24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki taka langan tíma frá hv. d. til þess að ræða þetta mál við þessa umr. Ég fæ tækifæri til að skoða málið í sjútvn. og sjálfsagt koma þar fram ýmis atriði sem okkur eru ekki alveg ljós nú og betra er að líta á við 2. umr.

Samkv. þessu frv. og brbl. verða 35–39% af fiskverði tekin fram hjá skiptum, þ.e. 10% sem renna í Stofnsjóð fiskiskipa svo sem áður var og 25–29% í sérstakan kostnaðarhlut útgerðar.

Eftir að þessi lög höfðu verið gefin út gerðu sjómannasamtök og ýmsir forustumenn sjómanna aths. og mótmæltu þessum lögum. Ein dálítið sérstök yfirlýsing kom fram frá formanni Sjómannafélags Reykjavíkur og langar mig til að hafa hana eftir hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Við súpugerð þessara þrælalaga hefur ríkisstj. misst piparstaukinn út í, enda er hið mesta óbragð af þessari lagasetningu, sem sjómenn og samtök þeirra mótmæla harðlega.“

Þetta sagði Guðmundur Hallvarðsson á sjómannadaginn síðasta.

Skipstjóra- og stýrimannafétagið Aldan mótmælti þessu á þennan veg, með leyfi forseta:

„Ný ríkisstjórn Íslands hefur litið dagsins ljós og hefur sent landsmönnum sína fyrstu kveðju í formi brbl. Kveðjan er köld, en þó sýnu köldust til þeirra, sem við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar starfa, þ.e. sjómanna.“

Og enn segja þeir í þessari ályktun sinni: „Hlutaskiptaákvæði kjarasamnings hafa verið ógilt með stórhækkun á greiðslum til útgerðar utan skipta. Á meðan fiskvinnslunni er gert að greiða 27% hærra verð fyrir aflann fá sjómenn einungis 8% á fiskverð til sín.“

Af þessari upptalningu má öllum ljóst vera að ríkisstj. hefur nú þegar lagst á sveif með náttúruöflunum í að rýra tekjur sjómanna umfram tekjur annarra þegna í landinu. Ég held að þetta sé fyrst og fremst einkenni þessara laga, að þarna er verið að gera ráðstafanir til þess, eins og hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan, að styrkja stoðir útgerðar og fiskvinnslu í landinu og leiðin er sú að rýra hlut sjómanna. Þessi lög eru eins og önnur þau brbl. sem gefin voru út í upphafi starfsferils ríkisstj. og nefnd hafa verið „eitthvað-varð-að-gera-lög“. Það er eins og þeir sem settust í stjórnarstólana hafi verið knúðir til að gera eitthvað á mjög skömmum tíma og gera það án mjög mikillar yfirvegunar.

Hæstv. sjútvrh. sagði áðan, að staða sjávarútvegs hefði verið það vond þegar hann tók við að eitthvað þessu líkt hefði verið nauðsynlegt að gera. Þetta er merkileg yfirlýsing frá hæstv. sjútvrh., þ.e. framsóknarráðherra í þessari ríkisstj. Undanfarið hafði framsóknarráðherra farið með þessi mál, þ.e. undanfarin 31/2 ár, og skitin hans til núv. sjútvrh. voru þá á þennan veg að það þurfti að gera þær miklu ráðstafanir sem koma fram í þessum lögum.

Þetta er orðinn hlutur og ekki eru miklar líkur á því að hv. Alþingi breyti þessum lögum mikið. En í sambandi við lög þessi er þó rétt að minnast þeirra umr. sem fóru fram í hv. Nd. þegar var verið að ræða um olíugjaldið og útflutningsgjaldið vegna ráðstafana í sjávarútvegi í febr. eða jan. s.l. Þá lýsti þáv. sjútvrh., núv. hæstv. forsrh., yfir að olíugjald skyldi óbreytt standa á árinu 1983. Hann lýsti því yfir að það hefði verið bókað hjá Verðlagsráði sjávarútvegsins og beint eftir beiðni ríkisstj. að olíugjald skyldi óbreytt standa árið 1983 og sama skyldi verða með niðurgreiðstu á olíu. Efndirnar voru þær, að um leið og búið var að skipta um sjútvrh. var þetta loforð svikið og gengið enn á hlut sjómanna í sambandi við rekstur útgerðar hér á Íslandi.

Það er kannske líka rétt að nefna það, að fyrrv. sjútvrh. hafði áður gefið undir fótinn með að olíugjald, þ.e. 7% olíugjaldið, skyldi fellt niður og jafnvel heyrðist þessi tónn í umr. á s.l. vetri í sambandi við útflutningsgjaldið. En á endanum er enn höggvið í sama knérunn. Þessi lagasetning er bein aðför gegn hlutaskiptareglunni, eins og kom fram í ræðu Karls Steinars áðan. Það er verið að gera tilraun til að kollvarpa hefðbundinni hlutaskiptingu við útgerð á Íslandi, og það eru ekki tekin þar nein smáskref.

