14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

Um þingsköp

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Mér finnst málflutningur hv. þm. Eiðs Guðnasonar ósanngjarn í þessu máli, vegna þess að eins og öllum þm. er kunnugt, sem hafa setið á þingi a.m.k. áður, tíðkast það iðulega einmitt í annatíðinni fyrir jólin að sá háttur er hafður á að texta frv. er útbýtt til þingflokka. Þingflokkarnir eru nú einu sinni hluti af þinginu og það er ekki til of mikils ætlast þegar samið er um mál að menn kynni sér þau í þingflokkunum. Það hefur verið samið um þetta mál. Ég veit ekki betur en það sé eitt af þeim málum sem hefur verið samið um að skuli ganga fram fyrir jólahlé. Þá finnst mér ekki sanngjarnt að gera athugasemdir.

Hitt er allt annað mál að óska eftir að málinu verði frestað um sinn. En að gera athugasemdir við þessa málsmeðferð, sem er í samræmi við það sem hefur tíðkast árum saman í svona annatíð, finnst mér ekki sanngjarnt, þó menn óski eftir að málinu verði frestað, því að ég hygg að virðulegur forseti hafi verið í algjörlega góðri trú um að gert hafi verið samkomulag og að menn hafi raunverulega verið búnir að kynna sér þetta í stjórnarandstöðuflokkunum þar sem þeim hafi verið gerð grein fyrir málinu áður.