15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Til mín var varpað þeirri spurningu, hvort afstaða hæstv. utanrrh. á nýlegum fundum utanrrh. Atlantshafsbandalagsins og afstaða Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum væri afstaða og stefna ríkisstj. Í því sambandi vil ég upplýsa, að þegar þessi ríkisstj. var mynduð var um það samið að utanríkisstefnan yrði sú sama og var í síðustu ríkisstj. og reyndar undanförnum ríkisstjórnum. Ég vil einnig minna á það, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að hæstv. utanrrh. fer með forræði þessara mála og er það óbreytt frá því sem var í síðustu ríkisstj. Hæstv. utanrrh. hefur mótað stefnu Íslands á alþjóðavettvangi eins og gert var í síðustu ríkisstjórnum og því hafa þessi mál ekki komið inn á borð ríkisstj.

Ég skal ekki lengja þessar umr. því ég tel að þessi till. þurfi að komast sem fyrst til nefndar, en vil þó bæta við örfáum orðum.

Ég lagði til úr þessum ræðustól fyrir nokkrum dögum að þingheimur reyndi að sameinast um þær þrjár tillögur eða sameina þær þrjár tillögur sem þá lágu fyrir í einni afstöðu Alþingis til þessara mjög svo atvarlegu og uggvekjandi mála. Þegar ég lagði það til var mér að sjálfsögðu ljóst að sú afstaða gat ekki haft áhrif á störf hæstv. utanrrh. á fundi utanrrh. Atlantshafsbandalagsins. Hann hafði þegar farið úr landi til þess fundar. Ég ræddi jafnframt um það við hæstv. forseta fyrir tveimur dögum, hygg ég að það hafi verið, að æskilegt væri að þessi till. kæmi einnig til utanrmn. og það sem fyrst. Mér var að sjálfsögðu ljóst að atkvgr. á allsherjarþinginu gæti orðið í gær eða dag og vafasamt að þetta hefði áhrif þar á, enda vek ég athygli á að í þessari till. er ekki lagt til að við greiðum till. Mexíkó og Svíþjóðar atkv., heldur er verið að marka hér almenna stefnu.

Í örfáum orðum vil ég segja um þessi mál að ég fagna þeirri umr. sem verður hér á landi um þessi mál því að við þurfum að móta skýra afstöðu í þessum alvarlegu málum. Ég hef ekki treyst mér til að taka afstöðu til þess hvort setja á upp kjarnorkuvopn í Vestur-Evrópu, eftir að Sovétríkin hafa á undanförnum mánuðum sett upp 360 eða rúmlega það eldflaugar sín megin á sama tíma og farið hafa fram ítarlegar umræður um afvopnun. Ég lít svo á að þetta verði hvert einstakt ríki að ákveða fyrir sig. Hér á landi er samstaða um að hér verða ekki staðsett kjarnorkuvopn og ekki eldflaugar, eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh., og því fögnum við að sjálfsögðu öll. Ég lít svo á að Bretar, Vestur-Þjóðverjar og Hollendingar verði að ákveða slíkt fyrir sig. Ég hef því hallast meira að afgreiðslu í þeim anda sem lagt er til í till. sem hér er til umr., ef við gætum þannig stuðlað að því að framleiðslu kjarnorkuvopna verði hætt. Ég held að það væri eitt það mikilvægasta sem gera mætti og þess vegna fagna ég þeirri till. sem hér er komin fram. Ég lít svo á að verið sé að marka stefnu okkar Íslendinga í því máli til lengri tíma og sé ekki bundið við þá till. sem nú er til meðferðar hjá Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Ég vil svo enn lýsa þeirri von minni að utanrmn. takist að sameinast um eina till. í þessu máli.