24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir um ráðstafanir í sjávarútvegsmátum er á margan hátt tímamótafrv. að því leyti til hvað varðar 1. gr. því að þar er um hreingerningu að ræða að mínu mati. g tel að það hafi verið til bóta að leggja niður olíusjóð og olíugjald. Þessu var þannig fyrir komið að menn botnuðu lítið í því hvaða leiðir voru notaðar fil að toga og teygja af sjómönnum og þess vegna tel ég það hafi verið hreingerning að koma málinu í hreinni farveg. Ég er hins vegar ósáttur við þá prósentu sem þarna er notuð. Ég tel hana of háa. Þetta sífellda krukk í samninga, það að sett eru lög um hvernig skuti fara framhjá skiptum, segir okkur að samningsaðilar, og þá á ég einkum við útvegsmenn, eigi ekki að semja á þeim nótum sem gert er. Það er vissulega óþolandi ástand sem viðgengist hefur í samningamálum — ástand sem markast af því að beðið er alltaf eftir því hvernig ríkisvaldið tekur á málunum, hvað gengisfellingin eigi að vera stór, hvað megi gera, en það er ekki verið að semja um svokölluð verðmæti. Ég tel að þarna sé verið að koma til móts við það sjónarmið. En eins og ég segi tel ég þessa prósentu of háa og óeðlilega.

Sjómenn hafa vissulega lýst yfir að þeir séu mjög andvígir þessu og sambandsstjórn Sjómannasambandsins sendi frá sér ályktun þar sem hún fordæmir hve langt er gengið og segir, með leyfi forseta:

„Fundurinn bendir á það, að á undanförnum árum hafi sjómenn tekið á sig kjaraskerðingu umfram aðra launþega, sem við síðustu fiskverðsákvarðanir hafi þó að nokkru verið leiðrétt. sjómenn eru tilbúnir sem og aðrir launþegar að axla sínar byrðar vegna þess vanda sem nú er í þjóðfélaginu, en ekkert þar umfram.

Þá tetur fundurinn að enn hafi stjórnvöld ekki sýnt á borði sinn tilgang með lagasetningu eða öðrum hætti þar sem tekið er á verðbólguhvetjandi þáttum þessa þjóðfélags. Fundurinn vekur athygli á að enn er höggvið í þann sama knérunn, að núv. ríkisstj. sem og aðrar ríkisstjórnir hafa gert sig sekar um og sett lög sem raska enn frekar hlutaskiptakerfi sjómanna. Þessum síendurteknu aðförum að kjarasamningum sjómanna mótmælir stjórn sambandsins harðlega.“

Vissulega er eðlilegt að taka undir þessi mótmæli, enda eru þau til orðin að gefnu tilefni. Sjómenn hafa á undanförnum árum farið verr út úr tekjuskiptingu en aðrir.

Áfram segir í ályktuninni: „Með hliðsjón af ofangreindu skorar stjórn sambandsins á sambandsfélögin að taka nú þegar til rækilegrar athugunar breytingar á launakjörum sjómanna“. Tel ég að það þurfi að taka upp umr. um hvort ekki er ástæða til að breyta því kerfi, sem viðgengist hefur í áraraðir — því skiptakerfi sem reyndar hefur að forminu til verið unað við í aldir, ef svo mætti segja, en hefur vissulega breyst í meðförum í samningum og á öðrum vettvangi.

Hvað varðar aðra þætti þessara laga, þá eru þau að mörgu leyti skringileg hvað varðar gengismunarsjóðinn og upptöku gengismunar. Vart hefur þá sem kusu Sjálfstfl. í vor grunað að með atkv. sínu væru þeir að fjölga húskörlum Framsfl. og SÍS, en nú blasir við að sú hafi raunin orðið á, svo sem dæmin sanna. Framsókn sýndi fyrst hver ræður á stjórnarheimilinu þegar þingflokkur sjálfstæðismanna samþykkti strax eftir útgáfu brbl. að kalla bæri Alþingi saman hið fyrsta. Hv. forsrh. sagði að Alþingi yrði ekki kallað saman fyrr en honum sýndist og þar við sat. Öll stjórnarandstaðan studdi tillögur sjálfstæðismanna og þar með yfirdrifinn meirihluti þm. Svona hefur þetta gengið.

Flestum er í minni álit Morgunblaðsins á því hvort minni hl. eigi að komast upp með að kúga meiri hl., eins og það talaði oft um áður fyrr. Margoft og lengi í sumar var deilt í ríkisstj. um upptöku gengismunar og skiptingu hans. Framan af gáfu sumir ráðh. og þingflokksformaður Sjálfstfl. út yfirlýsingar um að ekki yrðu farnar leiðir fyrrv. sjútvrh. í þessum málum, þar væri um algeran misskilning að ræða hjá arftaka hans. Nú liggur fyrir í þessu frv., að misskilningurinn var þeirra. Þeir hafa látið kúga sig til að samþykkja till. fyrri ríkisstj. með aðeins óverulegum breytingum. Millifærslubeiðnin heldur áfram, eins og allar götur síðan Framsókn tók forustuna 1971.