Með þessum lögum átti að bæta hlut útgerðar með því að minnka hlut sjómanna, en hvað varðar bátaflotann er það hverfandi lítið sem rennur til útgerðar, vegna þess að meginhluta tímabils bátaútgerðar eru sjómenn á föstu kaupi. Breytt hlutaskipti bæta því lítið hag bátaútgerðar hjá okkur. Það er kannske í mars eða apríl sem þarna verður einhver breyting á. Mín skoðun er sú, og ég geri ráð fyrir að sú sé skoðun flestra útgerðarmanna á Íslandi, að það hafi verið ástæðulaust að rýra hlut bátasjómanna þennan stutta tíma, og flestir þeir sem gera út báta munu ekki hafa fagnað þessum aðgerðum og breytingum á hlutaskiptareglum.

Ég vil undirstrika að gagnvart bátaútgerðinni hefur þetta verið mjög vafasamur hagnaður og fyrir aðra útgerð hefur þetta einnig verið mjög vafasamur hagnaður. Einn útgerðarmaður á Snæfellsnesi sagðist hafa vaknað við það morguninn eftir að þessi brbl. voru gefin út, sem var að kvöldi, að hann hefði tapað 25 millj. Þetta er maður sem stjórnar togarafyrirtæki. Það þýðir að allur afli togarans á árinu dugar ekki til að standa undir þessari einu aðgerð ríkisstj. gagnvart þessari útgerð. Hvernig skyldi það vera gagnvart öðrum?

Gengisfellingin og svo þessi aðgerð hefur því verið til lítilla bóta fyrir íslenskan sjávarútveg, enda sýnir sá listi sem birtur hefur verið í blöðum að það er eitthvað sérstakt að ske í þjóðfélaginu. Birtur hefur verið á merkilegan hátt listi yfir 20 skip, bæði í dagblaði og svo vikublaði, sem gefið er út upp á síðkastið, sem sýnir hinar stórkostlegu skuldir togara- og bátaflotans. Þó nokkuð stór hluti af skuldunum er eingöngu vegna aðgerðanna frá því í sumar. En út frá þessum lista hef ég áhuga fyrir að spyrja hæstv. sjútvrh. — ég er að nefna þann lista sem mér er sagt að hafi komið í Dagblaðinu og svo í Sjávarfréttum, vikublaði sem hefur verið að koma út, — hvort Fiskveiðasjóði sé heimilt að birta viðskiptastöðu sinna lántakenda. Líkast til er ekki viðstaddur sá ráðh. sem fer með málefni Byggðasjóðs, en ég spyr hvort búið sé að rjúfa þagnarskyldu og menn geti ekki átt viðskipti við lánastofnun án þess að eiga það á hættu að viðskipti þeirra séu gerð opinber og ekki aðeins að það sé sagt frá þeim, heldur séu þau birt opinberlega í blöðum.

Mér er sagt að þessi listi hafi gert það að verkum að flest og kannske öll þessara skipa séu komin á svartan lista hjá viðskiptamönnum sínum í sambandi við hin breytilegu viðskipti. Er hægt að búast við, hvort sem þessi listi er kominn frá Fiskveiðasjóði eða öðrum trúnaðaraðilum sem Fiskveiðasjóður hefur sent listann, að eitthvað þvíumlíkt endurtaki sig eða megum við búast við að leynd bankastofnunar verði afnumin? Það má vel vera að það sé hið æskilega, en þegar hefur verið leitað eftir upplýsingum á öðrum vettvangi hefur það ekki legið á lausu.

Ég sagði í upphafi að ég skyldi ekki eyða löngum tíma, en aðeins um gengismuninn. Þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum og ansi oft síðan hefur því verið lýst yfir að ríkisstj. mundi lækka skatta. Þeir hafa meira að segja hamast við að leggja niður hina og þessa skatta. Hvað er skattlagning ef það er ekki taka gengismunur? Það er ekkert annað en skattlagning. En svo merkileg er sú skattlagning, að þegar verið er að bjarga sjávarútveginum er hamast við að færa til á milli greina á hinn furðulegasta máta. Og svo er verið að segja þjóðinni að það sé verið að bjarga einhverju. Tekið er frá þeim aðila sem gengisfellingin á að bjarga, þ.e. fiskvinnslunni, 10% í gengismun, en jöfnum höndum er verið að segja að verið sé að bjarga henni. Þetta er grófasta skattlagning sem hægt er að hugsa sér. Hvaða skattar aðrir sem eru endurgreiddir, hvort sem það er flugvallagjöld eða hvað annað, eru hégómi miðað við þá skattlagningu sem hér á sér stað.

Eitt er það í viðbót sem mig langar til að nefna. Fyrir nokkrum dögum komu heilmiklar yfirlýsingar frá hæstv. iðnrh. um að Sambandið og Sölumiðstöðin stæðu sig illa í því að selja íslenskar sjávarafurðir. Ýmsir höfðu látið sér detta þetta í hug að slíkt gæti átt sér stað, en að yfirlýsingar kæmu frá hæstv. iðnrh. og krafan um að þessir hlutir væru skoðaðir kæmi þaðan, því höfðu menn ekki búist við. A.m.k. álitu stjórnarandstæðingar að slík krafa kæmi frekar frá hæstv. sjútvrh. En það getur verið að á vissum sviðum sé orðin verkaskipting og að hæstv. iðnrh. hafi tekið vissan þátt í erfiðleikum sjútvrh. við að byggja upp rekstur sjávarútvegsins eftir fyrirrennara hæstv. núv. forsrh.