14.12.1983
Neðri deild: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með að við skulum taka þetta mikilvæga mál aftur upp á fundi á skikkanlegum tíma, en ekki freista þess að ræða það í botn hálfruglaðir af svefnleysi, eins og var þegar það var síðast til umr.

Það liggur nokkuð ljóst fyrir og hefur komið fram í ræðum margra sem hér hafa talað á undan í umr., að Alþingi er ekki með umr. um þetta frv. að taka afstöðu til fiskveiðistefnu á Íslandi, heldur er hér farið fram á að ráðh. verði falið mjög víðtækt vald til að móta stefnuna og nær undantekningarlaust vald í ljósi þeirra aðstæðna sem nú ríkja í fiskveiðum á Íslandi. Það vekur þó athygli að á sama tíma og ráðh. hæstv. kemur hér í ræðustól og fer fram á þetta valdaafsal af höndum Alþingis til sín kom hann ákaflega fátæklega nestaður um það hvernig hann hygðist beita þessu valdi á næsta ári.

Herra forseti. Ég spyr: Er hæstv. sjútvrh. ekki hér í salnum? (Forseti: Ég verð að játa það, en ég skal reyna að hafa upp á hæstv. ráðh.) Já, ég held að það sé rétt að ég bíði hér á meðan það mál er athugað. (Forseti: Ég á von á því að ráðh. sé hér í húsinu. Hv. þm. gerir smáhlé á ræðu sinni.) Herra forseti. Fer ekki að bóla á hæstv. ráðh.? (Forseti: Ég vona nú, hv. þm., að ráðh. komi fljótlega. Ég vona að þdm. hafi þolinmæði rétt á meðan. Hæstv. ráðh. gengur í salinn.)

Eins og ég var að segja áðan liggur ljóst fyrir að hér er hvorki verið að taka afstöðu til né móta fiskveiðistefnu fyrir næsta ár, hér er verið að setja ráðh. vald í hendur til að gera það. Mér finnst ósköp eðlilegt að Alþingi spyrji hann nokkurra spurninga þegar þetta er til umr. og ég verð að segja það aftur að mér fannst hæstv. sjútvrh. koma fátæklega nestaður til þessarar umr. þegar hann talaði fyrir þessu máli. Það eru út af fyrir sig svör að það sé verið að vinna að þessu og hinu og það sé verið að kanna þetta og hitt, en það eru ekki þau svör sem ég held þm. vilji gjarnan fá áður en þetta mál fer héðan út úr þingsölum. Og það er eðlilegt að þeir spyrji hæstv. ráðh.: Hvenær fær hv. Alþingi að fjalla um þetta mál aftur, ef þetta verður nú samþykkt hér, í ljósi breyttra aðstæðna t.d.? Er þá málið úr höndum Alþingis og alfarið í höndum ráðh.? Samkvæmt því sem hér er lagt til sýnist mér að svo sé. Auk þess eru það fjöldamargar spurningar, sem varða framkvæmdaatriði, sem er ósköp eðlilegt að þm. beri hér upp og vilji a.m.k. fá hugmyndir ráðh. eins og þær liggja nú fyrir um hvernig hann hugsi sér að leysa þau mál. Ég get tekið hér nokkur dæmi til viðbótar þeim sem þegar hafa komið fram hér í umr. og ítrekað önnur.

Þar er auðvitað efst á blaði hvernig takmarka eigi aflamagn á næsta ári, hvernig á að útfæra það stýringarkerfi sem sett verður á. Í samþykkt Fiskiþings er fjallað um þetta í 4. lið og þar segir, með leyfi forseta: „Aflamagn síðustu þriggja ára verði lagt til grundvallar við skiptingu aflakvóta á milli skipa.“ Ég undirstrika aflamagn. Í framhaldi af þessu er eðlilegt að spyrja hæstv. sjútvrh.: Hefur hann hugsað sér að sá kvóti sem settur yrði miðist eingöngu við aflamagn eða kemur aflaverðmæti að einhverju eða hugsanlega að öllu leyti þar inn í myndina?