Sjónvarpað var frá atkvgr. á Alþingi þegar brtt. Matthíasar Bjarnasonar um að taka ekki gengismun af skreið var samþykkt í vetur. Atkvgr. var mikill ósigur fyrir þáv. hæstv. sjútvrh. Steingrím Hermannsson, sem hann hefur nú greinilega hefnt grimmilega. Og það eru engir smámunir sem núv. ráðherrar Sjálfstfl. hafa mátt kyngja. Ég ætla nú, með leyfi virðulegs forseta vors, að benda á lítið sýnishorn. Till. Matthíasar Bjarnasonar hljóðaði þannig:

„Útfluttar skreiðarafurðir skulu greiddar á því kaupgengi sem í gildi er þegar útflutningsskjöl eru afgreidd í banka við gjaldeyrisskil.“

Í Alþingistíðindum segir frá rökstuðningi Matthíasar. Hann sagði:

„Ég þarf í raun og veru ekki að bæta miklu við þetta því að ég skýrði hér frá því í dag að ég teldi að sá gengishagnaður, sem reiknað væri með vegna skreiðarafurða, væri ekki fyrir hendi og ekkert útlit fyrir það að hann verði til í náinni framtíð. Ef skreið selst, sem eru slæmar horfur á, þurfa skreiðarframleiðendur fullkomlega á því að halda að afreikna á gildandi kaupgengi bankanna á hverjum tíma. Þess vegna er þessi till. flutt.“

Fyrr í umr. um málið sagði Matthías Á. Mathiesen m. a::

„Væri nú ekki skynsamlegra að falla frá því að greiða í gengismunarsjóð þessa upphæð af skreiðarbirgðum, sem í landinu eru frá 1982, og að þeir aðilar sem eiga skreiðina fái það fjármagn og ríkisstj. aðstoði þá og láni þeim út á skreiðarbirgðirnar á meðan þær fara ekki úr landi?“

Ekki vildi Albert Guðmundsson láta sitt eftir liggja. Hann sagði m.a.:

„Hann“ — og þá átti hann við fyrrv. sjútvrh., en núv. hæstv. forsrh. Steingrím Hermannsson — „talaði um að það væru fleiri krónur sem fengjust væntanlega einhvern tíma þegar skreiðin seldist. Fleiri krónur, mikið rétt, en það eru verðlausari krónur. Halda menn virkilega, heldur hæstv. sjútvrh. að fyrir þær krónur fáist sama magn af skreið til að selja aftur seinna? Þetta gengur á verðmæti eigenda sjávarútflutningsafurða að sjálfsögðu. Það þýðir ekki að tala hér eins og verið sé að tala við nýútskrifaða viðskiptafræðinga.“ Og áfram: „Þá er búið að draga frá gengismun og það er búinn að hlaðast á vöruna aukakostnaður í geymslu. Það er búinn að hlaðast á hana fjármögnunarkostnaður, þannig að jafnvel þótt dollarinn hafi hækkað um 100% á árinu, þá dugar það bara ekki til til að standa undir öllum kostnaði.“

Enn fremur sagði Albert: „Það er hrein sjálfsblekking ef menn halda að einstaklingar fáist til að leggja nýtt fé í slíkan rekstur sem sjávarútvegurinn er orðinn... Að leggja skatt á styrkþegann og styrkþeginn er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Þetta er furðulegt fyrirtæki. Ég get ekki með nokkru móti skilið að blankur einstaklingur geti tekið lán hjá sjálfum sér til þess að halda áfram að fjármagna sínar þarfir.“

Já, vissulega sögðu Albert og Matthías margt á Alþingi í fyrravetur um fávisku þess að taka upp gengismun af skreið og ekki hefur staða þeirra sem skreiðina eiga batnað síðan nema síður sé. Staðan er aðeins breytt að því leyti til að nú er Albert hæstv. fjmrh., Matthías Bjarnason hæstv. heilbrrh. og Matthías Á. Mathiesen hæstv. viðskrh., en titlarnir merkja ekkert annað en að þeir eru orðnir húskarlar hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar og þeir verða að hlýða.

Ekki fer milli mála að upptaka gengismunar er hæpin aðgerð og mestar líkur eru á að slíkt sé brot á stjórnarskránni. Það má líka spyrja: Hvers vegna er ekki tekinn gengismunur af álverinu t.d. til að bæta rekstrarhallann í járnblendiverksmiðjunni? Hvers vegna er ekki tekinn gengismunur af varnarliðinu, sem græðir milljónir dollara á fimleikum íslenskra stjórnvalda með gengið? Hvers vegna eru gróðafyrirtækin á Keflavíkurflugvelli, sem semja um framkvæmdir í dollurum, ekki látin greiða gengismun? Hvers vegna er sífellt gengið til þessara verka hjá sjávarútveginum einum?

