14.12.1983
Efri deild: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Frv. það til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem hér er til umræðu er gamalkunnugt hér á Alþingi þótt enginn góðkunningi minn sé það. Skatturinn var fyrst á lagður 1979. Í tekjuáætlun fjárlagafrv. er enn á ný gert ráð fyrir tekjum af skatti þessum. Mér er það ekkert ánægjuefni að tala fyrir frv. þessu, en ég hef áður getið þess að mín stjórn losnar ekki við allar óværur fyrri ára þegar á fyrsta ári.

Í fjárlagafrv. eru tekjur af skatti þessum áætlaðar 65 millj. kr. Frv. gerir ráð fyrir að 1.1% skattur verði lagður á. Nú eru skattamál öll til umr. á Alþingi og tölur til endurskoðunar.

Virðulegi forseti. Um leið og ég legg til að frv. þessu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umr. vil ég beina því til nefndarmanna að endanleg skattprósenta verði ákveðin með hliðsjón af fjárlagatölu, en þess jafnan gætt að um íþyngjandi greiðslubyrði verði ekki að ræða. Að svo mæltu legg ég til að frv. verði jafnframt vísað til 2. umr.