24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir greinargóð svör hans.

Ég geri mér grein fyrir því, eins og hann, að auðvitað er sjávarútvegur Íslendinga sú undirstaða sem við öll byggjum á, en geri mér enn fremur líka grein fyrir því, að drjúgan þátt í því ástandi sem við búum við í dag á að allt of margir aðilar hafa viljað verða þátttakendur í því auðspili sem sjávarútvegurinn er upphafið að og mikið til fyrir þá sök að stjórnvöld hafa í raun og veru gefið undir fótinn við land og þjóð, þ.e. byggðir þessa lands, að þær mættu verða þátttakandi í þessum mjög svo auðmyndandi atvinnuvegi.

Stór hluti skulda þessa lands er til kominn fyrir ráðstafanir í sjávarútvegi. Það er vissulega snöfurlega mælt þegar menn stinga upp á þeirri einföldu ráðstöfun að strika þessar skuldir út fyrir fullt og allt. Við vitum að skuldir við Fiskveiðasjóð munu vera í dag líklega eitthvað um 1 milljarður og þennan eina milljarð hafa landsmenn í heild lánað. Þá er lokaspurningin til hæstv. fjmrh.: Hver borgar Fiskveiðasjóði, því að Fiskveiðasjóður verður að standa skil á þessum skuldum að mestu leyti erlendis, þar sem lán hafa verið tekin til þess að lán mætti veita úr þeim sjóði?