14.12.1983
Neðri deild: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal gera mitt til þess að þessum vinnubrögðum verði hægt að beita, en ég vænti þess þá einnig að menn afsaki að ég get þá ekki haldið eins ítarlega ræðu og efni hefðu annars staðið til. Ég hef þegar mætt á fundi þn. um þetta mál og haldið með þeim fundi, þannig að menn hafa svarað þar ýmsu, en það er rétt að taka það alveg skýrt fram að hér vitum við ekki allt fyrir, það er langt í frá. Það er einmitt þess vegna sem hér er verið að tala um tilraun til eins árs.

Ég vil almennt segja það, að allir eru sammála um það, og hér hafa verið mjög málefnalegar umr., að nauðsynlegt er að hafa stjórn á veiðunum. Þegar fiskstofnarnir eru eins takmarkaðir og raun ber vitni eru í reynd allir, sem um þessi mál hugsa, sammála um að ekki sé hjá því komist að breyta til. Við eigum í þessu að sjálfsögðu nokkra kosti.

Við skulum segja sem svo að við mundum áfram búa við þá löggjöf sem við búum við í dag og veitir sjútvrn. veruleg völd til að hafa afskipti af veiðunum. Þá yrðum við að stöðva veiðar um ákveðinn tíma. Við yrðum að banna netaveiðar lengur en áður og við gætum vart fjölgað svokölluðum skrapdögum. Það kerfi virkaði alls ekki á þessu ári. Það var ekki nægilegan þorsk að fá, þannig að skipin sóttu ótilneydd, ef þannig má orða, í aðra stofna. Þeir stofnar eru margir hverjir ofnýttir nú þegar, þannig að það er nánast ekki hægt að beina skipunum ótakmarkað í þá stofna. Þannig er þessi staða. Og við þær aðstæður að afli minnkar, eins og við horfum nú fram á, verðum við, og ég veit að það eru allir sammála um það hér, að finna upp annað kerfi sem tryggir meiri verðmæti úr þeim fiski sem á land kemur og ekki síður minni kostnað við að afla þess fisks.

Að sjálfsögðu mun kvótakerfið sem slíkt ekki draga úr atvinnu fólksins í landinu. Það sem mun draga úr atvinnu fólksins er fyrst og fremst ástand fiskstofnanna. En það að geta gert meira verðmæti úr aflanum er einmitt ein af leiðunum til að tryggja fólkinu betri atvinnu. Það er í reynd þetta sem við verðum að gera. Alltaf þegar erfiðleikar steðja að í þjóðfélögum grípa menn til einhverra slíkra ráða.

Ég tek mjög undir það, að að sjálfsögðu þarf að fara hér eftir hlutlægum reglum. Það er vegna þess að menn vilja taka ákveðið tímabil sem geti verið viðmiðunarhæft við þann niðurskurð sem þarf að vera í aflanum, þannig að þessi samdráttur dreifist í því hlutfalli sem afli undanfarinna ára gefur tilefni til. Ég er alveg sannfærður um að það verður ekki hjá því komist og ég er sammála því að miða verður við afla undangenginna ára, hvort sem það eru þrjú ár eða fjögur ár. Eftir því sem tíminn er lengri, þeim mun fleiri skip sem bæst hafa við eða gengið kaupum og sölum, við lendum í erfiðleikum með þau.

Hitt er svo annað mál, að það kemur t.d. skýrt fram í samþykkt Landssambands ísl. útvegsmanna, sem tekur viðmiðun við undanfarin þrjú ár, að „í þessu efni verði þó nauðsynlegt að meta aflakvóta nýrra og nýlegra skipa og frátafir skipa frá veiðum sem stafa af óviðráðanlegum ástæðum.“ Það kemur sem sagt skýrt fram hjá þeim mönnum að þeir sjá fram á að þarna verði að gera einhverjar undantekningar skv. reglum sem um það verði settar.

Fyrsta skrefið til þess að sjá hvernig kvóti sem slíkur verður er að sjálfsögðu að reikna hann út. Vinna við það er þegar hafin hjá Fiskifélagi Íslands og það er verið að vinna í því eins fljótt og nokkur kostur er.

