14.12.1983
Neðri deild: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál um þetta frv. við þessa umr. þó að efni þess og umfang gefi vissulega tilefni til þess að sem flestir alþm. tjái sig um afstöðu til málsins, svo stórt sem það er og mikilvægt í sambandi við þróun í okkar sjávarútvegi og þar með í okkar efnahagslífi. Ég ætla að láta nægja nokkrar almennar athugasemdir og fyrirvara af minni hálfu að þessu sinni. Ég vil að þetta mál nái til nefndar fyrr en seinna, og þar þarf að fara fram ítarleg skoðun málsins umfram það sem þegar er orðið og þar hafa þingflokkarnir sína fulltrúa.

Ég vil í upphafi minna á það sem fram hefur komið af minni hálfu varðandi stjórnun á fiskveiðum okkar og vísa þar til þess sem fram kom í umr. utan dagskrár fyrir fáum vikum, þar sem rætt var um þá nýframkomna skýrslu Hafrannsóknastofnunar um mikinn samdrátt í þorskstofninum umfram það sem áður var talið. Ég hef verið fylgjandi því að tekin væri upp aukin stýring í sambandi við sókn í okkar meginfiskstofna, þ. á m. í þorskstofninn, tekið upp aflamagn á skip, svokallaður kvóti, í auknum mæli, fyrst í tilraunaskyni til að þreifa sig áfram með breytta stjórnun þessara mála. Ég gerði það ítrekað að till. minni í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens, þegar til umr. var fiskveiðistefnan og framlagðar till. af hæstv. þáverandi sjútvrh. Steingrími Hermannssyni, að menn breyttu til í stjórnun veiðanna, færðu sig í auknum mæli frá svokölluðu skrapdagakerfi, sem þá var upp tekið og útfært nánar, og settu aflamark á togarana til að byrja með til að safna reynslu með nýrri stjórnun á veiðunum. Það má kannske segja að sú rýmkun á heimildum á aflahámarki í þorskstofninn á þessum tíma, 1980–1982, hafi ekki ýtt svo fast á eftir breytingum sem núverandi ástand og spár í því efni, en engu að síður held ég að það hefði verið farsælt ef menn hefðu horfst í augu við að hér yrði að taka upp breytt vinnubrögð í sambandi við stjórnun veiðanna með þá staðreynd í huga að við erum með stóran og vel búinn fiskiskipastól á miðunum við landið og það er óheppilegt og kann ekki góðri lukku að stýra til lengri tíma að hafa lítt takmarkaða sókn í takmarkaða auðlind, þó að vissulega hafi verið reynt að stýra þeim málum með ákveðnum hætti eftir almanakinu og svokölluðu skrapdagakerfi á undanförnum árum. Ótakmörkuð sókn í takmarkaða auðlind hefur hvarvetna leitt til ófarnaðar í sögunni og á það við um lífrænar auðlindir ekki síður en aðrar þar sem þanþolið er takmarkað. Ég er því fylgjandi því að menn reyni að glíma nú við að taka upp aflamark á skip og reyni að sækja þar fram í þeim efnum sem skynsamlegast og meta reynsluna frá tíma til tíma til að þróa hér stjórnun sem geti aukið afraksturinn úr okkar sjávarútvegi sem best, gert okkar fiskveiðar sem arðsamastar og skilað sem mestu fyrir þjóðarbúið og þá sem við þennan atvinnuveg vinna. Þetta eru almenn viðhorf til þeirra breytinga sem rætt er um og gefið er til kynna, þó að það sé með mjög almennum hætti í þessu lagafrv., að hugmyndin sé að taka upp og vísað til þeirra tillagna sem hagsmunaaðilar, Fiskifélag Íslands, Fiskiþing, Landssamband íslenskra útvegsmanna og fleiri, hafa nýlega tekið undir.

