24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Það frv. til l. sem liggur hér fyrir um ráðstafanir í sjávarútvegi er búið að vera lengi á vörum manna, ef svo má segja frá því brbl. komu til framkvæmda. Ég ætla ekki að fjölyrða mikið um það. Þetta er mikið stórmál sem mun fá síðar meðferð í n., og hvað kemur út úr því skal ósagt látið hér, en ég geri ráð fyrir að þetta frv. fari í gegn lítt eða óbreytt.

Hv. 4. þm. Vesturl. og hv. 6. landsk. þm. hafa verið hér í ræðustól áður. Það virðist eins og þeir komi af fjöllum að ástandi í íslenskum sjávarútvegi í dag og það sem er að ske í þeim efnum sé að falla af himni ofan síðustu daga. Sannleikurinn er sá, að þetta er búið að hafa langan aðdraganda og ég ætla ekki að kenna þar um neinni sérstakri ríkisstjórn. Það er uppsafnaður margra ára vandi í íslenskum sjávarútvegi. Þó að ég muni fylgja þeirri afgreiðslu sem verður gerð hér á gengismun er það engin bót fyrir t.d. skuldugustu skipin við Fiskveiðasjóð að fá 5 millj. hámark til að stytta skuldahala sinn. Það breytir ekki öllu um stöðu þeirra, en þó er verið að koma þarna á móts við menn. Það breytir engu um að skip þessi eru jafnilla stödd hvað rekstur snertir.

Ég tek undir það með síðasta ræðumanni að slíkur vandi er á ferðinni á næstu dögum eða vikum, ef svo má segja, að það verður að taka þessi mál upp á borðið, hvað á að gerast í útgerðarmálum þessara skipa. Hinir ýmsu staðir í landinu búa við óöruggt atvinnuástand, vægast sagt, og það þarf að takast alvarlega á við það mál áður en farið er að svipta t.d. minni byggðarlögin skipunum sem þau byggja nær eingöngu á. Ég veit að þetta gengur hæstv. fulltrúum Alþfl. illa að skilja, sem hafa yfirleitt verið á móti á s.l. árum öllu sem heitir uppbygging í sjávarútvegi, tala um ranga fjárfestingu. Ég segi það hér og nú að þeir hafa gert það án þess að nokkurri sanngirni væri þar beitt.

Ef ég ræði aðeins um brbl. í sambandi við gengismuninn, þá vonast ég til þess að kannske verði á næstunni minni gengismunur en fjallað er um að undanförnu og við getum hægt mikið á gengissiginu eða stöðvað það alveg að miklum hluta til. Auðvitað er þá hægt að deila endalaust um hvernig skipta á gengismun á milli hinna ýmsu vinnslugreina, en allir vita að sú þörfin er langsamlega brýnust að halda útgerðinni gangandi því að hún er frumgrein fyrir alla vinnsluna.

Það má deila um hvort við eigum að taka gengismuninn af skreið eða láta hann heldur vera kyrran á sínum stað vegna þess að skreiðin er óseld. Það er allt of mikil bjartsýni sem þar er uppi. Skreiðin liggur annaðhvort hér heima eða er seld til Nígeríu og er það á löngum gjaldfresti, svo við vitum ekki hvað út úr sölu kemur þó óskhyggja þar ráði.

Þessar 200 millj., sem ráðstafað er til skipanna, koma of seint inn, en 100 millj. sem eru handa útgerðinni sérstaklega er réttlætanlegt að láta af hendi og koma réttilega niður. En það er fjármagnskostnaður útgerðarinnar sem er með hana að fara. Við getum deilt um hvernig stendur á þessu, en hluti vandans er iðnaðarvandamál. Við verðum að gera okkur ljóst að það er iðnaðarvandamál þarna á ferðinni og það er fjármagnskostnaðurinn sem er með þetta að fara og menn hafa ekki undan þar. Þess vegna, þó það eigi ekki heima í þessari umr., þætti mér ekki óeðlilegt að um það væri spurt, t.d. hvað snertir vaxtalækkun sem nú hefur verið, hvernig stendur á því að ekki eru lækkaðir einnig dráttarvextir sem er mjög knýjandi hjá mörgum atvinnufyrirtækjum. Þeir hrúgast upp í viðbót við vanskilaskuldir og gerir það málið enn þá erfiðara.

Ég þarf ekki að taka upp hanskann fyrir ýmsa sjálfstæðismenn í þessum efnum, eins og hv. þm. Karl Steinar lét liggja að áðan. Þeir hafa sínar skoðanir á málunum og ég hef mínar í þessum efnum. Ég mun standa með því að gengismun verði ráðstafað á þann hátt sem hér er lagt til. Ýmsir liðir koma þar vel fram. En hvað varðar lán til loðnuveiðiskipanna sem útgerðin greiðir þegar þau fara að veiða, það eru 200 millj. Hvað gagna þær 200 millj., sem fara eiga til vanskilanna? Það sér ekki högg á vatni. Það skulið þið vera mér sammála um. En hinu er ég algerlega sammála. Það stefnir rétta leið. Og að því skulum við standa saman.

Ég minni á við þetta tækifæri að staða útgerðarinnar er þannig í dag, að þetta er okkar undirstöðuatvinnuvegur og við getum ekki frestað því öllu lengur að takast alvarlega á við vandann. Það virðist vera þannig þegar minnst er á sjávarútveginn yfirleitt, að það vandamál verði að bíða, það sé ekki tími til að taka á því strax. En það getum við ekki beðið með lengur. Þarna bíða með óþreyju bæði þeir sem gera út skipin og þeir sem fyrst og fremst hafa vinnuna af því að vinna aflann úr þeim.