13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

1. mál, fjárlög 1984

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í núv. hæstv. ríkisstj. hafa verið teknir upp nýir siðir á mörgum sviðum. Einn er sá að svara ekki stjórnarandstöðunni. Hæstv. félmrh. ruddi þessa braut með býsna athyglisverðum hætti í umr. um húsnæðismál hér á dögunum, þannig að það þurfti að tvítryggja ofan í hann spurningar um einfalda hluti. Hæstv. fjmrh. ætlar að fylgja þessari stefnu, virðist mér, og neitar að svara spurningum sem stjórnarandstaðan ber fram. Og hv. formaður fjvn., sem hefur verið spurður hér um ákveðin atriði, mun ekki hafa kvatt sér hér hljóðs enn þá.

Mér dettur ekki í hug að þessir menn séu svo rökþrota að þeir geti ekki amlað eitthvað hér í ræðustól og mér fyndist að það væri heiðarlegra af þeim að koma hingað og gera grein fyrir máli sínu en að haga sér með þeim hætti sem þeir hafa gert hér í kvöld, sérstaklega þó hæstv. fjmrh. sem kemur hingað í ræðustólinn til þess eins að flytja skæting og útúrsnúning á því máli sem hér hefur verið borið fram með málefnalegum hætti og haldandi almenna pólitíska stjórnmálaræðu, en neitar að svara eðlilegum spurningum. Ég held að við verðum að átta okkur vel á því að umr. á Alþingi eru til skoðana- og upplýsingaskipta. Það er tilgangur þessara umr.þm. spyrja ráðh. gjarnan ákveðinna spurninga og ráðherrar reyna yfirleitt eftir bestu samvisku og vitund að svara þeim spurningum ellegar þá að þeir segja sem svo að þeir hafi ekki upplýsingar við höndina og óski eftir að fá að svara þeim síðar, og þá gerir enginn maður aths. við slíkt.

Núv. hæstv. fjmrh. hefur þennan hátt ekki á. Hann hagar sér allt öðruvísi í þessu efni. Hann stekkur hingað í ræðustólinn eftir að stjórnarandstaðan hefur talað, snýr út úr þeim spurningum sem bornar hafa verið fram og gerir ekki svo mikið sem tilraun til að svara þeim málefnum sem borin hafa verið fram af stjórnarandstöðunni. Ég veit að hæstv. fjmrh. er auðvitað hálfgert rökþrotabú þegar komið er að því að spyrja hann um ýmsa þætti fjárlaga íslenska ríkisins. Hann getur ekki svarað ýmsum þeim spurningum sem bornar eru fram — eða ég skil það svo, því að ég held að ella mundi hann gera það. En ég skora á hann að reyna það vegna þess að það greiðir fyrir meðferð mála á Alþingi.

Við höfum hér í stjórnarandstöðunni undanfarna daga verið að aðstoða við að koma málum í gegnum þingið, haldið hér hvern fundinn á fætur öðrum með formönnum þingflokkanna og forsetum þingsins, þar sem farið hefur verið samviskusamlega yfir hin einstöku mál sem óskað er eftir að afgreidd verði, og það er mikill asi á nefndastörfum þessa dagana. Það getur flýtt fyrir þessum nefndastörfum að ráðh. svari spurningum sem eru bornar fram hér á hv. Alþingi. Ég er að segja þetta af fullri einlægni. Ég tek það fram vegna orða hæstv. fjmrh. um að hérna sé verið að bera upp mál af vanstillingu og skepnuskap. Ég er hér að bera upp mál af fullri einlægni. Ég spurði t.d. hæstv. fjmrh.: Hvað með Atvinnuleysistryggingasjóð? Það er greinilegt að hann ræður ekki við sín verkefni, miðað við þær fjárlagaforsendur sem liggja fyrir. Það er alveg augljóst mál. Hann ræður ekki við þau. Ætlar ríkið ekkert að koma til móts við Atvinnuleysistryggingasjóð vegna þeirra loforða sem hafa verið gefin sjóðnum á undanförnum árum? Ég spurði að þessu og ég óska eftir svari. Kannske hv. þm. Lárus Jónsson geti eitthvað upplýst um þetta.

Ég spurði í ræðu minni áðan alveg sérstaklega um þennan sjúklingaskatt. Ég spurði um þann nýja tekjustofn sem ríkisstj. hefur núna fundið til að bjarga ríkisfjármáladæminu. Hæstv. fjmrh. fjargviðrast hins vegar yfir skattinum á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Hann var mjög hneykslaður á því að Alþb. skyldi leggja til að sá skattur yrði tvöfaldaður vegna þess að Sjálfstfl. væri á móti skattinum. Það eru engin rök í málinu, hæstv. fjmrh. Ég geri ráð fyrir að ráðh. hafi tekið eftir því að það eru fleiri hér á hv. Alþingi en sjálfstæðismenn, sem betur fer. Það getur vel verið að einhverjir þeirra verði tilbúnir til að samþykkja þennan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, a.m.k, frekar en spítalaskattinn sem hæstv. ráðh. ætlar að fara að innleiða.