Staða skreiðarverkunar, svo að maður taki hana sem dæmi, er afar slæm. Skreiðin selst illa og hafa skreiðarverkendur þurft að liggja með mestalla framleiðsluna svo mánuðum og árum skiptir. Ekki nóg með það, heldur þurfa skreiðarverkendur að sætta sig við greiðslufrest svo mánuðum skiptir og hefur jafnvel liðið meira en ár. Oft eru menn uggandi um að kaupendur standi ekki við skuldbindingar sínar og hefur komið fyrir að svo hafi ekki verið. Þessir erfiðleikar kosta þunga vaxtabyrði — byrði sem ekki allir rísa undir. Ég hef undir höndum upplýsingar um stöðu skreiðar fram til næstu áramóta. Þar kemur fram að tap á skreiðarverkun er nú 18.4%. Hverju þjónar það að taka gengismun af slíkum rekstri? Hvað eru menn að taka? Er ekki verið að taka eitthvað sem ekki er til? Er ekki verið að taka nýju fötin keisarans eða er þetta aðeins gert til að auka byrði þeirrar atvinnugreinar í fiskiðnaði sem hvað erfiðast á uppdráttar? Ég er andvígur þessum vinnubrögðum.

Ég minntist áðan á fjármagnskostnaðinn og þá staðreynd að þessi þáttur fiskvinnslunnar, skreiðarverkunin, er rekinn með 18.4% tapi, en það má og koma fram, að þrátt fyrir að síðustu dagana hafi verið nokkur hreyfing á útflutningi skreiðar, reyndar með þungbærum greiðslufresti, eru horfur á að samkeppni við Norðmenn gerist æ erfiðari. Norðmenn hafa oft verið Íslendingum erfiðir í samkeppni. Harka þeirra er nú meiri en nokkru sinni fyrr. Þeir eru erfiðari og geta reyndar leyft sér að ganga langt í þeim efnum af mörgum orsökum. Allar líkur eru á, að vegna harðnandi samkeppni Norðmanna á skreiðarmörkuðunum þurfi íslenskir skreiðarframleiðendur að lækka verð verulega á næstunni. Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Er ekki hægt að koma á samvinnu Norðmanna og Íslendinga um sölu skreiðar? Er ekki hægt í krafti norrænnar samvinnu að fá Norðmenn til að láta af óbilgirni sinni með einhverjum ráðum? Hafa þessi mál verið könnuð? Hefur eitthvað verið gert í þessum efnum?

Upptaka gengismunar hefur reyndar lengi tíðkast. Framan af hélt hver grein sínu að mestu gegnum Verðjöfnunarsjóð og þá einnig útgerð í heild ásamt sjómönnum. Nánast var þá um frestun afgreiðslu að ræða. Með árunum hafa stjórnvöld orðið grófari í millifærslum. Stærri og stærri fúlgur hafa farið til prívatúthlutunar fyrir sjútvrn. eða fyrir sjútvrh. hverju sinni. Þannig hefur í reynd átt sér stað mikil fjármagnstilfærsla milli landshluta. Þetta er mjög áberandi hvað varðar gengismun af skreið. Helstu framleiðendur skreiðar eru á Suðurnesjum eða Suðvesturlandinu, þó á stöku stað finnist einnig spyrðuband annars staðar. Það fjármagn, sem frá þessum útvegi er tekið, fer til ýmissa verkefna annars staðar á landinu, oft til að bjarga vitlausri fjárfestingu eða vonlausri fjárfestingu út um landið. T.d. þurfa þeir sem mótmælt hafa stækkun flotans að fjármagna stækkunina með góðu eða illu.

Að þessu sinni eru að vísu tekin upp nýmæli að tvennu leyti, í öðru tilfellinu réttlætanlegt en í hinu ósvinna. 100 millj. eiga að skiptast á allan flotann eftir aflamagni. Þar með er væntanlega stungið upp í Landssamband ísl. útvegsmanna, sem virðist geta gleypt hvað sem er þessa dagana. Hins vegar eru lánaðar, eins og það er oft nefnt, 60 millj. kr. til loðnuflotans, sem tvímælalaust á mest allra inni í millifærsluvitleysunni. Innheimta á lánin með öruggri leið og síðan hefur féð verið til prívatúthlutunar fyrir hæstv. sjútvrh. Gaman væri að vita hvort Landssamband ísl. útvegsmanna sé tilbúið að gleypa við þessu líka. Því trúi ég a.m.k. ekki enn.

Ég er andvígur upptöku á gengismun. Það verður að hverfa frá þessu millifærslusukki. Sjávarútvegurinn verður að búa við sömu skilyrði og aðrar atvinnugreinar í þessum efnum. Höfuðatriði er að skapa sjávarútveginum viðunandi rekstrargrundvöll og hætta þessu framsóknarkerfi. Þetta kerfi stefnir að því að koma öllum á hausinn,líka þeim sem best standa sig við rekstur sinna fyrirtækja.

Að síðustu spyr ég sjálfstæðismenn, sem áttu í fyrra samleið með okkur Alþfl.-mönnum um andstöðu við gengismunarupptöku: Ætlið þið virkilega að láta ganga svona yfir ykkur? Ætlið þið að samþykkja framsóknarleiðina eða ráðið þið bara engu?