14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég vil með klökkum huga taka undir orð hv. 3. þm. Norðurl. v. og 3. þm. Vesturl. um nauðsyn þess að koma á góðri þjónustu í gjaldeyrismálum fyrir almenning í landinu, og taka af heilum hug undir þau orð í stjórnarsáttmála ríkisstj. sem tekin eru upp í athugasemdum við lagafrv. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stjórnarsáttmála ríkisstj. er því m.a. lýst yfir að unnið skuli að auknu frjálsræði í gjaldeyrisverslun.“ Ja, góð eru fyrirheitin! En þegar við hér í hv. Ed. erum að tala um frjálsræði í gjaldeyrisverslun þá er í hv. Nd. verið að ræða um gjaldeyrisöflun okkar, verið að ræða um það hvort að við höfum einhvern möguleika til að skapa okkur gjaldeyri til að versla með. Það er verið að tala um að setja á aðalatvinnuveg okkar kvóta og það er verið að tala um það, að vegna þess að gjaldeyrisöflun okkar stendur nú höllum fæti þurri að taka af okkur allt frjálsræði sem sinnum þessum atvinnuvegi. Á sama tíma kemur hér hver þm. á fætur öðrum og lýsir yfir gleði sinni yfir því að við skulum vera að auka skrifstofufarganið í kringum það að úthluta þessum gjaldeyri. Ég er alveg steinhissa á því að við skulum ekki leyfa hæstv. viðskrh. að koma þessu máli í gegn án þess að vera að syngja eitthvert hallelúja yfir því, síst af öllu á þeim tíma þegar sú umr. á sér stað í hv. Nd. sem ég nefndi áðan.

Það getur vel verið að það sé erfitt fyrir Borgfirðinga og þá góðu þegna í Borgarnesi sem þurfa að skipta við sparisjóðinn í Borgarnesi að komast niður á Akranes til að sækja sér gjaldeyri. En ég held að ýmislegt sé erfiðara en það í okkar þjóðfélagi núna. Og alveg á sama máta held ég að það séu ekki mjög miklir erfiðleikar fyrir þá á Hvammstanga að skjótast til Blönduóss eða þá bara yfir í Búðardal, á báðum stöðum eru gjaldeyrisviðskipti, það er búið að koma því í kring að Búnaðarbankinn er búinn að fá gjaldeyrisviðskipti líka. Það er nú kannske rangt að fara svolítið aftur í tímann og minna á það að þegar hrunið blasti við þar var komið bankaútibú á annað hvert horn á götunum í Kína, hjá Chiang Kai-shek í borgum í Kína. Það var aðalgróskan í því góða ríki. (EgJ: Þetta kunnið þið vel.) Við kunnum það vel, það er verið að undirbúa planið fyrir valdatöku kommanna, mundum við segja. (TÁ: Hefur nokkuð verið lagt niður hjá þeim?) Ja, ætli það sé ekki með það eins og fleira þarna fyrir austan, að frelsið sé frekar lítið. Það hefur ekki verið snúið við, farið í ófrelsið. En ég kom hér upp til þess að undirstrika það að jafnvel þó við séum frelsinu fegnir skulum við gera okkur grein fyrir því að vandamálin í þjóðfélagi okkar eru ekki þau hvernig við eigum að úthluta þeim gjaldeyri sem við fáum í hendurnar. Vandamálin sem nú er verið að ræða í Nd. eru vandamálin um það hvernig við eigum að afla gjaldeyris.