Önnur stór spurning sem ég held að hljóti að vera ofarlega í hugum manna þegar rætt er um kvótakerfi er hvernig á að hindra smáfiskadráp og hvernig á að tryggja að sá smáfiskur sem upp kemur engu að síður verði nýttur. Þetta eru spurningar sem eðlilegt er að menn spyrji sig og leiti svara við þegar rætt er um kvótakerfi.

Í þriðja lagi er það spurningin um sölu á aflakvóta sem úthlutað hefur verið til einstakra skipa, ef af verður. Verður slíkur aflakvóti látinn ganga kaupum og sölum milli manna, seldur hæstbjóðanda hvert sem er á landið eða hugsanlega út úr landinu eða verður slíkt bundið við svæði, við landshluta, við löndunarstað eða hugsanlega við sama fiskverkunarfyrirtæki eða sama útgerðaraðila? Einn möguleikinn er eftir enn og hann er sá, að aflakvóti sem skip hugsa sér að nýta ekki verði hreinlega felldur niður eða hann gangi til rn. og honum verði úthlutað þaðan aftur. Þetta eru spurningar sem skipta einstök byggðarlög miklu máli og því er eðlilegt að spurt sé.

Í fjórða lagi vil ég spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvernig verða siglingar fiskiskipa til útlanda meðhöndlaðar í ljósi kvótakerfis, ef af verður, og hvernig verður sala erlendis látin vega í kvóta, ef settur verður? Verða þau skip sem hingað til hafa að mestu eða næstum öllu leyti gert út á sölu ísfisks erlendis látin fá kvóta eins og önnur og geta þau haldið hætti sínum eftir sem áður að sigla með nær allan aflann úr landi?

Í fimmta lagi vil ég spyrja: Hvernig er hugmyndin að tryggja jafnvægi milli vinnslustöðva, milli vinnslusvæða og milli landshluta ef kvótakerfi verður sett?

Og í sjötta lagi og í framhaldi af því: Hvernig mun kvótakerfið hafa áhrif á atvinnuástand og hvernig verður leitast við að tryggja atvinnu sem jafnast yfir allt árið eða koma með öðrum orðum í veg fyrir tímabundið atvinnuleysi, ef kvóti verður settur á skip með þeim hætti sem t.d. gerðar eru till. um í samþykkt Fiskiþings? Menn víða út um land eru nú mjög uggandi um að kvótakerfið, eins og þeir sjá það fyrir sér, geti haft alvarlegar afleiðingar á atvinnuástand einstakra byggðarlaga. Ég hef undir höndum útreikninga samstarfsnefndar frá meðalstóru útgerðarplássi úti á landi, þar sem þeir hafa, miðað við forsendur Hafrannsóknastofnunar eins og þær eru settar upp um aflamörk á næsta ári, reynt að reikna út hvernig kvótakerfi muni koma við þann stað, við einstök skip og einstakar verkanir. Þeir segja í niðurlagi síns erindis til sveitarstjórnar að þannig kunni að fara að setning kvótakerfis muni hafa veruleg áhrif og víðtæk áhrif á atvinnulíf og á ýmislegt fleira á þessum stað. Svo geti farið að netabátar verði þrjá til fimm mánuði að afla þorskkvóta sinn, þetta muni leiða af sér mikinn samdrátt í saltfiskframleiðslu, miðað við síðustu ár, og fiskverkunarhúsin verði jafnvel ekki starfrækt lengur en fjóra til fimm mánuði á ári. Frá sama stað eru einnig gerðir út togarar. Það er mat þeirra manna sem þarna hafa um fjallað og þekkja vel til, að þetta kunni að hafa þau áhrif á togaraútgerð á staðnum að úthald þeirra styttist úr 330 dögum á ári í 260 til 290 daga á ári og þannig verði þeir 8–10 mánuði á veiðum, ef þessi breyting verður gerð. Þetta eitt ætti að færa mönnum heim sanninn um að það er ofureðlilegt að spurt sé hér á Alþingi ýmissa spurninga varðandi þetta fyrirhugaða aflastýringarkerfi. Þeirra er líka spurt vítt og breitt um landið í dag og það er grannt hlustað eftir því hvernig hæstv. sjútvrh. fylgir þessu frv. sínu úr hlaði hér á hinu háa Alþingi.

