15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vísa orðum síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Reykv., heim til föðurhúsanna. Ríkisstj. hefur að engu leyti varðandi afstöðu til afvopnunarmála á þingi Sameinuðu þjóðanna breytt afstöðu Íslands frá því sem var á þeim tíma þegar þessi hv. þm. var ráðh. í ríkisstj. landsins. Og það var á valdi hans og annarra þm. að vekja máls á afvopnunar- og friðarmálum eða afstöðu Íslands til þeirra á erlendum vettvangi í tíma ef hugur fylgdi máli.

Ég vek athygli á því að till. sem þm. Sjálfstfl. fluttu um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar þegar í upphafi þings er nú nýverið búið að vísa til utanrmn. Þingstörf hafa ekki gengið fljótar fyrir sig. Ég vek athygli á að þessi till. er á þskj. nr. 6 og er 6. mál þingsins. Það er síðan ekki fyrr en á þskj. 74 sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson o.fl. flytja till. til þál. um nauðsyn afvopnunar og tafarlausa stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna og það er 69. mál þingsins. Og það er ekki fyrr en á þskj. 141 sem flutt er till. til þál. um stöðvun uppsetningar kjarnaflugvopna og framhald samningaviðræðna í Genf sem er 114. mál þingsins. Það er síðan ekki fyrr en á þskj. 179 sem till. er flutt til þál. um frystingu kjarnorkuvopna sem er 139. mál þingsins. Ég vek athygli á þessu, ekki vegna þess að ég vilji gagnrýna hv. þm. að þessu leyti heldur til að leiða í ljós að ekki er af hálfu ríkisstj. verið að tefja afgreiðslu mála að þessu leyti á þessu þingi.

Ég hef lýst þeirri skoðun minni þegar í 1. umr. um till. til þál. um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson o.fl. fluttu, að ég gerði mér vonir um að utanrmn. gæti hagað svo störfum sínum að fjallað væri um allar þessar till. í þeim anda að hv. þm. reyndu að sameina og samræma sjónarmið sín í þessum mikilvægu málum. Ég hygg að það sé meira verk en svo að unnt sé að ljúka því fyrir þinghlé ásamt öðrum önnum á þingi. Hér er um svo viðamikil mál að ræða og margbrotin að ekki er sæmandi þm. eða þingheimi annað en að gefa sér góðan tíma til að fjalla um þau. Það skiptir miklu að við náum saman, en ef svo fer mót von minni að það tekst ekki, þá er nauðsynlegt að gerð verði grein fyrir hvar skoðanamunurinn liggur og hvernig á honum stendur. Það er meira virði að það takist að sinna þessum málum með þeim hætti sem virðingu Alþingis er samboðin heldur en að flýta afgreiðslu þeirra þannig að um flausturverk verði að ræða.