14.12.1983
Neðri deild: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Forseti (Ingvar Gíslason):

Ef ekki tekst að ljúka þessari umr. nú fyrir kl. 5 verður deildarfundi haldið áfram í kvöld kl. 9. Þetta er í samræmi við samkomulag sem gert var í gær um þingstörf næstu tveggja daga, þ.e. dagsins í dag og fimmtudagsins, þar sem samkomulag varð um það milli þingflokksformanna og forseta og varaforseta og að sjálfsögðu með vitund forsrh. að hér yrðu haldnir fundir í dag, þannig, eins og ég hef skrifað hjá mér til minnis, að atkvæðagreiðslur færu fram um fjárlög, að því loknu yrðu haldnir deildafundir, síðan þingflokkafundir og svo deildafundir, ef þörf krefði og dagskrá væri ekki lokið, þá síðar um kvöldið. Á morgun er ráðgert að Sþ. haldi fund kl. 2–4, en deildafundir verði kl. 4–7. Ekki er gert ráð fyrir kvöldfundi.

Þar sem ekki er nú nema hæstv. sjútvrh. á mælendaskrá er hugsanlegt að við gætum lokið þessum umr. nú fyrir þingflokkafund og þyrftum ekki að halda kvöldfund. Vona ég að hv. þingdeildarmenn geti hugsað sér að þannig verði staðið að þinghaldi.