15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. óskaði eftir því úr þessum stól fyrir rúmri viku síðan að samstaða væri innan Alþingis um stefnumótun í þessum málum. Síðan þessi ósk var sett fram hefur hæstv. utanrrh. fyrst fyrir nokkrum dögum síðan og nú þessa klukkustund sem er að líða mótað stefnu Íslands þar sem meira er tekið eftir þeirri afstöðu en nokkurs staðar annars staðar. Hann hefur þess vegna í verki sýnt það síðustu daga að ósk hans um samvinnu við þingið, um samstöðu manna innan þings, er ekkert annað en yfirvarp til þess að fá frelsi til að fara einn með stefnu Íslands á alþjóðavettvangi.

Hæstv. utanrrh. er nýkominn heim frá utanrrh.fundi NATO þar sem hann tók eindregna afstöðu, ekki með afvopnun, hann tók eindregna afstöðu með auknum kjarnorkuvígbúnaði í Evrópu. Það var hin formlega afstaða sem hann tók fyrir hönd Ístands á þessum fundi. Ég spyr hæstv. forsrh.: Var hæstv. utanrrh. þar að framkvæma stefnu ríkisstj.? Er það stefna ríkisstjórnar Íslands að styðja kröfu Atlantshafsbandalagsins um tafarlausa aukningu vígbúnaðar í Evrópu hér og nú?

Þrjú ríki á þessum utanrrh.-fundi voru ekki reiðubúin til að styðja þá stefnu, Danmörk, Grikkland og Spánn. Þau höfðu öll sérstöðu á þessum fundi, m.a.s. með svo óvanalegum hætti að í tilkynningum fundarins var þess sérstaklega getið. En þar var Ísland í hópi vígbúnaðarríkjanna. Þar var Ísland ekki í hópi Danmerkur, Grikklands og Spánar. Nei, utanrrh. Íslands, Geir Hallgrímsson, greiddi þar atkv. með því að pershing- og stýrieldflaugarnar væru þegar í stað settar upp í Evrópu. Það er hin formlega afstaða Íslands sem liggur núna fyrir á alþjóðlegum vettvangi, opinber og skýr hvað sem líður öllu sáttahjali hér innan þings. Það er eins gott að hv. alþm. geri sér grein fyrir því að hæstv. utanrrh. er nýkominn heim eftir að hafa mótað þessa stefnu skýrt og greinilega og tekið alveg formlega afstöðu.

Við stóðum hins vegar í þeirri meiningu, sem hlustuðum á ræður hans fyrir röskri viku síðan, að hér ætti að hafa önnur vinnubrögð, hér ætti að reyna að leita samstöðu. En það er ekki gert. Það er eingöngu haft að yfirvarpi til að skapa nægilegan tíma til að ráðh. geti haldið áfram að móta einn þessa stefnu á alþjóðavettvangi, kannske í umboði ríkisstj.hæstv. forsrh. svarar því hér hvort Framsfl. er líka aðill að þessari stefnumótun á alþjóðlegum vettvangi. Það er sú staðreynd sem Alþingi Íslendinga stendur frammi fyrir hér og nú að stefna Íslands hefur þar með verið.mótuð og hún er önnur en stefna Danmerkur, hún er önnur en stefna Grikklands, hún er önnur en stefna Spánar.

Síðan tekur hæstv. utanrrh. ákvörðun um að þessa klukkustundina sé Ísland á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í flokki ríkja sem ekki vilja styðja till. Mexíkó og Svíþjóðar um frystingu. Þó eru a.m.k. tvö ríki Atlantshafsbandalagsins sem munu styðja þessa till. í dag. Danmörk og Grikkland munu í dag styðja þessa till. Þar með liggur ljóst fyrir að Ísland hefur líka á þessum vettvangi markað sér stefnu, alveg skýra og afdráttarlausa stefnu, þar sem Ísland er vígbúnaðarmegin við Danmörku og Grikkland í þessari umr. og þar sem Ísland er einnig vígbúnaðarmegin við Grikkland, Danmörku og Spán í atkvgr. sem fór fram fyrir nokkrum dögum innan Atlantshafsbandalagsins.