Það er mín persónulega skoðun að það sé Alþingis fyrst og fremst að móta heildarstefnu í auðlindanýtingu þjóðarinnar. Ég lít á auðlindirnar sem sameign íslensku þjóðarinnar og þá er ekki annar aðili betur til þess fallinn en Alþingi sjálft að fjalla þar um. Þess vegna finnst mér það alvarlegt skref ef Alþingi segir nú við hæstv. ráðh.: Gjörðu svo vel, hér eru sjávarútvegsmál, hér er mikilvægasta auðlind íslensku þjóðarinnar, fiskveiðin, gjörðu svo vel, herra ráðherra. Það væru mikil tíðindi ef slíkt væri samþykkt á Alþingi Íslendinga. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að þingið gefi sér þann tíma sem það telur þurfa til að fjalla um þetta mál, það spyrji þeirra spurninga sem það vill fá svarað eftir því sem kostur er. Ég fagna því að við fáum hér þingfund á eðlilegum tíma til að ræða þetta.

En ég vil bæta við þann spurningalista sem ég hef borið hér upp við hæstv. sjútvrh. Ég vil spyrja hann að því, hvaða hugmyndir hann hefur eða hans starfsmenn um hvernig eigi að hafa eftirlit með þessu kvótakerfi, ef sett verður. Hvernig á að tryggja að menn komist ekki fram hjá því kerfi, það verði ekki landað fram hjá, eins og það hefur stundum verið kallað, að það verði virkt eftirlit sem tryggi að ekki verði farið fram úr þeim skammti sem mönnum er ætlaður? Þetta skiptir miklu máli.

Þá vil ég spyrja hæstv. sjútvrh.: Verður í einhverju litið til þess hvernig einstakar útgerðir og einstaka útgerðaraðilar eru staddir t.d. fjárhagslega, hvort þeir eru með ný eða gömul skip o.s.frv.? Hér eru þýðingarmiklar spurningar sem skipta arðsemi einstakra fyrirtækja og sjávarútvegs í heild miklu máli. Kvóti sem kemur eins og frysting á það ástand sem ríkir, án nokkurra lagfæringa þar á, og eigi síðan að standa um langa hríð, getur ekki orðið til blessunar þeim atvinnuvegi, hann hlýtur að frysta það ástand sem þar er og stöðva viðleitni til úrbóta. Og verður lítið t.d. til skuldastöðu nýrri fiskiskipa, til togara og annarra nýrra fiskiskipa? Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér á hinu háa Alþingi hvernig ástandið er í þeim málum, þar sem ný og fullkomin fiskiskip skulda nú mun meira en sem nemur matsverði sínu, þau eiga ósköp einfaldlega ekki fyrir skuldunum. Verður þetta mál tekið til meðferðar samhliða því að aflastýringin verður ákveðin hér fyrir næsta ár? Það skiptir og miklu máli.

Þá væri fróðlegt að fá um það einhverjar upplýsingar hvaða áhrif þetta kvótakerfi, sem nú er mjög rætt og flest bendir til að sett verði á í einhverri mynd, muni hafa á þróun fiskverðs á næsta ári.

Ég veit að hér er spurt margra erfiðra spurninga og ég geri ekki kröfu til þess að fá við þeim endanleg svör, enda vitum við það, það hefur komið fram í máli hæstv. sjútvrh., að ýmislegt af þessu er enn í vinnslu, en við hljótum að gera til þess kröfu að hann svari því í fullri hreinskilni hvernig málin standa í dag og þær hugmyndir sem uppi eru. Ég tel það betra og málinu fremur til framdráttar að það komi skýrt og skilmerkilega fram hér á Alþingi en að það sé verið að læðast milli manna og menn séu uppi með alls kyns getgátur sem munu ekki auka brautargengi þessa máls, hvorki hér á Alþingi né annars staðar með þjóðinni.