Ég tek einnig undir að það er mjög bagalegt hversu seint þetta mál er á ferðinni. En ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að það hefur ekki fyrr verið lag eða svigrúm til að koma slíku máli fram. Það er nauðsynlegt að tryggja um það mjög víðtæka samstöðu meðal hagsmunaaðilanna í þjóðfélaginu. Það er ekki hægt að koma á kvótakerfi í andstöðu við þá aðila. Nú hafa þeir í reynd, eins og hér var orðað, kannske ekki beinlínis söðlað um, en sjá að það er ekki önnur leið til ef við eigum að tryggja það að gera sem mest verðmæti úr auðlindum okkar. Og þeir sjá einnig fram á að rekstrarkostnaður útgerðarinnar á næsta ári verður nánast óviðráðanlegur og helsta leiðin til að draga úr honum er að geta ráðið því í meira mæli hvernig þeir afla á miðunum.

Ég verð nú að segja það, að þótt ég geti tekið undir að ekki er ástæða til að sækjast eftir miklu valdi í þessum efnum, því að það vald sem hér er verið að tala um er fyrst og fremst takmarkandi vald, þ.e. vald til að takmarka veiðarnar og draga úr þeim, og að því leytinu til ekki eftirsóknarvert pólitískt verkefni, þá er mjög erfitt að koma þessum málum þannig fyrir að vel megi vera nema það sé í einhverri ákveðinni stofnun í þjóðfélaginu — ef ekki ákveðnu rn. þá í einhverri annarri stofnun. Það eru teknar daglega ákvarðanir í sjútvrn. um ýmiss konar stjórnunarleg mál í sjávarútvegi, um lokun á svæðum, um skiptingu aflakvóta o.s.frv. Mjög mikið af þessu gengur sjálfkrafa fyrir sig. Ég sé það fyrir mér að í framtíðinni muni mjög mikið af þessu ganga sjálfkrafa fyrir sig. En við þurfum að feta okkur þarna áfram. Það mun taka mikinn tíma. Þess vegna er sett skilmerkilega inn í lögin samráð við sjútvn. þingsins, að lögin gildi aðeins í eitt ár og greinilega kemur fram í grg. að náið samráð verði haft við hagsmunaaðila. Það hefur að mínu mati verið mjög gott samráð við hagsmunaaðila í sjútvrn. og ég tel að það hafi verið til fyrirmyndar. Ég hef ekki heyrt kvartað yfir því af þeim hagsmunaaðilum, þó að sjálfsögðu sé alltaf eitthvað sem er ástæða til að kvarta undan.

Herra forseti. Ég sagði í upphafi að ég skyldi stytta mál mitt. Ég mun að sjálfsögðu koma að ýmsum þeim atriðum sem hér hafa komið fram þá við 2. umr., en vegna þess hvað hér er skammur tími og ekki er hugmyndin að halda kvöldfund sé ég mér ekki annað fært en að stytta ræðu mína og láta nægja það sem ég hef nú sagt, en mun að sjálfsögðu gera ýmis þau atriði sem hafa komið hér fram í umr. að umtalsefni síðar. Ég tel að hér hafi komið fram mjög margt sem er ástæða til að fjalla um.

Ég vildi þó koma hér að einu sem er mikilvægt mál. Það er að það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að aflakvóti nái yfir fleiri tegundir en þorsk. Þar hafa verið teknar upp sjö tegundir botnfiska, þ.e. þorskur, ýsa, ufsi, karfi, skarkoli, grálúða og steinbítur. Það má gefa þessum tegundum gildi. Ef við miðum við að þorskurinn sé 1, þá er ýsan 0.87, ufsinn 0.63, karfinn 0.8, skarkolinn 1.02, grálúðan 0.66, steinbítur 0.76.

Það kom einmitt fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að til þess að geta dreift því áfalli sem við höfum orðið fyrir með sem réttlátustum hætti er að sjálfsögðu nauðsynlegt að taka tillit til allra þessara tegunda. Samdrátturinn verður mestur í þorski, en hins vegar er fyrirsjáanlegt að samdrátturinn verði ekki jafnmikill í öðru og í sumum tegundum aukning. Ég tek undir að að sjálfsögðu verður að taka tillit til þessa.