Ég verð að segja í fullri hreinskilni við þá hv. þm. sem sitja í utanrmn. að það er nokkur vandi fyrir þá að eiga nú að koma saman á næstu dögum og vikum og fara að móta einhverja samkomulagsstefnu væntanlega við hæstv. utanrrh. þegar hann hefur hér og nú þegar tekið af skarið á þeim tveimur vettvöngum þar sem fyrst og fremst er horft á afstöðu Íslands og hún hefur þegar verið mörkuð.

Hæstv. utanrrh. hefur þess vegna eðli mátsins samkvæmt stillt þinginu upp við vegg þar sem hann segir: Það eru þrír möguleikar til í þessu máli. Einn möguleikinn er sá að þingið samþykki þá vígbúnaðarstefnu sem utanrrh. hefur greitt atkv. innan Atlantshafsbandalagsins og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Annar möguleikinn er sá að meiri hl. Alþingis greiði atkv. gegn þeirri stefnu sem utanrrh. hefur mótað. Þriðji möguleikinn, sem væntanlega er sá sem hæstv. ráðh. er núna að reyna að vinna að og undirbúa jarðveginn fyrir, er að samþykkja svona útþynnta almenna afvopnunaryfirlýsingu sem má túlka bæði á þann veg að hún sé í lagi út frá vígbúnaðarstefnu NATO og líka að hún sé í lagi út frá einhverjum almennum afvopnunarsjónarmiðum, en taki ekki á því að móta neina raunverulega afstöðu til þeirra hörðu deilumála sem uppi eru í þessum málaflokki. Það er væntanlega það sem hæstv. utanrrh. er nú að vinna að. Og þá standi málið þannig, þegar upp verður staðið frá þessari lotu hér eftir nokkrar vikur eða mánuði að Alþingi hefur samþykkt einhverja almenna yfirlýsingu í afvopnunarmálum, en Ísland hefur hins vegar á alþjóðavettvangi tekið skýra afstöðu með vígbúnaðarsinnunum innan Atlantshafsbandalagsins og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hæstv. utanrrh. fái að vera í friði með þá stefnumótun.

Ég verð líka að segja eins og er, herra forseti, að það undrar mig hvað langan tíma hefur tekið að kalla saman þennan fund í utanrmn. Því var þó lýst yfir af formanni þingflokks Sjálfstfl. í viðtali við sjónvarpið í fyrradag að það væri liður í samkomufagsvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi að þennan fund ætti að halda í gærmorgun. Það var ekki gert. Hann var afboðaður þá. Séð var til þess að fundurinn var ekki kallaður saman fyrr en sama daginn og atkvgr. átti að fara fram á vettvangi sameinuðu þjóðanna. Og þótt ég beri mikla virðingu fyrir hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni sem hefur gegnt formennsku í nefndinni lítur málið þannig út að svo lítil áhersla hefur verið lögð á að reyna að ná samkomutagi í þessu máli að enginn tími finnist, ekki hálftími, ekki klukkutími daga þessarar viku til að kalla saman fund í nefndinni þó að það liggi ljóst fyrir að vilji þriggja eða fjögurra flokka á Alþingi er fyrir því að sá fundur sé haldinn. Af hverju er það ekki gert? Er það kannske vegna þess að draga á málið fram á síðasta dag, nánast síðustu klukkustundirnar, svo að lítið svigrúm gefist til að ræða það og þannig koma í veg fyrir að utanrrh. þurfi að horfa framan í skýran vilja Alþingis í þessu máli?

Eins og ég sé þetta mál er stjórnarliðið að leika sér að þinginu. Þó er ljóst að þetta mál var mikilvægur þáttur í því almenna samkomulagi sem stjórn og stjórnarandstaða ætluðu að gera um þinghaldið. Ef fulltrúar þing flokka ríkisstjórnarliðsins og ráðherrar og formenn í nefndum af hálfu ríkisstjórnarliðsins ætla að halda þannig á þeim málum sem eru nauðsynleg til að greiða fyrir sameiginlegum vilja í þinginu til að afgreiða mál geta þeir væntanlega ekki vænst þess að koma aftur næstu daga og biðja um gott veður varðandi þau mál sem ríkisstj. vill fá hér afgreidd. Því að það vita þingvanir menn í þessum efnum að ef stjórnarandstaðan hefur vilja til hefur hún þinghaldið algerlega í hendi sér þessa dagana. Ef menn slá á þá hönd með þeim hætti sem hér hefur greinilega verið gert lýsir það ekki góðum vilja til samkomulags við stjórnarandstöðuna um afgreiðslu á öðrum málum.

