14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. 4. þm. Vesturl. að hér er um fáránlegar missagnir að ræða milli deilda í dag. En það er auðvitað eftir öðru hjá þessari hæstv. ríkisstj. vegna þess að henni er mest í mun að vera með ýmiss konar sýndarmennsku af þessu tagi. Nú er ljótt að höfuðpostuli sýndarmennskunnar skuli ekki sitja hér andspænis mér, hæstv. fjmrh., sem hefur verið allra manna duglegastur og ég hef leyft mér að kalla úr þessum ræðustól 18 frumvarpa föðurinn í álfheimum ríkisstj. Og þetta frv. sem hæstv. viðskrh. stendur að, er svona eitthvað í átt við þá álfheima.

Ég kom hins vegar hér upp fyrst og fremst, vegna þess að ég á sæti í bankaráði Búnaðarbankans, til að taka undir það með hv. 4. þm. Austurl. að það hlýtur að vera sjálfsagt þegar þetta mál er athugað að kynna sér með hvaða hætti Búnaðarbankinn tók upp gjaldeyrisviðskipti og hvað það kostaði. Það er sjálfsagt. Að því vék ég einmitt hér við 1. umr. málsins. (Gripið fram í.) Ég hef þetta ekki sundurliðað, nei. Ég er ekki eins snjall í fjármálum og hv. þm. Egill Jónsson sem hefur alla hluti í kollinum. (EG: Hann þótti nú ekki nógu snjall í fjvn. samt.) Nei, ekki af hálfu þeirra sjálfstæðismanna. Þeir töldu hann ekki nógu góðan. Hins vegar taldi ég hann fyllilega nógu góðan til að eiga sæti í fjvn., en það gerðu ekki flokksbræður hans, það er önnur saga. En svo að ég haldi áfram máli mínu varðandi þetta þá tek ég undir þessa ósk hv. 4. þm. Austurl. Það er sjálfsagt að það komi hér inn í myndina þó að, eins og hæstv. viðskrh. hafði tekið fram hér, þar sé um miklu víðtækari heimild og miklu víðtækari framkvæmd að ræða á gjaldeyrisviðskiptum en er í þessu frv., a.m.k. til að byrja með. Hins vegar reikna ég með því að það geti þróast í eitthvað svipaða átt. Varðandi Búnaðarbankann í heild sinni fullyrði ég það hér úr þessum ræðustól að starfsmannahald þar, miðað við stærð og umfang bankans, er áreiðanlega mjög hagstætt bankanum miðað við aðra ríkisbanka og aðra viðskiptabanka, ég fullyrði það. Ég hef séð um þetta tölur, að vísu ekki alveg nýlega, en miðað við stærð og umfang er bankinn áreiðanlega í lágmarki og samanburðurinn við aðra banka Búnaðarbankanum mjög hagstæður. Ég hef meira að segja talið að í sumum deildum bankans væri álag á fólk í það mesta og hef vakið á því athygli í bankaráðinu.

Ég býst við að það hafi farið svo fyrir okkur, sem eigum sæti í bankaráði og eins bankastjórn bankans, að menn hafi hreinlega ekki gert sér fyllilega grein fyrir því hvað hér var um mikla breytingu að ræða og mikla aukningu. Hún varð býsna mikil eins og ég tók fram hér við 1. umr. málsins. Þó vil ég taka það skýrt fram að húsnæðið sem hér er um að ræða hafði þegar verið keypt, enda bankinn áður í nokkrum húsnæðisþrengingum vegna vaxandi starfsemi. Húsnæðið hafði þegar verið keypt áður en þetta kom til sögunnar.

Nú hefði verið freistandi — þegar ég sé að hæstv. fjmrh. er kominn— að endurtaka nokkuð af því sem ég sagði áðan um sýndarmennsku hæstv. ríkisstj. Úr því að hann er kominn hlýt ég að endurtaka það að hann er náttúrlega þar höfuðpostuli. Ég hef leyft mér úr þessum ræðustól tvívegis að kalla hann 18 frumvarpa föðurinn í álfheimum ríkisstj. og það er örugglega — (Fjmrh.: Það er góður kall.) og það er örugglega góður kall að áliti hæstv. ráðh., enda hefur hann verið allra manna duglegastur að auglýsa þann góða kall. (Fjmrh.: Það er enginn annar til þess.)