15.12.1983
Neðri deild: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Vegna þess sem gerðist hér áðan, að ekki var hægt að setja fund þar sem hér var augljóslega ekki nægileg tala þm. í salnum, hlýt ég að vekja athygli á að þetta hefur raunar verið svona í allan vetur. Þau örfáu mál sem afgreidd hafa verið héðan úr hv. deild hafa mestan part verið afgreidd fyrir tilstyrk stjórnarandstæðinga, vegna þess að stjórnarþm. hafa vart sést hér í sölum með örfáum undantekningum.

Í því sambandi vil ég einnig vekja athygli á störfum þingnefnda. Ég vil taka dæmi um mín eigin störf. Ég á sæti í þrem nefndum þingsins. Ég hef setið nákvæmlega einn fund. Það skal þó tekið fram að tvær nefndir héldu fund á meðan við vorum á fundi á vegum Norðurlandaráðs, en það er þó ekki næg skýring á að ég skuli tæplega hafa séð framan í þær nefndir sem ég á að starfa með. Fyrir þessum nefndum liggja fjölmörg mál. Það þarf auðvitað ekki að taka fram að ekkert mál hefur verið afgreitt og ég vil taka sem dæmi um virðingarleysi fyrir störfum þm., að fyrir hv. heilbr.- og trn. liggur örlítið mál sem enginn þm. getur verið ósammála og felur í sér að mæður, sem eignast fleiri en eitt barn í einu, fái framlengt fæðingarorlof um einn mánuð fyrir hvert barn. Ég vildi sjá framan í þann þm. sem mundi greiða atkv. gegn þessu. Hins vegar hefur þetta ekki verið afgreitt út úr n. þó að ekkert annað mál liggi fyrir n. (HBl: Hver er formaður í þeirri nefnd?) Hv. þm. Pétur Sigurðsson.

Ég fann að þessu við hæstv. ráðh. í dag en hann tilkynnti mér bara tafarlaust að þetta mál yrði ekkert afgreitt, vegna þess að uppi í rn. hjá honum væri eitthvert frv. sem mundi koma fram seinna á þinginu. Ég vil vekja athygli hv. þm. á hvers konar meðferð þetta er á vinnu þm. Við erum búin að sitja hér, stjórnarandstæðingar, í allan vetur og reyna að böggla út úr þinginu stjfrv. í fjarveru stuðningsmanna stjórnarinnar en síðan er ekki haft svo lítið við að líta á þingmannamál frá okkur. Ég held að afar nauðsynlegt sé að vekja athygli hv. deildar á þessum vinnubrögðum.