Hins vegar er aukaatriði í sjálfu sér varðandi stærð afvopnunarmálsins þótt afleiðing þessarar málsmeðferðar verði sú að erfiðlegar muni ganga að ná hér samkomulagi um afgreiðslu annarra mála þegar í fyrsta skipti sem á reynir að ríkisstj. sýni einhvern vilja til að halda fund í nefndum þingsins og afgreiða málin þá birtist hann með þeim hætti sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

En hitt er svo miklu stærra að hæstv. utanrrh., sem kom hér fyrir röskri viku og bað um gott samstarf við þingið til að móta sameiginlega stefnu Íslands í afvopnunarmálum, hefur nú þegar upp á sitt eindæmi mótað þessa stefnu þar sem eftir henni er tekið þannig að allt sem þingið getur gert á eftir verður miktu erfiðara, flóknara, nánast vonlaust verk nema þingið vilji skrifa upp á vígbúnaðarstefnu hæstv. utanrrh. Þá verður þetta náttúrlega mjög létt verk.

Vegna þess er ráðh. þegar með vinnubrögðum sínum og frestunarhjali búinn að stilla málinu upp þannig að stefna Íslands hefur verið mörkuð, hún hefur birst í þeim tveimur bandalögum sem Ísland á aðild að, Atlantshafsbandalaginu og Sameinuðu þjóðunum. Þingheimi er þannig stillt upp frammi fyrir því vali að annaðhvort — eins og ég gat um áðan — samþykkja aðra stefnu en utanrrh. hefur markað eða samþykkja þá vígbúnaðarstefnu sem hann hefur markað eða — sem mér þykir þó líklegra að muni vera ætlun ráðh. — enda hér í einhverri almennri snakktillögu um afvopnunarmál sem segir hvorki eitt eða neitt annað en að auðvitað viljum við öll afvopnun. Það er náttúrlega bara grín. Það er bara afsökun fyrir þá sem vilja endilega að þingið fjalli eitthvað um afvopnun til að geta sagt utan þingsins: Ja, við gerðum þó þetta í afvopnunarmálum — en taka ekki á því sem máli skiptir til að skera úr um hvorum megin í sveit menn skipa sér, í vígbúnaðarsveitina annars vegar eða friðarsveitina hins vegar.

Núna liggur ljóst fyrir að Ísland er innan Atlantshafsbandalagsins meira vígbúnaðarland en Danmörk. Núna liggur líka ljóst fyrir, eftir heimkomu utanrrh., að Ísland er innan Atlantshafsbandatagsins meira kjarnorkuvígbúnaðarland en Grikkland. Og það liggur líka ljóst fyrir að Ísland er meira kjarnorkuvígbúnaðarland innan Atlantshafsbandalagsins en Spánn. Þeim vilja sínum hefur hæstv. utanrrh. komið fram. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þessar mínúturnar mun koma í Ijós að Ísland er líka meira vígbúnaðarland þar en Danmörk og Grikkland.

Það er það sem máli skiptir í þessu, að þar sem við erum kallaðir í samfélagi þjóðanna til að segja hver er okkar vilji hefur hæstv. utanrrh. nú í samvinnu við öfl innan þings komið því þannig fyrir að hann hefur náð fram að merkja Ísland vígbúnaðarmegin í þessari umr. Ég tel að það hafi alltaf verið hans vilji. Óskin um sameiginlega stefnumótun hér innan þingsins hafi í raun verið skálkaskjól til að gefa honum tíma til að fá sjálfur að móta þessa stefnu. Það sem þarf hins vegar að koma hér fram skýrt og skorinort frá hæstv. forsrh. er hvort sú stefna sem utanrrh. markaði innan Atlantshafsbandalagsins fyrir nokkrum dögum og er að marka í dag á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sé stefna ríkisstjórnar Íslands. Það munu allar þjóðir álykta sem svo og nauðsynlegt er að hæstv. forsrh. láti það einnig koma skýrt hér fram gagnvart þinginu.