Þá kem ég að löggjöfinni sem slíkri, og þar get ég ekki tjáð mig með sama hætti. Ég tel, og það er kannske aðalatriði hér við þessa umr. og þegar rætt er um þetta frv., að menn tjái sig um það atriði hvar valdið eigi að liggja í sambandi við þá stjórnun sem hagsmunasamtök ýta nú fast á að upp verði tekin og hversu miklu valdi þingið vilji á þessu stigi afsala sér til framkvæmdavaldsins, til sjútvrh. Það hefur verið hér margítrekað af flestum þeim sem talað hafa og ég held af ráðh. sjálfum, að hér er um alveg óvenjulegt valdaafsal að ræða, ef frv. þetta verður samþykkt með þeim hætti sem það liggur hér fyrir, þannig að einsdæmi hlýtur að teljast í íslenskri löggjöf þó svo að í lögum nr. 81 frá 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sé ráðh. fengið mikið vald varðandi þær veiðar sem hafa verið leyfisbundnar. En ég held að ef menn bæru þetta saman, það sem hér er verið að fara fram á, við aðrar greinar atvinnulífs og atvinnurekstrar í landinu, þá skilji menn hvers eðlis það skref er sem hér er gerð till. um að tekið verði með því að fela sjútvrh. það vald, afdráttarlítið vald, yfir þessum málum sem hér er gerð till. um samkvæmt 1. gr. Að vísu er þar lagt til að samráð skuli haft við sjávarútvegsnefndir Alþingis um framkvæmd á ákveðnum greinum og gera skuli nefndunum grein fyrir reynslu og árangri, en þetta er mjög almennt og verður ekki mikið út úr því lesið hvernig framkvæmdavaldið færi með það samráð. Það er mjög undir viðkomandi ráðh. komið hvernig á því yrði haldið.

Hér er verið að fela einum manni vald sem snertir lífsafkomu og í rauninni örlög byggðarlaga víða um landið, sem byggja á sjávarútvegi, auk þess sem varðar hag fyrirtækjanna og einstaklinganna, sem beint og óbeint hafa lífsframfæri sitt af sjávarútveginum og næst honum standa. Það er þetta sem er meginatriðið í þessu máli. Ég held að það sé verið að fara varðandi þessa löggjöf út á braut sem ástæða hefði verið til frekar að snúa frá með því að löggjafinn fjallaði ítarlega um meginforsendur þeirrar fiskveiðistefnu og stjórnar sem upp eigi að taka og legði um það meginlínur, þannig að framkvæmdavaldið hefði þarna siglingarljós í aðalatriðum til þess að fara eftir. Slíkt getur ekki talist óeðlilegt í svo stóru máli og slíkt er raunar venjan þar sem um annan atvinnurekstur er að ræða í landinu, að valdið er ekki falið ráðh. með þeim hætti sem hér er gerð till. um.

Ég hef heyrt það á hæstv. sjútvrh., og geri ráð fyrir að hann mæli þar af alveg heilum hug, að hann kæri sig í rauninni ekki um að taka við slíku valdi. Ég tel það afar ófarsælt ef menn nú, vegna sérstakra aðstæðna, þurfa að grípa til þess að afhenda framkvæmdavaldinu heimildir á borð við þær sem í þessu frv. felast, þó svo að það gildi ekki nema um eins árs skeið. Það er vissulega fyrirvari sem gæti orðið mönnum til huggunar, en ég held samt að menn þurfi að staldra við og leita leiða til að setja inn í þetta frv. fyrirvara, bæði um almenn atriði og varðandi útfærslu á því kerfi sem gert er ráð fyrir að taka upp, til þess að menn með þokkalegri samvisku geti gengið frá þessu máli, þó aðeins til eins árs í senn.

