14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir það tillit sem tekið var til þeirrar aths. sem ég hafði fram að færa áðan um að fresta fundi um stund og gefa mönnum tækifæri til að skoða þetta mál örlítið betur. Í fundarhléinu aflaði ég mér aukinna upplýsinga um eðli þessa máls og fékk á því nánari skýringar. Það var einmitt það sem lá að baki aths. mínum áðan. Málið liggur nú ljósar fyrir mér a.m.k. Hér er um að ræða frádráttarliði og hér er verið að ákveða grunn þeirra, sem síðan mun breytast í samræmi við skattvísitölu án þess að þessar tölur taki beinlínis breytingum í sjálfum lögunum.

Ég hef engar aths. við það að gera að þetta frv. nái fram að ganga. Ef samkomulag verður um að tekjuskattsfrv. og þau mál nái einnig fram og tími vinnst til með eðlilegum hætti að afgreiða þau mál geri ég engar aths. við það, ef tími reynist til þess að þau fái eðlilega umfjöllun. Ég vil hins vegar beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún athugi hvort ekki sé rétt að ganga lítið eitt lengra í hækkun þeirra frádráttarliða sem hér er um að tefla, að það verði tekið til gaumgæfilegrar athugunar í umfjöllun hv. félmn. á þessu máli.