13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

1. mál, fjárlög 1984

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að gera örstutta aths.

Ég hef reyndar ekki undir höndum alla þá umræðu og þann málflutning sem fór fram í kosningabaráttunni, en ég minnist þess þó glöggt að flestir ef ekki allir þm. Sjálfstfl. héldu því fram að dansaður væri hrunadans í þáv. ríkisstj. og allt á hraðri leið til helvítis. Ég sé því ekki hvað hefur getað komið þeim svo gífurlega mikið á óvart þegar að þessu búi var komið. Og ég þykist muna það af einum fundi sem ég tók þátt í með hæstv. núv. fjmrh. í sjónvarpi að hann hafi haldið því þar fram að ríkisbúskapurinn væri gersamlega búinn að missa botninn úr sér vegna þess hve illa væri á málum haldið. Þess vegna koma mér fullyrðingar hans núna mjög spánskt fyrir sjónir, að allt saman hafi komið þeim svo gersamlega á óvart mánuði eftir kosningar og hvernig málin stóðu þegar þeir tóku við.