei viljað mun koma hér upp aftur. En ég þakka aftur fjvn. fyrir vel unnin störf.