14.12.1983
Neðri deild: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

128. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það var athyglisvert að hlýða á þá yfirsjónarjátningu sem hæstv. iðnrh. fór hér með, þar sem skeikaði tæpum 50% hvað tekjur munu verða hærri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. af þessu verðjöfnunargjaldi. Ég mun ekki hafa heyrt upphafið að ræðu ráðh., en í þeim hluta ræðunnar sem ég heyrði kom ekki fram hvernig við þessu ætti að bregðast, að hans dómi, hvort hér yrði af hálfu ríkisstj. eða hálfu ráðh. stutt að sú prósentutala sem hér um ræðir yrði lækkuð sem þessu nemur. Raforkuverð yrði þá lækkað í landinu um þann mismun sem hér um ræðir, sem er væntanlega á bilinu 6 til 7%. Þetta hefði ég gjarnan viljað vita í fyrsta lagi.

Í annan stað vekur það athygli þegar litið er á raforkuverð í landinu að ýmsir raforkunotendur verða að borga hærra verð en þeir sem kaupa raforku af þeim fyrirtækjum sem njóta sérstaklega greiðslu úr þessari púlíu, þ.e. ýmsar rafveitur í landinu selja raforku sína á mun hærra verði en Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða, sem þó eru styrktar vegna þess að þær eru taldar svo kostnaðarsamar. Um það snýst þetta mál allt.

Hér er um það að ræða að skattleggja alla raforkunotkun í landinu til að styrkja tvær rafveitur. En þá er það svo, að t.d. Rafveita Keflavíkur selur rafmagn til notenda á hærra verði en þessar rafveitur tvær. Nú hefur í undantekningartilvikum verið farið inn á þá braut að veita undanþágu til einnar rafveitu á landinu, þ.e. Rafveitu Siglufjarðar, með tilliti til slæmrar fjárhagsstöðu þess fyrirtækis. Það má vel vera að það geti verið braut sem rétt sé að feta, en ef á að feta hana áfram að því er Rafveitu Siglufjarðar varðar og við þær aðstæður sem ég nú lýsti að því er varðaði t.d. hag Rafveitu Keflavíkur hlýtur að vakna sú spurning hvort ekki sé ástæða til að hið sama gildi þá um Rafveitu Keflavíkur og um Rafveitu Siglufjarðar, að henni verði sleppt við þessa gjaldtöku með tilliti til þess að Rafveita Keflavíkur neyðist til að selja raforku sína á langtum dýrara verði en þau þrjú fyrirtæki sem ég hef nefnt, Orkubú Vestfjarða, Rafmagnsveitur ríkisins og Siglfirðingarnir, — eða hvers eiga Keflvíkingar að gjalda?

Hluti skýringarinnar á hinu háa raforkuverði í Keflavík er það flutningsgjald sem greitt er fyrir flutning raforkunnar frá spennistöðinni hér uppi við Geitháls og suður til Keflavíkur. Það reynist vera það dýrt að afkoma fyrirtækisins í Keflavík er ekki betri en þetta. Ég vildi líka beina til hæstv. ráðh. hvort hann telji ekki eðlilegt og sanngjarnt, meðan verið er með þetta kerfi til að reyna að jafna raforkuverðið, að því sé þá beitt af því réttlæti sem mönnum á að geta verið tiltækt og rafveitur eins og Rafveita Keflavíkur, sem kemur verr út en þau fyrirtæki sem styrkt eru, fái hér einhvers að njóta.