14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég tek mjög undir það sem hefur komið hér fram hjá 4. þm. Austurl. um aðhald í kostnaði við ný áform um meira frjálsræði í gjaldeyrisviðskiptum. Ég sakna þess reyndar að hv. 2. þm. Austurl. skuli ekki vera hér staddur. En þannig vildi til að ég sat bankaráðsfund þegar var verið að fjalla um undirbúning að gjaldeyrisviðskiptum Búnaðarbanka Íslands og þar var talað um bréf Tómasar Árnasonar og fyrirvara sem hann setti fyrir þessari leyfisveitingu. Þar var líka talað um 25–30 manna aukið starfslið, sem nauðsyn væri á, og til viðbótar fór fram umr. um með hvaða hætti ætti að koma þessari starfsemi fyrir í húsakynnum bankans, hvort heldur ætti að taka þar húsrými sem fyrir var og er fyrir hendi í eigu bankans eða að kaupa nýtt húsnæði. Á þeim eina bankaráðsfundi sem ég sat var því skýrlega fjallað um alla þessa þætti.