Ég óska eftir upplýsingum um hvernig hæstv. ráðh. og hvernig ríkisstj. ætlar að framkvæma þennan spítalaskatt og ég skora á hv. þm. Lárus Jónsson, sem var sendur í verkin fyrir ríkisstj. í dag til að lýsa þessum ófögnuði yfir, að gera grein fyrir því hvernig á að rukka þennan skatt. Hverjir eru það sem eiga að borga hann og hvernig? Þurfa menn að leggja fram tekjuvottorð, eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson var að spyrja um áðan, þegar þeir verða rukkaðir á spítölunum? Ég óska eftir nákvæmum upplýsingum um þetta. Eru það skattaframtölin sem á að miða við í þessari árás á almannatryggingakerfið, á velferðarkerfi íslenska þjóðfélagsins? Hvernig ætla þessir menn að rukka sjúklingana? Ég óska eftir upplýsingum um það. Og ég skora á þá að falla frá þessum áformum sínum. Ég skora á þessa hv. þm. og ráðh. og stjórnarliðið í heild að falla frá þessum áformum vegna þess að þau eru ekki mönnum bjóðandi. Þau eru ekki í samræmi við þann siðferðilega grundvöll sem íslenska þjóðfélagið byggir á þann grundvöll jafnréttishugsjóna sem íslenska þjóðfélagið byggir á. Ég skora á stjórnarliðið allt að falla frá þessum ófögnuði. Og ég er reiðubúinn til þess fyrir mitt leyti að finna aðra leið til að bjarga ríkisfjármáladæminu, ef það er það sem hæstv. ríkisstj. er hér að hugsa um. Þennan skattstofn samþykki ég aldrei og eins og ég tók fram áðan mun Alþb. strax og það fær tækifæri til afnema slíkan skatt, ef hann verður lagður á. Hann er ólíðandi með öllu frá sjónarmiði þeirra flokka sem hafa starfað næst alþýðuhreyfingunni í þessu landi og kenndir eru við jöfnuð og lýðréttindi. Ég skora á þessa menn, hv. formann fjvn. og hæstv. fjmrh., að svara þessum spurningum.

Hæstv. fjmrh. var að tala um bognu bökin, þau ættu sér nú ekki málsvara í Alþb. Ja, hérna! Þarna eru þeir að sletta skyrinu sem eiga það, þeir sem helst geta nú ráðist að öðrum í þeim efnum. Sömu dagana og hæstv. fjmrh. er að leggja til að sjúklingarnir í landinu verði skattlagðir, spítalaskatturinn verði lagður á, er hann að ráðast að öðrum stjórnmálaflokkum vegna þess að bognu bökin eigi ekki stuðning í þeim hinum sömu flokkum. Ég held að aðrir en hæstv. fjmrh. gætu þessa stundina haldið ræðu af þessum toga. Ég tel að það fari honum mjög illa á sama tíma og hann er að leggja til að skattur verði rukkaður af veiku fólki í þessu landi.

Hæstv. fjmrh. fór nokkuð yfir það að núv. ríkisstj. hefði í raun og veru aldrei ætlað sér að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum, svo að ég víki næst að því, á árinu 1984, það hefði ekki verið hægt og það hefði ekki verið hægt að gera ráð fyrir að slíkt næðist. Ég tel að hæstv. fjmrh. hafi aukið alveg stórkostlega vanda ríkisins og ríkisbúskaparins á þessu ári með þvílíku endemis háttalagi í ríkisfjármálum að það er leitun að öðru eins. Í fyrsta lagi með því að skera svo niður kaup fólksins í landinu að það getur ekki keypt þær vörur sem eru skattlagðar fyrir ríkissjóð, í öðru lagi með því að fella niður ýmsa tekjustofna, eins og t.d. álag á ferðamannagjaldeyri og í þriðja lagi með því að auka útgjöld ríkissjóðs með ýmsum hætti á þessu ári. Hæstv. fjmrh. hefur einnig á þessu ári vegna stöðunnar í þeim efnum og vegna þess hvernig ríkisstj. hefur staðið að húsnæðismálum greitt út úr ríkissjóði 200–300 millj. kr. í aukafjárveitingu, eins og það heitir, á þessu ári. Þannig er auðvitað alveg ljóst að ríkisstj. ber meginábyrgð á vandanum í ríkisfjármálunum. Núv. ríkisstj. tók við óvenjugóðu búi í ríkisfjármálum. Hæstv. núv. fjmrh. hefur aftur og aftur lýst því hvernig fráfarandi fjmrh. Ragnar Arnalds hélt á þeim málum, og af því gæti núv. fjmrh. ýmislegt lært.