Það má segja að það sé verið að stilla hér löggjafanum með nokkuð óvenjulegum hætti upp við vegg í sambandi við þetta stóra mál. Hér hafa hagsmunaaðilar skyndilega söðlað um með mjög skjótum hætti — aðilar sem ekki hafa viljað taka undir breyttar stjórnunaraðferðir í fiskveiðum okkar, sem ýmsir hafa mæli með um árabil, sem hafa talið að í óefni stefndi. Nú er á örskömmum tíma breytt til af þessum aðilum og þeir rétta fram hendurnar og segja: Ráðh. góður, nú felum við okkar örlög í þínar hendur. Óska þú eftir því við Alþingi að fá þetta vald. Við skulum styðja þig til þess. — Þetta er í rauninni staðan sem þingið stendur frammi fyrir. Það er kannske eðlilegt að ráðh. þiggi það að taka við þessum skilaboðum hagsmunaaðilanna og biðja um að fá valdið til þess að glíma við það erfiða verkefni sem því fylgir vissulega fyrir hann. Ríkisstj., að því er virðist í heild sinni, því annað höfum við ekki heyrt, tekur hér undir þetta, flytur þetta frv., og við höfum ekki heyrt neina fyrirvara frá öðrum ráðh. í sambandi við þetta mál. Á meðan þeir koma ekki fram verðum við að álíta að ríkisstjórnin sem heild standi að baki þessu máli, þó svo að einstakir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafi lýst hér skorinorðum fyrirvörum, eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson í ræðu sinni hér um daginn.

Já, hér er beðið um valdaframsal í sambandi við nánast alla meðferð fiskveiða í landinu og það fylgir ekkert meira í frv. sjálfu um innihald. Það fylgir ekki með hvers konar fiskveiðistefnu eigi að fylgja, hvorki um aflahámark á fiskstofna né heldur um mark afla á einstök skip, né hvernig halda skuli á þeirri kvótasetningu, þeirri skiptingu á skip, sem gert er ráð fyrir að hverfa að. Ég nefndi það í umr. á þinginu um daginn að fyrirkomulag í sambandi við aflamagn, sem eðlilegt væri að skoða og ýmsir menn sem hafa litið á þessi mál hafa vísað til, svokallaður einingakvóti eða verðmætiskvóti, gæti verið skynsamleg aðferð til að reyna í sambandi við togaraflotann a.m.k., en það liggur ekkert fyrir um hvort það sé þess konar aðferð sem gert er ráð fyrir að fylgja. Ég held að ég verði að óska eftir, eins og fjölmargir aðrir hafa gert, og um þetta hlýtur þingið auðvitað að biðja, upplýsingum sem mark sé á takandi af hálfu hæstv. ráðh., hvaða kerfi það sé sem hann gerir ráð fyrir að fylgja það ár sem hann ætlar að hafa þetta vald lögum samkvæmt.

Ég ætla ekki hér að fara að auka við spurningar varðandi kvótann að öðru leyti. Það hafa margar spurningar verið lagðar fyrir hæstv. ráðh. Ég vil þó aðeins bæta hér einu atriði við, bæta í það safn sem sýnir hversu mjög flókið mál og fjölþætt er hér um að ræða, og það snertir það atriði hvernig haldið verði á þeim málum gagnvart aðilum sem hafa t.d. tekið tiltölulega mikið af þorski á undanförnum árum umfram það sem aðrir hafa gert. Við vitum að það eru ekki allir sem hafa keppt að því t.d. á þessu ári að gera út á þorskinn. Menn hafa hallað sér að öðrum veiðiskap, sótt meiri karfa sjálfviljugir af illri nauðsyn og af hagkvæmnisástæðum, og því spyr ég, nú þegar gert er ráð fyrir að heildarafli í þorski, heildaraflamagn, verði dreginn verulega saman frá því sem var, en þá bitnar það hlutfallslega meira á þeim sem hafa veitt tiltölulega mikinn þorsk og þeirra skerðing verður þá hlutfallslega meiri, hlutfallslega mikil, varðandi sókn í þann stofn, ef ekki er tekið tillit til þessara aðstæðna: Hvernig má gera ráð fyrir að haldið verði á slíku þegar aftur rýmkast um, þegar aflahámark í þorskinum hækkar? Geta menn vænst þess að þá verði tekið tillit til þess gagnvart þeim aðilum sem hafa sótt hlutfallslega meira í þorskinn en aðrir af staðbundnum ástæðum og af hagkvæmnisástæðum á undanförnum misserum? Þetta er eitt dæmi sem menn spyrja sig, og æskilegt er að hæstv. ráðh. segi hvert hans hugur stefni þar að lútandi og hvaða reglur yrðu settar þar að lútandi í sambandi við aflamark á komandi ári.

