24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki ætlað mér að fara langt út í umr. um sjávarútvegsmál, enda margir sjávarútvegsmenn í þessari hv. deild. Ég geri fremur ráð fyrir að þetta frv. um ráðstafanir í sjávarútvegsmátum, sem hér er til umr., muni fara óbreytt eða a.m.k. lítið breytt frá þinginu.

Það var aðeins vikið að því í umr. áðan, að hluti af þeim vandamálum sem við væri að búa í sjávarútvegsmálum væri e.t.v. ekki síst iðnaðarvandamál. Ég er þessu hjartanlega sammála. Það nægir að minna á loðnubrestinn, sem hefur orðið til verulegra búsifja hjá sumum iðnfyrirtækjum ekki síður en annar aflabrestur hefur leitt af sér búsifjar hjá fjölmörgum þjónustuaðilum við útgerðina.

Ég kom hér í ræðustól aðeins til þess að minna á eitt í þessu sambandi. Það eru fyrirtæki sem nefnd eru nótastöðvar. Ég veit að nokkrar nótastöðvar eiga í erfiðleikum og þá erfiðleika má rekja til loðnubrestsins, enda þótt það komi e.t.v. ekki beint við ráðstöfun þessa fjár, þ.e. gengismunar. Ég geri ráð fyrir því og veit raunar, að ráðstöfun gengismunarins er ákveðin. En mig langaði í þessu sambandi til þess að spyrja hæstv. sjútvrh. um það, hvort tíundaðar hefðu verið eða ráðgerðar einhverjar ráðstafanir vegna nótastöðvanna. Ég vil taka fram að ég geri mér grein fyrir því að þetta verður e.t.v. ekki leyst á þessum vettvangi, en þá annars staðar og hvernig?