14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Þórður Skúlason:

Virðulegi forseti. Það kom fram hjá framsögumanni og kemur fram á nál. á þskj. 210 að n. er sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. sem felur það fyrst og fremst í sér að sparisjóðunum verði einnig heimilað að fara með gjaldeyrisverslun. Það þýðir þó ekki það að ýmsir nm. hafi ekki verið með vissar efasemdir og áhyggjur út af kostnaðaraukningu í bankakerfinu í þessu sambandi. Nóg er nú um það, og nóg er nú um útþenslu bankanna og stofnun nýrra útibúa. Það sem réði fyrst og fremst minni afstöðu var það að hér er um gríðarlega mikið þjónustuatriði að ræða. Það háttar nefnilega þannig til að það eru ýmis þjónustusvæði í landinu sem hafa ekki neinn viðskiptabanka heldur hafa sín bankaviðskipti öll í gegnum sparisjóði. Þetta eru töluvert stór svæði, eins og t.d. í mínu byggðartagi á Hvammstanga þar sem er Sparisjóður Vestur-Húnavatnssýslu. Nær öll fyrirtæki sem sparisjóðurinn getur þjónað hafa þar viðskipti. Eins er þetta með Borgarnes. Við vitum það að þar er stórt kauptún sem þjónar stóru byggðarlagi og þar er enginn banki heldur. Ég held því að það sé alveg bráðnauðsynlegt að þessi þjónusta, gjaldeyrisviðskiptin komi á öll þessi þjónustusvæði, þar sem sparisjóðirnir eru og þjóna sem viðskiptabankar. Ég hygg að það geti einmitt orðið til þess að koma í veg fyrir kostnaðaraukningu og fjölgun banka, því ef við getum ekki sótt slíka þjónustu í sparisjóðina þar sem þeir eru hlýtur það að leiða til þess fyrr eða síðar að farið verður að biðja um bankaútibú.

En það er fleira í þessu sambandi sem er ólíkt með sparisjóðum og viðskiptabönkum. T.d. varðandi ábyrgðir og fleira er svolítill munur á, þannig að sparisjóðirnir geta raunverulega ekki þjónað atvinnuvegunum, a.m.k. ekki öllum, þeim sem eru með stærst viðskipti, eins og bankarnir. Af þessum sökum hefur verið mikill þrýstingur á að stofna bankaútibú á ýmsum stöðum þar sem þau hafa ekki verið fyrir áður, vegna þess að sparisjóðirnir hafa ekki ráðið við það verkefni að þjóna atvinnuvegunum. Lánin sem þessir atvinnuvegir hafa þurft á að halda hafa verið svo há að bankarnir hafa ekki getað útvegað ábyrgðir. Þar þarf raunverulega að gera á lagabreytingu.

Mig langar til að spyrja hæstv. viðskrh., fyrst hann er hér staddur, hvað miði athugun á endurskoðun á lögum um sparisjóði. Ég hygg að það mál hafi verið lagt hér fram á Alþingi í fyrra en ég veit raunverulega ekki hvar það er statt núna. Ég legg ákaflega mikið upp úr því að þetta mál verði tekið til endurskoðunar, og meining mín er sú að með því að veita sparisjóðunum sem líkasta aðstöðu og viðskiptabönkunum til að þjóna atvinnuvegunum og bankaviðskiptum á þessum tilteknu svæðum megi koma í veg fyrir fjölgun bankaútibúa og aukinn kostnað.