14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Það er orðin nokkuð löng umr. um lítið frv. Það er nú svo, að afstaða manna kemur ekki alltaf nákvæmlega fram í atkvgr. –ekki í smáatriðum þó e.t.v. komi hún heildarlega fram efnislega.

Hv. 4. þm. Vesturl. hefur vikið nokkuð að því að frjálsræði í viðskiptum með gjaldeyri gæti leitt til meiri eyðslu á gjaldeyri. Ég er ekki viss um að svo sé í raun og veru. Ég vil ekkert fara að ræða þetta frekar. Hins vegar vil ég að það komi fram alveg skýrt að ég er sannfærður um að sú tilhögun sem hér er gert ráð fyrir er skynsamleg og leiðir endanlega til sparnaðar í bankakerfinu, ekki síst af ýmsum orsökum sem hér hefur verið vikið að, og fyrst og fremst vegna þess að mér er fullkunnugt um að sums staðar á landinu hafa verið sett upp bankaútibú og þar hefur vegið hvað þyngst röksemdin að koma á gjaldeyrisviðskiptum. Mér er fullkunnugt um það. Þetta hlýtur að leiða hugann að því sem ég sagði áðan. Og ég vil fullyrða að þetta frv., sem hér liggur fyrir og það sem af því leiðir, mun á endanum leiða af sér sparnað í bankakerfinu.

Hér er auðvitað verið að auka þjónustu við fólkið, það er rétt. Það er hin hlið þessa máls og er ég því hjartanlega sammála að þær götur verði gengnar.

Hér hefur verið minnst á Sparisjóð Mýrasýslu, sem er eign sýslusjóðs Mýrasýslu. Það er sterkur og ágætur sparisjóður, sem betur fer, og margir góðir innleggjendur þar. Sumir fá lán, það er rétt. Ég vil benda á að viðskiptasvæði til að mynda þessa sparisjóðs er nokkuð stórt. Til samanburðar er rétt að geta þess að árið 1982 voru hér á landi 1978 einstaklingar á hverja afgreiðslustofnun banka og sparisjóða. Þá voru þær um 160 talsins. Viðskiptasvæði Sparisjóðs Mýrasýslu telur verulega fleiri eða milli 4 og 5 þús. manns og þá fer ég auðvitað langt út fyrir Mýrasýsluna. Ég held því fyrir mitt leyti að menn hafi verið heldur tregir í taumi, a.m.k. hingað til, varðandi meðferð gjaldeyris.

Ég held að þetta mál, sem hér er verið að ræða, sú þjónusta sem veitt er fólkinu með tilliti til gjaldeyrisviðskipta, eigi e.t.v. ekki nema lítinn skyldleika við þá umr. sem á sér stað í Nd. um veiðar í fiskveiðilandhelgi. Þar er að sjálfsögðu rætt um mjög mikilsvert mál sem af leiðir gjaldeyrisöflun. Ég vil því að mín skoðun komi fram. Ég tel mjög skynsamlegt að gera þessa ráðstöfun og er mjög fylgjandi þeirri niðurstöðu fjh.- og viðskn. hv. deildar að sparisjóðir fái heimildir til gjaldeyrisviðskipta, en um tilhögun treysti ég því að fyllstu ráðdeildar verði gætt.