15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáir dagar síðan þessi mál voru rædd á hv. Alþingi, að mig minnir í umr. utan dagskrár sem ég hóf hér. Í þeim umr. var hæstv. utanrrh. spurður að því ítrekað hvort hann vildi taka tillit til sjónarmiða Alþingis í þessu máli varðandi afstöðu Íslands á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna til margnefndrar till. Mexíkó og Svíþjóðar. Hæstv. utanrrh. hagaði orðum sínum þannig að þingheimur skildi hann svo að hann vildi taka tillit til afstöðu Alþingis. Það fóru fram nokkur orðaskipti á milli okkar um þetta mál, mín og hæstv. utanrrh., og ég er sannfærður um að þm. allir skildu þetta svo að hann vildi hlíta þeim rómi sem Alþingi talaði í málinu.

Niðurstaða hans varð síðan sú, eins og kunnugt er, að bíða ekki eftir afstöðu Alþingis, fara ekki fram á fulltingi Alþingis eins og hann gat gert í þessu efni, heldur að ákveða engu að síður að Ísland sæti hjá varðandi þá till. sem hér um ræðir. Ég tel af þessu bersýnilegt að hæstv. utanrrh. hefur óttast að sú rödd sem kæmi frá Alþingi Íslendinga yrði á þann veg að hún fyrirskipaði honum að styðja þá till. um frystingu kjarnorkuvopna sem hér um ræðir. Og það er í rauninni mjög alvarlegur hlutur, þegar utanrrh. er boðið upp á umr. á Alþingi um þessi mál eins og gert var hér á dögunum, að hann skuli ekki taka því með þökkum og hafa frumkvæði að því að koma þeirri umr. af stað í þinginu.

Hæstv. utanrrh. hefur sem sagt kosið að fara einförum með þetta mál fram hjá þessari samkomu, æðstu samkomu þjóðarinnar, sem hér er saman komin. Það ber að harma. Hitt ber og að gagnrýna að ráðh. skuli kjósa að snúa út úr varðandi afstöðu manna í síðustu ríkisstj. í þessu efni. Eins og hæstv. ráðh. veit tekur utanrrh. ákvörðun um afstöðu Íslendinga á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og hann hefur til þess stjórnskipulegt vald . Fráfarandi utanrrh. Ólafur Jóhannesson gerði svo, tók ákvörðun í því efni enda þótt einn stjórnarflokkurinn a.m.k. teldi að sú afstaða sem hann hafði þar uppi gengi of skammt.

Á sama hátt hefur núv. hæstv. utanrrh. notið þess að ríkisstj. er ekki fjölskipað stjórnvald og hann hefur einn ákveðið afstöðu Íslands á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna til þeirrar till. sem er þar til afgreiðslu í dag. Hann hefur ekki borið sína afstöðu upp hér á Alþingi og mér er ekki kunnugt um að hann hafi borið hana sérstaklega upp í þingflokkum stjórnarliðsins. T.d. væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hvort hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., getur upplýst okkur um það hvort þingflokkur Framsfl. hafi tekið afstöðu til þessarar till.

Hæstv. utanrrh. kemst auðvitað ekki upp með það að skjóta sér á bak við fyrrv. utanrrh. í þessu efni. Það er ljóst að hann hefur því miður kosið að fara með málið fram hjá þinginu og það ber að gagnrýna eins og hér hefur verið gert. Ég vil hins vegar taka undir það, sem hv. 3. þm. Reykn. gat um, að á fundi í utanrmn. í morgun urðu gagnlegar umr. um þessi mál sem voru því að þakka að formaður n. sem starfaði sem slíkur í morgun, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, stýrði fundinum vel og sömuleiðis því að hv. þm. Stefán Benediktsson lagði fyrir nefndina ákveðnar hugmyndir sem allar voru til þess fallnar að greiða fyrir skilningi á því stóra máli sem hér er á dagskrá. Því ber að fagna og það þakka ég héðan úr þessum stól vegna þess að það er nefnt. En engu að síður hlýt ég að gagnrýna vinnubrögð hæstv. utanrrh. í þessu máli.