15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir mitt leyti hvetja þá þm. sem nú eru á mælendaskrá um þá till. sem rædd var síðast til að draga sig út af mælendaskránni, þannig að till. fari örugglega til nefndar. Þetta vil ég segja í fyrsta lagi. Í öðru lagi vil ég lýsa því hér yfir að þau svikabrigsl á hendur þingflokks Alþb., sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson var svo smekklegur að hafa uppi áðan, verða því miður ekki til að greiða fyrir samkomulagi um þingsköp það sem eftir er. Ég harma að hann skuli hafa fallið ofan í þessa gryfju, jafnvænn maður og mér hefur virst hann vera að öðru leyti í okkar samstarfi. Ég vona að það takist að draga hann upp úr þessari for aftur, þannig að takist eðlilegt samstarf um þingstörf. Auðvitað er útilokað að flokkur sitji þegjandi undir svikabrigslum eins og hann hafði hér uppi áðan. Þar er verið að bregða mönnum um vinnubrögð sem eru ósæmileg með öllu. En ég endurtek áskoranir mínar til hv. þm. ef verða mætti, herra forseti, til þess að till. komist í nefnd strax.