En hæstv. fjmrh. var að fullyrða áðan að í rauninni hefði ríkisstj. verið að hugsa um að reyna að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu. Kjörtímabilið er fjögur ár—venjulegt kjörtímabil. Vonandi verður það styttra hjá hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. En stefna núv. ríkisstj. er skrifuð í plagg, sem er dags. 26. maí 1983 og hæstv. fjmrh. ætti að lesa. Það er þessi græni bæklingur hér. Það er eðlilegt að liturinn skuli vera grænn, því að það er margt býsna grænt í þessu plaggi, satt að segja. Hæstv. fjmrh. hefur bersýnilega ekki lesið þessa speki nýlega. En á bls. 7 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Gerð fjárlaga fyrir árið 1984“ — þ.e. næsta ár sem við erum að tala um núna — „miðist við að ná jafnvægi á ný í ríkisfjármálum.“

Það hefur ekki verið gefin út nein skrá um prentvillur í þessari bók, sem þurfi að taka sérstakt tillit til. Hæstv. fjmrh. hefur ekkert getið um að það séu alvarlegar prentvillur í þessari bók, sem þurfi að taka sérstaklega tillit til. Hæstv. fjmrh. hefur ekkert getið um að það séu alvarlegar prentvillur í þessari bók sem geri það að verkum að það sé ástæðulaust og varasamt að taka mark á henni. Það kæmi mér ekki á óvart þó að ríkisstj. sæi fljótlega að það er lítið mark takandi á þessu plaggi. En hér stendur þetta þó, að gerð fjárlaga fyrir árið 1984 miðist við að ná jafnvægi á ný í ríkisfjármálum. Það er bersýnilegt að ríkisstj. tekst þetta ekki, mistekst það eins og annað sem hún hefur tekið sér fyrir hendur á undanförnum mánuðum. Hún reynir að vísu að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, hún reynir. Hún leitar dyrum og dyngjum að nýjum tekjustofni til að bjarga sér fyrir horn í þeim efnum og til að rétta af hallarekstur ríkisins. Það eru sjúklingarnir sem finnast. Það er viðleitni ríkisstj. til að tryggja að ekki verði um að ræða halla í ríkisfjármálum á árinu 1984. Ég skora á hæstv. fjmrh., að áður en hann fer að fara hér með skæting um Alþb. og afstöðu þess kynni hann sér þann stjórnarsáttmála sem hann á að starfa eftir. Ég er fús til þess að lána honum mitt eintak til lestrar um hríð, því að það er bersýnilegt að hann þarf meira á því að halda en ég.

Hæstv. núv. fjmrh. er á góðri leið með að verða hallakóngur íslenska ríkisins fyrr og síðar. Matthías Á. Mathiesen var hér fjmrh. um skeið, þegar ráðdeild Íhaldsins var síðast við völd í fjmrn. á Íslandi. Þá var hallinn þvílíkur að það þurfti að greiða verulegan hluta af ríkisútgjöldunum með seðlaprentun frá Jóhannesi Nordal. Nú gerist það enn á ný, þegar Íhaldið er komið í stjórnina aftur, að þá verður Jóhannes Nordal að láta prenta seðla úti í London til þess að standa undir útgjöldum ríkissjóðs. Það má segja að það komi vel á vondan að hæstv. núv. fjmrh. skuli vera með þessum hætti upp á Jóhannes Nordal kominn. Það má vera nokkuð athyglisvert og hefðu fáir spáð því að slíkt gerðist hérna fyrir nokkrum mánuðum, þegar hann stóð hér í þessum ræðustól sem stjórnarandstæðingur. En sú staðreynd liggur nú fyrir að hér verður um að ræða halla á ríkissjóði á árinu 1984, eftir því sem hér hefur verið rakið mjög rækilega í dag.

Hæstv. fjmrh. undrast að ég skuli flytja till. um að tvöfalda skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ég vil segja honum að það eru ákveðin rök fyrir því að ég flyt þessa till. hér. Það eru hans sinnaskipti. Á síðasta kjörtímabili hélt hann yfirleitt 2–5 ræður á hverju þingi um þennan ægilega skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem væri nú rétt eitt dæmið um hvernig Alþb.menn vildu leggja verslunina í rúst, ganga af henni dauðri. Svo gerist það í dag að við fáum frá ríkisstj. lista yfir forgangsmál ríkisstj., sem eigi að afgreiða núna í jólamánuðinum. Það eru átta mál. Við í stjórnarandstöðunni erum reiðubúin til að gera allt sem við getum til að hjálpa ríkisstj. við það að ljúka þinginu með sóma. Og hvaða mál eru nú á þessum lista, eitt efsta málið, langt fyrir ofan ýmis stórmál sem hér hafa verið rædd síðustu dagana? Hvaða mál er það? Skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ég fyrir mitt leyti taldi víst að hæstv. fjmrh. væri tilbúinn að taka inn af þessu meiri tekjur úr því að hann var lagður af stað á annað borð. Það er af þeim ástæðum sem þessi till. er hér flutt. Ég taldi víst að hún mundi mæta skilningi hjá hæstv. fjmrh. Hann væri að átta sig á því að þarna væri tekjustofn sem væri a.m.k. betri en sumir þeir sem hann virðist grípa til þessa dagana.

Að lokum, herra forseti, mun ég sjá til þess að núv. hæstv. fjmrh. fái eintak af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. þannig að tryggt sé að hann geti kynnt sér sem best hvað í því plaggi stendur.