Þá eru nokkur orð um takmarkanir á valdaframsali, sem æskilegar ef ekki nauðsynlegar hljóta að teljast. Ég vísa til þess sem hv. 3. þm. Reykn. sagði hér í umr. fyrr, að einn möguleikinn væri að tengja afgreiðslu á þessu frv. skilyrði um það að þingið taki afstöðu til fiskveiðistefnu og meginákvæða varðandi aflamagn á skip með samþykkt þáltill., þó svo hún fylgdi ekki með samþykkt frv., ef menn vildu vita það, ef framkvæmdavaldið teldi nauðsynlegt að vita vegna undirbúnings fiskveiðistefnu fyrir næsta ár að það hefði þessar útlínur í höndum og líkur væru á því að menn mundu una því, enda fengi þingið nánar til meðferðar fiskveiðistefnu og það meginefni sem að henni lyti. Þetta er möguleiki sem ég get alveg tekið undir og hv. þm. Kjartan Jóhannsson nefndi hér. Og þá er ég að tala um almenna stefnu og almenn ákvæði.

Síðan er annað atriði, þ.e. framkvæmdaatriðin og eftirlitsatriðin. Hvernig verður þeim við komið? Þar held ég að hæstv. ráðh. og n. þingsins ættu að athuga að koma upp einhverju lágmarkskerfi til að hafa eftirlit með framkvæmd þessara mála þar sem saman væru kvaddir í nefnd eða ráð, hvað sem það heitir, aðilar, hagsmunaaðilar, bæði beinir hagsmunaaðilar fyrirtækja og þolendur þessa kerfis, þeir sem þar eiga hagsmuna að gæta, þótt með óbeinni hætti séu, gætu komið að sínum sjónarmiðum og haft með einum eða öðrum hætti ákvarðandi vald eða ráðgefandi vald til ráðh. um meðferð þessara mála. Þessu vildi ég af fullri vinsemd koma hér á framfæri og vænti að það verði tekið til alvarlegrar athugunar af þn. sem fjalla um þetta mál.

Svo að síðustu: Vegna þess að hér er verið að ræða um að breyta mjög verulega til, að brjóta í blað er óhætt að segja í sambandi við stjórnun fiskveiða í landinu, er eðlilegt að menn spyrji: Er ekki réttmætt að taka til athugunar að kveða á um í lögum hver sé eignar- og umráðaaðili hinna lífrænu auðlinda hafsins? Ég veit að slík löggjöf er vandaverk því að það er tiltölulega auðvelt að slá því föstu, sem mörgum kann að þykja sjálfsagt og þurfi ekki að skrá í lög, að auðlind hafsins innan íslenskrar fiskveiðilögsögu sé almannaeign þar sem íslenska ríkið fari með eignarréttinn. En menn eru að ræða í tengslum við breytta fiskveiðistefnu og uppi eru hugmyndir um sölu veiðileyfa og margt af því tagi, þó að hæstv. ráðh. sé ekki að gera till. um það hér og hafi jafnvel lýst andstöðu sinni við það. En ef til einhvers slíks kemur, þá er nú kannske vissara að menn hafi það nokkuð á hreinu hver sé eignar- og umráðaaðili yfir þessari auðlind, fiskstofnunum við landið.

Ég minni á frv. sem ég lagði hér fram á síðasta þingi fyrir hönd ríkisstj., frv. til laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, og sem vísað var til ríkisstj. af síðasta þingi. Ég held að réttmætt væri að þetta atriði yrði tekið til sérstakrar athugunar á næstunni í sambandi við hinar lífrænu auðlindir og þar kvaddir til færir lögfræðingar ásamt öðrum til að líta á það mál.

Ég segi svo að endingu, herra forseti: Hér er stórt mál á ferðinni og menn þurfa að leggja sig fram um það hér á Alþingi að leita samstöðu í þessu mikilsverða máli, ekki að bregða fæti fyrir eðlilega afgreiðslu þess eftir því sem unnt er að skapa hér samstöðu með mönnum. Hér er vissulega mikið í húfi að vel takist til.